Prófessorinn

Þetta kemur mínum nánustu líklega lítið á óvart. En ég þurfti s.s. að ná í nýja kjólinn minn út í ruslatunnu áðan. Þetta er dýrindis fegurðar silkikjóll sem kostaði full marga dollara fyrir efnahag heimilisins og eiginlega það eina sem ég keypti í DC sem ekki var tiltölulega praktískt. Og ég semsagt tróð honum ofan í ruslapoka af miklum skörungsskap þegar ég var að taka til og henti út í tunnu. Hann var búinn að vera þar í tvo daga þegar ég uppgötvaði þetta áðan. En slapp merkilega vel í öllu tilliti.

FRELSUM ÁLANDSEYJAR

Fólk heldur kannski að Dagur B. Eggertsson sé fyrirmyndarmaður. Ég er hins vegar búin að sjá í gegnum hann. Spurning dagsins er hvers konar ólyfjan hann hefur verið að lauma í kaffið hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins undanfarið hálft ár. Ég sé engar aðrar skýringar á hegðun þess góða fólks. Annað læknismenntað fólk getur kannski upplýst þetta.

Tæmamyndavél_09.08.07 322Annars er ég nýkomin heim úr 10 daga magnaðri ferð til Washington D.C. Við náðum besta árangri íslenska liðsins í alþjóðlegu Jessup málflutningskeppninni, frá landnámi. Mikil hamingja. Við unnum líka fyrir þessu. Þar sem ég var svo heppin að lenda í herbergi á FairMONT hótelinu (þar sem keppnin er haldin) sem var stærra en stúdentaíbúðin sem ég bjó í á Lindargötunni, voru settar upp þar æfingabúðir liðsins og ruslafötunum breytt í ræðupúlt. Þar sátum við fimm síðan nótt og dag á milli þess sem við skutumst til að keppa og glöggvuðum okkur á baráttunni gegn hryðjuverkum gegn vernd mannréttinda út frá sjónarhóli þjóðaréttarins og málsatvika sem við vorum að vinna með. Fullveldi ríkja og friðhelgi fyrrum þjóðarleiðtoga frá lögsögu annarra ríkja kom líka við sögu og margt fleira. 

Tæmamyndavél_09.08.07 376Fyrst og fremst kom þó við sögu FRELSI ÁLANDSEYJA. Ok, kannski ekki í keppninni sjálfri þar sem við fengum aldrei þá spurningu frá dómurum (Jessup virkar þannig að þú heldur ekki ræðu í rúmar 20 mínútur - nei, þú ert grilluð af dómurum með erfiðar spurningar í 20 mínútur milli þess sem þú reynir að byggja málið þitt gagnvart þeim). Við vorum búin að afla fjölda stuðningsmanna við sjálfstæði Álandseyja meðal keppenda í Jessup- sem kemur sér vel þar sem þetta var allt fólk með þekkingu á alþjóðalögum.

Daginn sem Solla, AKA ráðherra utanríkismála, var í bænum og fundaði með Condi Rice vorum við að hugsa um að mæta fyrir utan ráðuneytið með mótmælaskilti á íslensku. Á þeim yrði krafan um frjálsar Álandseyjar (the Åland islands - það tók mig áttatíuogfjórar tilraunir að segja þetta með sænskum hreim án þess að skella uppúr). Eða þá ÞOTURNAR HEIM! Solla sagði mér síðan að við hefðum líklega ekki komist að fyrir öðrum mótmælendum. Við fórum frekar í skoðunarferð. Hins vegar var lögð nokkur vinna í mótmæli sem fram fóru á ákveðnu hóteli um nótt. Við Eggert fórum margar ferðir upp og niður með lyftunum þar til að ná að festa upp skiltin í þeim öllum. Þar að auki hótaði ég finnskum strák þeirri stórkostlegustu svívirðingu sem hægt er að hugsa sér: "Ef þú frelsar ekki Álandseyjar mæti ég til Finnlands og fer í sánu Í ÖLLUM FÖTUNUM!" Þess ber að geta að íslenska sendiráðið í DC átti hugmyndina að þessari móðgun. Þau hafa kannski einhvern tímann notað það í samskiptum við Finna með góðum árangri.

Að lokum vil ég þakka Birnu Þórarins, mastersnema í öryggisfræðum við Georgetown og snillingi að atvinnu, kærlega fyrir skemmtilega fundi í vorinu í DC þegar keppni var lokið. Með henni fór ég m.a. í frábæran tíma um afvopnunarsamninga í Georgetown og í tryllt háskólapartý.


Ég verð orðin fertug áður en ég veit af

Þetta hérna er snilld dagsins.

Bloggið mitt hefur reyndar aldrei átt að verða neitt tilkynningarskyldublogg en maður getur víst ekki verið ofvirkur alls staðar.

Hasta la vista. 

 


SUF: Tólf stig!

Þetta er bara alveg frábær hugmynd hjá Sambandi ungra framsóknarmanna. Við kjósum forseta í sumar og því ekki að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu í leiðinni, um hvort fara eigi í aðildarviðræður við ESB.

Sjálf ályktuðum við um daginn þess efnis að það sé ekkert því til fyrirstöðu að fara í aðildarviðræður til þess að það liggi bara í alvöru fyrir um hvað við erum að tala þegar kostir og gallar aðildar eru ræddir. Auðvitað þarf að skilgreina samningsmarkmið áður en það verður gert, eins og SUF fer fram á. 

SUF verður svo sannarlega bakkað upp af Ungum jafnaðarmönnum með þessa tillögu.


mbl.is SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleik og hvít orka

Verð bara að deila því með vinum og kunningjum nær og fjær hvað helgin á Akureyri var frábær. Mátti ekki á milli sjá hvort var betra, Bleik orka hjá Ungum jafnaðarmönnum á Akureyri á laugardaginn eða skíði í Hlíðarfjalli á sunnudaginn. Ég hafði ekki farið á skíði í tíu ár en kom sjálfri mér á óvart í færni og þetta var hreinn unaður.

Bleik orka var ráðstefna haldin í tilefni alþjóðabaráttudags kvenna 8. mars. Margir frábærir fyrirlesarar komu þarna inn og ég lærði heilmargt - og fylltist baráttuanda auðvitað. Okkar eigin magnaða Jóhanna Sigurðar, dr. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir frá IMG var með mjög fróðlegt erindi með allskonar tölfræði inn í eins og um launavæntingar ungra stelpna og stráka og hvernig við getum útrýmt kynbundnum launamun sem ríkisstjórn Samfó ætlar að minnka um helming hjá ríkinu. Punktur sem ég tengdi vel við hjá Guðbjörgu er að það vantar upplýsingar um hver eru meðallaun í stéttinni manns til að geta sett fram kröfur sjálfur þegar kemur út á vinnumarkaðinn. Ekki svo ofsalega langt í það hjá sjálfri mér, en samt ekki fyrr en á næsta ári.

Eva Bjarna, framkvæmdastjóri UJ var með frábært erindi um kynjajafnrétti fyrir og eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu þar sem punkturinn var m.a. að kerfisbreytingar skila okkur ekki því sem við erum að leita að ef viðhorfin breytast ekki í takt. Kristín Ástgeirs var flott að vanda og fór í sögu kynjajafnréttis á Íslandi, Kalli Matt fjallaði síðan m.a. um femínisma og Biblíuna og nýtt frumvarp um kynjað námsefni. 

Síðasta og besta erindið var síðan frá Önnu Júlíusdóttur fiskverkakonu sem fór á kostum við að vekja mann. Hún gagnrýndi meðal annars hvernig mótvægisaðgerðir vegna þorskkvótaskerðingar hafa ekki gagnast nægilega þeim sem þarfnast þeirra mest - fiskverkakonum sem hafa misst vinnuna. Síðast en ekki síst brýndi hún okkur í því hvernig við allar - og öll - þurfum að standa saman í jafnréttisbaráttunni. Baráttan snýst ekki bara um fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja, eins og það er mikilvægt mál. Við þurfum að berjast hver fyrir aðra og það á jafnmikið við um fiskverkakonurnar og stjórnarkonurnar.


Fiðrildagangan kl átta!

Bara ef svo vill til að einhverjir sitja við tölvurnar núna - endilega sprettið á fætur og drífið ykkur niður á Laugaveg 42 (á móti Vínberinu) þar sem UNIFEM er til húsa ásamt UNICEF og Félagi Sameinuðu þjóðanna.

Þaðan fer Fiðrildaganga UNIFEM kl átta. Persónulega ætla ég að fjölmenna, enda finnst mér kvenfrelsi vera stærsta framfaramálið sem þarf að vinna að í heiminum. Það fylgir því svo ótrúlega margt jákvætt. 


„Nýtt álver gæti aukið hagvöxt“

Mér finnst þetta svo niðurlægjandi.

Ástin sigrar allt og Ég er jafnaðarmaður á laugardaginn

Ég ætti að vera löngu farin að sofa. Langir dagar framundan á morgun og hinn. Annað kvöld er sérstakt tilhlökkunarefni að enda á að fara í bíó með Fimmtudagsklúbbnum (sem raunar er farinn að hittast á þriðjudögum en heldur nafni sínu hvað mig varðar). Við ætlum á Into the Wild hans Sean Penn. Nokkrar væntingar í gangi af því ég hreifst svo af the Pledge sem hann gerði líka og ég datt á af rælni í Austurbæjarbíói með Hákoni vini fyrir einhverjum árum. Sandra Ósk, einn klúbbmeðlima, verður fjarri góðu gamni því hún ætlar raunverulega Into the Wild á Fimmvörðuhálsi yfir helgina. Það þýðir að hún fer í gegnum æskuslóðirnar mínar - einar þeirra - í Skógum. Sniff.

Allavega. Þessi færsla átti að vera um söknuð minn og fleiri eftir þýddum titlum á kvikmyndum. Þetta atriði þarf ekki að útskýra nánar.  En ég ætla að gera tilraun til að birta hér nokkrar þýðingar á þessum titli, Into the Wild. Minn eini metnaður er að þær séu slæmar: 

1. Á vit hinna óblíðu afla

2. Inní villimennskuna

3. Náttúran kallar

4. Villta tryllta náttúran 

5. Ástin sigrar allt

 

Fleiri uppástungur velkomnar. 

---

Annars er allt í fullum gangi við undirbúning fyrir stóra málefnaþingið okkar í UJ á Grand Hótel á laugardaginn. Þema þingsins er einfaldlega Ég er jafnaðarmaður en við eyðum líka góðu púðri í að ræða tvö samtímamálefni í ljósi jafnaðarstefnunnar: Málefni innflytjenda og Evrópumál. Sjá nánar hérna.

Síðan fréttin birtist hefur skráningum haldið áfram að rigna inn svo maður fer bara að hafa áhyggjur af plássinu. En það er gott mál. Og ég veit að það mun fara vel um okkur á Grand Hótel. Ég hlakka mjög til á laugardaginn.

---

Annars áttu alþjóðalög hug minn allan, a.m.k. á tímabili í síðustu viku þegar við vorum að æfa fyrir undankeppni í Jessup málflutningskeppninni hérna innanlands. Kepptum við lið lagadeilda HR og HA síðasta laugardag. Og viti menn, unnum. Ég er því á leið til Washington ásamt fimm karlmönnum í rúma viku í apríl til að taka þátt í aðalkeppninni. Málið fjallar m.a. um hryðjuverk, pyntingar, óréttlátan herdómstól, fullveldi ríkja, friðhelgi þjóðhöfðingja fyrir saksókn og fleira spennandi.


Símalaus

Æjæjæjæ. Síminn minn hvarf í nótt. Síðast þegar ég sá hann var hann uppi á borði á Ölstofunni. Bronslitaður Sony Ericson. Hans er sárt saknað. Þetta gerði að verkum að verulega reyndi á rannsóknarblaðamennskuna hjá honum Kristjáni á RÚV sem vildi fá mig í Morgunvaktina í fyrramálið. Hann hafði á endanum uppi á mér, hér í húsi foreldra minna. Planið hafði verið að lúlla uppí hjá litlu systur og rölta þennan stutta spöl í vinnuna niðri á Rauðarárstíg í fyrramálið.

Ef það á að draga eitthvað upp úr mér af viti kl. hálfátta í fyrramálið, ætti ég að koma mér í bólið fljótlega. Hausinn á mér er yfirleitt ekki mjög virkur fyrst á morgnana.

 

 


Bæjarferð í kvöld frestað vegna veðurs

og Taggart er að byrja. Ég elska Taggart. Ég er sátt.

Sjáumst í Skrílslátapartýinu annað kvöld.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband