Bannað að príla milli hólfa!

Ég er lasinn aumingi.

Í fyrrakvöld hélt ég að málið væri ofnæmi. Ákvað að standa við stóru orðin og skella mér á völlinn.  Og það var alveg subbulega gaman. Subbulega segi ég af því horið flæddi úr nefinu á mér. En það er augljóst af hverju var gaman. Sex þúsund manns og fimm núll.

Dró familíuna með og uppgötvaði að ég hef varla setið aftur í hjá mömmu og pabba í mörg ár. Sindri bró var að vísu á Moggavakt og "lýsti leiknum" beint á mbl.is. Litla greyið. 

"Þegar þið loksins mætið á völlinn látiði gefa ykkur miða og sitjið í forsetastúkunni," sagði pabbi við okkur mömmu eftir leikinn. Í miðaröðinni gaf maður frá vissu fyrirtæki okkur miða. Svo komum við upp í stúkuna 0,5 sekúndum eftir fyrsta markið. Frábært. En þá voru góð ráð dýr með sæti því strax þarna var orðið vel fullt. Pabbi deyr ekki ráðalaus og smellir sér yfir eins og eina girðingu milli hólfa til að komast í fullt af lausum sætum. Við klifruðum bara öll yfir. 

Fyrir framan okkur sátu Eyjólfur Sverrisson og frú og að ég held aðstoðarþjálfarinn. Held að konan hans Eyjólfs heiti líka Anna Pála. En töff nafn. Þorði samt ekki að athuga það. Ef einhvern tímann á leiknum var tekin mynd af Eyjólfi (Myndatexti: Landsliðsþjálfari karla tekur glósur - grín, frekar ódýrt) hefur það væntanlega verið þegar ég var að þurrka hor fyrir aftan. 

Svo voru verðir farnir að rölta um og stöðva krakka í að klifra inn í sama hólf og við höfðum gert. Pabbi vakti athygli mína á að við sætum víst í bólstruðu stólunum. Eftir hlé glumdi í hátalarakerfinu "Áhorfendur eru minntir á að stranglega bannað er að príla milli hólfa." Ekki laust við að ég færi að horfa vænisýkislega í kringum mig. Á leiðinni niður úr stúkunni nikkaði Gamli góði Villi pabba og sagði eitthvað um að þær hefðu verið flottar stelpurnar. Pabbi bara "já, ég er líka frægur."

Svo var farið til baka í bílinn. Honum hafði verið lagt snyrtilega í miðri grasbrekku: "Hér komum við á jeppanum okkar.. Farið frá, öhh, hinir jeppar!" Jeppar eru ofnotað og stórhættulegt prjál á götum Reykjavíkur. Hvað um það. Bannað að ganga á grasinu er yfirleitt reglan á svona grasbölum. Yfirleitt stendur ekkert um að keyra. Og til öryggis tókum við mamma hlaupandi útgáfuna af Göngulagsmálaráðuneytinu á leið í bílinn. Við hliðina á okkur í grasinu hafði verið lagt jeppa með einkanúmerinu "JURTIR." Það fannst okkur mjög fyndið. Góður felubúningur. 

Ég læt öðrum eftir að skrifa af viti um leikinn. En stelpurnar "okkar," fyrst þeim gengur svona vel núna, voru greinilega miklu teknískari og áttu flottari sendingar og gabbhreyfingar, þótt þær serbnesku hafi barist af krafti. Við virðumst eiga margar efnilegar stelpur auk þessara sem hafa haldið liðinu uppi undanfarin ár. Ásthildur Helgadóttir kannski ekki fram úr hófi snörp en alltaf traust. Svo er hún líka sæt. Grín. Mér finnst Ásthildur ofboðslega sæt. En við eigum ekki að hlutgera íþróttamenn. 

 

E.s. Bæti hér við link á eina brjálæðislega flotta helgarumfjöllun hjá mér.  Þótt ég segi sjálf frá og allt það. Nennti ekki að búa til sér færslu um þessi stórtíðindi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Pála Sverrisdóttir

En frábær saga Anna Pála

Anna Pála Sverrisdóttir, 25.6.2007 kl. 11:30

2 identicon

Já, löng og ítarleg einnig. Gaman að því.

Sindri (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 16:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband