"Gerist þetta á klukkutíma fresti hérna?" & Heat vs. Lakers -Minnisstæð jól í Ameríku

Sameinuðu þjóðirnar

Bandaríkin eru aðeins of skuggalega nálægt raunveruleikanum. Eða hversdagsleikanum öllu heldur. Ég veit ekki alveg með raunveruleikann hérna, þetta er allt svo súrt.*

Að vera í BNA er eins og að vera heima hjá sér að mörgu leyti, svo marineraður er maður af sjónvarpsefni og bíómyndum. Samt hef ég bara einu sinni verið hérna áður og þá í Boston. Líklega er ég núna að tala eins og Bandaríkjamenn sem tala um Evrópu í einu orði. San Fransisco, New York og Miami/Flórída eru ólíkir fulltrúar eins ríkis. Og þetta er allt áhugavert og skemmtilegt. En það er ekkert menningarsjokk, engin tilfinning fyrir einhverju sem er samtímis óþolandi erfitt og óendanlega heillandi (fatabúðirnar etv?). 

New York og San Fransisco eiga sameiginlegt að vera skemmtilegar heimsborgir með sál. Ég á erfitt með að ákveða hvor komst nær manni. NY fær reyndar lengri séns vegna annarrar viðkomu þar eftir áramótin. Sem "gamall hippi," þ.e. MH-ingur alltaf, átti "San Fran" greiða leið að hjartanu. Þessi endalausu hverfi sem eru fullkomin til að bara horfa á fólkið. Castro er gay hverfið og þar var sérlega skemmtilegt að horfa inn um gluggana á troðnu kaffihúsi/bar þar sem allir kúnnarnir voru karlmenn á besta aldri. Gat ekki varist því að hugsa um af hverju ég veit um svona ofsalega fáa eldri homma á Íslandi. Ástæðan? En já, enn skemmtilegra hefði þó verið að komast í bíóið sem sýndi annars vegar Grease og hins vegar Sound of Music seinna um kvöldið. Ekki merkilegt nema sýningarnar voru SING-A-LONG! Ég sé bara fyrir mér fullan sal af hommum að syngja með lögunum úr Söngvaseið. Brilljant. 

New York er hrárri og já, bara öðruvísi. Þið hafið örugglega öll séð það í bíómyndunum. Appelsína og epli. NY er að sumu leyti einhvern veginn engin látalæti. Inn á milli eru þó hlutir sem fara með þá lýsingu í hálfhring. Trump Tower.

Og talandi um bíómyndir. Aðal jólastemmningin í Stóra eplinu rétt fyrir jól, var Þorláksmessukvöld við skautasvellið hjá Rockefeller Center. Í eins og hálfs tíma biðröðinni hlustaði maður á jólalög og horfði á mannmergðina og skemmti sér hið besta. Ekki síst yfir bónorðunum tveimur sem áttu sér stað á ísnum með tilheyrandi fagnaðarlátum áhorfenda. Eins og kona í áhorfendahópnum orðaði það: "Does this happen every hour ´round here?"   

Meðal annars var svo farið í heimsókn á Ground Zero, þar sem unnið er í rústum Tvíburaturnanna, að því að byggja glæstan turn og minnismerki um ódrepandi anda Bandaríkjamanna. Sem er skiljanlegt. Fólk vill sýna að það geti risið eins og Fönix úr öskunni án þess að á sjái. Að stoltið sé ennþá til staðar og að ekki verði látið bugast. Maður stendur þarna og skoðar myndir af lögreglufólki sem fórnaði lífinu fyrir aðra við björgunarstörfin, og hugleiðir þá staðreynd að næstum þrjú þúsund manns dóu þennan dag í árás á byggingu fulla af saklausum borgurum. Líklega kom það svolítið nær mér að standa þarna og hugsa um afleiðingar 9/11 fyrir Bandaríkjamenn. Um leið er jafn sorglegt að hugsa um hvaða dómínó fór af stað þarna og hversu margir hafa dáið í eftirleiknum. Eins og Schwarzenegger persónan í World Trade Center Olivers Stone sagði: "Someone must avenge for this," eða eitthvað á þá leið og fór svo tvo túra til Íraks. Og á hverjum bitnar hefndin?

---

Annars er Flórída-ríki nokkuð óvenjulegt umhverfi fyrir jólahald. Ekki laust við að maður hafi saknað  þorláksmessu með stelpunum, aðfangadags með familíunni og jóladags í allsherjarheilsdagsjólaboðinu hjá Guggu frænku. Þessarar venjulegu stemmningar. Í staðinn fengust jól sem munu alltaf verða minnisstæð Ferðafélaginu Sápunni. Sem nú nýtur sérlega upplífgandi félagsskapar Bjarna Más.

Það er ekkert sérstaklega slæm leið til að eyða jóladegi (fyrir utan Gugguboð já), að fara á Miami Heat - Los Angeles Lakers, á heimavelli Heat. Sem unnu þar að auki þrátt fyrir verri stöðu þessara núverandi NBA meistara. Kobe Bryant hefur líklega verið þunnur og átti arfaslakan leik. -"Let´s Go Heat! Let´s Go Heat!" "Goood Mourniiiing!"-

Svo þarf maður bara að passa sig á krókódílunum. Góðar stundir og gleðilega rest.

Versla í jólamatinn

*Súrt í merkingunni: Grillað, öðruvísi, flippað. Mögulega með snert af hallærisleika eða "Hvað í djöflinum er verið að pæla?" Að einhver sé súr þýðir s.s. ekki að hann sé í fýlu eða niðurdrepandi eins og sumir nota þetta orð. Meira svona tengt því að hann sé á sýru. Ef Mörður Árnason er að lesa, hefur ekki verið legið yfir þessari orðskýringu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

kvitt

Ólafur fannberg, 28.12.2006 kl. 08:16

2 identicon

Ykkar Bjarna var sárt saknað í Gugguboði. En Kaninn er sem sagt að gera þetta í alvörunni eins og í bíómyndunum? Að biðja einhvers á Rockefeller Center? Djöfull sé ég ekki fyrir mér Íslending fara á skeljarnar á TM-svellinu (það er sko komið svell á Ingólfstorgi Anna Pála) niðrí bæ.

Sindri (IP-tala skráð) 28.12.2006 kl. 17:07

3 Smámynd: Kristján Þór Sverrisson

"There are no cats in America" sungu rússnesku mýsnar. Gleðileg jól og gott nýtt ár! Kristján Þór og co.

Kristján Þór Sverrisson, 29.12.2006 kl. 15:23

4 Smámynd: Fanney Dóra Sigurjónsdóttir

Þú ert orðin fáránlega tönuð kona... Skora á þig í Meistarann sem fyrst!

Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, 29.12.2006 kl. 20:02

5 identicon

Home, sweet home......heima er best !!! Hangikjöt í pottinum, ís með möndlu í frystinum, jólagjafir undir trénu, kerti í glugga, hreint á rúmum, kirkjan komin í stofugluggann,pabbi með svuntu, mamma að "dekkurera".......mæting 1800 á síðasta degi jóla.

mamma og pabbi (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 21:29

6 Smámynd: Ugla Egilsdóttir

Hæ! Ertu komin til NY? Ú mig langar að hitta þig.

Ugla Egilsdóttir, 3.1.2007 kl. 07:35

7 Smámynd: Pálína Erna Ásgeirsdóttir

Ég tek undir orð Fanneyjar og Ugl! Áfram Anna Pála, alltaf jafn gaman að lesa pistlana þína.

Pálína Erna Ásgeirsdóttir, 6.1.2007 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband