Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samkynhneigð særir blygðunarkennd 42%

1GB-b-Indland-Nepal-Japan 347Ég fór óvænt á Útvarp Sögu í dag til að viðra skoðanir mínar í n.k. útvarpspistli. Gaman að því bara en nokkuð mikil ögrun að þurfa að tala í tuttugu mínútur í beinni svona uppúr sjálfri mér.

Datt inn á heimasíðu stöðvarinnar til að leita að heimilisfanginu og rakst þá á athyglisverða skoðanakönnun. Eftir að ég hafði smellt á Nei - samkynhneigð særir ekki blygðunarkennd mína, birtust niðurstöðurnar. Þegar þetta er skrifað hafa 225 manns kosið og telja rúmlega 42% að samkynhneigð særi blygðunarkennd þeirra.

Þessi staðreynd vakti mikla lukku hér í Lögbergi þar sem ég sit í próflestri. Búið að hlæja mikið. Samt grátbroslegt - veit ekki alveg hvað ég á að segja. Gott kannski að fólk sé heiðarlegt með hvað það hugsar. Ef þetta væri Gallup-könnun myndi ég síðan vilja sjá hvort það væri fylgni við að vilja t.d. banna samkynhneigðum að giftast eða ættleiða börn.

 

Myndin er tekin í Katmandú. Þar má ekki vera hommi en karlmenn mega hins vegar leiðast. Þetta særði ekki blygðunarkennd mína.

 


Mogginn minn, fólkið mitt þar, Félagshyggjuverðlaun og Ingibjörg Sólrún

Mér þykir alveg ofboðslega vænt um Morgunblaðið. Ástæðan er að ég vann þar meðfram skóla í fimm ár, allt þar til fyrir tæpu ári að ég fór að vinna á Persónuvernd. Síðan þá hef ég hitt gömlu félagana í nokkrum starfsmannapartýum og reynt að halda við tengslunum af því á Mogganum vann ég með svo mikið af frábæru fólki.

Ég var til dæmis sjanghæjuð á árshátíð Moggans í ár í bókstaflegri merkingu (með hálftíma fyrirvara til að fylla sæti sem losnaði óvænt - þau hringdu úr fyrirpartýinu) og skemmti mér konunglega. Var boðin hjartanlega velkomin í vinnu á fréttadeildinni í sumar ef ég vildi. En varð að hafna þessu kostaboði, ég verð áfram á Persónuvernd.

Líklega hugsa ég allt öðruvísi um Moggann en mörg flokkssystkini mín í Samfylkingunni. Þau lesa leiðaraskrifin og sjá rautt, eða öllu heldur blátt. Ég les blaðið sem allir blaðamennirnir skrifa og kíki svo á þennan plásslitla blaðhluta sem leiðaraskrifin eru, líka. Iðulega er ég eins og snúið roð í hundi við þann lestur. En það eru nú ekki nýjar fréttir að Anna Pála sé að spýta út úr sér morgunkaffinu um leið og hún les Staksteina. Það gerðist alveg jafn oft þegar ég vann á Mogganum.

Ég skrifaði fréttir og umgekkst hina blaðamennina, ljósmyndara og uppsetjara og svo fréttastjórana eða aðstoðarritstjórana við störfin. Styrmir var huggulegur kall úti í horni sem ég hafði minnst af að segja dagsdaglega og Agnesi mátti fíflast í í kaffistofunni þá sjaldan hún stóð kyrr í tvær sekúndur.  Mér fannst vinnan mín frábærlega skemmtileg og leið vel.

Kaffið mitt á seinni árum fékk líklega oftast að frussast þegar Staksteinar voru að drulla yfir (nei, ekki gagnrýna) Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu. Reyndar hefur stundum verið mikið sport að taka Dag Bé fyrir á sama hátt. Solla fær hins vegar að heyra það sirka þriðja hvern dag, beint eða óbeint. Ég hef oftast bara klárið kaffið mitt og ekki spáð frekar í það. Þetta er nefnilega svo augljós staðfesting á því að Ingibjörg Sólrún sé helsti ógnvaldurinn við það sem leiðarahöfundar Moggans standa fyrir.

Sjálf var ég sérstakur vinur Staksteina um daginn og fékk mjög skemmtilegan dálk um mig; Rauða hanzkann. Allra bezta mál og ég var mjög ánægð. En ég er heldur ekki mikil ógn ennþá.

Og í dag er ég ofboðslega reið út í Staksteinahöfund. Núna misnotar hann það sem ég sjálf var að gera, til að klekkja á Ingibjörgu Sólrúnu eina ferðina enn. Þetta var nú óþarfi! Staksteinar dagsins fjalla um Jóhönnu sem fékk Félagshyggjuverðlaun UJ fyrir þrjátíu ára þingmannsferil þar sem hún hefur aldrei gefið eftir í jafnaðarhugsjóninni. Staksteinahöfundur reynir síðan að taka Jóhönnu út fyrir ríkisstjórnina sem hún starfar í til að gera Sollu ótrúverðuga.

En eins og Jóhanna benti sjálf á við afhendinguna: Hún getur lyft grettistaki í félagsmálaráðuneytinu af því hún starfar í flokki sem leggur áherslu á jöfnuð og velferð og beitir sér þannig í ríkisstjórn. Af því flokksformaðurinn, þingflokkurinn og meðráðherrarnir standa þétt á bak við hana. Af því hún var valin til að sitja í fjárreiðuhópi ríkisstjórnarinnar ásamt Sollu, Geir og Árna Matt. Af því að í þetta skiptið er henni treyst til að framkvæma þann galdur sem hún er fær um.

Solla hefur verið mér mikil fyrirmynd frá því ég var krakki, ásamt öðrum sterkum konum á borð við Jóhönnu. Þetta átti jafnmikið við þegar ég var yngri og vann með VG um tíma og þegar ég vann á Mogganum. Það er eitur í mínum beinum þegar fólk reynir að draga hana í svaðið. Þess vegna dagaði mig uppi í áramótapartýi forðum daga: Félagarnir gáfust upp á mér og fóru. Ég var að verja ákvörðunina hennar að fara í þingframboð þótt ég sjálf væri í VG þá. Ég er ekki endilega sammála henni um nálgun í hverju einasta máli (skárra væri það nú) en ég treysti hennar pólitík og miða það við arfleifðina þegar hún hefur fengið tækifæri til áhrifa, frekar en út frá því hvað hún segir eða ekki. Af því það er auðvelt að tala, annað að framkvæma og hún hefur sýnt að hún kann bæði.

Ég hafna því alfarið að vera dregin inn í ófrægingarherferð Staksteina gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu.


Það er sól úti krakkar

... og inni á skrifstofunni hjá mér, sem nú verður yfirgefin!

Heyrði að veðurgoðin á Dalvík spái góðu sumri. Ég hef tröllatrú á að það reynist rétt. Nógu vel byrjar það. Frábær dagur í gær með sól og blíðu, mannlíf og baráttuanda í miðbæ Reykjavíkur. Flottar myndir í blöðunum í dag, m.a. af snillingum úr Stúdentaráði HÍ með "Sigurður Kári borgaði ekki skólagjöld!" borðann sinn. Samfylkingin á Borginni að vanda með skemmtilega samkomu: Góðar áminningar frá frá forsvarsmönnum BHM og Félags einstæðra foreldra og eldur út úr hjörtunum á Ingibjörgu Sólrúnu og Jóhönnu Sigurðar.

felagshyggjuverdlaunÉg afhenti fríðum flokki Félagshyggjuverðlaun UJ. Starfsfólk Barna- og Unglingageðdeildar Landspítalans og Rannveig Traustadóttir prófessor fengu verðlaunin í ár. Auk þess fékk Jóhanna okkar sérstaka heiðursviðurkenningu, n.k. heiðursóskar, fyrir þriggja áratuga starf á Alþingi og að hafa aldrei á starfsferlinum vikið frá jafnaðarhugsjóninni.

Allir verðlaunahafarnir fluttu svo flott þakkarávörp að þeim tókst miklu betur en mér sjálfri upp við að sýna hvers vegna þeir voru þarna. En um BUGLið sagði ég m.a. að ef velferðarsamfélag getur ekki hjálpað börnum með geðræn vandkvæði almennilega, hvað getur það þá? Ef eitthvað á að vera í lagi hjá okkur, þá er það einmitt sú starfsemi. Hetjurnar sem vinna þar búa við ofboðslegt álag í starfi. Nú hefur reyndar náðst að vinna nokkuð á biðlistanum fræga - úr 160 niður í 100 börn. Það er samt hundrað of mikið.

Rannveig Trausta er félagsfræðingur og prófessor við HÍ. Hún á að baki alveg ofboðslega flottan feril í rannsóknum og þróun á skólanum. Rannsóknirnar hennar hafa beinst að minnihlutahópum í samfélaginu, s.s. innflytejndum, fötluðum og samkynhneigðum. Mastersnám í fötlunarfræðum, kynjafræðum og uppeldis- og menntunarfræðum hefur hún átt góðan þátt í að byggja upp. Henni tókst alveg merkilega vel til með örfyrirlestur um fræðin, fyrir okkur sem sátum og gúffuðum í okkur kaffi og kökum á Borginni. Meðal annars um mikilvægi þess að skoða stöðu minnihlutahópa í samhengi - ekki bara skoða einstaklinga og hópa út frá t.d. kynhneigð eða kynþætti heldur taka marga þætti inn í rannsóknirnar. Bottomline með Rannveigu sem verðlaunahafa finnst mér vera að hún gerir okkur kleift að lifa sem jafningar, öll á okkar eigin ólíku forsendum.

Farin út í vorið! (Til þess að labba heim og læra fyrir próf...) 

 


Spólað í sömu hressandi hjólförunum

spolaMér er gerður sá heiður í dag að pistlinum mínum er svarað í Fréttablaðinu. Þetta er eins og að vera tekinn í áramótaskaupinu - nauðsynlegt að tækla mann. Ókei, kannski ekki alveg.

Einkar skemmtilegt er að Elli gerir í pistlinum sínum nákvæmlega það sama og ég var að skammast í VG fyrir í mínum pistli, sem er þetta: En það var athyglisvert að sjá hvernig Vinstri græn höguðu málflutningi sínum. Í stað þess að leggjast með á árarnar í því að vinna málstaðnum gagn var reynt að klína því á Samfylkinguna að vilja skólagjöld þegar það blasir við að hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið að ráða yrðu skólagjaldaheimildir í frumvarpinu, en eru það ekki vegna afstöðu Samfylkingarinnar.

Svo hélt ég áfram: Það eru ekki að koma skólagjöld. Punktur basta. Við getum því öll snúið okkur að öðru, svo sem því neytendamáli að lækka verð á hvítu kjöti eins og formaður Samfylkingarinnar hefur lagt til.

En Elli spyr: Á ég að skilja þetta þannig að hún vilji frekar berjast fyrir einhverju sem formaðurinn hennar er sammála? Finnst henni mikilvægara að tryggja ódýrara kjúklingakjöt heldur en jafnrétti til náms? Ég má semsagt ekki berjast fyrir þessu kjarajöfnunarmáli heldur á að hengja mig í það sem er ekki að fara að gerast? Hérna verður freistandi að spyrja hvort Elli hafi s.s. meiri áhuga á að reyna að hengja Samfylkinguna fyrir glæpinn sem ekki var framinn, heldur en að fæða lýðinn á aðeins ódýrari hátt. Hverju skilar það VG og samfélaginu?

 

 


Leikstýrðir fréttatímar

Þessi grein hennar Evu þar sem hún útskýrir innkomu fjölmiðlafólks í leikstjórn mótmæla, hefur vakið gríðarlega athygli. Svo mikla að hún hefur ekki undan við að svara öðrum fjölmiðlum í símann í dag (ekki eins og hún hafi ekki nóg að gera sem öflugasti framkvæmdastjóri öflugustu ungliðahreyfingarinnar). Allir vilja vita hvaða fréttastofa og fréttamaður þetta hafi verið. En eins og Eva bendir sjálf á, það skiptir ekki máli. Greinin er hugsuð til þess að höfða til ábyrgðar þeirra sem stjórna fjölmiðlunum. Skilin á milli frétta og afþreyingarefnis þurfa að vera skýr en eru það í mörgum tilvikum ekki. „Raunveruleikaþáttum“ er leikstýrt en sama á ekki að eiga við um fréttatímana - líka þótt það séu beinar útsendingar og fréttastofan sé óheppin að hitta ekki á rétt augnablik.

Enska orðið yfir þetta er "info-tainment". Spurning hvernig maður íslenskar það? Upplýsingar og afþreyingarefni verður eitt. Aflýsingarefni?

Svo á ég sjálf Fréttablaðspistil í dag. Hann heitir „Fjöðrin sem varð að hænu“ og fjallar um skólagjöld. Lesið hann hérna.

 


Nýtt líf í Helguvík

RUV_grodursetningUngir jafnaðarmenn og Græna netið brugðu sér út í Helguvík í gær. Tilgangurinn var táknrænn: Við gróðursettum á iðnaðarsvæði fyrirhugaðs álvers. Með þessum nýju vaxtarsprotum var markmiðið að beina athyglinni að fjölbreyttari möguleikum í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum en þeim að smella mengandi álveri niður í bakgarðinum hjá bæjarbúum í Reykjanesbæ og í Garði. Vel við hæfi á degi umhverfisins. Það var einkum tvennt sem við vildum vekja athygli á en það eru nýjar fréttir sem mæla gegn uppbyggingu álvers. Annars vegar kemur fram í ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja að fjölda smærri aðila hefði verið vísað frá með beiðnir um orku þar sem henni hefði verið ráðstafað í álver nú þegar. Hins vegar að í ljósi nýjustu frétta um framúrkeyrslu í mengun frá álveri Norðuráls á Grundartanga, verður að setja mjög stór spurningarmerki um hversu mikið þetta sama fyrirtæki mun menga í Helguvík. Hér er fréttin hjá RÚV.

--- 

Rondó er gott útvarp. Ég hef helst notað það til að hlusta á við vinnu þegar einbeitingin þarf að vera í lagi því þá vill hún batna, öfugt við ef ég hlusta á margt annað. Tilþrif í klassískum söng eru það eina sem fær mig til að slökkva á Rondó af því hann virkar truflandi á mig, öfugt við djassinn. Og nú er ég að hlusta á Rondó til að reyna að róa mig í svefn. Ég þarf að lesa fyrir próf og vesenast í Félagshyggjuverðlaunum UJ á morgun. Óska hinum nátthröfnunum sem eru að lesa þetta eftir að ég fer að sofa - og landsmönnum öllum auðvitað - alveg sérlega góðrar nætur.


FRELSUM ÁLANDSEYJAR

Fólk heldur kannski að Dagur B. Eggertsson sé fyrirmyndarmaður. Ég er hins vegar búin að sjá í gegnum hann. Spurning dagsins er hvers konar ólyfjan hann hefur verið að lauma í kaffið hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins undanfarið hálft ár. Ég sé engar aðrar skýringar á hegðun þess góða fólks. Annað læknismenntað fólk getur kannski upplýst þetta.

Tæmamyndavél_09.08.07 322Annars er ég nýkomin heim úr 10 daga magnaðri ferð til Washington D.C. Við náðum besta árangri íslenska liðsins í alþjóðlegu Jessup málflutningskeppninni, frá landnámi. Mikil hamingja. Við unnum líka fyrir þessu. Þar sem ég var svo heppin að lenda í herbergi á FairMONT hótelinu (þar sem keppnin er haldin) sem var stærra en stúdentaíbúðin sem ég bjó í á Lindargötunni, voru settar upp þar æfingabúðir liðsins og ruslafötunum breytt í ræðupúlt. Þar sátum við fimm síðan nótt og dag á milli þess sem við skutumst til að keppa og glöggvuðum okkur á baráttunni gegn hryðjuverkum gegn vernd mannréttinda út frá sjónarhóli þjóðaréttarins og málsatvika sem við vorum að vinna með. Fullveldi ríkja og friðhelgi fyrrum þjóðarleiðtoga frá lögsögu annarra ríkja kom líka við sögu og margt fleira. 

Tæmamyndavél_09.08.07 376Fyrst og fremst kom þó við sögu FRELSI ÁLANDSEYJA. Ok, kannski ekki í keppninni sjálfri þar sem við fengum aldrei þá spurningu frá dómurum (Jessup virkar þannig að þú heldur ekki ræðu í rúmar 20 mínútur - nei, þú ert grilluð af dómurum með erfiðar spurningar í 20 mínútur milli þess sem þú reynir að byggja málið þitt gagnvart þeim). Við vorum búin að afla fjölda stuðningsmanna við sjálfstæði Álandseyja meðal keppenda í Jessup- sem kemur sér vel þar sem þetta var allt fólk með þekkingu á alþjóðalögum.

Daginn sem Solla, AKA ráðherra utanríkismála, var í bænum og fundaði með Condi Rice vorum við að hugsa um að mæta fyrir utan ráðuneytið með mótmælaskilti á íslensku. Á þeim yrði krafan um frjálsar Álandseyjar (the Åland islands - það tók mig áttatíuogfjórar tilraunir að segja þetta með sænskum hreim án þess að skella uppúr). Eða þá ÞOTURNAR HEIM! Solla sagði mér síðan að við hefðum líklega ekki komist að fyrir öðrum mótmælendum. Við fórum frekar í skoðunarferð. Hins vegar var lögð nokkur vinna í mótmæli sem fram fóru á ákveðnu hóteli um nótt. Við Eggert fórum margar ferðir upp og niður með lyftunum þar til að ná að festa upp skiltin í þeim öllum. Þar að auki hótaði ég finnskum strák þeirri stórkostlegustu svívirðingu sem hægt er að hugsa sér: "Ef þú frelsar ekki Álandseyjar mæti ég til Finnlands og fer í sánu Í ÖLLUM FÖTUNUM!" Þess ber að geta að íslenska sendiráðið í DC átti hugmyndina að þessari móðgun. Þau hafa kannski einhvern tímann notað það í samskiptum við Finna með góðum árangri.

Að lokum vil ég þakka Birnu Þórarins, mastersnema í öryggisfræðum við Georgetown og snillingi að atvinnu, kærlega fyrir skemmtilega fundi í vorinu í DC þegar keppni var lokið. Með henni fór ég m.a. í frábæran tíma um afvopnunarsamninga í Georgetown og í tryllt háskólapartý.


Ég verð orðin fertug áður en ég veit af

Þetta hérna er snilld dagsins.

Bloggið mitt hefur reyndar aldrei átt að verða neitt tilkynningarskyldublogg en maður getur víst ekki verið ofvirkur alls staðar.

Hasta la vista. 

 


SUF: Tólf stig!

Þetta er bara alveg frábær hugmynd hjá Sambandi ungra framsóknarmanna. Við kjósum forseta í sumar og því ekki að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu í leiðinni, um hvort fara eigi í aðildarviðræður við ESB.

Sjálf ályktuðum við um daginn þess efnis að það sé ekkert því til fyrirstöðu að fara í aðildarviðræður til þess að það liggi bara í alvöru fyrir um hvað við erum að tala þegar kostir og gallar aðildar eru ræddir. Auðvitað þarf að skilgreina samningsmarkmið áður en það verður gert, eins og SUF fer fram á. 

SUF verður svo sannarlega bakkað upp af Ungum jafnaðarmönnum með þessa tillögu.


mbl.is SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleik og hvít orka

Verð bara að deila því með vinum og kunningjum nær og fjær hvað helgin á Akureyri var frábær. Mátti ekki á milli sjá hvort var betra, Bleik orka hjá Ungum jafnaðarmönnum á Akureyri á laugardaginn eða skíði í Hlíðarfjalli á sunnudaginn. Ég hafði ekki farið á skíði í tíu ár en kom sjálfri mér á óvart í færni og þetta var hreinn unaður.

Bleik orka var ráðstefna haldin í tilefni alþjóðabaráttudags kvenna 8. mars. Margir frábærir fyrirlesarar komu þarna inn og ég lærði heilmargt - og fylltist baráttuanda auðvitað. Okkar eigin magnaða Jóhanna Sigurðar, dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir frá IMG var með mjög fróðlegt erindi með allskonar tölfræði inn í eins og um launavæntingar ungra stelpna og stráka og hvernig við getum útrýmt kynbundnum launamun sem ríkisstjórn Samfó ætlar að minnka um helming hjá ríkinu. Punktur sem ég tengdi vel við hjá Guðbjörgu er að það vantar upplýsingar um hver eru meðallaun í stéttinni manns til að geta sett fram kröfur sjálfur þegar kemur út á vinnumarkaðinn. Ekki svo ofsalega langt í það hjá sjálfri mér, en samt ekki fyrr en á næsta ári.

Eva Bjarna, framkvæmdastjóri UJ var með frábært erindi um kynjajafnrétti fyrir og eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu þar sem punkturinn var m.a. að kerfisbreytingar skila okkur ekki því sem við erum að leita að ef viðhorfin breytast ekki í takt. Kristín Ástgeirs var flott að vanda og fór í sögu kynjajafnréttis á Íslandi, Kalli Matt fjallaði síðan m.a. um femínisma og Biblíuna og nýtt frumvarp um kynjað námsefni. 

Síðasta og besta erindið var síðan frá Önnu Júlíusdóttur fiskverkakonu sem fór á kostum við að vekja mann. Hún gagnrýndi meðal annars hvernig mótvægisaðgerðir vegna þorskkvótaskerðingar hafa ekki gagnast nægilega þeim sem þarfnast þeirra mest - fiskverkakonum sem hafa misst vinnuna. Síðast en ekki síst brýndi hún okkur í því hvernig við allar - og öll - þurfum að standa saman í jafnréttisbaráttunni. Baráttan snýst ekki bara um fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja, eins og það er mikilvægt mál. Við þurfum að berjast hver fyrir aðra og það á jafnmikið við um fiskverkakonurnar og stjórnarkonurnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband