Færsluflokkur: Dægurmál

Komin heim

Mætt á klakann. Allt við sama heygarðshornið. Ég líka. Klukkan tólf á mánudag á harðahlaupum um Vesturbæinn að reyna að ná í tíma í Lögbergi. Það eina sem hefur breyst í þessu öllu að virðist, er að ég er massaðri á bakinu og með smávegis ör á kjálkanum sem mamma taldi að væri varalitur.

Ég hélt að fjórir mánuðir yrðu svo langur tími. Og jú, það virðist langt síðan ég var í Suður-Afríku að taka máltækið "fall er fararheil" einum of bókstaflega. Samt er eins og ég hafi farið í gær.

Vil þakka öllum sem komu að því verkefni að halda fyrir mig jól, áramót og þrettánda á einu kvöldi nánast um leið og við vorum komnar út úr flugvélinni á laugardaginn. Pakkar og skaup á einu kvöldi. Hver getur beðið um meira. Hafði mikinn húmor fyrir skaupinu svo það komi fram.

Bandaríkin voru hress. Í Miami keyrðum við m.a. í gegnum Litlu-Havana en þar búa að sögn Bjarna Más, Kúbverjar sem hata Castro. Þeir eru augljóslega jafn kaþólskir og páfinn því ekkert var að gerast á nýársdag. Hverfið virkaði samt skemmtilegt. Örugglega áhugavert að spjalla við liðið um stjórnmál. Eða bara heyra góða músík, drekka mojito, borða svört hrísgrjón og anda að sér vindlalykt.

Annað áhugavert svæði var sjálfstjórnarsvæði indjána sem alríkisstjórn BNA var svo ljúf og góð að láta þeim í té. Á miðju fúlu fenjasvæði reyndar og fjarri heimahögum þeirra. En það er víst aukaatriði. Á bensínstöðinni var ítrekað að menn skyldu klæðast skyrtum og skóm inni í búðinni. Á þessu svæði er líka eina spilavítið á Flórída, því ríkið Flórída bannar spilavíti. Svo indjánarnir mokgræða og samkvæmt sósíalísku kerfi er myndarlegum ágóðanum dreift á milli þeirra allra. 

Svo mæli ég með Harlem. Stórskemmtilegt. Verst ef túristar á borð við sjálfa mig fara að taka yfir mannlífið á staðnum. Næst þegar ég fer til New York verður garanterað farið í gospelmessu á sunnudegi eða hiphopmessu á fimmtudagskvöldi. Fyrir þá sem finnst dýrt að borða á Manhattan, er athugandi að fá sér einn sveittan inní Harlem. 

Nú. Ég persónulega þekki þrjá aðila sem búsettir eru í átján milljón manna borginni New York. Varði vinur og snillingur opnaði heimili sitt þar sem við sváfum í rúminu hans og borðuðum mömmukökurnar hans. Áttum góðan tíma með Uglu, sem kom með í Harlem. Seinasta kvöldið rakst ég síðan fyrir eintóma tilviljun á hana Birnu Önnu samstarfskonu af Mogganum og félaga í Gjellufélaginu. Þetta er ekki svo stór heimur. Þess má geta að okkur Birnu hefur ruglað saman og við verið taldar líkar. Skil ekki alveg af hverju. En það var óvænt ánægja að hitta hana. 

Ég verð síðan að játa að í bland við alla spennuna að koma heim og hitta fólkið mitt, var bara talsvert stress. Koma heim og detta inn í rútínuna (sem mér finnst almennt leiðinlegt fyrirbæri og gengur illa að halda mig við). Standa mig í skólanum. Spara. Vakna í myrkrinu. Fá ekki innblástur  í lífinu upp í hendurnar daglega heldur þurfa að finna hann sjálf.

Annars almenn niðurstaða eftir ferðalagið er að ég lifi afskaplega góðu lífi á Íslandi. Líka þótt heimurinn minn hérna sé frekar lítill.

Er annars að spá í að birta eina stutta færslu í viðbót, með vangaveltum um einhver praktísk atriði á ferðalögum. Þótt ég sé ekki útlærð í faginu gætu einhverjir punktar kannski nýst þeim sem láta verða af að leggja í hann. 

Eftir það verður þetta blogg aftur hefðbundinn hluti af síbyljunni.


"Gerist þetta á klukkutíma fresti hérna?" & Heat vs. Lakers -Minnisstæð jól í Ameríku

Sameinuðu þjóðirnar

Bandaríkin eru aðeins of skuggalega nálægt raunveruleikanum. Eða hversdagsleikanum öllu heldur. Ég veit ekki alveg með raunveruleikann hérna, þetta er allt svo súrt.*

Að vera í BNA er eins og að vera heima hjá sér að mörgu leyti, svo marineraður er maður af sjónvarpsefni og bíómyndum. Samt hef ég bara einu sinni verið hérna áður og þá í Boston. Líklega er ég núna að tala eins og Bandaríkjamenn sem tala um Evrópu í einu orði. San Fransisco, New York og Miami/Flórída eru ólíkir fulltrúar eins ríkis. Og þetta er allt áhugavert og skemmtilegt. En það er ekkert menningarsjokk, engin tilfinning fyrir einhverju sem er samtímis óþolandi erfitt og óendanlega heillandi (fatabúðirnar etv?). 

New York og San Fransisco eiga sameiginlegt að vera skemmtilegar heimsborgir með sál. Ég á erfitt með að ákveða hvor komst nær manni. NY fær reyndar lengri séns vegna annarrar viðkomu þar eftir áramótin. Sem "gamall hippi," þ.e. MH-ingur alltaf, átti "San Fran" greiða leið að hjartanu. Þessi endalausu hverfi sem eru fullkomin til að bara horfa á fólkið. Castro er gay hverfið og þar var sérlega skemmtilegt að horfa inn um gluggana á troðnu kaffihúsi/bar þar sem allir kúnnarnir voru karlmenn á besta aldri. Gat ekki varist því að hugsa um af hverju ég veit um svona ofsalega fáa eldri homma á Íslandi. Ástæðan? En já, enn skemmtilegra hefði þó verið að komast í bíóið sem sýndi annars vegar Grease og hins vegar Sound of Music seinna um kvöldið. Ekki merkilegt nema sýningarnar voru SING-A-LONG! Ég sé bara fyrir mér fullan sal af hommum að syngja með lögunum úr Söngvaseið. Brilljant. 

New York er hrárri og já, bara öðruvísi. Þið hafið örugglega öll séð það í bíómyndunum. Appelsína og epli. NY er að sumu leyti einhvern veginn engin látalæti. Inn á milli eru þó hlutir sem fara með þá lýsingu í hálfhring. Trump Tower.

Og talandi um bíómyndir. Aðal jólastemmningin í Stóra eplinu rétt fyrir jól, var Þorláksmessukvöld við skautasvellið hjá Rockefeller Center. Í eins og hálfs tíma biðröðinni hlustaði maður á jólalög og horfði á mannmergðina og skemmti sér hið besta. Ekki síst yfir bónorðunum tveimur sem áttu sér stað á ísnum með tilheyrandi fagnaðarlátum áhorfenda. Eins og kona í áhorfendahópnum orðaði það: "Does this happen every hour ´round here?"   

Meðal annars var svo farið í heimsókn á Ground Zero, þar sem unnið er í rústum Tvíburaturnanna, að því að byggja glæstan turn og minnismerki um ódrepandi anda Bandaríkjamanna. Sem er skiljanlegt. Fólk vill sýna að það geti risið eins og Fönix úr öskunni án þess að á sjái. Að stoltið sé ennþá til staðar og að ekki verði látið bugast. Maður stendur þarna og skoðar myndir af lögreglufólki sem fórnaði lífinu fyrir aðra við björgunarstörfin, og hugleiðir þá staðreynd að næstum þrjú þúsund manns dóu þennan dag í árás á byggingu fulla af saklausum borgurum. Líklega kom það svolítið nær mér að standa þarna og hugsa um afleiðingar 9/11 fyrir Bandaríkjamenn. Um leið er jafn sorglegt að hugsa um hvaða dómínó fór af stað þarna og hversu margir hafa dáið í eftirleiknum. Eins og Schwarzenegger persónan í World Trade Center Olivers Stone sagði: "Someone must avenge for this," eða eitthvað á þá leið og fór svo tvo túra til Íraks. Og á hverjum bitnar hefndin?

---

Annars er Flórída-ríki nokkuð óvenjulegt umhverfi fyrir jólahald. Ekki laust við að maður hafi saknað  þorláksmessu með stelpunum, aðfangadags með familíunni og jóladags í allsherjarheilsdagsjólaboðinu hjá Guggu frænku. Þessarar venjulegu stemmningar. Í staðinn fengust jól sem munu alltaf verða minnisstæð Ferðafélaginu Sápunni. Sem nú nýtur sérlega upplífgandi félagsskapar Bjarna Más.

Það er ekkert sérstaklega slæm leið til að eyða jóladegi (fyrir utan Gugguboð já), að fara á Miami Heat - Los Angeles Lakers, á heimavelli Heat. Sem unnu þar að auki þrátt fyrir verri stöðu þessara núverandi NBA meistara. Kobe Bryant hefur líklega verið þunnur og átti arfaslakan leik. -"Let´s Go Heat! Let´s Go Heat!" "Goood Mourniiiing!"-

Svo þarf maður bara að passa sig á krókódílunum. Góðar stundir og gleðilega rest.

Versla í jólamatinn

*Súrt í merkingunni: Grillað, öðruvísi, flippað. Mögulega með snert af hallærisleika eða "Hvað í djöflinum er verið að pæla?" Að einhver sé súr þýðir s.s. ekki að hann sé í fýlu eða niðurdrepandi eins og sumir nota þetta orð. Meira svona tengt því að hann sé á sýru. Ef Mörður Árnason er að lesa, hefur ekki verið legið yfir þessari orðskýringu.

 


Skiptar skoðanir um valdarán, á Fiji þar sem allt hefur sinn tíma...

Það varð ekki áþreifanlega vart við að nýlega hefði átt sér stað valdarán á Fiji. Að minnsta kosti ekki á vesturströnd aðaleyjarinnar Viti Levu, og smáeyjunum þar út af. Túristarnir gátu alveg lifað áhyggjulausir inni í loftbólu sem nær yfir ströndina og barinn og hefur alþjóðlega skírskotun. Fiji strendurnar eru raunar mjög fallegar. 

Hins vegar er allt í kringum þetta valdarán fremur grillað ef maður fer að kynna sér málið. Íbúarnir voru flestir til í að ræða málið ef maður fór að forvitnast. Af þeim sem ég spurði spjörunum úr um þeirra álit, og það var alls konar fólk, var um helmingur á móti og hinn fylgjandi. Og af hverju voru menn fylgjandi? -Það var svo mikill spilling hjá gömlu stjórninni, vildi einn meina. Á því keyrir einmitt herforinginn sem stendur fyrir valdaráninu, commodore Baininarama eitthvað svoleiðis held ég að hann heiti. Eða bara Bananarama. Hann ætlar að setja á fót sérstaka nefnd til að rannsaka spillingu fyrrum stjórnarinnar. Og auglýsir störf ráðherra í dagblöðunum. 

Það er mjög áhugavert að bera saman þetta valdarán og það sem hafði átt sér stað í Taílandi rétt áður en við komum þangað í október. Þar var einmitt spilling uppgefin ástæða þess að herinn tók yfir og hrakti forsætisráðherrann frá með stuðningi konungs. Menntafólkið studdi herinn og ágætur maður hvers félagsskapar maður fékk að njóta í Bangkok, gaf dæmi um milljarða skattsvik forsætisráðherrans sjálfs. Hann hefði samt notið hylli meðal almúgans en meðal annars borgað fyrir atkvæði. Og nú spyr maður sig: Hvað er mikið til í spillingarásökunum á Fiji? Og hvenær er réttlætanlegt að ganga á lýðræðislegan vilja?

Að minnsta kosti voru margir íbúar þessa fyrrum lýðræðisríkis ósáttir. Og einhverjir hagfræðingar voru með grenjur í blaðagrein um hugsanlegt afnám alls virðisaukaskatts. Vinur okkar B taldi það hins vegar augljósa búbót fyrir fólkið í landinu. 

Fólkið sem lifir lífinu á Fiji-tíma, sem er mikið notað hugtak þar og þykir gott. Grundvallaratriðið er að stressa sig ekki á klukkunni eða skipulagi á hlutunum. Sem er ljúft í sjálfu sér. Mjög ljúft. En þegar maður er til dæmis á leiðinni í flug eða annað á ákveðnum tíma er það ekki alveg jafn hentugt. Hið einfalda verkefni kaupa frímerki á kortin sem ég var að skrifa breyttist í eitthvað mun flóknara og á endanum var það upp á gæsku indverskættaðrar yngismeyjar komið, að líma frímerkin á og koma þeim í póstkassann. Spennandi að sjá hvort þau skila sér. Ég skilaði mér rétt svo í flugið.

Held að margir hafi haft áhyggjur af þessu Fiji-ferðalagi. Það var semsagt tilefnislaust. Þegar við komum hingað til San Fransisco var líklega meiri ástæða til að stressa sig yfir okkur og farangri heldur en nokkurn tímann á Fiji. Það var nefnilega byrjað á að þramma göturnar í eiturlyfja- og vændishverfinu að kvöldi til.  

Dásamlega fjölbreytt mannlíf hérna -ekki bara hommar og hippar þótt nóg sé af þeim. Get svarið að annar hver karlmaður er hommi. Og brekkurnar svo brattar, brattar, að íbúarnir eru líklega í MRL (magi, rass, læri..) tíma mörgum sinnum á dag. San Fransisco er algjört tívolí.

Vildi að ég ætti mangótré í garðinum heima eins og á Fiji.  


Ævintýri Kökuskrímslisins

Norðureyja Nýja-Sjálands er svo iðagræn að ef Framsóknarflokkurinn flytti sig hingað hlyti fylgið að fara a.m.k. frá pilsnermörkum í bjór. Sérstök kveðja til mjög góðra vina og kunningja í Framsókn, frá Ferðafélaginu og ófáum rollum sem á vegi okkar hafa orðið! Er ekki eilíflega í tísku að gera grín að X-B? Ég myndi raunar ekki vita ef það hefur breyst eitthvað.

Það er skrýtið að vita meira um hvað er að gerast í pólitíkinni á Fiji en Íslandi. Það á þó eftir að breytast ískyggilega fljótt því sjötti janúar nálgast óðfluga. Dagurinn sem manni fannst að kæmi einhvern veginn aldrei. Tíminn líður eins og hendi sé veifað, en samt finnst manni mörg ár síðan við vorum í Suður-Afríku. 

Síðustu dagar hafa verið ólíkir öðrum á þessu ferðalagi. Það er keyrt eins og herforingjar á vinstri kantinum, svo til. Enda er Nýja-Sjáland sniðið til ferðalaga á eigin farartæki. Og bíllinn Cookie Monster hefur staðið sig með prýði þrátt fyrir að erfiða stundum aðeins upp brekkurnar. Það er vissulega frelsi að hafa yfir bíl að ráða og ákveða næturstaðinn sama kvöld. 

Frá Auckland var keyrt niður með Kyrrahafsströndinni gegnum staði sem heita nöfnum eins og Rotorua og Gnægtaflói, eða Bay of Plenty. Fáfarnar slóðir meðfram ströndinni á Austurhöfða, East Cape, voru margfalt þess virði að þræða. Strendur með stórbrotinn og einmanalegan sjarma. Svolítið Ísland ef ekki væri fyrir að landið er skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Á þessum helstu heimaslóðum maóranna er ekki mikið um túrhesta og gististaði fyrir þá. Og hvað getur maður gert annað en leggja bara aftur sætið og sofa í bílnum til að vera fyrstur á landinu að sjá sólaruppkomuna, sérstaklega ef næsti náttstaður er dýr eða langt í burtu? Þarna nálægt sáum við einmitt "austasta bíó heims." Staðsett á tjaldstæði og stærðarhlutföll í samræmi við það. Gaman að þessu. 

Eftir áfangastaði á borð við art deco bæinn Napier, var komið til höfuðborgarinnar Wellington sem er syðst á norðureyjunni. Hið meinta, magnaða næturlíf þar fékk mann til að skilja af hverju það reykvíska er heimsfrægt. En það er góð borg samt og státar af flottasta og skemmtilegasta safni sem skoðað hefur verið í ferðinni. Te Papa, þjóðarstolt Nýsjálendinga geymir hafsjó upplýsinga og hluta eins og mörg önnur söfn. En það hafði svo mikinn húmor fyrir sjálfu sér sem gerði upplifunina frábæra.

Þannig eru Nýsjálendingarnir líka. Afslappaðir og kumpánlegir. Ekki hitt eina dónalega sálu hér, eða ef út í það er farið einhvern sem ekki kemur fram við mann eins og gamlan vin. Það vill svo til að Cookie Monster ræður ekki yfir geislaspilara og útvarp næst ekki alls staðar. "Hvað segirðu, ertu að leita að spólum? Með bara einhvern veginn tónlist?" spyr maórastelpa með glaðlegt frekjuskarð þegar maður kemur út af enn einni bensínstöðinni sem hætti að selja kasettur fyrir a.m.k. fimm árum. Labbar með manni í bílinn sinn og leggur til tvær kasettur í ferðalagið. Nýsjálenskt gospel og Jesúsarrapp verður undirleikur við aksturinn í þó nokkurn tíma. 

Og landslagið siglir framhjá Kökuskrímslinu sem leggur leið sína frá Wellington, meðfram Tasmanhafi til Hobbiton. Framhjá virkum eldfjöllum, endalausum skógum og stöðuvatni sem fær axlirnar á manni til að síga við að líta það augum. 

Að lokum er það aftur Auckland. Og ný ævintýri bíða á Fiji og öðrum spennandi viðkomustöðum. Augnablikið skal tekið alla leið, nú sem áður. Og veriði alveg róleg. Það verður farið varlega á Fiji.


Brimbretti á Bondi Beach & rúntað út í nýsjálenska óvissu. Og nýjar myndir!

Liðnir eru dagarnir á Balí þar sem eina truflunin á sólbekknum var að vakna við að hafa óvart slefað yfir sig. Í millitíðinni var ásamt ýmsu öðru afrekað að hlaða inn slatta af nýjum myndum úr ferðalaginu, í þeim fádæma lúxus aðstæðum þráðlausu interneti. Ekki allt ferðalagið, en vessgú samt og njótið vel.

---

Sólin skín lágt á lofti og gyllir öldutoppana. Afar myndrænt. Í dag eru öldurnar reiðar og ef maður lendir inni í þeim er það eins og í þvottavél. En einhvern veginn hefur maður það af að berjast gegnum grynningarnar með meira en mannhæðarhátt brimbretti undir höndum. Bíður eftir réttu öldunni. Á eftir þessari hérna. Kasta sér á móti henni svo hún taki mann ekki með sér í átt til strandar. Og nú upp á brettið, fljótt fljótt. Ná jafnvægi. Tærnar við endann á brettinu, líkaminn beinn og viðbúinn öllu. Haukfrán augu á ströndinni. Róa af stað með höndunum. Róa, róa! Og svo kemur aldan sem beðið er eftir og adrenalínið með. Brettið geysist af stað, handleggirnir undir brjóstkassanum og viðbúnir að lyfta manni upp. Þungi settur í lappirnar... Og franskættaður byrjandi bókstaflega keyrir yfir mann. Á bretti sem fer sínar eigin leiðir og hún á jafnlangt í að stjórna af öryggi og maður sjálfur.

Og svo veður maður aftur í öldurnar og þetta er svo fáránlega gaman. Jafnvel þótt maður standi sig eins og, tja, byrjandi. Muniði hvernig fólk er þegar það stígur á skíði í fyrsta skipti? En aðdragandinn að hverri einustu byltu gefur fyrirheit um hvað þetta getur verið ólýsanlegt.

Brimbretti á Bondi Beach krakkar. Endilega prófa það. Ekki síður skemmtilegt að sjá að þessi frægasta strönd Ástralíu og álfunnar allrar er umkringd allt að því venjulegu íbúðarhverfi auk slatta af veitingastöðum og kaffihúsum. Benidorm stemmnningin fjarri góðu gamni. Göngutúrinn yfir á nærliggjandi strandir var frekar fínn, útsýnið alveg sjúkt. Og við Tamarama strönd varð mér hugsað til frisbí-iðkandi vinar því ég hef aldrei séð neinn stað jafn vel fallinn fyrir það sport.

Ekki verra að geta skroppið aðeins á brimbretti fyrir vinnu. Eða keyra daglega yfir Sydney Harbour Bridge, sem er önnur stærsta stálbrú heims, fullbyggð um 1930 og er "hitt" fræga mannvirki borgarinnar. Þar sem tveir fyrrum íbúar borgarinnar töldu ótækt annað en láta hafa sig út í að klifra upp á brúna, hvað gerir maður þá nema: Láta setja sig í galla sem líkist einhverju frá hallærislegustu plánetunni í Star Trek og klifra upp á helvítis brúna? Upp brunastiga sem liggur milli sjöundu og áttundu akreina brúarinnar og þaðan upp á stálbogann sjálfan. -Og já, það var þess virði. Ætli höfnin og borgin í heiðskíru sé ekki með því flottara.

---

Svo er maður bara mættur ásamt eiginkonunni til Nýja-Sjálands. Helginni eytt í Auckland. Held maður gæti orðið ástfanginn upp yfir haus. Af landinu, ekki konunni. Hver einasti maður geislar af fádæma hlýju og hjálpsemi. Allt afslappað og þægilegt. Hentar vel fyrir fólk sem er nýbúið að læra að segja "no worries," við öll tækifæri í Ástralíu og finnst það fínt viðhorf.

Nuna eru það þjóðvegirnir. 500 km so far. Roadtrip í litlum bílaleigubíl sem heitir eins og stendur Cookie Monster, i takt vid bilstjorana. Stefnan tekin á heimahaga maóra sem eru frumbyggjar landsins, meinta ólýsanlega náttúrufegurð, Hobbitaþorpið, alvöru rafting, höfuðborgina Wellington og jafnvel eitthvað fleira eða færra. Nú finn ég fiðringinn..

E.S. Vardandi Fiji: Stefnan er eins og stendur enntha tekin thangad. En ekki til hofudborgarinnar tar sem oll aksjonin er, eda verdur ef eitthvad alvarlegra en tetta gerist. Verdum to bara i fimm daga. En engar ahyggjur, fylgjumst vel med frettum og breytum fluginu ef astandid versnar.


mbl.is Valdarán hafið á Fiji-eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástarkveðjur frá Ástralíu

Hvenær leigir kona sér húsbíl á Nýja-Sjálandi og hvenær ekki? Hvenær fer kona til Fiji og hvenær hættir kona við Fiji? Hvenær fer hún í vínsmökkun í Ástralíu eða í klifur upp á hafnarbrúna í Sydney og borgar fyrir það aur og annan? Og hvenær ekki? Ferðafélagið fundar auðvitað mjög reglulega um dagskrána og þessa dagana er margt um að hugsa. Á meðan eigum við þó ljúfa og afslappaða daga í Sydney.

Það er skrýtið að koma hingað "niður" og vera bara komin til þess sem við köllum Vesturlönd. Margt sem minnir á England. En hver staður hefur auðvitað sinn sérstaka sjarma. Ég gæti sagt að Sydney sé Sjarma. Tröll.

Sydney er þannig borg að það er svo gott að slappa af hérna og njóta mannlífsins. Stundum þarf maður líka bara að sofa. Mikið. Þegar svoleiðis stendur á er gott að búa á góðu hosteli. Aftur með fjórum karlmönnum í herbergi. En þeir eru ljúfir sem lömb, nóg pláss og gluggar í herberginu og hreinlæti og öryggismál til fyrirmyndar. Semsagt eins og best verður á kosið þótt við herbergisfélagarnir eigum til að trufla hvert annað þegar við komum heim á mismunandi tímum nætur. Huhumm. Við B erum klárlega ekki verstar í því þrátt fyrir að hafa kíkt aðeins á djammið með fabulous fólkinu við sjávarsíðuna.

Mannlífsflóran er fjölbreytt og eiginlega er það mannlíf, mannlíf, mannlíf út um allt hérna. Sérstaklega gaman að rölta um borgina þessa liðnu helgi. Mismunandi mannlíf eins og stórborg sæmir. Frábær hverfi eru Paddington og Newtown, með afslöppuðu bóhem-ívafi. Þið vitið, flottar öðruvísi fatabúðir og second hand bókabúðir, endalaust af kaffihúsum og veitingastöðum með mat alls staðar frá. Enginn McDonalds sjáanlegur. Sem er fínt.

En nú ætla ég að koma þeim á óvart sem þekkja mig. Hefði líklega ekki látið sjá mig þar inni nema öskrandi og sparkandi hér áður. En í ferðinni hefur alveg komið fyrir að við höfum borðað á Makkanum. Það er nebbla svo ódýrt. En ekki á Íslandi og missir þar með marks. Og ég get upplýst að það var hreinlega gaman að borða á McDonalds í Indlandi. Úrvalið var mjög skemmtilegt því auðvitað var ekkert nautakjöt. Allskonar grænmetis- kartöflu og ostamöguleikar í staðinn. 

Og talandi um Indland. Ferðafélagið hefur komist að niðurstöðu: Indverskur matur. Líklega besti matur í heimi. Eða svona, þið vitið. Auðvitað er fjölbreytnin best og við fengum líka magnaðan japanskan og indverskan mat til dæmis.  En indverski maturinn er alveg magnaður. Hvernig er hægt að elda kartöflur og baunir þannig að maður geti borðað endalaust? Ég sakna asíska matarins alveg ferlega þótt úrvalið af honum sé reyndar gott hér í Sidney. Bara aðeins dýrara en 35 krónur hjá götusala í Taílandi. 

---

Bíddu. Það var víst verið að ræða Sydney. Svo nokkur atriði séu hér afgreidd:

-Óperuhúsið er líka rosalega flott að innan. -Höfnin er jafn flott og í bíómyndunum. Væri ekki slæmt að  eiga hús með útsýni yfir höfnina eins og Nicole Kidman og fleiri. Þyrfti samt ekkert að vera við hliðina á Óperunni.

VIÐ ÆTLUM Á BRIMBRETTI Á MORGUN!


Asía yfirgefin & Jólasveinninn tryllir lýðinn í Sydney

Ég hefði getað bloggað úr flugvél í fyrrinótt. Flugvélinni á leið frá síðasta Asíulandi ferðarinnar. Bravó fyrir Singapore Air, besta flugfélagi heims skv. lesendum Condé Nast Traveller. Og bravó fyrir borginni sem við flugum til. Bestu borg heims skv. sömu lesendum. Sydney lofar nokkuð góðu.

Rökum nóttum í Singapore var eytt í kompaníi fjögurra karlmanna. Í tíu gluggalausum fermetrum. Backpackers Cozy Corner er ekkert ofsalega kósý en vel staðsett og mjög ódýrt. Vantaði pínu upp á hreinlæti og öryggi, en hver er að velta sér upp úr svoleiðis.

Sérlega smart að labba af þessum líklega ódýrasta gististað borgarinnar á dýrustu hótelin í kokkteila. En það er víst lélegur túristi sem heimsækir Singapore án þess að fara í Singapore Sling á Long barnum á Raffles hótelinu þar sem sá drykkur var fundinn upp.

Pínulítil eyja. Engar náttúruauðlindir. En eitt þróaðasta og metnaðarfyllsta ríki heims. Asíuland með sterka innviði samfélags, öfluga heilsugæslu og eitt besta menntakerfi sem finnst. Ýmsir hlutar Asíu, nýlendutími undir breskri stjórn og nútími í einum hrærigraut. Singapore gerir mann forvitinn. Hvernig virkar þetta land? Lítill fugl hefur hvíslað því að metnaðarfull stjórnvöld (með sama flokk við stjórnvölinn frá lýðveldisstofnun fyrir ekki svo mörgum áratugum...) réttlæti átroðslu á stjórnmálalegum og borgaralegum réttindum að einhverju marki. Allir hafa náttúrulega heyrt um himinháar sektir fyrir að henda rusli á götuna eða reykja á vitlausum stöðum. En borgin er líka óaðfinnanlega hrein. Og tilfinningin að fólki líði almennt vel. Lesa meira um stjórnmálin og stjórnkerfið þegar tími gefst til.

Og það var gaman að sjá metnaðinn. Singapore er ekki fjölmennt land/borg. En leik- og tónlistarhúsið þeirra við sjávarsíðuna, umdeilt og kostnaðarsamt, var algjör perla. Þótt ekki gæfist tími til að sjá eða heyra að þessu sinni var gaman að skoða "Esplanade"að innan og utan. Mannlífið beintengt með hönnunar- og súkkulaðibúðum, kaffihúsum o.fl. Fullkomið bókasafn helgað leikhúsi, tónlist og kvikmyndum fléttað inn í og nóg af listaskólastúdentum að læra þar. Verið að byggja yfir listaháskóla þarna nálægt ef maður sá rétt. Hugsað stórt.

Fyrst við erum að ræða borgarskipulag. Stundum er amast við að útlendingar myndi sjálfstæð samfélög innan þess sem þeir búa í. En ef til verða hverfi sem heita Little India og Chinatown, þá set ég a.m.k. báða þumla á loft. Í Singapore renna þessi hverfi vel saman við aðra borgarhluta. En þau gefa borginni svo mikinn aukreitis lit og bragð.

Í Singapore var verið að jólaskreyta. Í Japan í byrjun mánaðarins var komið jóladót í margar búðir. Og í gærkvöldi (nú er miðnætti á Íslandi og klukkan að verða tíu hér) var kveikt á aðaljólatrénu í Sidney. Ástralir búa sig undir sumarjól og mættu á torgið að syngja Heims um ból í stuttermabol með jólasveinahúfu. Löggan tók sig ekki alvarlegar en að mæta með jólasveinahatta og setja hreindýrshorn á hestana sína. Hvað ætlar lögreglan í Reykjavík að gera þegar norska jólatréð kemur? Eða er það komið?

Og Asía að baki eftir tveggja mánaða flakk. Svipmyndir í hausnum. Karlmenn að leiðast í Indlandi. Gulur litur um allt í Taílandi af því kóngurinn fæddist á mánudegi og gulur er mánudagslitur. Kínverjar sem velta sér ekki upp úr kurteisisveseni og troða sér fram fyrir í öllum röðum -maður kemst inn í þetta smám saman. Japanir sem eru duglegastir og vinnusamastir en detta líka rosalega í það öðru hvoru -kannski mótvægi og hljómar eins og þjóð sem maður þekkir ágætlega. Nepalinn í fyrirframákveðna hjónabandinu sem skildi ekki alveg hvernig deitmenningin virkar á Íslandi -en hafði leyft syni sínum að giftast af ást. Og Singapore-búar sem deyja ekki ráðalausir og sólarstrandarlausir og flytja bara inn sand og planta pálmatrjám til að búa til skemmtiferðaeyju.


Lífið í bakpokanum

Batteríin komin í hleðslu á Balí. Vodafone býður mann velkominn til Indónesíu, en það er í fullri hreinskilni sagt verið að haga sér eins og sólartúristi. Á eyjunni sem varð fyrr þekkt fyrir forvitnilega menningu en fagrar strendur.

Eftir að hafa tekið endalaust við og orðið fyrir áhrifum er þetta fullkomna tilgangsleysi bara fínt. Svolítið erfitt samt. Í rauninni enn ein áskorunin að vera svona mikið að gera ekkert. En þetta eru bara fimm dagar. Ferðafélagið ákvað að splæsa í mun betri gistingu en venjulega en eyða í ekkert annað (og herja út afslátt af herbergisverðinu). Því er borðað meira en þýsku túristarnir í rosalega morgunmatnum.

Og maður situr og reynir að melta Kína og aðra áfangastaði. Gaman að bera saman þessi nágrannalönd sem við höfum verið að flakka um. Eftir Kínadvölina trúir maður sögunum um stórveldi tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Allt komið mun lengra en í Indlandi, a.m.k. svona almennt séð þótt enn sé langt í Japan. Þenslan gríðarleg í borgunum en hún er líka augljós í mörgum fleiri borgum Asíu, þ.á.m. í Indlandi. Að sitja á 54. hæð í fjórða hæsta turni heims í Sjanghæ, var eins og að spila Sim City tölvuleikinn. Maður bókstaflega horfði á nýja byggð spretta upp. Unnið allan sólarhringinn að virtist.

Mikill lúxus að þurfa ekki að pakka farangrinum í nokkra daga. Kínatúrinn til Xi´an og  Sjanghæ var unaður að því leyti að snillingarnir okkar í Peking geymdu bakpokana á meðan svo byrðarnar voru minni. Hildur og Fanney eiga miklar þakkir skildar fyrir að skapa heimili að heiman í nokkra daga svona inni í miðri ferð. Takk fyrir alla hlýjuna stelpur -og skemmtunina!

Annars ber maður heimili sitt á herðunum þessa mánuðina ( og eitthvað örlítið þar að auki, hmm). Heimilið tekur í og það er leiðinlegt að pakka því saman. Það veitir ferðamannahrægömmum hvatningu til að hjóla í mann með dollaramerki í augum. AB lögmenn láta samt ekki rugla í sér. Takk og bless vinur.

En það er svo gaman að flytja heimilið á næsta stað. Svo mikið frelsi. Ekkert á dagskrá nema vera, sjá, hlusta, skynja. Tala ef maður er heppinn. Reyna að komast nálægt því að lifa lífinu eins og fólkið sjálft á staðnum og skilja hvernig það hugsar. Þegar allt kemur til alls mun meira virði en öll rosalegu hofin og aðrir minnisvarðar. Þess vegna saknaði maður þess í Kína að ná aldrei að spjalla almennilega við lókalinn. Erfitt að nálgast fólk í fjöldanum og enskukunnáttan er ekki upp á marga fiska.

Það er hins vegar misskilningur að það sé alveg ómögulegt að ferðast um Kína eða önnur fjarlæg lönd af því enginn tali þar ensku eða allt sé svo framandi að einhverju öðru leyti. Framandi, jú, en það kemur ekki í veg fyrir upplifun. Þetta er bara land eins og hvert annað og það er bara þjóð sem býr þar eins og hver önnur. Hún er lengra í burtu en Evrópumenn og Kanar en það er gaman að kynnast henni. Stundum þarf að hugsa svolítið til að bjarga sér eða gera sig skiljanlegan en það er bara hluti af gríninu. Hvenær annars fær maður færi á að leika vekjaraklukku í búðinni? Þetta bjargast alltaf.

Í huganum hefur heimurinn minnkað og stækkað. Stækkað, af því möguleikarnir eru óendanlegir og hvert land er ólíkt því við hliðina þótt maður hafi átt til að samsama fjarlæg nágrannalönd hverju öðru. Minnkað, af því það er ekki svona langt að fara hinu megin á hnöttinn. Bara aðeins lengra flug, en skiptir litlu ef maður er kominn í vélina á annað borð. Og vitiði bara hvað, það býr venjulegt fólk þar. "Og hjörtum mannanna svipar saman/ í Súdan og Grímsnesinu."


Haustið í Peking

Það er eitthvað bogið við að vera hálfkalt í Sumarhöllinni.

*Ímyndið ykkur að slegið sé á risastóra málmgjalltrommu.* Við erum mættar til Kína. (Án þess að missa af fluginu.)

Persónulega eru það viss tímamót að heimsækja þennan risa í austrinu. Ástæðan er sú að af einhverjum ástæðum hef ég í fortíðinni verið miklu minna spennt fyrir Kína en flestum öðrum löndum, að minnsta kosti þeim sem við höfum heimsótt fram að þessu. Það er erfitt að segja til um hverju. Kannski hugsunin um fjölda án sérkenna? Líklega hefur "Beijing," í merkingunni kínversk stjórnvöld mikið að segja. Kúgunin á íbúum Tíbet, ofsótti Falun Gong leikifimihópurinn sem ég mótmælti með af heilum hug heima fyrir nokkrum árum... Og kannski það versta af öllu: Hugsanalögreglan.

Við fyrstu sýn náði Peking ekki sérstaklega vel til mín eftir mögnuðu Tókýó. En það var líka í gegnum bílrúðu á leið frá flugvellinum, á degi þar sem mengunin sýndi enga miskunn og allt var grátt. Auk þess sem Anna Pála var þunn og þreytt eftir Japan Grand Finale.

Síðan þá hef ég reynt að vinna bug á fordómunum. Og viti menn. Það er fleira til í Peking en stjórnvöld og mannþröng.

Mannþröngin er vissulega til staðar en í henni eru, jú, einstaklingar. Maðurinn á hraðferð sem gaf sér samt tíma til að beygja sig eftir lestarmiðanum mínum og brosa. Öldungurinn í Maó-búningnum með allt sitt í pinklum og plastpokum í lestinni, vísast að flytja til borgarinnar eins og allir. Magadansmærin á mið-austurlenska staðnum í gær sem seinna um kvöldið sást yfirgefa staðinn í ullarpeysu.

Og það er orka í þessari borg, því er ekki logið. Rosaleg þensla. Á Torgi hins himneska friðar blakta tugir eldrauðra fána við hún og Maó horfir á með vökulum, risastórum augum af hliðinu inn í Forboðnu borgina. En á torginu eru líka Ólympíufígúrurnar fyrir 2008 búnar að koma sér fyrir og verið er að fjölga í neðanjarðarlestakerfinu úr þremur leiðum í ellefu. Hálf Forboðna borgin sést ekki fyrir stillösum en það sem er komið úr andlitslyftingu lítur vel út.

Mitt í allri "allt að gerast" stemmningunni er Sumarhöllin á sínum stað. Hún er svo ofsalega falleg.

Pekingöndin í fyrrakvöld var dásamleg. Dásamleg, dásamleg. Maturinn miklu betri en ég átti von á. Félagsskapurinn ekki verri. Við erum svo heppnar að tvær yndislegar kínverskustúdínur hafa skotið yfir okkur íslensku skjólshúsi. Og tóku með okkur íslenskt djamm í Peking í gær þar sem endað var á Torginu ásamt svona þrjú þúsund Kínverjum að horfa á fánahyllingarathöfn við sólarupprás. Upplifun.

Og níu milljón reiðhjól.


Eeeldhressar af djamminu i Tokyo

Tad aetti ad vera skylda fyrir alla ad profa karoki i Japan. Til ad toppa tad er mjoog fint ad skreppa a hverfiskrana i godu hverfi i midborginni og fa ser trja netta adur en madur krassar heima hja hressustu djammkonu Japans.

Svo er voda fint ad eiga flug til Peking nokkrum klukkutimum seinna. Tetta gaeti ordid eitthvad skrautlegt. Eg vona ad eg turfi ekki ad blogga a eftir til ad tilkynna ad vid hofum misst af fluginu.

Tad er sorglegt ad fara fra Japan tvi tad hefur verid svo ofsalega gaman. Enda ekki vid odru ad buast i landi sem hefur upp a svona margt ad bjoda og ta serstaklega gott folk.

Tad er lika skrytid ad vera a svona framandi stad en taka bara eina lest og lida mest eins og a Islandi i allri ferdinni -hveralykt, eldfjoll og heitar uppsprettur. Japonsku jardbodin -onsen, eru snilldin ein.

Madur fer ad sjalfsogdu ekki i Harajuku hverfid i Tokyo an tess ad fjarfesta i eins og einum mjog surum fylgihlut. Ad tessu sinni bleikur bill, sem raunar er handtaska. Hann hefur hlotid nafnid Mari, i hofudid a henni Mariko sem finnst islenskt "brennirin" gott og gaeti drukkid okkur undir bordid ef hun vildi. Eins og hun benti to a herna adan: "En eg er ekki bill!"

Takk kaerlega fyrir tetta. Adal tilgangur tessarar faerslu hlytur ad vera ad bidja ad heilsa ollum sem eru i skolanum heima tegar tetta er skrifad og vid vorum ad skrida heim af djamminu. 

We Are the Champions.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband