Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.7.2007 | 15:04
Nú erum við öll opinberar persónur
Eitt af því sem stendur uppúr frá föstudeginum er þessi setning Björns Bjarnasonar í ræðu í afmælishófi Persónuverndar: Nú erum við öll opinberar persónur.
Annað mjög minnisstætt er túlkun Þórðar Sveinssonar, Persónuverndara með meiru, á Coke Zero karlmanninum.
6.7.2007 | 00:51
Það er eitthvað mikið að hjá okkur
Ég er of uppgefin af sorg og of reið eftir að hafa lesið þennan dóm, til að tjá mig áður en ég fer að sofa.
Ákærði hefur komið vel fyrir undir málsmeðferðinni en á framburði hans hafa þó reynst vera veilur. Á hinn bóginn hefur X enga tilraun gert til þess að gera hlut sinn betri í meðferð málsins og álítur dómurinn hana almennt einkar trúverðuga. Þó virðast nokkrar gloppur vera í frásögn hennar vegna ölvunar, að ætla má.
---
Ef byggt er á frásögn X af því sem gerðist eftir orðaskipti þeirra inni á snyrtingunni lítur dómurinn svo á, að það að ákærði ýtti X inn í klefann, læsti klefanum innan frá, dró niður um hana, ýtti henni niður á salernið og síðan niður á gólf, geti, hlutrænt séð, ekki talist ofbeldi í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eins og það hugtak hefur verið skýrt í refsirétti og í langri dómaframkvæmd. Nægir þetta eitt til þess að ákærði verði sýknaður af ákærunni.
X hefur sagt að hún hafi frosið, orðið fyrir áfalli, fengið sjokk, verið eins og í vondum draumi þegar ákærði ýtti henni inn í salernisklefann. Veitti hún þá og síðan enga mótspyrnu og kom ekki upp orði fyrr en hún rankaði loks við sér við sársaukann milli fótanna. Ýtti hún þá ákærða af sér og stóð upp. Er frásögn hennar alveg ótvíræð um það að ákærði fór öllu sínu fram við hana án þess að hún veitti athæfi hans viðnám eða mótmælti því. Í því sambandi ber sérstaklega að hafa í huga að hún reyndi ekki að kalla á hjálp þegar hún heyrði að einhver kom inn á snyrtinguna. Þá er að einnig að líta til þess að X þykir, fram til þess að þau fóru inn á salernisklefann, ekki hafa gefið ákærða ástæðu til að halda það að hún væri honum andhverf. Þegar allt þetta er haft í huga álítur dómurinn að ákærða hafi ekki hlotið að vera það ljóst að samræðið og kynferðismökin væru að óvilja X.
Bætt við seinna:
Það er alveg sama þótt skilningurinn á ofbeldi hafi verið útvíkkaður í nýja nauðgunarákvæðinu sem tók gildi 27. mars.
Þetta er augljóslega ofbeldi samt. Og hvað er verið að meina með "hlutrænt séð"? Rökstuðningurinn fyrir því að hlutrænt séð sé það ekki ofbeldi að ýta ókunnri drukkinni stelpu inn í klósettklefa, læsa, ýta henni niður á klósettið og svo í keng á gólfið.., er með því allra vafasamasta sem ég hef heyrt.
Skilaboð héraðsdóms eru þá til að súmmera upp: Svo lengi sem hún er ekki með læti, máttu gera það sem þú vilt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.7.2007 | 14:07
Maður dagsins
er tvímælalaust Bjarni Már sem skrifaði þennan stórskemmtilega, ömurlega gestapistil fyrir okkur á Vefritið.
---
Hvernig getur manni dottið í hug að slöngva ipod heyrnartólunum ofan í vatnsglasið sitt og taka ekki eftir því fyrr en hálftíma seinna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2007 | 23:56
Enskuslettur
Ég sletti ensku að ég held talsvert. Það er miður.
Þá er ég ekki bara að tala um dísesið frá því í gamla daga. Oft virðast flókin orð og hugtök verða fyrst til að rata fram á tungubroddinn á ensku. Þegar konan er farin að nota orðskrípi á borð við "refíneraður," þarf að gera eitthvað í málunum.
Það er nefnilega alls ekki töff að sletta ensku mikið. Stundum kann manni að finnast það fínt. En hugsið ykkur Þjóðverja að tala þýsku eða Japana að tala japönsku: "Jaja ich heiße Klaus, aber OH MY GOD, können wir das nicht..." / "Konnichiwa, genki desuka?! Nihon-jin desuka? YEAH RIGHT!"
Þegar ég fer til útlanda finnst mér yfirleitt megahallærislegt að heyra tungumál heimamanna talað með áberandi enskuslettum. Ég vil helst ekki svoleiðis mengun í menningunni sem ég er að kynnast. Og fæ aulahroll.
Ætli sama eigi við um túrista sem koma til Íslands?
19.6.2007 | 13:31
Góður dagur
Vúhú kosningaréttur. Vúhú jafnrétti. Áfram stelpur. Gleðilegan 19. júní!
Ég var miklu skemmtilegri á þessum degi í fyrra en ég er núna og vitna því í sjálfa mig 2006 og hana Sögu, sem er skemmtileg að vanda árið 2007.
16.6.2007 | 18:24
Snúum okkur bara að kvennalandsliðinu
Augljóslega eigum við bara að hætta að svekkja okkur á þessu karlalandsliði og snúa okkur að stelpunum. Rosalega er ég ánægð með þær. Áfram Ísland! Djöfull, af hverju fór ég ekki á leikinn.
Á þriðjudaginn verða síðan allir jafnréttissinnar í einhverju bleiku! Ég hlakka mjög til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2007 | 18:35
Af hverju fæ ég ekki nógu góða tilfinningu...
13.6.2007 | 19:47
Í dag borga allir með plasti
Blessuð tombólubörnin þurfa að koma sér upp posum.
Annars var ég að heyra í fréttum að settur saksóknari í Baugsmálinu hefði kallað kröfuna um skýrleika refsiheimilda, tískubólu. Vill einhver senda áfallateymi heim til Róberts Spanó.
Og ég er orðin möppudýr og skrifstofublók. Persónuvernd er skemmtilegur vinnustaður.
Fer með tímabundna ritstjórn á Vefritinu ásamt Þóri yfir sumarmánuðina. Þar er að birtast eðalstöff; daglegir pistlar og svo helgarumfjallanir. Sjálf skrifaði ég um daginn um reynslu mína af módelstörfum. Ingvi Snær (vinnu)félagi hefur átt betra gengi að fagna í þeim geira, eða eins og hann kýs að orða það sjálfur: "Ég hef náð að sameina bransann og lögfræðina."
Flokk jú.
28.5.2007 | 01:26
Tvöfalt ekkifall... og þó
Ég er með bloggblokk.
Og margt búið að gerast síðan síðast. Stjórnin féll tæknilega séð ekki, sbr færslurnar hér að neðan. Og ég féll ekki. Ekkert tæknilegt við það. Bara fimm daga geðveiki yfir kosningahelgina þar sem eins og þrjú próf / fjórtán einingar komu við sögu. Eignaréttareinkunnina (7,5 einingar í 100% prófi takk) vil ég tileinka Önnu Þóru og Magnúsi sem fóstruðu mig í tveggja vikna upplestrarútlegð á Akureyri. Og þeim sem stuðluðu að því að fráfarandi stjórn fengi hvíld jafnvel þótt R-listastjórn hafi ekki gengið upp. Það hefði að sjálfsögðu verið út úr kortinu að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi FD.
Skrýtið að hafa ekki skriðið beint af próflokadjamminu og inn á Mogga, eins og undanfarin ár. Í staðinn hef ég gert margt (af viti), aðallega sem galeiðuþræll. Svo sem í lagi að djamma aðeins þegar tími gefst til.
Og skrifa helgarumfjöllun á Vefritið.
13.5.2007 | 15:59
Úff
Ég trúi þessu ekki. Og í fréttum er bara Geir að dásama stjórnarsamstarfið og eitthvað kunnuglegt um Jón og að skorast ekki undan ábyrgð.
Það eina jákvæða sem ég sé var þetta komment í nótt með að útlitið væri jafn bjart hjá mér og stjórninni varðandi fall. Og svo er margt flott/skemmtilegt/sterkt fólk að koma nýtt inn á þing fyrir flesta flokka.