Færsluflokkur: Bloggar

Colgate

Mynd af mér í Fréttablaðinu í dag er dæmd til að fá verðlaunin "Colgate mánaðarins."

Í sól og sumaryl

Í kvöld er ég í grundvallaratriðum rauð að framan og hvít að aftan. Það var nefnilega sólarfrí í vinnunni seinnihluta dags, fyrir þá fáu sem ekki voru erlendis eða í fríi. Forstjórasnillingurinn stóð vaktina ein það sem eftir var svo ekki þyrfti að loka sjoppunni. 

Húrra fyrir henni. Ég verð tvöfalt duglegri í næstu viku í staðinn.  

ALLIR AÐ MUNA AÐ NOTA SÓLINA. ÞÁ VERÐUM VIÐ GLÖÐ. 

 

E.s. Bjarni Flórídamaður varð fyrir verulegu aðkasti með trefil í bænum í dag. Hann tuðar um að veðrið sé vont og Ísland dýrt. Svo fór hann í sleik við ókunnuga konu á Austurvelli. Dagný veit meira um málið.  

E.e.s. Bjarni er óhress með að ég sé að ljúga upp á hann á bloggsíðum úti í bæ. Hann fór alls ekkert í sleik.


Bannað að príla milli hólfa!

Ég er lasinn aumingi.

Í fyrrakvöld hélt ég að málið væri ofnæmi. Ákvað að standa við stóru orðin og skella mér á völlinn.  Og það var alveg subbulega gaman. Subbulega segi ég af því horið flæddi úr nefinu á mér. En það er augljóst af hverju var gaman. Sex þúsund manns og fimm núll.

Dró familíuna með og uppgötvaði að ég hef varla setið aftur í hjá mömmu og pabba í mörg ár. Sindri bró var að vísu á Moggavakt og "lýsti leiknum" beint á mbl.is. Litla greyið. 

"Þegar þið loksins mætið á völlinn látiði gefa ykkur miða og sitjið í forsetastúkunni," sagði pabbi við okkur mömmu eftir leikinn. Í miðaröðinni gaf maður frá vissu fyrirtæki okkur miða. Svo komum við upp í stúkuna 0,5 sekúndum eftir fyrsta markið. Frábært. En þá voru góð ráð dýr með sæti því strax þarna var orðið vel fullt. Pabbi deyr ekki ráðalaus og smellir sér yfir eins og eina girðingu milli hólfa til að komast í fullt af lausum sætum. Við klifruðum bara öll yfir. 

Fyrir framan okkur sátu Eyjólfur Sverrisson og frú og að ég held aðstoðarþjálfarinn. Held að konan hans Eyjólfs heiti líka Anna Pála. En töff nafn. Þorði samt ekki að athuga það. Ef einhvern tímann á leiknum var tekin mynd af Eyjólfi (Myndatexti: Landsliðsþjálfari karla tekur glósur - grín, frekar ódýrt) hefur það væntanlega verið þegar ég var að þurrka hor fyrir aftan. 

Svo voru verðir farnir að rölta um og stöðva krakka í að klifra inn í sama hólf og við höfðum gert. Pabbi vakti athygli mína á að við sætum víst í bólstruðu stólunum. Eftir hlé glumdi í hátalarakerfinu "Áhorfendur eru minntir á að stranglega bannað er að príla milli hólfa." Ekki laust við að ég færi að horfa vænisýkislega í kringum mig. Á leiðinni niður úr stúkunni nikkaði Gamli góði Villi pabba og sagði eitthvað um að þær hefðu verið flottar stelpurnar. Pabbi bara "já, ég er líka frægur."

Svo var farið til baka í bílinn. Honum hafði verið lagt snyrtilega í miðri grasbrekku: "Hér komum við á jeppanum okkar.. Farið frá, öhh, hinir jeppar!" Jeppar eru ofnotað og stórhættulegt prjál á götum Reykjavíkur. Hvað um það. Bannað að ganga á grasinu er yfirleitt reglan á svona grasbölum. Yfirleitt stendur ekkert um að keyra. Og til öryggis tókum við mamma hlaupandi útgáfuna af Göngulagsmálaráðuneytinu á leið í bílinn. Við hliðina á okkur í grasinu hafði verið lagt jeppa með einkanúmerinu "JURTIR." Það fannst okkur mjög fyndið. Góður felubúningur. 

Ég læt öðrum eftir að skrifa af viti um leikinn. En stelpurnar "okkar," fyrst þeim gengur svona vel núna, voru greinilega miklu teknískari og áttu flottari sendingar og gabbhreyfingar, þótt þær serbnesku hafi barist af krafti. Við virðumst eiga margar efnilegar stelpur auk þessara sem hafa haldið liðinu uppi undanfarin ár. Ásthildur Helgadóttir kannski ekki fram úr hófi snörp en alltaf traust. Svo er hún líka sæt. Grín. Mér finnst Ásthildur ofboðslega sæt. En við eigum ekki að hlutgera íþróttamenn. 

 

E.s. Bæti hér við link á eina brjálæðislega flotta helgarumfjöllun hjá mér.  Þótt ég segi sjálf frá og allt það. Nennti ekki að búa til sér færslu um þessi stórtíðindi.

 

 


Rauðhærður strákur?

Mig dreymdi margt í nótt. Eitt var að ég ætti barn. Skemmtilegt í ljósi umræðna um getnaðarvarnir í nótt. En líklega er þetta af því ég er nýbúin að halda á nýja frændanum Davíð Ómari sem er mættur frá Eþíópíu. 

Af hverju ætti ég að eiga rauðhærðan strák? Á það að þýða eitthvað?

Annars get ég upplýst að barneignir eru alls ekki á dagskrá í náinni framtíð. Þrátt fyrir spár stelpnanna um að ég verði fyrst í hópnum. Líklegust til að gleyma pillunni sjáiði.

--

Vefritspartý var gott grín. Skemmtilegt fólk og krúttkynslóðartónlist. Fyrir áhugasama um ... mannfjöldatölur drekka Veffar greinilega fremur bjór í flösku en dós. Kaldi er fínn bjór.  

 


Ryksugan á fullu, étur alla drullu

veiÞað er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa Það er gaman að þrífa

Vefritspartý annað kvöld. Stefnir í mikla gleði. Best að fara að byrja í alvöru á að taka til.


Í dag borga allir með plasti

Blessuð tombólubörnin þurfa að koma sér upp posum. 

Annars var ég að heyra í fréttum að settur saksóknari í Baugsmálinu hefði kallað kröfuna um skýrleika refsiheimilda, tískubólu. Vill einhver senda áfallateymi heim til Róberts Spanó. 

Og ég er orðin möppudýr og skrifstofublók. Persónuvernd er skemmtilegur vinnustaður.  

Fer með tímabundna ritstjórn á Vefritinu ásamt Þóri yfir sumarmánuðina. Þar er að birtast eðalstöff; daglegir pistlar og  svo helgarumfjallanir. Sjálf skrifaði ég um daginn um reynslu mína af módelstörfum. Ingvi Snær (vinnu)félagi hefur átt betra gengi að fagna í þeim geira, eða eins og hann kýs að orða það sjálfur: "Ég hef náð að sameina bransann og lögfræðina."

Flokk jú.  

 


Tvöfalt ekkifall... og þó

Ég er með bloggblokk.

Og margt búið að gerast síðan síðast. Stjórnin féll tæknilega séð ekki, sbr færslurnar hér að neðan. Og ég féll ekki. Ekkert tæknilegt við það. Bara  fimm daga geðveiki yfir kosningahelgina þar sem eins og þrjú próf / fjórtán einingar komu við sögu. Eignaréttareinkunnina (7,5 einingar í 100% prófi takk) vil ég tileinka Önnu Þóru og Magnúsi sem fóstruðu mig í tveggja vikna upplestrarútlegð á Akureyri. Og þeim sem stuðluðu að því að fráfarandi stjórn fengi hvíld jafnvel þótt R-listastjórn hafi ekki gengið upp. Það hefði að sjálfsögðu verið út úr kortinu að halda áfram ríkisstjórnarsamstarfi FD.

Skrýtið að hafa ekki skriðið beint af próflokadjamminu og inn á Mogga, eins og undanfarin ár. Í staðinn hef ég gert margt (af viti), aðallega sem galeiðuþræll. Svo sem í lagi að djamma aðeins þegar tími gefst til. 

Og skrifa helgarumfjöllun á Vefritið.


Helvítis partýlið

Veit fólk ekki að ég er í prófum?

Þá dettur mér í hug staka

Var að rifja upp þessa vísu sem varð til við skemmtilega absúrd aðstæður. Við Barbara úti á stöðuvatni í árabát. In the middle of nowhere, Japan. Ekki hræðu að sjá í umhverfinu nema eitt stk stórt sjóræningjaskip sem er eins og klippt út úr Pétri Pan og svo hjólabátur í svanslíki þar sem tvær öflugar japanskar stelpur hjóla sem mest þær mega til að verða á undan okkur í land. Október. En jólaskraut í öllum búðum. Ég frekar nýbúin að detta illa á hausinn og einhver áhöld um hvort það hefði áhrif á áttaskyn og fleira hjá mér. 

Á myndunum er annars vegar ég í skáldamóð með sjóræningjaskipið í bakgrunni og hins vegar hjólandi japönsku vitleysingarnir okkar. 

 

Í Japan koma bráðum jól

ég er úti á vatni

Vona á hoppi um heimsins ból

að hausinn á mér batni 

Skáldatrans Hjólandi vitleysingarnir

 


Það eru að koma próf

Ég held að þetta blogg ætli að hafa tiltölulega hægt um sig á næstunni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband