Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Djamm og ekki-fréttameðalmennska

Ég er djammandi og tilgangslaus. Það var glaumur í fyrrakvöld og aftur glaumur í gærkvöld, án nokkurrar innistæðu. Árshátíð Orators var á föstudag var reyndar mikið grín og gaman (og ég fegin að þurfa ekki að mæta á Landbúnaðarþing f.h. Morgunblaðsins í sama sal sjö tímum seinna eins og í fyrra -allt að því ennþá ölvuð að sjálfsögðu).

Og þegar maður gerir sér grein fyrir að það verður ekkert af viti úr kvöldinu vegna þreytu og þynnku frá kvöldinu áður, þá er auðvitað mjög skynsamlegt að skella sér bara aftur í partý. Og láta morgundaginn hafa sína þjáningu.

Druslaðist að vísu seint út og náði þ.a.l. ekki að kíkja í blaðamannapartý á Rex, en sé að kollegunum hefur fundist gaman. Blaðamannafélagið búið að fatta að það þýðir alls ekki að reyna að fá þetta fólk til að dansa. Því var ekkert galtómt dansgólf á Borginni að þessu sinni heldur bara blaðamenn þar sem þeim líður best: Á barnum. Slúðrandi reykjandi drekkandi og daðrandi. Þegar ég sendi mjög formlegar fyrirspurnir frá mér eftir miðnættið, um hvort blaðamenn væru enn í stöði og hvort ég þekkti einhvern ennþá á rex, varð hins vegar fátt um svör. Heyrðist ókeypisið á barnum vera farið að segja sitt. 

--- 

Svo vil ég segja BRAVÓ fyrir Davíð Loga sem tekur ekki þátt í fréttameðalmennsku. Að moka skítinn eins og það er kallað, eða að "afgreiða" fréttir. Hann hefur endurtekið stigið út fyrir kassann í sinni umfjöllun og átti verðlaun fyrir Guantanamo greinarnar alveg innilega skilin.

Og það var djarft að veita Kompási verðlaun fyrir rannsóknablaðamennsku, en mér finnst nauðsynlegt að hafa breidd í blaðamennsku á landinu og er því hrifin af þessari ákvörðun. Fjölmiðlar á borð við Kompás eru auðvitað í meiri hættu að misstíga sig en þeir íhaldssamari, en geta fært hluti fram í dagsljósið sem aðrir gera ekki. 

Auðunn Arnórs er einn af þeim sem hafa lagt mest af mörkum til að gera Fréttablaðið að öflugu blaði. Hann afgreiðir ekki heldur. Átti flotta spretti um stjórnarskrána og fær nú verðlaun fyrir Evrópuumfjöllun sem ég hef ekki náð að fylgjast nógu vel með. Nú finnst mér að Fréttablaðið eigi að gera efnið hans Auðuns aðgengilegt á Netinu (ég finn það amk ekki, hafi það verið gert) í þágu fólks sem hefur verið fjarverandi ofl.

---

Og ég bendi enn á Vefritið, þar sem er flott helgarumfjöllun um launaleynd. 


SJS & NATO

Fréttablaðið færir þau tímamótatíðindi í hús að VG og Samfó geti myndað ríkisstjórn saman. Samfylkingin með 28% á bak við sig og VG 24%. Og nú er pælingin: Ef Ingibjörg yrði forsætisráðherra, yrði þá ekki Steingrímur utanríkisráðherra? Og færi þar af leiðandi að sækja fundi hjá NATO? Veit ekki með ykkur, en ég myndi fylgjast spennt með.

Röskva vinnur meirihluta. You can´t beat the feeliiiiiing...

Ég er svo ofsalega, ofsalega sátt núna!

 


Að kjósa Röskvu er góð skemmtun! Kosningar í HÍ miðvikudag og fimmtudag

Röskva - rödd stúdenta, er málefnalega sterkasta fylkingin af þeim sem bjóða fram til Stúdentaráðs HÍ.

Kjósum jafnréttismál í forgang og kjósum skilning á hlutverki SHÍ sem þrýstiafls. Kjósum frumkvæði og framkvæmdagleði. Kjósum almenna gleði! Kjósum þekkingu og reynslu í stærstu hagsmunamálunum, svo sem lánasjóðsmálum sem Röskva hefur farið með  undanfarin tvö ár, með góðum árangri. Umfram allt: Kjósum.

Svo mætum við á KosningaRöskvu á Deco í Austurstrætinu á fimmtudagskvöld!

Röskva


Í framboð fyrir Framtíðarlandið

AP til sigurs

Ég tók mig til og sagði upp áskrift að stjórnmálaflokkum um daginn. Út af vinnunni. Þrátt fyrir nokkrar tilraunir á undangengnum árum hugsa ég þó að ég sé enn í Sjálfstæðisflokknum. Þessir apaheilar mega þá bara hafa mig ef þeir halda að það sé gott fyrir þá. Ég gæti kannski farið að skrifa innblásnar greinar um þjóðmálin í blöðin og titlað mig sem skáld og Sjálfstæðiskonu. 

En ég var að heyra skýringuna á því af hverju ég skráði mig úr einum tilteknum flokki:

Ég er á leið í framboð fyrir Framtíðarlandið. Það hafa náttúrulega margir komið að máli við mig um þetta undanfarið. Og við erum búin að funda ég og Andri Snær, Ómar Ragnars, Jón Baldvin og Magga Sverris. Auk okkar verður svo amma mín á listanum og Bono skipar heiðurssætið.  


Leitum innblásturs víða

Í gærkvöldi sátum við Sunna systir og skemmtum okkur yfir þeirri mætu bók Mary Young, Tízkubókinni (In Search of Charm) frá 1963. Í miðjum tólfta kafla "Fyrsta staðan," klingdu upphafsorðin einhverjum bjöllum. Og það rann upp fyrir mér að Addi Kitta Gau gæti hafa fundið í þessari bók innblástur fyrir ræðu formanns á landsþingi Frjálslyndra. Lykilorðið er að sjálfsögðu vaxtarverkir:

"Eruð þér í dálitlum vafa um hæfni yðar í starfið? Ég endurtek, öllum er þannig innanbrjósts! En hafið það hugfast, að fyrirtækið valdi yður í stöðuna og hlýtur því að hafa trú á yður. Og ennfremur þetta: Þeir vita vel að þér þurfið tíma til að ná tökum á verkefnunum. Kallið allar efasemdir yðar "vaxtarverki.

Ýmislegt í þessari bók til viðbótar gæti nýst í starfi stjórnmálamanna, þ.á.m. undirkaflinn "Örugg raddbeiting." Jafnvel væri hugmynd að kíkja á "Að tala of mikið." 

Að ekki sé minnst á "Að fara út með kavaleranum að kvöldi til kvöldverðar í veitingahúsi."


Ekki gefa hverjum sem er undir fótinn

Ég á grein á Vefritinu í dag. Í henni er m.a. fjallað um góða stjórnun. Góð stjórnun er að vita hvað er þess virði að eyða í. Hér má lesa greinina.

Helgin..

.. Var góð. Á dagskrá var m.a:

1. Á föstudeginum listakynning Röskvu. Það var magnað að standa úti í sal, grenjandi af stolti og búin að klappa af sér hendurnar fyrir þessu fólki sem ég átti að  þessu sinni engan þátt í að stilla upp á listann. Nema hvað. Þetta er samt afburðagóður listi, alveg eins og sá í fyrra sem er ennþá í framboði. Þetta fólk á eftir að stjórna Stúdentaráði frábærlega. Bendi á þessa grein hans Kára, sem er í fyrsta sæti í ár, á Vefritinu.

2. Á laugardeginum Önnukvöld til minningar um ömmu sem dó í fyrravor. Haldið á ofurstemmningarstaðnum Sægreifanum að frumkvæði n.k. fóstursonar hennar, Svenna Sveins, sem er snillingur eins og amma var. Humarsúpa. Söngur. Í bæinn með mömmu og pabba og vinum þeirra á eftir. Gaman. Hluti úr Gróskumálþingi var líka gaman. Oddný Sturlu fór á kostum með erindi um femínisma og jafnaðarstefnuna. 

3. Á sunnudeginum vinnan. Þið eruð alveg ágæt.


Ég styð Höllu í formann KSÍ

Halla Gunnarsdóttir býr yfir u.þ.b. öllum þeim kostum sem mér getur dottið í hug að formaður KSÍ þurfi að hafa. Fyrir nú utan hvað hún er sæt og sexý stelpa.

Áfram Halla.  

beib


mbl.is Halla gefur kost á sér í formannskjöri KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin heim

Mætt á klakann. Allt við sama heygarðshornið. Ég líka. Klukkan tólf á mánudag á harðahlaupum um Vesturbæinn að reyna að ná í tíma í Lögbergi. Það eina sem hefur breyst í þessu öllu að virðist, er að ég er massaðri á bakinu og með smávegis ör á kjálkanum sem mamma taldi að væri varalitur.

Ég hélt að fjórir mánuðir yrðu svo langur tími. Og jú, það virðist langt síðan ég var í Suður-Afríku að taka máltækið "fall er fararheil" einum of bókstaflega. Samt er eins og ég hafi farið í gær.

Vil þakka öllum sem komu að því verkefni að halda fyrir mig jól, áramót og þrettánda á einu kvöldi nánast um leið og við vorum komnar út úr flugvélinni á laugardaginn. Pakkar og skaup á einu kvöldi. Hver getur beðið um meira. Hafði mikinn húmor fyrir skaupinu svo það komi fram.

Bandaríkin voru hress. Í Miami keyrðum við m.a. í gegnum Litlu-Havana en þar búa að sögn Bjarna Más, Kúbverjar sem hata Castro. Þeir eru augljóslega jafn kaþólskir og páfinn því ekkert var að gerast á nýársdag. Hverfið virkaði samt skemmtilegt. Örugglega áhugavert að spjalla við liðið um stjórnmál. Eða bara heyra góða músík, drekka mojito, borða svört hrísgrjón og anda að sér vindlalykt.

Annað áhugavert svæði var sjálfstjórnarsvæði indjána sem alríkisstjórn BNA var svo ljúf og góð að láta þeim í té. Á miðju fúlu fenjasvæði reyndar og fjarri heimahögum þeirra. En það er víst aukaatriði. Á bensínstöðinni var ítrekað að menn skyldu klæðast skyrtum og skóm inni í búðinni. Á þessu svæði er líka eina spilavítið á Flórída, því ríkið Flórída bannar spilavíti. Svo indjánarnir mokgræða og samkvæmt sósíalísku kerfi er myndarlegum ágóðanum dreift á milli þeirra allra. 

Svo mæli ég með Harlem. Stórskemmtilegt. Verst ef túristar á borð við sjálfa mig fara að taka yfir mannlífið á staðnum. Næst þegar ég fer til New York verður garanterað farið í gospelmessu á sunnudegi eða hiphopmessu á fimmtudagskvöldi. Fyrir þá sem finnst dýrt að borða á Manhattan, er athugandi að fá sér einn sveittan inní Harlem. 

Nú. Ég persónulega þekki þrjá aðila sem búsettir eru í átján milljón manna borginni New York. Varði vinur og snillingur opnaði heimili sitt þar sem við sváfum í rúminu hans og borðuðum mömmukökurnar hans. Áttum góðan tíma með Uglu, sem kom með í Harlem. Seinasta kvöldið rakst ég síðan fyrir eintóma tilviljun á hana Birnu Önnu samstarfskonu af Mogganum og félaga í Gjellufélaginu. Þetta er ekki svo stór heimur. Þess má geta að okkur Birnu hefur ruglað saman og við verið taldar líkar. Skil ekki alveg af hverju. En það var óvænt ánægja að hitta hana. 

Ég verð síðan að játa að í bland við alla spennuna að koma heim og hitta fólkið mitt, var bara talsvert stress. Koma heim og detta inn í rútínuna (sem mér finnst almennt leiðinlegt fyrirbæri og gengur illa að halda mig við). Standa mig í skólanum. Spara. Vakna í myrkrinu. Fá ekki innblástur  í lífinu upp í hendurnar daglega heldur þurfa að finna hann sjálf.

Annars almenn niðurstaða eftir ferðalagið er að ég lifi afskaplega góðu lífi á Íslandi. Líka þótt heimurinn minn hérna sé frekar lítill.

Er annars að spá í að birta eina stutta færslu í viðbót, með vangaveltum um einhver praktísk atriði á ferðalögum. Þótt ég sé ekki útlærð í faginu gætu einhverjir punktar kannski nýst þeim sem láta verða af að leggja í hann. 

Eftir það verður þetta blogg aftur hefðbundinn hluti af síbyljunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband