Skiptar skoðanir um valdarán, á Fiji þar sem allt hefur sinn tíma...

Það varð ekki áþreifanlega vart við að nýlega hefði átt sér stað valdarán á Fiji. Að minnsta kosti ekki á vesturströnd aðaleyjarinnar Viti Levu, og smáeyjunum þar út af. Túristarnir gátu alveg lifað áhyggjulausir inni í loftbólu sem nær yfir ströndina og barinn og hefur alþjóðlega skírskotun. Fiji strendurnar eru raunar mjög fallegar. 

Hins vegar er allt í kringum þetta valdarán fremur grillað ef maður fer að kynna sér málið. Íbúarnir voru flestir til í að ræða málið ef maður fór að forvitnast. Af þeim sem ég spurði spjörunum úr um þeirra álit, og það var alls konar fólk, var um helmingur á móti og hinn fylgjandi. Og af hverju voru menn fylgjandi? -Það var svo mikill spilling hjá gömlu stjórninni, vildi einn meina. Á því keyrir einmitt herforinginn sem stendur fyrir valdaráninu, commodore Baininarama eitthvað svoleiðis held ég að hann heiti. Eða bara Bananarama. Hann ætlar að setja á fót sérstaka nefnd til að rannsaka spillingu fyrrum stjórnarinnar. Og auglýsir störf ráðherra í dagblöðunum. 

Það er mjög áhugavert að bera saman þetta valdarán og það sem hafði átt sér stað í Taílandi rétt áður en við komum þangað í október. Þar var einmitt spilling uppgefin ástæða þess að herinn tók yfir og hrakti forsætisráðherrann frá með stuðningi konungs. Menntafólkið studdi herinn og ágætur maður hvers félagsskapar maður fékk að njóta í Bangkok, gaf dæmi um milljarða skattsvik forsætisráðherrans sjálfs. Hann hefði samt notið hylli meðal almúgans en meðal annars borgað fyrir atkvæði. Og nú spyr maður sig: Hvað er mikið til í spillingarásökunum á Fiji? Og hvenær er réttlætanlegt að ganga á lýðræðislegan vilja?

Að minnsta kosti voru margir íbúar þessa fyrrum lýðræðisríkis ósáttir. Og einhverjir hagfræðingar voru með grenjur í blaðagrein um hugsanlegt afnám alls virðisaukaskatts. Vinur okkar B taldi það hins vegar augljósa búbót fyrir fólkið í landinu. 

Fólkið sem lifir lífinu á Fiji-tíma, sem er mikið notað hugtak þar og þykir gott. Grundvallaratriðið er að stressa sig ekki á klukkunni eða skipulagi á hlutunum. Sem er ljúft í sjálfu sér. Mjög ljúft. En þegar maður er til dæmis á leiðinni í flug eða annað á ákveðnum tíma er það ekki alveg jafn hentugt. Hið einfalda verkefni kaupa frímerki á kortin sem ég var að skrifa breyttist í eitthvað mun flóknara og á endanum var það upp á gæsku indverskættaðrar yngismeyjar komið, að líma frímerkin á og koma þeim í póstkassann. Spennandi að sjá hvort þau skila sér. Ég skilaði mér rétt svo í flugið.

Held að margir hafi haft áhyggjur af þessu Fiji-ferðalagi. Það var semsagt tilefnislaust. Þegar við komum hingað til San Fransisco var líklega meiri ástæða til að stressa sig yfir okkur og farangri heldur en nokkurn tímann á Fiji. Það var nefnilega byrjað á að þramma göturnar í eiturlyfja- og vændishverfinu að kvöldi til.  

Dásamlega fjölbreytt mannlíf hérna -ekki bara hommar og hippar þótt nóg sé af þeim. Get svarið að annar hver karlmaður er hommi. Og brekkurnar svo brattar, brattar, að íbúarnir eru líklega í MRL (magi, rass, læri..) tíma mörgum sinnum á dag. San Fransisco er algjört tívolí.

Vildi að ég ætti mangótré í garðinum heima eins og á Fiji.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

gleðilega hátið

Ólafur fannberg, 20.12.2006 kl. 08:12

2 identicon

Ahugavert að lesa hvernig þú upplifðir vestrið. Ég skrepp til Lautoka og Ba yfir jólahelgina. Ba er þar sem menn voru (eru enn?) að spá í að setja upp nýja ríkisstjórn, óháða bæði herstjórninni og þeirra sem bylt. Já, þetta er flókið mál allt saman. /HelgaBára 

Helga Bára (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 18:36

3 Smámynd: Ugla Egilsdóttir

Haebbsi. Thetta er ansi hreint rosalegt ferdalag a ykkur. Hvenaer kemurdu fra Miami?

Ugla Egilsdóttir, 22.12.2006 kl. 03:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband