Komin heim

Mætt á klakann. Allt við sama heygarðshornið. Ég líka. Klukkan tólf á mánudag á harðahlaupum um Vesturbæinn að reyna að ná í tíma í Lögbergi. Það eina sem hefur breyst í þessu öllu að virðist, er að ég er massaðri á bakinu og með smávegis ör á kjálkanum sem mamma taldi að væri varalitur.

Ég hélt að fjórir mánuðir yrðu svo langur tími. Og jú, það virðist langt síðan ég var í Suður-Afríku að taka máltækið "fall er fararheil" einum of bókstaflega. Samt er eins og ég hafi farið í gær.

Vil þakka öllum sem komu að því verkefni að halda fyrir mig jól, áramót og þrettánda á einu kvöldi nánast um leið og við vorum komnar út úr flugvélinni á laugardaginn. Pakkar og skaup á einu kvöldi. Hver getur beðið um meira. Hafði mikinn húmor fyrir skaupinu svo það komi fram.

Bandaríkin voru hress. Í Miami keyrðum við m.a. í gegnum Litlu-Havana en þar búa að sögn Bjarna Más, Kúbverjar sem hata Castro. Þeir eru augljóslega jafn kaþólskir og páfinn því ekkert var að gerast á nýársdag. Hverfið virkaði samt skemmtilegt. Örugglega áhugavert að spjalla við liðið um stjórnmál. Eða bara heyra góða músík, drekka mojito, borða svört hrísgrjón og anda að sér vindlalykt.

Annað áhugavert svæði var sjálfstjórnarsvæði indjána sem alríkisstjórn BNA var svo ljúf og góð að láta þeim í té. Á miðju fúlu fenjasvæði reyndar og fjarri heimahögum þeirra. En það er víst aukaatriði. Á bensínstöðinni var ítrekað að menn skyldu klæðast skyrtum og skóm inni í búðinni. Á þessu svæði er líka eina spilavítið á Flórída, því ríkið Flórída bannar spilavíti. Svo indjánarnir mokgræða og samkvæmt sósíalísku kerfi er myndarlegum ágóðanum dreift á milli þeirra allra. 

Svo mæli ég með Harlem. Stórskemmtilegt. Verst ef túristar á borð við sjálfa mig fara að taka yfir mannlífið á staðnum. Næst þegar ég fer til New York verður garanterað farið í gospelmessu á sunnudegi eða hiphopmessu á fimmtudagskvöldi. Fyrir þá sem finnst dýrt að borða á Manhattan, er athugandi að fá sér einn sveittan inní Harlem. 

Nú. Ég persónulega þekki þrjá aðila sem búsettir eru í átján milljón manna borginni New York. Varði vinur og snillingur opnaði heimili sitt þar sem við sváfum í rúminu hans og borðuðum mömmukökurnar hans. Áttum góðan tíma með Uglu, sem kom með í Harlem. Seinasta kvöldið rakst ég síðan fyrir eintóma tilviljun á hana Birnu Önnu samstarfskonu af Mogganum og félaga í Gjellufélaginu. Þetta er ekki svo stór heimur. Þess má geta að okkur Birnu hefur ruglað saman og við verið taldar líkar. Skil ekki alveg af hverju. En það var óvænt ánægja að hitta hana. 

Ég verð síðan að játa að í bland við alla spennuna að koma heim og hitta fólkið mitt, var bara talsvert stress. Koma heim og detta inn í rútínuna (sem mér finnst almennt leiðinlegt fyrirbæri og gengur illa að halda mig við). Standa mig í skólanum. Spara. Vakna í myrkrinu. Fá ekki innblástur  í lífinu upp í hendurnar daglega heldur þurfa að finna hann sjálf.

Annars almenn niðurstaða eftir ferðalagið er að ég lifi afskaplega góðu lífi á Íslandi. Líka þótt heimurinn minn hérna sé frekar lítill.

Er annars að spá í að birta eina stutta færslu í viðbót, með vangaveltum um einhver praktísk atriði á ferðalögum. Þótt ég sé ekki útlærð í faginu gætu einhverjir punktar kannski nýst þeim sem láta verða af að leggja í hann. 

Eftir það verður þetta blogg aftur hefðbundinn hluti af síbyljunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

innlitskvitt

Ólafur fannberg, 10.1.2007 kl. 08:32

2 Smámynd: Pálína Erna Ásgeirsdóttir

Mér finnst ég barahafa skroppið í smá frí svo lifandi hafa lýsingar þínar verið. Velkominn heim á klakann eða ætti ég að segja í klakann?

Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 10.1.2007 kl. 14:40

3 identicon

Takk fyrir hressandi skrif og velkomin heim!

 Hrund

Hrund (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 16:46

4 identicon

Búin að lesa allar færslurnar þínar úr ferðalaginu. Nú held ég áfram að lesa því síðan þín er komin í farvorites hjá mér.

Gott að þið komust heilar heim

Greta (mágkona Essýar)

Greta (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 17:40

5 identicon

Hæ skvís og velkomin heim. Búið að vera ótrúlega gaman að fylgjast með ferðalaginu, hefur haft mikil áhrif á ævintýraþránna.   Stefanía

Stefanía (IP-tala skráð) 16.1.2007 kl. 11:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband