Komin upp úr kafinu

Prófin búin og maður er orðinn Persónuverndari í fullu starfi. Gaman að því. Nokkrir hlutir sem ég hef þörf fyrir að koma á framfæri í stuttu máli áður en ég held áfram að vinna:

-- 

Ég er ekki sérstakt júrófrík, en ég er samt með hugmynd sem ég held að kæmi íslenska liðinu örugglega mun nær takmarki sínu á fimmtudaginn. Einhvern veginn myndi stemmningin alveg breytast ef skipt yrði bara um einn bókstaf í textanum: "This Is My Wife!"

--

Vefritið okkar tengir í dag á alveg frábæra bloggfærslu Sigrúnar Óskar, ritstjóra Skessuhorns á Akranesi, um málefni flóttamanna og Akranesbæjar. Hún tekur saman tíu staðreyndir í málinu eftir að hafa greinilega skoðað það vel. Sjálf hef ég margt um þetta að segja en meira um það síðar.

--

Það er allt brjálað að gera við þinglok eins og alþjóð veit og áðan kom upp með um eins og hálfs tíma fyrirvara að Kata okkar kæmist ekki til að flytja sinn reglulega pistil í Útvarpi Sögu. Konan sem tók að sér verkið í staðinn er hún Eva Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Ungra jafnaðarmanna - og hetja dagsins - því henni tókst að gera alveg frábæra hluti þrátt fyrir þennan skamma fyrirvara og messaði meðal annars yfir lýðnum um siðferði í neyslu. Talandi um hana Evu, þá erum við tvær og fleiri hressar stelpur búnar að leigja sumarbústað og ætlum á Tengslanetið á Bifröst. Það var svo frábærlega gaman þegar ég fór fyrir tveimur árum að ég hlakka ofboðslega til. Skrá sig og mæta stelpur! 


Sandra og co voru kýld!!!

angry_rgb... Svona hljómaði sms frá Dagbjörtu sem ég sá þegar ég vaknaði í morgun. Ég er í prófum og var því fjarri „góðu" gamni þegar einhverjir strákar undu sér upp að Söndru og félögum og ákváðu að hefja barsmíðar á bróður hennar á Laugaveginum miðjum í nótt. Litli bróðir með sauma í hausnum og allir með bólgur og kúlur - Sandra með sílikonvarir og allar tölurnar úr kápunni hennar slitnar af. Sveiattann.

 ---

Eins og fram hefur komið er Anna Pála í prófum. Var í einhverju slæmu skapi áðan þar til ég rifjaði upp æðislegt Bridget Jones augnablik frá því um daginn. Við eigum öll svoleiðis stundum: Nettur aulahrollur sem hægt er að hlæja vel að.

Var á Thorvaldsen með vinnufélögunum að borða (btw var þjónustan ekki alveg að gera sig þrátt fyrir góðan vilja starfsfólksins og maturinn var heldur ekkert spes hjá okkur öllum að þessu sinni). Umræðurnar orðnar fullþungar og leiðinlegar að mati ónefnds vinnufélaga - verið að tækla efnahagsmálin - svo hún ákveður að skipta um efni og segir stundarhátt yfir hópinn: Heyrðu svo var Önnu Pálu bara hent tvisvar út af eigin herbergi fyrir partýstand úti í Washington! (þetta var ekki jafn slæmt og það hljómar en alveg ofsalega gaman)... Og hver labbar inn í senuna einmitt á þessu augnabliki, nema elsku fyrrverandi tengdamóðir mín sem ég hafði ekki séð síðan við sambandsslitin í haust. Brillíant. En það var aldeilis frábært að sjá hana.


Próflestur vikunnar og maður vikunnar

Föstudagskvöld, próf á þriðjudaginn og einbeitingin gæti verið betri. Þá þarf að bíta á jaxlinn og horfa fram á við. Taumlaus gleði á dagskrá eftir próf. Og vinna auðvitað - en þar er nú oftar en ekki gleði. Próflokadinner með hressum stelpum, próflokapartý með hressum Ungum jafnaðarmönnum á laugardaginn eftir viku, eitthvað óákveðið flipp með Söndru vinkonu á þriðjudaginn,... Hákon sem bráðum kemur heim úr skólanum í Colorado átti þetta dásamlega komment hérna: „Í sumar verður þú svo dregin með í fjallgöngur með mér og Söndru, gegn vilja þínum ef það kemur til þess.“ Það verður aldeilis ekki gegn vilja mínum. Gott samt að vita af fólki sem myndi draga mig spriklandi og sparkandi ef til þess kæmi.

Nú þarf ég að reyna að gera eitthvað. Maður vikunnar á þessu bloggi er Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og stuðbolti, sem er afdráttarlaus um að ekki eigi að fara í eignarnám á Þjórsárbökkum. 


Samkynhneigð særir blygðunarkennd 42%

1GB-b-Indland-Nepal-Japan 347Ég fór óvænt á Útvarp Sögu í dag til að viðra skoðanir mínar í n.k. útvarpspistli. Gaman að því bara en nokkuð mikil ögrun að þurfa að tala í tuttugu mínútur í beinni svona uppúr sjálfri mér.

Datt inn á heimasíðu stöðvarinnar til að leita að heimilisfanginu og rakst þá á athyglisverða skoðanakönnun. Eftir að ég hafði smellt á Nei - samkynhneigð særir ekki blygðunarkennd mína, birtust niðurstöðurnar. Þegar þetta er skrifað hafa 225 manns kosið og telja rúmlega 42% að samkynhneigð særi blygðunarkennd þeirra.

Þessi staðreynd vakti mikla lukku hér í Lögbergi þar sem ég sit í próflestri. Búið að hlæja mikið. Samt grátbroslegt - veit ekki alveg hvað ég á að segja. Gott kannski að fólk sé heiðarlegt með hvað það hugsar. Ef þetta væri Gallup-könnun myndi ég síðan vilja sjá hvort það væri fylgni við að vilja t.d. banna samkynhneigðum að giftast eða ættleiða börn.

 

Myndin er tekin í Katmandú. Þar má ekki vera hommi en karlmenn mega hins vegar leiðast. Þetta særði ekki blygðunarkennd mína.

 


Mogginn minn, fólkið mitt þar, Félagshyggjuverðlaun og Ingibjörg Sólrún

Mér þykir alveg ofboðslega vænt um Morgunblaðið. Ástæðan er að ég vann þar meðfram skóla í fimm ár, allt þar til fyrir tæpu ári að ég fór að vinna á Persónuvernd. Síðan þá hef ég hitt gömlu félagana í nokkrum starfsmannapartýum og reynt að halda við tengslunum af því á Mogganum vann ég með svo mikið af frábæru fólki.

Ég var til dæmis sjanghæjuð á árshátíð Moggans í ár í bókstaflegri merkingu (með hálftíma fyrirvara til að fylla sæti sem losnaði óvænt - þau hringdu úr fyrirpartýinu) og skemmti mér konunglega. Var boðin hjartanlega velkomin í vinnu á fréttadeildinni í sumar ef ég vildi. En varð að hafna þessu kostaboði, ég verð áfram á Persónuvernd.

Líklega hugsa ég allt öðruvísi um Moggann en mörg flokkssystkini mín í Samfylkingunni. Þau lesa leiðaraskrifin og sjá rautt, eða öllu heldur blátt. Ég les blaðið sem allir blaðamennirnir skrifa og kíki svo á þennan plásslitla blaðhluta sem leiðaraskrifin eru, líka. Iðulega er ég eins og snúið roð í hundi við þann lestur. En það eru nú ekki nýjar fréttir að Anna Pála sé að spýta út úr sér morgunkaffinu um leið og hún les Staksteina. Það gerðist alveg jafn oft þegar ég vann á Mogganum.

Ég skrifaði fréttir og umgekkst hina blaðamennina, ljósmyndara og uppsetjara og svo fréttastjórana eða aðstoðarritstjórana við störfin. Styrmir var huggulegur kall úti í horni sem ég hafði minnst af að segja dagsdaglega og Agnesi mátti fíflast í í kaffistofunni þá sjaldan hún stóð kyrr í tvær sekúndur.  Mér fannst vinnan mín frábærlega skemmtileg og leið vel.

Kaffið mitt á seinni árum fékk líklega oftast að frussast þegar Staksteinar voru að drulla yfir (nei, ekki gagnrýna) Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu. Reyndar hefur stundum verið mikið sport að taka Dag Bé fyrir á sama hátt. Solla fær hins vegar að heyra það sirka þriðja hvern dag, beint eða óbeint. Ég hef oftast bara klárið kaffið mitt og ekki spáð frekar í það. Þetta er nefnilega svo augljós staðfesting á því að Ingibjörg Sólrún sé helsti ógnvaldurinn við það sem leiðarahöfundar Moggans standa fyrir.

Sjálf var ég sérstakur vinur Staksteina um daginn og fékk mjög skemmtilegan dálk um mig; Rauða hanzkann. Allra bezta mál og ég var mjög ánægð. En ég er heldur ekki mikil ógn ennþá.

Og í dag er ég ofboðslega reið út í Staksteinahöfund. Núna misnotar hann það sem ég sjálf var að gera, til að klekkja á Ingibjörgu Sólrúnu eina ferðina enn. Þetta var nú óþarfi! Staksteinar dagsins fjalla um Jóhönnu sem fékk Félagshyggjuverðlaun UJ fyrir þrjátíu ára þingmannsferil þar sem hún hefur aldrei gefið eftir í jafnaðarhugsjóninni. Staksteinahöfundur reynir síðan að taka Jóhönnu út fyrir ríkisstjórnina sem hún starfar í til að gera Sollu ótrúverðuga.

En eins og Jóhanna benti sjálf á við afhendinguna: Hún getur lyft grettistaki í félagsmálaráðuneytinu af því hún starfar í flokki sem leggur áherslu á jöfnuð og velferð og beitir sér þannig í ríkisstjórn. Af því flokksformaðurinn, þingflokkurinn og meðráðherrarnir standa þétt á bak við hana. Af því hún var valin til að sitja í fjárreiðuhópi ríkisstjórnarinnar ásamt Sollu, Geir og Árna Matt. Af því að í þetta skiptið er henni treyst til að framkvæma þann galdur sem hún er fær um.

Solla hefur verið mér mikil fyrirmynd frá því ég var krakki, ásamt öðrum sterkum konum á borð við Jóhönnu. Þetta átti jafnmikið við þegar ég var yngri og vann með VG um tíma og þegar ég vann á Mogganum. Það er eitur í mínum beinum þegar fólk reynir að draga hana í svaðið. Þess vegna dagaði mig uppi í áramótapartýi forðum daga: Félagarnir gáfust upp á mér og fóru. Ég var að verja ákvörðunina hennar að fara í þingframboð þótt ég sjálf væri í VG þá. Ég er ekki endilega sammála henni um nálgun í hverju einasta máli (skárra væri það nú) en ég treysti hennar pólitík og miða það við arfleifðina þegar hún hefur fengið tækifæri til áhrifa, frekar en út frá því hvað hún segir eða ekki. Af því það er auðvelt að tala, annað að framkvæma og hún hefur sýnt að hún kann bæði.

Ég hafna því alfarið að vera dregin inn í ófrægingarherferð Staksteina gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu.


Það er sól úti krakkar

... og inni á skrifstofunni hjá mér, sem nú verður yfirgefin!

Heyrði að veðurgoðin á Dalvík spái góðu sumri. Ég hef tröllatrú á að það reynist rétt. Nógu vel byrjar það. Frábær dagur í gær með sól og blíðu, mannlíf og baráttuanda í miðbæ Reykjavíkur. Flottar myndir í blöðunum í dag, m.a. af snillingum úr Stúdentaráði HÍ með "Sigurður Kári borgaði ekki skólagjöld!" borðann sinn. Samfylkingin á Borginni að vanda með skemmtilega samkomu: Góðar áminningar frá frá forsvarsmönnum BHM og Félags einstæðra foreldra og eldur út úr hjörtunum á Ingibjörgu Sólrúnu og Jóhönnu Sigurðar.

felagshyggjuverdlaunÉg afhenti fríðum flokki Félagshyggjuverðlaun UJ. Starfsfólk Barna- og Unglingageðdeildar Landspítalans og Rannveig Traustadóttir prófessor fengu verðlaunin í ár. Auk þess fékk Jóhanna okkar sérstaka heiðursviðurkenningu, n.k. heiðursóskar, fyrir þriggja áratuga starf á Alþingi og að hafa aldrei á starfsferlinum vikið frá jafnaðarhugsjóninni.

Allir verðlaunahafarnir fluttu svo flott þakkarávörp að þeim tókst miklu betur en mér sjálfri upp við að sýna hvers vegna þeir voru þarna. En um BUGLið sagði ég m.a. að ef velferðarsamfélag getur ekki hjálpað börnum með geðræn vandkvæði almennilega, hvað getur það þá? Ef eitthvað á að vera í lagi hjá okkur, þá er það einmitt sú starfsemi. Hetjurnar sem vinna þar búa við ofboðslegt álag í starfi. Nú hefur reyndar náðst að vinna nokkuð á biðlistanum fræga - úr 160 niður í 100 börn. Það er samt hundrað of mikið.

Rannveig Trausta er félagsfræðingur og prófessor við HÍ. Hún á að baki alveg ofboðslega flottan feril í rannsóknum og þróun á skólanum. Rannsóknirnar hennar hafa beinst að minnihlutahópum í samfélaginu, s.s. innflytejndum, fötluðum og samkynhneigðum. Mastersnám í fötlunarfræðum, kynjafræðum og uppeldis- og menntunarfræðum hefur hún átt góðan þátt í að byggja upp. Henni tókst alveg merkilega vel til með örfyrirlestur um fræðin, fyrir okkur sem sátum og gúffuðum í okkur kaffi og kökum á Borginni. Meðal annars um mikilvægi þess að skoða stöðu minnihlutahópa í samhengi - ekki bara skoða einstaklinga og hópa út frá t.d. kynhneigð eða kynþætti heldur taka marga þætti inn í rannsóknirnar. Bottomline með Rannveigu sem verðlaunahafa finnst mér vera að hún gerir okkur kleift að lifa sem jafningar, öll á okkar eigin ólíku forsendum.

Farin út í vorið! (Til þess að labba heim og læra fyrir próf...) 

 


Í fullri vinsemd og af ómældri virðingu:

Er hægt að biðja um að vera tekinn alvarlega ef maður stundar íþrótt sem heitir Lindy Hop? Ég held allavega ekki.

 


Spólað í sömu hressandi hjólförunum

spolaMér er gerður sá heiður í dag að pistlinum mínum er svarað í Fréttablaðinu. Þetta er eins og að vera tekinn í áramótaskaupinu - nauðsynlegt að tækla mann. Ókei, kannski ekki alveg.

Einkar skemmtilegt er að Elli gerir í pistlinum sínum nákvæmlega það sama og ég var að skammast í VG fyrir í mínum pistli, sem er þetta: En það var athyglisvert að sjá hvernig Vinstri græn höguðu málflutningi sínum. Í stað þess að leggjast með á árarnar í því að vinna málstaðnum gagn var reynt að klína því á Samfylkinguna að vilja skólagjöld þegar það blasir við að hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið að ráða yrðu skólagjaldaheimildir í frumvarpinu, en eru það ekki vegna afstöðu Samfylkingarinnar.

Svo hélt ég áfram: Það eru ekki að koma skólagjöld. Punktur basta. Við getum því öll snúið okkur að öðru, svo sem því neytendamáli að lækka verð á hvítu kjöti eins og formaður Samfylkingarinnar hefur lagt til.

En Elli spyr: Á ég að skilja þetta þannig að hún vilji frekar berjast fyrir einhverju sem formaðurinn hennar er sammála? Finnst henni mikilvægara að tryggja ódýrara kjúklingakjöt heldur en jafnrétti til náms? Ég má semsagt ekki berjast fyrir þessu kjarajöfnunarmáli heldur á að hengja mig í það sem er ekki að fara að gerast? Hérna verður freistandi að spyrja hvort Elli hafi s.s. meiri áhuga á að reyna að hengja Samfylkinguna fyrir glæpinn sem ekki var framinn, heldur en að fæða lýðinn á aðeins ódýrari hátt. Hverju skilar það VG og samfélaginu?

 

 


Leikstýrðir fréttatímar

Þessi grein hennar Evu þar sem hún útskýrir innkomu fjölmiðlafólks í leikstjórn mótmæla, hefur vakið gríðarlega athygli. Svo mikla að hún hefur ekki undan við að svara öðrum fjölmiðlum í símann í dag (ekki eins og hún hafi ekki nóg að gera sem öflugasti framkvæmdastjóri öflugustu ungliðahreyfingarinnar). Allir vilja vita hvaða fréttastofa og fréttamaður þetta hafi verið. En eins og Eva bendir sjálf á, það skiptir ekki máli. Greinin er hugsuð til þess að höfða til ábyrgðar þeirra sem stjórna fjölmiðlunum. Skilin á milli frétta og afþreyingarefnis þurfa að vera skýr en eru það í mörgum tilvikum ekki. „Raunveruleikaþáttum“ er leikstýrt en sama á ekki að eiga við um fréttatímana - líka þótt það séu beinar útsendingar og fréttastofan sé óheppin að hitta ekki á rétt augnablik.

Enska orðið yfir þetta er "info-tainment". Spurning hvernig maður íslenskar það? Upplýsingar og afþreyingarefni verður eitt. Aflýsingarefni?

Svo á ég sjálf Fréttablaðspistil í dag. Hann heitir „Fjöðrin sem varð að hænu“ og fjallar um skólagjöld. Lesið hann hérna.

 


Nýtt líf í Helguvík

RUV_grodursetningUngir jafnaðarmenn og Græna netið brugðu sér út í Helguvík í gær. Tilgangurinn var táknrænn: Við gróðursettum á iðnaðarsvæði fyrirhugaðs álvers. Með þessum nýju vaxtarsprotum var markmiðið að beina athyglinni að fjölbreyttari möguleikum í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum en þeim að smella mengandi álveri niður í bakgarðinum hjá bæjarbúum í Reykjanesbæ og í Garði. Vel við hæfi á degi umhverfisins. Það var einkum tvennt sem við vildum vekja athygli á en það eru nýjar fréttir sem mæla gegn uppbyggingu álvers. Annars vegar kemur fram í ársskýrslu Hitaveitu Suðurnesja að fjölda smærri aðila hefði verið vísað frá með beiðnir um orku þar sem henni hefði verið ráðstafað í álver nú þegar. Hins vegar að í ljósi nýjustu frétta um framúrkeyrslu í mengun frá álveri Norðuráls á Grundartanga, verður að setja mjög stór spurningarmerki um hversu mikið þetta sama fyrirtæki mun menga í Helguvík. Hér er fréttin hjá RÚV.

--- 

Rondó er gott útvarp. Ég hef helst notað það til að hlusta á við vinnu þegar einbeitingin þarf að vera í lagi því þá vill hún batna, öfugt við ef ég hlusta á margt annað. Tilþrif í klassískum söng eru það eina sem fær mig til að slökkva á Rondó af því hann virkar truflandi á mig, öfugt við djassinn. Og nú er ég að hlusta á Rondó til að reyna að róa mig í svefn. Ég þarf að lesa fyrir próf og vesenast í Félagshyggjuverðlaunum UJ á morgun. Óska hinum nátthröfnunum sem eru að lesa þetta eftir að ég fer að sofa - og landsmönnum öllum auðvitað - alveg sérlega góðrar nætur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband