Ekki fleiri álver

Frábær helgi. Takk fyrir mig. Brjáluð stemmning á þinginu í gær. Heitt stöff frá helginni er að finna hér og hér og hér. Andstaðan við fleiri álver að vekja athygli víða, auk annarra góðra mála.

Ég er sátt kona í dag. Sem þarf reyndar að sýna stífan aga í lestri í alþjóðalögum fram til kl 08.15 á föstudaginn. Þá er fyrsta munnlega lokaprófið mitt í lagadeild.

Myndir frá helginni eru hér fyrir neðan. Látum liggja milli hluta hvað var að gerast á þeirri efri. Fyrir neðan er svo systkinamynd. Elsk´ykkur. 

IMG_1138
IMG_1252

 

 

 

Hér kemur síðan ályktunin um umhverfismál, sem ég hélt kannski að væri full hörð og yrði milduð í meðförum umhverfis- og auðlindahóps. En hún varð bara miklu harðari þar.

2.1 Ungir jafnaðarmenn hafna frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi
Ungir jafnaðarmenn vilja að Íslendingar geri sér grein fyrir hvaða verðmætum þeir sitja á í íslenskri náttúru og hagi sér samkvæmt því. Öll skynsemisrök hníga að því að segja nú þegar, og til framtíðar, stopp við áframhaldandi uppbyggingu mengandi stóriðju. Ungir jafnaðarmenn hafna því frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Landsmenn ættu að auka fjölbreytni atvinnulífsins fremur en að setja öll sín egg í hina yfirfullu álkörfu.

Til lengri tíma telja Ungir jafnaðarmenn að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið með því að þróa atvinnulíf í betri sátt við umhverfið. Í því samhengi eru fulltrúar Samfylkingarinnar á Alþingi og í sveitarstjórnum hvattir til að fylgja staðfastlega eftir stefnu flokksins þar sem lögð er áhersla á að örva nýsköpun og bæta aðstæður fyrir hátækniiðnað og sprotafyrirtæki. Minnt er á að verndun lands er nýting og að óspillt náttúra er auðlind í sjálfri sér.

Íslendingar eiga ótæmandi möguleika á nýtingu þeirra miklu auðlinda sem felast jafnt í sérstæðri náttúru og endurnýjanlegum orkugjöfum. Sýna þarf ábyrgð í öllu ákvarðanatökuferli og gefa sér tíma í rannsóknarvinnu. Minnt er á að með fljótfærnislegri útgáfu rannsóknarleyfa korteri fyrir síðustu kosningar voru hendur núverandi ríkisstjórnar fyrirfram bundnar.

 

Í orku- og iðnaðarmálum fór ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks offari í afdrifaríkum ákvörðunum sem teknar voru á skjön við góða stjórnarhætti. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að allar fyrirhugaðar álversframkvæmdir verði stöðvaðar. Þar sem undirbúningur er á einhvern veg kominn, og þá ekki síst fyrir tilstilli fyrri ríkisstjórnar, er vakin athygli á að enn er hægt að koma í veg fyrir slík mistök á sveitarstjórnarstiginu. Er þar sérstaklega átt við álver í Helguvík og á Bakka.

 

Þá ítreka ungir jafnaðarmenn að ofurvarlega þarf að fara þegar teknar eru ákvarðanir um virkjun jarðhitasvæða, ekki síður en vatnsafls. Mörg jarðhitasvæði eru jafnframt einstakar náttúruperlur sem ekki má spilla. Á komandi árum er líklegt að tækni við nýtingu jarðhita fleygi fram. Ef ekki er hægt að nýta jarðhitann undir verðmætum náttúrusvæðum, án þess að spilla þeim, er virkjun þeirra einfaldlega ekki tímabær. Ungir jafnaðarmenn fara því fram á það við stjórnvöld að þau feli næstu kynslóð þetta úrlausnarefni.

 


Landsþing á morgun.

Það er landsþing hjá UJ um helgina. Þetta verður stöðistöð, eins og fráfarandi formaður samtakanna hefði getað orðað það. Drög að ályktunum er sem liggja fyrir þinginu eru magnþrungin.

Ég er ein í framboði til formanns. Barmmerkin höfðu samt verið framleidd, eitt talsins. Er að hugsa um að vera kannski bara með það sjálf. Ég gerðist svo hógvær í gær að segja að ég kæmist ekki á einhvern fund á sunnudaginn af því þá væri verið að krýna mig.

Þeir sem mæta ekki eru... rauðhærðir og með gleraugu, svo það komi fram. Og talandi um: Til hamingju með nýju íbúðina elsku Dagga og Hjalti Snær!

Ég held að ég ætti að fara að sofa núna. Gangi okkur vel.


Vinnan mín

Takk Þórður Sveinsson fyrir laugardagskvöldið. Þú ert maðurinn (í kóngastólnum á myndinni). Og það var gaman að djamma með Hafnarfjarðarkommunum.

IMG_8187

Ég er með bólu innan í eyranu.


Þunglyndur öryrki í leit að bættum hag

Mogginn minn er loksins farinn að rata á réttan stað eftir flutningana. Í honum í dag eru nokkrar merkilegar aðsendar greinar. Sú mikilvægasta er samt þessi sem ég leyfi mér að birta hérna í heild. Trausti Rúnar Traustason skrifar grein með sama titli og að ofan:

---
ÞAÐ heyrist ekki mikið frá okkur öryrkjum, það er erfitt að skrifa undir nafni og viðurkenna að vera öryrki, að vera að berjast við þunglyndi og önnur veikindi. Það að geta ekki unnið fyrir sér og sínum er sárt, það var erfitt að lækka í launum þegar ég veiktist fyrst, og það var mjög erfitt að hætta að vera það sem ég vann við og verða að öryrkja.

Barátta fyrir hag öryrkja hefur ekki verið mjög sýnileg þessi síðustu misseri, við erum ekki sterkur hagsmunahópur og verðum oft eftir þegar verið er að bæta hag fólks, mér finnst erfitt að skilja hvers vegna, allir virðast skilja að þetta er eitthvað sem þarf að laga. Ég er að skrifa þetta til að reyna að koma af stað einhverri umræðu um réttindamál öryrkja og aldraðra.

Ég ætlast ekki til að verða ríkur sem öryrki, en ég vil geta klætt mig og fætt og vil geta gert eitthvað með börnunum mínum annað en að labba alltaf niður í bæ, sem er annars mjög gaman og höfum við mikla ánægu af, fara annað slagið í bíó, vera "maður með mönnum" en ekki alltaf blankur og þurfa jafnvel að leita til ættingja um peninga til að eiga fyrir mat. Öryrkjar fá enga desemberuppbót, samt eru líka jól hjá okkur, við eigum börn, foreldra og vini sem við viljum gleðja á jólum eins og aðrir en það er erfitt þegar bæturnar eru svona naumt skammtaðar. Er ekki kominn tími til að leiðrétta þetta?

Fyrir kosningarnar núna í vor var mikið talað um að bæta þyrfti hag öryrkja og fór Jóhanna Sigurðardóttir þar fyrir með mikilli röggsemi og hafði mörg orð um hvað mætti betur fara, en núna virðist sem hún sé orðin gleymin. Eldri borgarar fengu einhverja leiðréttingu á sínum hag, sem betur fer, en við öryrkjarnir virðumst hafa gleymst. Laun mín eru það sem ég fæ frá lífeyrissjóðnum mínum og heilar 19,800 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Satt best að segja finnst mér að lífeyrissjóðurinn sem ég vann fyrir hörðum höndum ætti ekki að lækka örorkulífeyrinn, mér finnst eins og það sé verið að stela frá mér. Að bæta hag okkar þarf að gera núna, það þarf ekki að velta þessu fyrir sér eða láta málið í nefnd, bara að stíga fram, axla ábyrgð sína og bæta hag okkar öryrkja. Ekki veit ég hvaðan nafnið "öryrki" kom fyrst, en mér finnst þetta ljótt orð fyrir þennan hóp af veiku fólki sem getur ekki unnið fyrir sér, og vonandi verður einhvern tímann hægt að finna betra orð.

Höfundur er öryrki.


Já, við fengum gefna hækju um helgina

Helgin fór í Þing unga fólksins og partýstand. Auk þess að skreppa í Kolaportið með vestur-íslenskum frændum: Fyrrum háskólarektor Dennis Anderson og bókasafnandi bróður hans Jim. Var auðvitað þunn og þreytt klukkan ellefu á sunnudagsmorgni en það var samt gaman að hitta bræðurna. Dennis hefur að mig minnir komið átján sinnum til Íslands og ég hitti hann einmitt fyrir tólf árum með Ninu konunni hans sem er líka akademíker og helgaði starfsævina rannsóknum á stöðu kvenna. Þetta frábæra fólk leggur sig allt fram um að rækta tengslin við gamla landið og vill endilega, endilega fá mann í heimsókn. Segja ættingjana dreifða um allt í Kanada og lítið mál að redda sófagistingu. Jim bókasafnari er síðan í ágætis eftirlaunabissness í Kanada með bækur skrifaðar um eða af Vestur-Íslendingum - svona mikill er áhuginn þar.

Verð að viðurkenna að ég hafði mikla fordóma gagnvart Þingi unga fólksins. En það var miklu skemmtilegra en ég hélt og margt gott sem rataði í ályktanirnar. Mikil félagshyggjustemmning yfir vötnum sem varð til þess að SUSarar vildu mála sig upp sem kúgaðan minnihlutahóp, eins og varaformaður SUF benti á. Gaman að því. Ennþá meira gaman að hækjunni sem við í Samfylkingunni fengum frá Framsókn í tilefni ríkisstjórnarsamstarfsins. Líka að gjöf UVG til Framsóknar. Það var hann Svabbi félagi minn, Svavar Knútur í Hraun!, sem fór á kostum með flutningi á laginu Mengum Ísland og lýsingu á því hvernig vídjóið við það lag gæti verið. Meðal annars Valgerður og Halldór að hlaupa í sló-mó að hætti Strandvarða, með hjálma á hausnum (þó ekki í rauðum sundbolum). Til að bjarga börnunum á Reyðarfirði með uppblásnu hungurbumburnar.


Afmæli

ég á afmæli í dag ég á afmæli í dag ég á afmæli í dag ég á afmæli í dag ég á afmæli í dag ég á afmæli í dag ég á afmæli í dag!

Góður dagur en undarlegur. Prófadagur (-jaá, gæti hafa gengið). Fundadagur með meiru. Hádegisbjórdagur. Góðumatsdagur. 

Nú ætla ég að einbeita mér að því í tíu mínútur í viðbót að eiga afmæli. Nei níu. Átta.


Varaformannsslagsmál

AOA.sizedÞað er helst í fréttum að varaformaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, lenti í slag í miðbænum um helgina. Hann var staddur á Ölstofu allra landsmanna og heyrði að hinu megin við barinn var verið að tala illa um Evrópusambandið. Gústi tók sig til og hellti heilum bjór yfir viðkomandi. Hvernig getur nokkrum manni dottið svona í hug? Restina má svo lesa um í dagbók lögreglunnar.

Grín.

Það er semsagt slagur í uppsiglingu, en hann er um varaformannsembættið í Ungum jafnaðarmönnum. Útlit fyrir fjör á landsþinginu okkar 6.-7. okt. Þingið er haldið í Reykjavík og stefnir í góða mætingu og eld-hressleika. Þau sem stefna á varaformann eru Kamilla og svo Matti nokkur. Kamillu hef ég kynnst í gegnum starfið og veit að hún er mikill snillíngur. Matta verður hins vegar gaman að kynnast -efast ekki um að hann er snillíngur líka. Ég nefnilega þekki ekki ennþá alla UJ félaga, en það kemur og verður spennó hvað sem gerist með formannskjör.

--- 

Nú þarf Anna Pála Sverrisdóttir að setjast á rassinn og læra eins og vindurinn.


Kallar dagsins

Broskall dagsins fær Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Skoðið til dæmis fyrstu frétt Sjónvarpsins í sjöfréttum í dag, um hjálp við húsnæðislausa einstæða foreldra. Drög að því sem gæti orðið ályktun UJ:

Jóhanna Sigurðardóttir er flottust. 

Fýlukallinn fær Stefán Eiríksson fyrir að vilja loka skemmtistöðum í miðbænum klukkan tvö. Ég get svo svarið að klukkan var orðin miklu meira en það þegar ég hitti hann á föstudagsnóttina á Ölstofunni, í frábærum félagsskap frú Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur.

 

E.s. Ofangreint diss breytir því ekki að mér finnst flott hjá Stefáni að láta sjá sig og aðra lögregluþjóna á götum borgar óttans, í meira mæli en áður. 


Einbeitingarleysi.is

Haha. Mér fannst titillinn á greininni hans Kára í dag með eindæmum óspennandi. En af því maður er nú í ritstjórn er reglan að kíkja á alla pistla, jafnvel þótt þeir líti niðurdrepandi út. Í dag leiddi þessi regla til óstöðvandi hláturskasts við að ímynda mér það sem hann skrifar um í lokaorðunum. 

Annars má ég ekki vera að neinu fyrr en kl tólf á miðvikudaginn. Þá á ég einmitt afmæli. Milli klukkan níu og tólf á miðvikudagsmorguninn má síðan senda mér alla góða strauma sem til eru, því þá mun ég þurfa á þeim að halda.


Skilmysingur

Ég sem hélt ég hefði eignast aðra frænku í Ráðhúsinu. Það reynist ekki vera rétt. En ég verð að játa að ég var ein af þeim sem féll í gildruna og hélt að Sóley beibí væri að skjóta á mig. Skildi reyndar alls ekki hver punkturinn ætti að vera og fannst þessi líking alveg smjörsteikt. Úr verður hinn besti brandari.

Það er ekki langt síðan ég varð Samfó. Þegar ég var í VG á sínum tíma eignaðist ég margt gott fólk að vinum og kunningjum sem ennþá eru kærir, svoleiðis breytist auðvitað ekki. Búin að ræða þessa skiptingu og framboðsmál við marga úr VG og fengið almennt mikinn skilning. Sem er gott.

Ég fer svo auðvitað ekki ofan af því að félagshyggjufólk á að vinna saman.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband