Þunglyndur öryrki í leit að bættum hag

Mogginn minn er loksins farinn að rata á réttan stað eftir flutningana. Í honum í dag eru nokkrar merkilegar aðsendar greinar. Sú mikilvægasta er samt þessi sem ég leyfi mér að birta hérna í heild. Trausti Rúnar Traustason skrifar grein með sama titli og að ofan:

---
ÞAÐ heyrist ekki mikið frá okkur öryrkjum, það er erfitt að skrifa undir nafni og viðurkenna að vera öryrki, að vera að berjast við þunglyndi og önnur veikindi. Það að geta ekki unnið fyrir sér og sínum er sárt, það var erfitt að lækka í launum þegar ég veiktist fyrst, og það var mjög erfitt að hætta að vera það sem ég vann við og verða að öryrkja.

Barátta fyrir hag öryrkja hefur ekki verið mjög sýnileg þessi síðustu misseri, við erum ekki sterkur hagsmunahópur og verðum oft eftir þegar verið er að bæta hag fólks, mér finnst erfitt að skilja hvers vegna, allir virðast skilja að þetta er eitthvað sem þarf að laga. Ég er að skrifa þetta til að reyna að koma af stað einhverri umræðu um réttindamál öryrkja og aldraðra.

Ég ætlast ekki til að verða ríkur sem öryrki, en ég vil geta klætt mig og fætt og vil geta gert eitthvað með börnunum mínum annað en að labba alltaf niður í bæ, sem er annars mjög gaman og höfum við mikla ánægu af, fara annað slagið í bíó, vera "maður með mönnum" en ekki alltaf blankur og þurfa jafnvel að leita til ættingja um peninga til að eiga fyrir mat. Öryrkjar fá enga desemberuppbót, samt eru líka jól hjá okkur, við eigum börn, foreldra og vini sem við viljum gleðja á jólum eins og aðrir en það er erfitt þegar bæturnar eru svona naumt skammtaðar. Er ekki kominn tími til að leiðrétta þetta?

Fyrir kosningarnar núna í vor var mikið talað um að bæta þyrfti hag öryrkja og fór Jóhanna Sigurðardóttir þar fyrir með mikilli röggsemi og hafði mörg orð um hvað mætti betur fara, en núna virðist sem hún sé orðin gleymin. Eldri borgarar fengu einhverja leiðréttingu á sínum hag, sem betur fer, en við öryrkjarnir virðumst hafa gleymst. Laun mín eru það sem ég fæ frá lífeyrissjóðnum mínum og heilar 19,800 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Satt best að segja finnst mér að lífeyrissjóðurinn sem ég vann fyrir hörðum höndum ætti ekki að lækka örorkulífeyrinn, mér finnst eins og það sé verið að stela frá mér. Að bæta hag okkar þarf að gera núna, það þarf ekki að velta þessu fyrir sér eða láta málið í nefnd, bara að stíga fram, axla ábyrgð sína og bæta hag okkar öryrkja. Ekki veit ég hvaðan nafnið "öryrki" kom fyrst, en mér finnst þetta ljótt orð fyrir þennan hóp af veiku fólki sem getur ekki unnið fyrir sér, og vonandi verður einhvern tímann hægt að finna betra orð.

Höfundur er öryrki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Unnur R. H.

Er sjálf öryrki og er svvooooo sammála þessu...Það er eins og það sé horft fram hjá okkur sem manneskjum, en ekki bara orðinu öryrki Einnig held ég, er þó ekki alveg viss, að við séum ein með að tekjutrygging okkar er skert út af maka...Þetta finnst mér alveg makalaust og vitlaust, eins og við séum ekki persónur þó að við séum mað maka . Vonandi kemur sá dagur að þetta breytist þó svo að ég eigi ekki von á því fyrr en ég er orðin ellilífeyrisþegi!!!!!

Unnur R. H., 26.9.2007 kl. 09:39

2 identicon

Jamm, ég er öryrki líka og get tekið undir margt sem hann er að segja - ég er húsnæðislaus og hægt og bítandi að verða gjaldþrota langt fyrir þrítugt þrátt fyrir mikla gjafmildi ættingja. Það segir sig sjálft að það hefur ekkert sérstaklega góð áhrif á batavon geðfatlaðra einstaklinga að vera á götunni og uppá ættingja kominn fyrir ölmusu.

 Það er hins vegar nokkuð ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir ætlar sér stóra hluti í þessum málaflokki. Það er frekar barnalegt að halda að hún þurfi bara rétt að setjast í stólinn til að breyta alvarlega lífsgæðum þess stóra hóps sem við tilheyrum.

 Ég er nokkuð viss um að áður en skipt verður um ráðherra næst muni hafa orðið töluverð breyting til hins betra, því miður held ég bara ekki út  svo lengi og það eru auðvitað margir í sömu sporum. Það þýðir samt ekki að við getum heimtað kraftaverk, stundum er maður bara í djúpum skít og ekkert hægt að gera nema bölva því.  

G. H. (IP-tala skráð) 26.9.2007 kl. 12:31

3 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Er það ekki full snemmt að fara að skamma Jóhönnu fyrir aðgerðaleysi þremur mánuðum áður en hún tekur við þessum málaflokki?

Það er Guðlaugur Þór Þórðarson, sem fer með þennan málaflokk í dag en Jóhanna tekur við honum um áramótin. Samt er Jóhanna farin af sað með vinnu í sínu ráðuneyti til að skoða hvað hægt er að gera til að bæta kjör lífeyrisþega og einfalda almannatryggingakerfið.

Hvað tekjuskerðingar varðar þá eru þær nauðslynlegar vegna þess að lífeyrisþegar eru stór hluti þjóðarinnar (í dag um 42 þúsund manns) og fer sá fjöldi vaxtandi, sem hlutfall af þjóðinni aðallega vegna þess að við erum að eldast. Því er það svo að án tekjuskerðinga myndu skattgreiðendur einfaldlega ekki ráða við að greiða mannsæmandi upphæðir til þeirra, sem engar aðrar tekjur hafa ef allir aðrir ættu að fá þá sömu upphæð.

Sigurður M Grétarsson, 26.9.2007 kl. 13:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband