Brimbretti á Bondi Beach & rúntað út í nýsjálenska óvissu. Og nýjar myndir!

Liðnir eru dagarnir á Balí þar sem eina truflunin á sólbekknum var að vakna við að hafa óvart slefað yfir sig. Í millitíðinni var ásamt ýmsu öðru afrekað að hlaða inn slatta af nýjum myndum úr ferðalaginu, í þeim fádæma lúxus aðstæðum þráðlausu interneti. Ekki allt ferðalagið, en vessgú samt og njótið vel.

---

Sólin skín lágt á lofti og gyllir öldutoppana. Afar myndrænt. Í dag eru öldurnar reiðar og ef maður lendir inni í þeim er það eins og í þvottavél. En einhvern veginn hefur maður það af að berjast gegnum grynningarnar með meira en mannhæðarhátt brimbretti undir höndum. Bíður eftir réttu öldunni. Á eftir þessari hérna. Kasta sér á móti henni svo hún taki mann ekki með sér í átt til strandar. Og nú upp á brettið, fljótt fljótt. Ná jafnvægi. Tærnar við endann á brettinu, líkaminn beinn og viðbúinn öllu. Haukfrán augu á ströndinni. Róa af stað með höndunum. Róa, róa! Og svo kemur aldan sem beðið er eftir og adrenalínið með. Brettið geysist af stað, handleggirnir undir brjóstkassanum og viðbúnir að lyfta manni upp. Þungi settur í lappirnar... Og franskættaður byrjandi bókstaflega keyrir yfir mann. Á bretti sem fer sínar eigin leiðir og hún á jafnlangt í að stjórna af öryggi og maður sjálfur.

Og svo veður maður aftur í öldurnar og þetta er svo fáránlega gaman. Jafnvel þótt maður standi sig eins og, tja, byrjandi. Muniði hvernig fólk er þegar það stígur á skíði í fyrsta skipti? En aðdragandinn að hverri einustu byltu gefur fyrirheit um hvað þetta getur verið ólýsanlegt.

Brimbretti á Bondi Beach krakkar. Endilega prófa það. Ekki síður skemmtilegt að sjá að þessi frægasta strönd Ástralíu og álfunnar allrar er umkringd allt að því venjulegu íbúðarhverfi auk slatta af veitingastöðum og kaffihúsum. Benidorm stemmnningin fjarri góðu gamni. Göngutúrinn yfir á nærliggjandi strandir var frekar fínn, útsýnið alveg sjúkt. Og við Tamarama strönd varð mér hugsað til frisbí-iðkandi vinar því ég hef aldrei séð neinn stað jafn vel fallinn fyrir það sport.

Ekki verra að geta skroppið aðeins á brimbretti fyrir vinnu. Eða keyra daglega yfir Sydney Harbour Bridge, sem er önnur stærsta stálbrú heims, fullbyggð um 1930 og er "hitt" fræga mannvirki borgarinnar. Þar sem tveir fyrrum íbúar borgarinnar töldu ótækt annað en láta hafa sig út í að klifra upp á brúna, hvað gerir maður þá nema: Láta setja sig í galla sem líkist einhverju frá hallærislegustu plánetunni í Star Trek og klifra upp á helvítis brúna? Upp brunastiga sem liggur milli sjöundu og áttundu akreina brúarinnar og þaðan upp á stálbogann sjálfan. -Og já, það var þess virði. Ætli höfnin og borgin í heiðskíru sé ekki með því flottara.

---

Svo er maður bara mættur ásamt eiginkonunni til Nýja-Sjálands. Helginni eytt í Auckland. Held maður gæti orðið ástfanginn upp yfir haus. Af landinu, ekki konunni. Hver einasti maður geislar af fádæma hlýju og hjálpsemi. Allt afslappað og þægilegt. Hentar vel fyrir fólk sem er nýbúið að læra að segja "no worries," við öll tækifæri í Ástralíu og finnst það fínt viðhorf.

Nuna eru það þjóðvegirnir. 500 km so far. Roadtrip í litlum bílaleigubíl sem heitir eins og stendur Cookie Monster, i takt vid bilstjorana. Stefnan tekin á heimahaga maóra sem eru frumbyggjar landsins, meinta ólýsanlega náttúrufegurð, Hobbitaþorpið, alvöru rafting, höfuðborgina Wellington og jafnvel eitthvað fleira eða færra. Nú finn ég fiðringinn..

E.S. Vardandi Fiji: Stefnan er eins og stendur enntha tekin thangad. En ekki til hofudborgarinnar tar sem oll aksjonin er, eda verdur ef eitthvad alvarlegra en tetta gerist. Verdum to bara i fimm daga. En engar ahyggjur, fylgjumst vel med frettum og breytum fluginu ef astandid versnar.


mbl.is Valdarán hafið á Fiji-eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ný færsla gleður hér gamla konu!  Tveir tímar í lokapróf í atmosfärkúrsnum, er að manna mig upp í baráttugírinn.  Kemur ekki annað til greina en að massa þetta - þú mátt samt reyna að ala Ástralina upp í gróðurhúsalofttegundapakkanum!  ;-)

Annars styttist í "okkur" - mig og þig á sama landi á sama tíma.  Og ekki nóg með það.  Söndrin bíða þín bæði tvö á Íslandi - og það alveg fram til 13. jan!  Stefnir í fullskipaðan hitting þann 12. þegar Dagga snýr aftur! Á næsta ári panta ég ykkur allar á afmælisdaginn!

 Hafðu það gott elsku anna pála, á morgun er mánuður, svo nýttu tímann vel - en ekki gleyma að hlakka til líka.  Já og farðu svo varlega

-Móðir þín í Svíþjóð 

sandra ósk (IP-tala skráð) 5.12.2006 kl. 06:16

2 Smámynd: Vigdís Sigurðardóttir

Elsku Anna Pála mikið óskaplega þótti mér vænt um að heyra í þér í síðustu viku!  Þá fattaði ég líka að það er ekki svo rosalega langt þangað til þið komið heim, þá verða sko fagnaðarfundir...!!!

Við erum strax byrjaðar að plana hitting 12. jan. þar sem við verðum, ótrúlegt en satt, allar á landinu þá :) 

Annars megiði endilega senda mér alla ykkar stjórnsýsluréttar krafta á föstudaginn milli 9 og 12 að íslenskum tíma, þar sem hann hefur aðeins fengið að sitja á hakanum þessa önnina...

Knús af klakanum!! 

Vigdís Sigurðardóttir, 6.12.2006 kl. 22:02

3 Smámynd: Magnús Már Guðmundsson

Þúsund þakkir fyrir dúndur hresst símtal og spjall. Ég var að blogga ykkur til heiðurs. Bestu kveðjur á Barböru. Sjáumst á nýju ári.

Magnús Már Guðmundsson, 8.12.2006 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband