FRELSUM ÁLANDSEYJAR

Fólk heldur kannski að Dagur B. Eggertsson sé fyrirmyndarmaður. Ég er hins vegar búin að sjá í gegnum hann. Spurning dagsins er hvers konar ólyfjan hann hefur verið að lauma í kaffið hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins undanfarið hálft ár. Ég sé engar aðrar skýringar á hegðun þess góða fólks. Annað læknismenntað fólk getur kannski upplýst þetta.

Tæmamyndavél_09.08.07 322Annars er ég nýkomin heim úr 10 daga magnaðri ferð til Washington D.C. Við náðum besta árangri íslenska liðsins í alþjóðlegu Jessup málflutningskeppninni, frá landnámi. Mikil hamingja. Við unnum líka fyrir þessu. Þar sem ég var svo heppin að lenda í herbergi á FairMONT hótelinu (þar sem keppnin er haldin) sem var stærra en stúdentaíbúðin sem ég bjó í á Lindargötunni, voru settar upp þar æfingabúðir liðsins og ruslafötunum breytt í ræðupúlt. Þar sátum við fimm síðan nótt og dag á milli þess sem við skutumst til að keppa og glöggvuðum okkur á baráttunni gegn hryðjuverkum gegn vernd mannréttinda út frá sjónarhóli þjóðaréttarins og málsatvika sem við vorum að vinna með. Fullveldi ríkja og friðhelgi fyrrum þjóðarleiðtoga frá lögsögu annarra ríkja kom líka við sögu og margt fleira. 

Tæmamyndavél_09.08.07 376Fyrst og fremst kom þó við sögu FRELSI ÁLANDSEYJA. Ok, kannski ekki í keppninni sjálfri þar sem við fengum aldrei þá spurningu frá dómurum (Jessup virkar þannig að þú heldur ekki ræðu í rúmar 20 mínútur - nei, þú ert grilluð af dómurum með erfiðar spurningar í 20 mínútur milli þess sem þú reynir að byggja málið þitt gagnvart þeim). Við vorum búin að afla fjölda stuðningsmanna við sjálfstæði Álandseyja meðal keppenda í Jessup- sem kemur sér vel þar sem þetta var allt fólk með þekkingu á alþjóðalögum.

Daginn sem Solla, AKA ráðherra utanríkismála, var í bænum og fundaði með Condi Rice vorum við að hugsa um að mæta fyrir utan ráðuneytið með mótmælaskilti á íslensku. Á þeim yrði krafan um frjálsar Álandseyjar (the Åland islands - það tók mig áttatíuogfjórar tilraunir að segja þetta með sænskum hreim án þess að skella uppúr). Eða þá ÞOTURNAR HEIM! Solla sagði mér síðan að við hefðum líklega ekki komist að fyrir öðrum mótmælendum. Við fórum frekar í skoðunarferð. Hins vegar var lögð nokkur vinna í mótmæli sem fram fóru á ákveðnu hóteli um nótt. Við Eggert fórum margar ferðir upp og niður með lyftunum þar til að ná að festa upp skiltin í þeim öllum. Þar að auki hótaði ég finnskum strák þeirri stórkostlegustu svívirðingu sem hægt er að hugsa sér: "Ef þú frelsar ekki Álandseyjar mæti ég til Finnlands og fer í sánu Í ÖLLUM FÖTUNUM!" Þess ber að geta að íslenska sendiráðið í DC átti hugmyndina að þessari móðgun. Þau hafa kannski einhvern tímann notað það í samskiptum við Finna með góðum árangri.

Að lokum vil ég þakka Birnu Þórarins, mastersnema í öryggisfræðum við Georgetown og snillingi að atvinnu, kærlega fyrir skemmtilega fundi í vorinu í DC þegar keppni var lokið. Með henni fór ég m.a. í frábæran tíma um afvopnunarsamninga í Georgetown og í tryllt háskólapartý.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hæ skvís, til hamingju með árangurinn!

Fékkstu facebook póstinn frá mér?

Ester (IP-tala skráð) 20.4.2008 kl. 13:07

2 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Það væri nú eftir oddvita Samfylkingarinnar hér í borg að reyna að lauma einhverri ólyfjan í hafragrautinn hjá meirihlutanum, er ekki allt gert í dag hvort sem er til þess að komast til valda?

Magnús V. Skúlason, 20.4.2008 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband