Færsluflokkur: Bloggar

Ljóð í kröfurétti og flugumenn

Það er gott að geta lífgað upp á lesturinn -eða bara daginn- með einföldum leiðum.

Ljóð dagsins á ljóð.is er ein. Erla Elíasar á flott innlegg í dag. Ég var aðeins að velta fyrir mér túlkun á því áður en ég hélt áfram að lesa um skaðabótareglur fasteignakaupalaganna. Þess má geta að Erla hefur líka skrifað mjög skemmtilega pistla á Vefritið.

Og Eva átti þar góða pælingu um daginn, um afstæði frelsishugtaksins.

 

Annars hefur mér tekist að koma tveimur nánum flugumönnum* í minn stað á Mogganum í sumar. Geri aðrir betur, miðað við hversu margir þreyttu blaðamannaprófið. Ég er stolt af ykkur og ekki síður ánægð fyrir hönd Mogga míns. 

 

 

* Þeim er ekki ætlað að vinna blaðinu mein á nokkurn hátt en eru flugumenn í þeim skilningi að leka í mig upplýsingum um partý og annað mikilvægt.  


Í fréttum er þetta helst

-Fréttavaktavika á Mogganum

-Mánuður og tveir dagar í fyrsta próf

-Kvíði

-Ný sambúð


AP: Persónuverndari

Þá er einn kall horfinn aftur á vit lögfræðinga og krókódíla í Miami. Það var skutlað á flugvöllinn áðan. "Þetta styrkir hjá ykkur ástina," er viðkvæðið hjá elskulegu fólki sem lítur á björtu hliðarnar. Bullshit. Fjarbúð er ömurleg.

Ef eitthvað bjátar á í sambandinu, hvað á maður þá að gera? Taka næstu flugvél til NY og tengiflug til Flórída? Grenja við fartölvuna og þykjast ræða málin af alvöru á skype? Ekki reyna að segja mér að þetta sé sniðugt.

--

sitelogoAnnars verða þáttaskil hjá mér í sumar. Eftir fimm ára starf á Mogganum með skóla, fer ég annað þetta árið. Fékk tilboð frá Persónuvernd sem mér fannst ég ekki geta hafnað og verð þar við bókarskrif og fleira frá og með fyrsta júní. Ég hlakka mjög til enda viðfangsefnin spennandi og vinnustaðurinn almennt óvenju góður að ég held.

Moggaskilnaði fylgir að sjálfsögðu fyrirfram tregi. Jafnvel þótt ég geti, eins og gefur að skilja, frussað út úr mér einstaka kaffibolla við lestur á forystugreinum og haft einhverjar athugasemdir við jafnréttismál og annað í stjórnun blaðsins. Þá skiptir það fyrir mig persónulega miklu minna máli en allt sem ég hef lært og allt það frábæra fólk sem ég hef unnið þar með, kynnst og eignast að vinum. 

Einhvern veginn finnst mér reyndar ólíklegt að ég hafi að fullu sagt skilið við blaðamennsku frá og með júní. Ég elska þetta starf.  


Valið milli vinstriflokka

Gömlu félagarnir mínir í VG hafa greinilega átt góða helgi. Til hamingju með það kæru vinir. Augljóslega hefur munað mikið um að ég skráði mig úr flokknum fyrir um ári, því leiðin hefur legið beint upp á við hjá þeim síðan. Að vísu skráði ég mig aftur í smátíma þar sem mér fannst ég eiga nógu mikið í flokknum til að fá að kjósa í forvali.

Nú er ég óflokksbundin, íhugandi og fréttaskrifandi í bili (og hvort sem er ekki viljað taka beinan og virkan þátt í flokksstarfi meðan ég hef verið í fréttaskrifum). Traustustu heimildamenn hafa talið mig gengna til liðs við Samfylkinguna. Það er rétt að ég hef daðrað við það. Hins vegar hef ég ekki tekið skrefið ennþá og verið eitthvað hikandi. Get ekki sett puttann á nákvæmlega af hverju. Tilfinningar (Tilfinningar! segi það og skrifa. er í lagi heima?..) kannski átt einhvern þátt. Erfitt að slíta sig frá einum flokki og hefja starf með öðrum. Sérstaklega þegar maður vill eiginlega helst af öllu eiga eitthvað í báðum flokkum. Vinna með góðu fólki úr báðum.

Sama hvað öllum mótrökum líður, og þau þekki ég ágætlega, hefði ég a.mk. viljað sjá tilraun gerða til að vinna saman í einu framboði. Í menntó hugsaði ég sem svo að það hefði nú einu sinni farið þannig að það var ekki gert. Maður þyrfti þá bara að velja á milli þess sem var orðið til. En ég held að það sé fjöldi fólks sem finnst þetta val á milli erfitt og jafnvel óþarft. Betra að sameina kraftana. Ég vil ekki gefast upp í þeirri viðleitni. Ágætis byrjun væri ríkisstjórnarsamstarf frá og með maí. 

---

Ég átti helgarumfjöllun á Vefritinu og ákvað að fjalla um klám. Skoðaði klámsíður o.fl. í þeim tilgangi. Þetta var alveg ferlega erfitt og mér eiginlega búið að líða hundilla því ég var að skoða og lesa um dapurlegri hluti en ég hefði átt von á. Fyrir var ekki alveg bætandi á jafnvægisleysið hjá mér. En afraksturinn birtist s.s. á Vefritinu og er þar m.a. birt athugasemd klámsíðuhaldara um "sögu dæmigerðrar klámhóru."

---

Til hamingju með útskriftina Bjarni Már. Eins og þú hefur verið óþreytandi við að segja mér: Þú ert flottastur. Kallinn s.s. heima í nokkra daga til að útskrifast sem MA í alþjóðasamskiptum. Telur sig verða orðinn Grandmaster þegar hann klárar mastersnámið í Miami. 


Djamm og ekki-fréttameðalmennska

Ég er djammandi og tilgangslaus. Það var glaumur í fyrrakvöld og aftur glaumur í gærkvöld, án nokkurrar innistæðu. Árshátíð Orators var á föstudag var reyndar mikið grín og gaman (og ég fegin að þurfa ekki að mæta á Landbúnaðarþing f.h. Morgunblaðsins í sama sal sjö tímum seinna eins og í fyrra -allt að því ennþá ölvuð að sjálfsögðu).

Og þegar maður gerir sér grein fyrir að það verður ekkert af viti úr kvöldinu vegna þreytu og þynnku frá kvöldinu áður, þá er auðvitað mjög skynsamlegt að skella sér bara aftur í partý. Og láta morgundaginn hafa sína þjáningu.

Druslaðist að vísu seint út og náði þ.a.l. ekki að kíkja í blaðamannapartý á Rex, en sé að kollegunum hefur fundist gaman. Blaðamannafélagið búið að fatta að það þýðir alls ekki að reyna að fá þetta fólk til að dansa. Því var ekkert galtómt dansgólf á Borginni að þessu sinni heldur bara blaðamenn þar sem þeim líður best: Á barnum. Slúðrandi reykjandi drekkandi og daðrandi. Þegar ég sendi mjög formlegar fyrirspurnir frá mér eftir miðnættið, um hvort blaðamenn væru enn í stöði og hvort ég þekkti einhvern ennþá á rex, varð hins vegar fátt um svör. Heyrðist ókeypisið á barnum vera farið að segja sitt. 

--- 

Svo vil ég segja BRAVÓ fyrir Davíð Loga sem tekur ekki þátt í fréttameðalmennsku. Að moka skítinn eins og það er kallað, eða að "afgreiða" fréttir. Hann hefur endurtekið stigið út fyrir kassann í sinni umfjöllun og átti verðlaun fyrir Guantanamo greinarnar alveg innilega skilin.

Og það var djarft að veita Kompási verðlaun fyrir rannsóknablaðamennsku, en mér finnst nauðsynlegt að hafa breidd í blaðamennsku á landinu og er því hrifin af þessari ákvörðun. Fjölmiðlar á borð við Kompás eru auðvitað í meiri hættu að misstíga sig en þeir íhaldssamari, en geta fært hluti fram í dagsljósið sem aðrir gera ekki. 

Auðunn Arnórs er einn af þeim sem hafa lagt mest af mörkum til að gera Fréttablaðið að öflugu blaði. Hann afgreiðir ekki heldur. Átti flotta spretti um stjórnarskrána og fær nú verðlaun fyrir Evrópuumfjöllun sem ég hef ekki náð að fylgjast nógu vel með. Nú finnst mér að Fréttablaðið eigi að gera efnið hans Auðuns aðgengilegt á Netinu (ég finn það amk ekki, hafi það verið gert) í þágu fólks sem hefur verið fjarverandi ofl.

---

Og ég bendi enn á Vefritið, þar sem er flott helgarumfjöllun um launaleynd. 


Mismælgi ársins 2006

Flokkaflakkari er tízkuorð dagsins. Og tízkufjölmiðill dagsins er Krónikan. Takk fyrir skemmtilegt fæðingarhóf í gær. 

Það sem er hinsvegar alls ekki í tísku eru ummæli mín frá í desember: 

FijiÉg sit í húsi í litlu þorpi í regnskóginum á Fiji. Í húsinu eru fimm konur. Við erum allar nýbúnar að leggja okkur á gólfinu eftir matinn, sem var góður og borðaður með höndunum. Ég búin að sofa mjög fast því gólfið er bara nokkuð þægilegt og þakið mottum ofnum úr þurrkuðu bananalaufi, með heyi undir. Við amma vöknuðum báðar jafn myglaðar með hönd undir kinn.

Svo á að kenna okkur að vefa svona bananalaufamottu. Anna Pála fer í panikk og rifjar upp tíma sinn sem handavinnunemandinn frá helvíti. Það sem átti að koma út var eitthvað á þessa leið "ég er sko ekkert góð í hlutum þar sem hugur og hönd fara saman. Get helst bara notað hausinn einan í einu." Það sem kom hins vegar var eitthvað svona:

"I´m not sure if I should try. You know, in school I was never good at such things. I could only manage well in the subjects where you use your brain."

 


Þjóðsöngur í fimmta gír

Alltaf þegar þjóðsöngurinn er spilaður fyrir handboltaleikina í Þýskaland, er eins og ég sé sprautuð með einhverju örvandi. Ég byrja að gera allt hraðar sem ég er að gera. Hættulegt ef konan væri að keyra. Pæling að spila þjóðsönginn í hraðspilun næst þegar ég tek til. Best að ég nýti samt þessa innspýtingu í að vinna núna.

Lesið brandaradálk Önnu Pálu í Morgunblaðinu í dag?

Ég fæ aldrei að vera fyndin í Mogganum. Í hvert sinn sem ég lauma einum mögnuðum fimmaurabrandaranum inn í fréttirnar hjá mér, kemur einhver húmorslaus fréttastjórinn og klippir hann út með köldu blóði. 

Er að bræða með mér hvort ekki yrði pláss fyrir Brandaradálk Önnu Pálu í þessu annars ágæta blaði. Það má alltaf á sig blómum bæta.

Hann gæti jafnvel verið á síðu átta, við hliðina á Brandaradálki Styrmis. Þeir sem hafa áhuga á þessu geta skrifað sig á stuðningsmannalista hér fyrir neðan.

 

 


Helgin..

.. Var góð. Á dagskrá var m.a:

1. Á föstudeginum listakynning Röskvu. Það var magnað að standa úti í sal, grenjandi af stolti og búin að klappa af sér hendurnar fyrir þessu fólki sem ég átti að  þessu sinni engan þátt í að stilla upp á listann. Nema hvað. Þetta er samt afburðagóður listi, alveg eins og sá í fyrra sem er ennþá í framboði. Þetta fólk á eftir að stjórna Stúdentaráði frábærlega. Bendi á þessa grein hans Kára, sem er í fyrsta sæti í ár, á Vefritinu.

2. Á laugardeginum Önnukvöld til minningar um ömmu sem dó í fyrravor. Haldið á ofurstemmningarstaðnum Sægreifanum að frumkvæði n.k. fóstursonar hennar, Svenna Sveins, sem er snillingur eins og amma var. Humarsúpa. Söngur. Í bæinn með mömmu og pabba og vinum þeirra á eftir. Gaman. Hluti úr Gróskumálþingi var líka gaman. Oddný Sturlu fór á kostum með erindi um femínisma og jafnaðarstefnuna. 

3. Á sunnudeginum vinnan. Þið eruð alveg ágæt.


"I will sell this house today, I will sell this house today."

Man einhver eftir þessari línu? Það fær samt enginn prik fyrir það eitt að kunna að gúgla. Prik fást fyrir að hafa séð myndina og muna eftir þessu af því maður tók eftir því. Frekar en þessari ágætu sturtuathugasemd sem heimurinn trylltist yfir. 

Ég rifja þetta að minnsta kosti upp í hvert skipti sem ég er að stappa stálinu í sjálfa mig og hef óljóst á tilfinningunni að það eigi ekki eftir að skila sér. Þá þarf maður að muna að á hverjum degi eru seld hús.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband