Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
12.5.2007 | 22:53
VÚHÚ
Stjórnin fallin, fallin, fallin! Af einhverjum ástæðum er ég samt ekki á kosningavöku: Nú þarf ég að reyna að halda áfram að lesa kröfurétt því annars er ég fallin, fallin fallin. Á þessari stundu er útlitið svona ca jafn bjart hjá mér og ríkisstjórninni. En við gefum ekki upp vonina.
Ég held að það sé einboðið að endurskoða dagsetningu kjördagsins. Það er hellingur af fólki í prófum á þessum tíma, bæði í háskóla og menntaskóla. Við viljum líka fá að vera með.
12.5.2007 | 15:18
Kjördagur
14.4.2007 | 22:35
"Don´t stop me now, I´m having such a good time..."
Nei, þetta á ekki við um próflesturinn ef einhver hélt það.
Sá auglýsingu áðan í kringum fréttirnar þar sem þessi klassíski Queen slagari var leikinn undir. Allir hressir. Ég var allan tímann að bíða eftir að síðasti maðurinn sem yrði sýndur væri Geir Haarde og undir herlegheitin myndi kvitta Sjálfstæðisflokkurinn í tilefni kosninga.
En nei. N1 var það. Hitt hefði verið miklu fyndnara.
30.3.2007 | 18:59
Ljóð í kröfurétti og flugumenn
Það er gott að geta lífgað upp á lesturinn -eða bara daginn- með einföldum leiðum.
Ljóð dagsins á ljóð.is er ein. Erla Elíasar á flott innlegg í dag. Ég var aðeins að velta fyrir mér túlkun á því áður en ég hélt áfram að lesa um skaðabótareglur fasteignakaupalaganna. Þess má geta að Erla hefur líka skrifað mjög skemmtilega pistla á Vefritið.
Og Eva átti þar góða pælingu um daginn, um afstæði frelsishugtaksins.
Annars hefur mér tekist að koma tveimur nánum flugumönnum* í minn stað á Mogganum í sumar. Geri aðrir betur, miðað við hversu margir þreyttu blaðamannaprófið. Ég er stolt af ykkur og ekki síður ánægð fyrir hönd Mogga míns.
* Þeim er ekki ætlað að vinna blaðinu mein á nokkurn hátt en eru flugumenn í þeim skilningi að leka í mig upplýsingum um partý og annað mikilvægt.
15.3.2007 | 00:52
Krútt-Gunnar
Ég var á tímabili þess heiðurs aðnjótandi að sitja í stjórn með Gunnari I. Birgissyni. Ég í minnihluta, hann í meirihluta. Þess vegna fannst mér þetta alveg extra fyndið. Ég hló eiginlega allan síðasta laugardag. "Enda ávallt svolítið krúttlegur þegar hann situr eins og snúið roð í hundi þegar við höfum aðra skoðun á málum."
Þetta tengdi ég vel við. Gunnar er ekki týpan sem er á heimsfriðarmataræði. Við sátum eitt sinn á stjórnarfundi hjá LÍN og vorum að ræða erfitt mál eins lánþegans. Mér var nokkuð niðri fyrir vegna fyrirsjáanlegs óréttlætis sem mér fannst sjóðurinn ætla að beita viðkomandi, veifaði stjórnsýslulögunum og þrumaði um rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins.
Kristín Edwald, lögfróði maður meirihlutans var fjarri góðu gamni svo ég óð uppi án þess að nokkur fengi efnislega rönd við reist. Svo Gunnar greip til þess klassíska trikks að drulluspóla yfir andstæðinginn frekar en deiluefnið. Hvaða andskotans lögfræði vorum við eiginlega að læra þarna niðri í HÍ? Var þetta lögfræði Hammúrabís eða hvað? Er ennþá að velta fyrir mér þessu seinna.
Gunnar eldar grátt silfur við Samfylkinguna víðar en í Kópavogi. Þegar hann mætti of seint á fundi í Borgartúninu var það alltaf R-listanum að kenna. Skipulagsmálin sjáiði.
En þrátt fyrir að tekist hafi verið á með mis málefnalegum hætti, verður að halda því til haga að við gerðum frábæra samninga þetta árið. Og það er ekki annað hægt en þykja svolítið vænt um Gunnar. Hann er kannski með horn en ég held að það sé ekkert rosalega djúpt á þeim.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.3.2007 | 18:44
Skemmtileg kenning
7.3.2007 | 20:20
Takið skoðanakönnun um fiskveiðiauðlindaákvæðið!
Var að setja hana inn og er forvitin að vita hvað ykkur finnst.
E.s. Það má endilega gera grein fyrir atkvæði sínu hér í kommentakerfinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.3.2007 | 18:19
Auðlindaákvæðið: Tímafrek og tilgangslaus yfirbreiðsla
Afsakið hlé. Nú vil ég ekki gefa mig út fyrir að kokgleypa endilega allt sem kennt er við lagadeild Íslands. En ég semsagt vil lýsa yfir samstöðu minni með þeim háu herrum lagadeildar sem nú reyna að koma landanum í skilning um að fyrirhugað fiskveiðiauðlindaákvæði í stjórnarskrá sé popúlismi af verstu gerð.
Þetta ákvæði hefði enga þýðingu. Það yrði aldrei hægt að beita því.
Þetta vita lögfræðingar sem hugsanlega er ástæðan fyrir að ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn stjórnmálamann sem líka er lögfræðingur, tjá sig um málið. Nema Sigga Kára sem leyfir sér að vera með efasemdir.
En efasemdaraddirnar fá að drukkna í innblásnum orðaflaumi allra þeirra sem ætla að láta kjósa sig í vor. Það gildir ekki síður um stjórnarandstöðuna en Framsókn sem ætlar að fleyta sér áfram á þessu og Sjálfstæðisflokk sem þorir ekki að vera vondi kallinn. Geir tekur samt fram að þetta hafi ekki áhrif á kvótakerfið. Ég held að stjórnarflokkarnir ættu að hugsa sinn gang og hætta þessum tilraunum til að breiða yfir að þeim hafi tekist illa upp við að innleiða kvótakerfi. Nær væri að beina kröftunum að því að skoða hvað má laga þar ef fólk hefur á annað borð áhuga á málinu.
Fyrir þá sem vilja kynna sér af hverju þetta ákvæði væri einskis vert, bendi ég á pistil Skúla Magnússonar í Fréttablaðinu í dag. Ég er ekki endilega sammála því alla leið sem hann segir um að "skreyta stjórnarskrár með ýmsum lagalega merkingarlausum stefnuyfirlýsingum." Hins vegar hittir hann naglann á höfuðið hér: "Það keyrir um þverbak þegar setja á í stjórnarskrá ákvæði sem enginn veit hvað þýðir!"
--
Stjórnmálamönnum bendi ég svo á að ýmis mál bíða afgreiðslu og þurfa athygli. Má nefna frumvarp til breytinga á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna og nýja jafnréttismálafrumvarpið. Ef færi gefst á væri jafnvel hægt að ræða kjör aldraðra. Nei ég segi nú bara svona.
Eyjamenn lýsa efasemdum um auðlindaákvæði í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.2.2007 | 17:49
Valið milli vinstriflokka
Gömlu félagarnir mínir í VG hafa greinilega átt góða helgi. Til hamingju með það kæru vinir. Augljóslega hefur munað mikið um að ég skráði mig úr flokknum fyrir um ári, því leiðin hefur legið beint upp á við hjá þeim síðan. Að vísu skráði ég mig aftur í smátíma þar sem mér fannst ég eiga nógu mikið í flokknum til að fá að kjósa í forvali.
Nú er ég óflokksbundin, íhugandi og fréttaskrifandi í bili (og hvort sem er ekki viljað taka beinan og virkan þátt í flokksstarfi meðan ég hef verið í fréttaskrifum). Traustustu heimildamenn hafa talið mig gengna til liðs við Samfylkinguna. Það er rétt að ég hef daðrað við það. Hins vegar hef ég ekki tekið skrefið ennþá og verið eitthvað hikandi. Get ekki sett puttann á nákvæmlega af hverju. Tilfinningar (Tilfinningar! segi það og skrifa. er í lagi heima?..) kannski átt einhvern þátt. Erfitt að slíta sig frá einum flokki og hefja starf með öðrum. Sérstaklega þegar maður vill eiginlega helst af öllu eiga eitthvað í báðum flokkum. Vinna með góðu fólki úr báðum.
Sama hvað öllum mótrökum líður, og þau þekki ég ágætlega, hefði ég a.mk. viljað sjá tilraun gerða til að vinna saman í einu framboði. Í menntó hugsaði ég sem svo að það hefði nú einu sinni farið þannig að það var ekki gert. Maður þyrfti þá bara að velja á milli þess sem var orðið til. En ég held að það sé fjöldi fólks sem finnst þetta val á milli erfitt og jafnvel óþarft. Betra að sameina kraftana. Ég vil ekki gefast upp í þeirri viðleitni. Ágætis byrjun væri ríkisstjórnarsamstarf frá og með maí.
---
Ég átti helgarumfjöllun á Vefritinu og ákvað að fjalla um klám. Skoðaði klámsíður o.fl. í þeim tilgangi. Þetta var alveg ferlega erfitt og mér eiginlega búið að líða hundilla því ég var að skoða og lesa um dapurlegri hluti en ég hefði átt von á. Fyrir var ekki alveg bætandi á jafnvægisleysið hjá mér. En afraksturinn birtist s.s. á Vefritinu og er þar m.a. birt athugasemd klámsíðuhaldara um "sögu dæmigerðrar klámhóru."
---
Til hamingju með útskriftina Bjarni Már. Eins og þú hefur verið óþreytandi við að segja mér: Þú ert flottastur. Kallinn s.s. heima í nokkra daga til að útskrifast sem MA í alþjóðasamskiptum. Telur sig verða orðinn Grandmaster þegar hann klárar mastersnámið í Miami.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.2.2007 | 14:59
Yfirborðskennt þjóðmálablogg
Hvað er þetta með Guðna Ágústsson og að bera brigður á kannanir þar sem niðurstöðurnar henta honum ekki? Fyrst er Fréttablaðið vafasamt af því Framsókn kemur verst út í þeirra könnun. Svo mætir hann í Kastljósið í gær og eyðir öllu sínu púðri í að spyrja út í hvernig könnun á matarverði hafi verið unnin. Allt til að sleppa við að ræða matarverð á Íslandi.
Ég er annars orðin mjög spennt að sjá hvernig matarverðsaðgerðir koma út þegar þær taka gildi núna 1. mars. Ef verðið lækkar, er það vel og má hrósa stjórnvöldum fyrir það auk stjórnarandstöðunnar sem hefur átt frumkvæði í málinu. Hins vegar má enn gera betur án þess að við förum nánar út í það mál. Ég nenni því ekki núna.
---
Bendi svo á þetta ofsalega áhugaverða málþing sem er á morgun. Reikna reyndar sjálf ekki með að komast en treysti þá á aðra að segja mér undan og ofan af þessu. Fyrir þinginu stendur Alþjóðamálastofnun, hverrar forstöðumaður er Silja Bára Ómarsdóttir. Þess má geta að Silja Bára er flottust.
23. febrúar kl. 13:30-15:30 í Odda 101
Er stjórnarskráin úrelt?
Málþing um stjórnarskrárbreytingar og alþjóðavæðingu.
Kalla alþjóðaskuldbindingar á stjórnarskrárbreytingar?
- Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands
Stjórnarskráin og þátttaka Íslands í samvinnu Evrópuríkja
- Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu:
Þátttaka í alþjóðasamtökum og endurskoðun stjórnarskrárinnar
- Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og varaformaður Stjórnarskrárnefndar.
Stjórnarskrárfesta þolir ekki bið
- Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur
---
Nú þarf ég að fara og skoða klámsíður vegna fyrirhugaðrar helgarumfjöllunar á Vefritinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)