Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.3.2008 | 18:57
Fiðrildagangan kl átta!
Bara ef svo vill til að einhverjir sitja við tölvurnar núna - endilega sprettið á fætur og drífið ykkur niður á Laugaveg 42 (á móti Vínberinu) þar sem UNIFEM er til húsa ásamt UNICEF og Félagi Sameinuðu þjóðanna.
Þaðan fer Fiðrildaganga UNIFEM kl átta. Persónulega ætla ég að fjölmenna, enda finnst mér kvenfrelsi vera stærsta framfaramálið sem þarf að vinna að í heiminum. Það fylgir því svo ótrúlega margt jákvætt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2008 | 00:41
„Nýtt álver gæti aukið hagvöxt“
29.2.2008 | 01:17
Ástin sigrar allt og Ég er jafnaðarmaður á laugardaginn
Ég ætti að vera löngu farin að sofa. Langir dagar framundan á morgun og hinn. Annað kvöld er sérstakt tilhlökkunarefni að enda á að fara í bíó með Fimmtudagsklúbbnum (sem raunar er farinn að hittast á þriðjudögum en heldur nafni sínu hvað mig varðar). Við ætlum á Into the Wild hans Sean Penn. Nokkrar væntingar í gangi af því ég hreifst svo af the Pledge sem hann gerði líka og ég datt á af rælni í Austurbæjarbíói með Hákoni vini fyrir einhverjum árum. Sandra Ósk, einn klúbbmeðlima, verður fjarri góðu gamni því hún ætlar raunverulega Into the Wild á Fimmvörðuhálsi yfir helgina. Það þýðir að hún fer í gegnum æskuslóðirnar mínar - einar þeirra - í Skógum. Sniff.
Allavega. Þessi færsla átti að vera um söknuð minn og fleiri eftir þýddum titlum á kvikmyndum. Þetta atriði þarf ekki að útskýra nánar. En ég ætla að gera tilraun til að birta hér nokkrar þýðingar á þessum titli, Into the Wild. Minn eini metnaður er að þær séu slæmar:
1. Á vit hinna óblíðu afla
2. Inní villimennskuna
3. Náttúran kallar
4. Villta tryllta náttúran
5. Ástin sigrar allt
Fleiri uppástungur velkomnar.
---
Annars er allt í fullum gangi við undirbúning fyrir stóra málefnaþingið okkar í UJ á Grand Hótel á laugardaginn. Þema þingsins er einfaldlega Ég er jafnaðarmaður en við eyðum líka góðu púðri í að ræða tvö samtímamálefni í ljósi jafnaðarstefnunnar: Málefni innflytjenda og Evrópumál. Sjá nánar hérna.
Síðan fréttin birtist hefur skráningum haldið áfram að rigna inn svo maður fer bara að hafa áhyggjur af plássinu. En það er gott mál. Og ég veit að það mun fara vel um okkur á Grand Hótel. Ég hlakka mjög til á laugardaginn.
---
Annars áttu alþjóðalög hug minn allan, a.m.k. á tímabili í síðustu viku þegar við vorum að æfa fyrir undankeppni í Jessup málflutningskeppninni hérna innanlands. Kepptum við lið lagadeilda HR og HA síðasta laugardag. Og viti menn, unnum. Ég er því á leið til Washington ásamt fimm karlmönnum í rúma viku í apríl til að taka þátt í aðalkeppninni. Málið fjallar m.a. um hryðjuverk, pyntingar, óréttlátan herdómstól, fullveldi ríkja, friðhelgi þjóðhöfðingja fyrir saksókn og fleira spennandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2008 | 21:07
Símalaus
Æjæjæjæ. Síminn minn hvarf í nótt. Síðast þegar ég sá hann var hann uppi á borði á Ölstofunni. Bronslitaður Sony Ericson. Hans er sárt saknað. Þetta gerði að verkum að verulega reyndi á rannsóknarblaðamennskuna hjá honum Kristjáni á RÚV sem vildi fá mig í Morgunvaktina í fyrramálið. Hann hafði á endanum uppi á mér, hér í húsi foreldra minna. Planið hafði verið að lúlla uppí hjá litlu systur og rölta þennan stutta spöl í vinnuna niðri á Rauðarárstíg í fyrramálið.
Ef það á að draga eitthvað upp úr mér af viti kl. hálfátta í fyrramálið, ætti ég að koma mér í bólið fljótlega. Hausinn á mér er yfirleitt ekki mjög virkur fyrst á morgnana.
6.2.2008 | 23:24
Ég slapp, engar áhyggjur!
Hæ. Vildi bara láta vita - í kjölfar fjölda fyrirspurna frá vinum og ættingjum - að ég komst undan lögreglunni á hlaupum og faldi mig í mjólkurkælinum í Hagkaup. Jess.
En allavega. Er ennþá í hláturskasti þar sem ég fékk fréttina senda frá strák sem fannst fyndið að benda á að ég hefði greinilega komist undan.
Talandi um skrílslæti. Það verður partý á laugardaginn á 7-9-13 (skemmtistaðurinn á móti Sirkus á Klapparstígnum) fyrir þennan fjölda reiðra borgarbúa sem eru ósáttir við nýjan borgarstjórnarmeirihluta.
Og það eru kosningar til Stúdentaráðs! Það var kosið í dag og verður kosið á morgun og það er eins gott að allir sem vettlingi geta valdið og eru skráðir í HÍ, mæti og kjósi Röskvu sína. Áreiðanlegar heimildir herma að Valhöll fari hamförum í þágu Vöku, svo þetta verður alveg örugglega spennandi.
Skrílslæti í Kringlunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2008 | 22:21
Takk Reykvíkingar
Takk Reykvíkingar fyrir að vera frábærir í dag! Fyrir að mæta í ráðhúsið, klappa og stappa og láta vita að það sem gerðist í ráðhúsinu í dag var skandall. Fólkið á pöllunum sýndi í verki það sem 75% Reykvíkinga eru reiðir yfir. Atburðirnir í ráðhúsinu í dag, sem skipta máli, eru nefnilega auðvitað ekki það sem gerðist á pöllunum heldur það sem var að gerast niðri í fundarsalnum. Ég var ánægð með mótmælin. Þetta gekk allt vel fyrir sig og á endanum gengum við fylktu liði saman út úr húsinu.
Ungliðahreyfingar Tjarnarkvartettsins áttu góða samvinnu um að boða okkar fólk á svæðið, en vænst þótti mér um að meðal þeirra mörg hundruð manna sem lögðu leið sína að ráðhúsinu, var alls konar fólk; gamalt og ungt; fólk sem lætur ekki bjóða sér ruglið sem átti sér stað í dag.
Mörg hundruð manns komu í ráðhúsið; það flæddi fólk frá anddyrinu inn og upp alla stigana og inná ráðhúspallana á þriðju hæð og allt um kring. Krafan var skýr: "Hættið við myndun nýs, óstarfhæfs meirihluta!"
Því miður fór það ekki þannig. Við völdum er tekinn meirihluti sem var myndaður á kolröngum forsendum, meira að segja á milli aðilanna sem mynda hann. Og spurningin er: Eru Sjálfstæðismenn stoltir af sínu fólki í borginni í dag? Ég held að fæstir þeirra geti svarað því játandi, eins og fylgishrunið hjá þeim sýnir. Fremst á málefnaskránni er að flugvöllurinn fari hvergi úr miðbænum - það segir Ólafur á meðan Vilhjálmur þvertekur fyrir að það sé rétt.
Jæja, takk aftur fyrir í dag öll. Þetta er orðinn langur dagur.
---
Svo er ég ánægð með þennan hérna, bloggandi maður útí bæ: "Jú, ég skrapp niður í ráðhús í hádeginu, þetta var glæsilegur ungur hópur af fólki sem vogaði sér að mótmæla spillingu og gjaldþroti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég fór nú ekki inn í salinn, komst ekki, en ég var ánægður með unga fólkið. Einu sinni var ég ungur, núna er ég sextíu..."
Hávær mótmæli í Ráðhúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2008 | 01:13
Við erum ekkert hrokafull, við erum bara best!
blobloblo blo FLUTT Í VESTURBÆINN. Bloblo blo blo bloblo GREINARGERÐ Í MÁLFLUTNINGSKEPPNI, blobloblo SMÁSTRESS. Blobloblobloblo...
Ókei, nenni ekki heillri færslu svona en fannst þetta megafyndinn skets í áramótaskaupinu. Aðrir toppar voru t.d. skátarnir á Akureyri að banna börnum aðgang að barnaballi og margir fleiri sem ég hló upphátt að. Allir hins vegar sammála um að LOST-pælingin hafi verið tæp.
---
Og ég er flutt í Vesturbæinn minn á ný eftir þriggja mánaða framhjáhald með 101. Lindargatan var raunar frábær staður. En eftir tvö ár á Reynimelnum var Vestrið orðið mér kært, næstum því þannig að í brjóstinu væru farnar að bærast tilfinningar til KR þar sem ég horfði á völlinn af svölunum hjá mér og gekk iðulega kringum hann í göngutúrum. Í ljósi þess í hvaða húsi ég bý núna held ég að mér sé varla stætt á öðru en að temja mér að halda með "þessu liði"...
Barbara hefur kennt mér nokkra nytsamlega frasa, sbr þann í fyrirsögninni!
---
Það var bilað að gera hjá UJ í kringum jólin. Bæði kjaftur og partý. Fyrst kom stönt föstudaginn fyrir jól þar sem við höfðum gefið ríkisstjórninni jólasveinanöfn og afhentum jólaóskalista með ósk fyrir hvern þeirra. Hugsað sem góðlátlegt grín (ok kannski ekki allslaust við brodd) og hafði Valgerður Sverris t.a.m. húmor fyrir málinu: "og það að kenna glæsilegan menntamálaráðherrann við stúf er hreinn kvikindisskapur."
Svo kom þetta frábæra mál með Þorstein Davíðsson upp. Maður mátti varla vera að því að standa í Þorláksmessustressinu því við vorum svo mikið að koma út ályktun um málið. Fannst þetta nett leiðinlegt gagnvart Þorsteini sjálfum svona í aðdraganda jóla. Ekki víst að hann hafi ákveðið þetta sjálfur. Kannski var honum bara gerður Bjarnargreiði?
Að lokum héldum við heitt feitt partý þann 29. Elstu menn mundu ekki eftir svona mannmörgu og góðu partýi hjá UJ. Þurfti fyrir vikið að fara alltof snemma úr eldheitri afmælisgleði þessarar elskuðu konu en við náðum að bæta það upp að hluta með gæðastund í sushi fyrr um daginn.
---
Gleðilegt ár öll nær og fjær. Fyrir fólkið mitt sem ég er ekki búin að geta óskað gleðilegs árs: Mér þykir vænt um ykkur.
---
Nú þarf ég að halda áfram að undirbúa greinargerðina...
1.12.2007 | 23:55
Heimilisofbeldi = ástarævintýri
Jahá. Það er mikið að gera á stóru heimili (mitt er alveg næstum 40 fm.)
---
Þessa dagana stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Það er flott mál og ég hvet alla til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um aðgerðir gegn mansali hérna.
Í þessu samhengi verð ég að fá að koma á framfæri nokkru sem gerði mig svo reiða að tölvan fór næstum út um gluggann hjá mér. Tvisvar, með þriggja daga millibili. Gæti haft mörg orð um það en vil spyrja hvort ritstjórn vísis.is finnist í alvöru í lagi að skrifa tvær fréttir af dómsmáli sem snýst um alvarlegar ásakanir um heimilisofbeldi og tala um það í gamansömum tón sem "Ásláksástarævintýrið"? Fréttirnar eru hérna og hérna. Þetta finnst mér léleg fréttamennska og ekki í samræmi við þá grundvallarkröfu sem gerð er til blaðamanna um að sýna viðfangsefni sínu virðingu.
---
Annars er ég að detta í próftíð og það verður að vanda nóg sem þarf að gerast á þeim tíma hjá þessari konu. Nóg búið að vera að gera á önninni í verkefnavinnu, sem er veigamikil í mastersnáminu og þá er ekki tími til að lesa meðfram. Sem stendur er ég súr í hausnum að klára verkefni um "smámálið" réttinn til heilbrigðisþjónustu. Ekkert víðtækt eða neitt. Neinei.
Gekk illa heima og ákvað að hörfa á skrifstofu Ungra jafnaðarmanna við Hallveigarstíg í ljósi þess að þar yrði góður friður. Tja. Gleymdi mörg hundruð manna veislusalnum í kjallaranum. Þar er ball í gangi. Alltaf jafn gaman að full-orðnu fólki að dansa hóký póký. Pæling að fara bara niður, krassa partýið og gefa almannatryggingaréttinn upp á bátinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.12.2007 kl. 05:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.10.2007 | 00:06
Ég elska Elínu
Djöfull hata ég að vaska upp. Þetta er ekki leggjandi á konu sem hefur alist upp með uppþvottavél frá unga aldri. Og háskólabókasafnið sendi mér haturspóst vegna bóka sem Bjarni pakkaði óvart ofan í kassa hjá mér, sem ég er óvart ekki búin að opna síðan. Bókasafnið segir að ég fái ekki að útskrifast ef ég verði ekki búin að skila þeim á miðvikudaginn. Útskriftin mín er annars (vonandi) á laugardaginn!
Hins vegar elska ég Elínu Ósk, fyrir þessa frábæru grein sem hún á á Vefritinu í dag. Ég ætla samt rétt að vona að hún hafi rangt fyrir sér.
E.s. Takk Akureyringar fyrir að taka svona vel á móti mér þetta bráðskemmtilega síðastliðið fimmtudagskvöld. Ekki síður fá íbúar á Þjórsárbökkum þakkir fyrir að taka líka ofurvel á móti okkur á föstudeginum. Þess má geta að þegar öllum þessum ævintýrum var lokið þurfti ungfrúin að leggjast til svefns kl átta á föstudagskvöldinu og sofa til tíu daginn eftir. Og var samt þreytt á vinnudjammi á laugardagskvöldinu.
11.10.2007 | 21:14
Félagshyggjufögnuður á laugardagskvöldið
Borgin er unnin! Fyrir þau sem vilja fagna því að Reykjavíkurborg er á ný í höndum félagshyggjuaflanna, þá bendi ég á að félagshyggjufronturinn Vefritið fagnar ársafmæli sínu á laugardagskvöldið. Ölstofan milli kl. átta og tíu. Tilboð á barnum.
Við tökum að sjálfsögðu kredit fyrir þann félagshyggjubrag sem er kominn á Ísland síðan við stofnuðum Vefritið síðastliðið haust.
Ég er í munnlega lokaprófinu kl. kortér yfir átta í fyrramálið. Eigum við að ræða það eitthvað.