Færsluflokkur: Dægurmál

Flugfreyjupælingin

flugfreyjaÉg hef ekki verið sérstaklega spennt fyrir að verða flugfreyja, nema kannski vegna utanlandsferða og dagpeninga sem dragast ekki frá hjá LÍN. Ástæðurnar eru þessar, fyrir utan að það vantar ekki fleiri ljóshærðar konur í stéttina:

a) Ég myndi blása óvart upp björgunarvestið í sýnikennslunni og kafna í því,

b) segja farþegunum í hreinskilni að maturinn sé ógeð og betra að fá sér bjór til að slæva bragðið

c) og klárlega ekki standast þá freistingu að segja óviðeigandi brandara í kallkerfið.


Vörutorgið með helstu nauðsynjar á hreinu

Fór að slökkva á sjónvarpinu um daginn og heyrði eina setningu úr Vörutorginu. ... Og þá geturðu búið til kandífloss í mörgum mismunandi litum!”

Vörutorgið. Greinilega allt sem þarf. 


"Don´t stop me now, I´m having such a good time..."

Nei, þetta á ekki við um próflesturinn ef einhver hélt það.

Sá auglýsingu áðan í kringum fréttirnar þar sem þessi klassíski Queen slagari var leikinn undir. Allir hressir. Ég var allan tímann að bíða eftir að síðasti maðurinn sem yrði sýndur væri Geir Haarde og undir herlegheitin myndi kvitta Sjálfstæðisflokkurinn í tilefni kosninga. 

En nei.  N1 var það. Hitt hefði verið miklu fyndnara.


Að snúa seinheppninni sér í hag

Ég skilaði skattmanni skýrslu áðan, og það alveg einum degi fyrir síðasta frest. Fyrirmyndarborgari. 

Venjulega er þetta bara örlítil handavinna. En nú fylgdu heilabrot. Hvernig átti að færa inn 200 kallinn sem ég vann í Meistaranum á síðasta ári. Átti ég að "gleyma" honum gegn betri samvisku? Neeei.  

Heyrði í einhverjum valinkunnum fjölskyldumeðlimum sem ekki höfðu svar á reiðum höndum (e. angry hands) svo ég ákvað á endanum að hringja í sjálfan skattmann, sem hefur sett upp hjálparlínu af þessu tilefni. Og það leið og beið í símanum. "Vinsamlegast bíðið..." 

tímastjórnunEftir smástund var ég farin að þurfa að pissa. "Nei andskotinn, ég get ekki farið á klósettið með símann í annarri. Týpískt að það svari akkúrat." En svo fór ég að hugsa: Var það ekki einmitt aðalmálið að mér yrði einhvern tímann svarað? Svo ég bara fór á klósettið. Og þetta gekk eftir. 

 


Leitum innblásturs víða

Í gærkvöldi sátum við Sunna systir og skemmtum okkur yfir þeirri mætu bók Mary Young, Tízkubókinni (In Search of Charm) frá 1963. Í miðjum tólfta kafla "Fyrsta staðan," klingdu upphafsorðin einhverjum bjöllum. Og það rann upp fyrir mér að Addi Kitta Gau gæti hafa fundið í þessari bók innblástur fyrir ræðu formanns á landsþingi Frjálslyndra. Lykilorðið er að sjálfsögðu vaxtarverkir:

"Eruð þér í dálitlum vafa um hæfni yðar í starfið? Ég endurtek, öllum er þannig innanbrjósts! En hafið það hugfast, að fyrirtækið valdi yður í stöðuna og hlýtur því að hafa trú á yður. Og ennfremur þetta: Þeir vita vel að þér þurfið tíma til að ná tökum á verkefnunum. Kallið allar efasemdir yðar "vaxtarverki.

Ýmislegt í þessari bók til viðbótar gæti nýst í starfi stjórnmálamanna, þ.á.m. undirkaflinn "Örugg raddbeiting." Jafnvel væri hugmynd að kíkja á "Að tala of mikið." 

Að ekki sé minnst á "Að fara út með kavaleranum að kvöldi til kvöldverðar í veitingahúsi."


Svitaball Röskvu

Þessi magnaða mynd var tekin á Svitaballi Röskvu 2006. Þessi rómaða árlega skemmtun fer í flokk með skemmtilegustu partýum hvers árs. Ég er þessi að reyna að vera þokkafulla. Takið eftir smekklegum appelsínugulum netabolnum og hvernig hann fer við himinblátt pilsið. Já, svona klæddi fallega&fræga fólkið sig árið 2006. 

SvSvSvitaball Röskvu 2007 verður annað kvöld, föstudaginn 2. febrúar á Hressó. Konseptið er að vera sem allra sveittastur og dansa sem mest. Jafnvel hella yfir sig bjór af stuðinu einu saman.

Svitaball2006

 


Lesið brandaradálk Önnu Pálu í Morgunblaðinu í dag?

Ég fæ aldrei að vera fyndin í Mogganum. Í hvert sinn sem ég lauma einum mögnuðum fimmaurabrandaranum inn í fréttirnar hjá mér, kemur einhver húmorslaus fréttastjórinn og klippir hann út með köldu blóði. 

Er að bræða með mér hvort ekki yrði pláss fyrir Brandaradálk Önnu Pálu í þessu annars ágæta blaði. Það má alltaf á sig blómum bæta.

Hann gæti jafnvel verið á síðu átta, við hliðina á Brandaradálki Styrmis. Þeir sem hafa áhuga á þessu geta skrifað sig á stuðningsmannalista hér fyrir neðan.

 

 


Helgin..

.. Var góð. Á dagskrá var m.a:

1. Á föstudeginum listakynning Röskvu. Það var magnað að standa úti í sal, grenjandi af stolti og búin að klappa af sér hendurnar fyrir þessu fólki sem ég átti að  þessu sinni engan þátt í að stilla upp á listann. Nema hvað. Þetta er samt afburðagóður listi, alveg eins og sá í fyrra sem er ennþá í framboði. Þetta fólk á eftir að stjórna Stúdentaráði frábærlega. Bendi á þessa grein hans Kára, sem er í fyrsta sæti í ár, á Vefritinu.

2. Á laugardeginum Önnukvöld til minningar um ömmu sem dó í fyrravor. Haldið á ofurstemmningarstaðnum Sægreifanum að frumkvæði n.k. fóstursonar hennar, Svenna Sveins, sem er snillingur eins og amma var. Humarsúpa. Söngur. Í bæinn með mömmu og pabba og vinum þeirra á eftir. Gaman. Hluti úr Gróskumálþingi var líka gaman. Oddný Sturlu fór á kostum með erindi um femínisma og jafnaðarstefnuna. 

3. Á sunnudeginum vinnan. Þið eruð alveg ágæt.


"I will sell this house today, I will sell this house today."

Man einhver eftir þessari línu? Það fær samt enginn prik fyrir það eitt að kunna að gúgla. Prik fást fyrir að hafa séð myndina og muna eftir þessu af því maður tók eftir því. Frekar en þessari ágætu sturtuathugasemd sem heimurinn trylltist yfir. 

Ég rifja þetta að minnsta kosti upp í hvert skipti sem ég er að stappa stálinu í sjálfa mig og hef óljóst á tilfinningunni að það eigi ekki eftir að skila sér. Þá þarf maður að muna að á hverjum degi eru seld hús.


Póstur til Önnu Pálu frá símaskránni

"Góðan dag.,
 
Svona lítur skráningin ykkar út í dag.  Því miður get ég ekki sett inn starfsheitið hjólreiðakappi þar sem að það flokkast ekki sem starfsheiti.
 

Með kveðju,

Jóhanna H. Guðmundsdóttir
Fulltrúi hjá Já"

 
Ég veit um mann sem fékk að skrá sig sem "smali." Hann var líka laganemi. Held samt að ég taki þetta fullorðinslega grín ekki lengra.  
 
 
E.s. Hvað ætli símaskráin þurfi að senda út marga svona pósta? 
 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband