Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Montblogg

1. Landsliðið vann Slóveníu í fótbolta í dag! Ég var þar með hideous/æðislegan bulluhatt ásamt fríðu föruneyti. Fraubært.

2.  Ég á svo flott systkini. Kristján stóribróðir, Helga Vilborg mágkona og krakkarnir að gera góða hluti í Eþíópíunni. Nú eru þau að flytja frá höfuðborginni Addis og lengst út í sveit, í allt aðrar aðstæður en í borginni. Hugsa mikið til þeirra og litlu snillinganna fjögurra. Það VAR svo gaman að vera með þeim í fríinu hérna heima síðasta sumar. Nú. Sindri kláraði sjö áfanga í vor og útskrifaðist um daginn sem BS í iðnaðarverkfræði, 21 árs gamalt barnið. Gaman að sjá hvað hann fer að gera eftir sumardjobbið á Mogganum. Jæja. Sunna Mjöll kláraði grunnskólann með magnaðar einkunnir og fékk verðlaun frá menntaráði Reykjavíkur fyrir félagsþroska á sama tíma. MH fær heiðurinn af að mennta þennan snilling. Æfir handbolta, æfir fótbolta, vinnur eins og hestur og á frábæra vini og kærasta. Eins gott að við Sindri stöndum okkur jafn vel í makavalinu.

 

E.S: Hákon ætlar mögulega að draga mig í fjallgöngu klukkan níu í fyrramálið. Hvernig væri þá að fara að leggja sig.

E.E.S. Í þessu bloggi var meðvitað ekki fjallað um Króatíuleikinn í gærkvöldi.  


Nýr Afríkufrændi

Lítill bróðursonur er fæddur í Addis Ababa, Eþíópíu. Velkominn í heiminn Davíð Ómar. Ég vona að ég fái að kynnast þér sem fyrst. 

Elsku Kristján og Helga, Margrét Helga, Jóel og Dagbjartur Elí: Til hamingju. Ykkar er að sjálfsögðu sárt saknað héðan af klakanum. En það er víst hægt að vera hamingjusamur og gera góða hluti víðar en hér.

Ég verð að fá að deila myndum af fallegu bróðurbörnum mínum og mágkonu.

Davíð Ómar nýfæddur

Bróðurbörnin

AP: Persónuverndari

Þá er einn kall horfinn aftur á vit lögfræðinga og krókódíla í Miami. Það var skutlað á flugvöllinn áðan. "Þetta styrkir hjá ykkur ástina," er viðkvæðið hjá elskulegu fólki sem lítur á björtu hliðarnar. Bullshit. Fjarbúð er ömurleg.

Ef eitthvað bjátar á í sambandinu, hvað á maður þá að gera? Taka næstu flugvél til NY og tengiflug til Flórída? Grenja við fartölvuna og þykjast ræða málin af alvöru á skype? Ekki reyna að segja mér að þetta sé sniðugt.

--

sitelogoAnnars verða þáttaskil hjá mér í sumar. Eftir fimm ára starf á Mogganum með skóla, fer ég annað þetta árið. Fékk tilboð frá Persónuvernd sem mér fannst ég ekki geta hafnað og verð þar við bókarskrif og fleira frá og með fyrsta júní. Ég hlakka mjög til enda viðfangsefnin spennandi og vinnustaðurinn almennt óvenju góður að ég held.

Moggaskilnaði fylgir að sjálfsögðu fyrirfram tregi. Jafnvel þótt ég geti, eins og gefur að skilja, frussað út úr mér einstaka kaffibolla við lestur á forystugreinum og haft einhverjar athugasemdir við jafnréttismál og annað í stjórnun blaðsins. Þá skiptir það fyrir mig persónulega miklu minna máli en allt sem ég hef lært og allt það frábæra fólk sem ég hef unnið þar með, kynnst og eignast að vinum. 

Einhvern veginn finnst mér reyndar ólíklegt að ég hafi að fullu sagt skilið við blaðamennsku frá og með júní. Ég elska þetta starf.  


Valið milli vinstriflokka

Gömlu félagarnir mínir í VG hafa greinilega átt góða helgi. Til hamingju með það kæru vinir. Augljóslega hefur munað mikið um að ég skráði mig úr flokknum fyrir um ári, því leiðin hefur legið beint upp á við hjá þeim síðan. Að vísu skráði ég mig aftur í smátíma þar sem mér fannst ég eiga nógu mikið í flokknum til að fá að kjósa í forvali.

Nú er ég óflokksbundin, íhugandi og fréttaskrifandi í bili (og hvort sem er ekki viljað taka beinan og virkan þátt í flokksstarfi meðan ég hef verið í fréttaskrifum). Traustustu heimildamenn hafa talið mig gengna til liðs við Samfylkinguna. Það er rétt að ég hef daðrað við það. Hins vegar hef ég ekki tekið skrefið ennþá og verið eitthvað hikandi. Get ekki sett puttann á nákvæmlega af hverju. Tilfinningar (Tilfinningar! segi það og skrifa. er í lagi heima?..) kannski átt einhvern þátt. Erfitt að slíta sig frá einum flokki og hefja starf með öðrum. Sérstaklega þegar maður vill eiginlega helst af öllu eiga eitthvað í báðum flokkum. Vinna með góðu fólki úr báðum.

Sama hvað öllum mótrökum líður, og þau þekki ég ágætlega, hefði ég a.mk. viljað sjá tilraun gerða til að vinna saman í einu framboði. Í menntó hugsaði ég sem svo að það hefði nú einu sinni farið þannig að það var ekki gert. Maður þyrfti þá bara að velja á milli þess sem var orðið til. En ég held að það sé fjöldi fólks sem finnst þetta val á milli erfitt og jafnvel óþarft. Betra að sameina kraftana. Ég vil ekki gefast upp í þeirri viðleitni. Ágætis byrjun væri ríkisstjórnarsamstarf frá og með maí. 

---

Ég átti helgarumfjöllun á Vefritinu og ákvað að fjalla um klám. Skoðaði klámsíður o.fl. í þeim tilgangi. Þetta var alveg ferlega erfitt og mér eiginlega búið að líða hundilla því ég var að skoða og lesa um dapurlegri hluti en ég hefði átt von á. Fyrir var ekki alveg bætandi á jafnvægisleysið hjá mér. En afraksturinn birtist s.s. á Vefritinu og er þar m.a. birt athugasemd klámsíðuhaldara um "sögu dæmigerðrar klámhóru."

---

Til hamingju með útskriftina Bjarni Már. Eins og þú hefur verið óþreytandi við að segja mér: Þú ert flottastur. Kallinn s.s. heima í nokkra daga til að útskrifast sem MA í alþjóðasamskiptum. Telur sig verða orðinn Grandmaster þegar hann klárar mastersnámið í Miami. 


Helgin..

.. Var góð. Á dagskrá var m.a:

1. Á föstudeginum listakynning Röskvu. Það var magnað að standa úti í sal, grenjandi af stolti og búin að klappa af sér hendurnar fyrir þessu fólki sem ég átti að  þessu sinni engan þátt í að stilla upp á listann. Nema hvað. Þetta er samt afburðagóður listi, alveg eins og sá í fyrra sem er ennþá í framboði. Þetta fólk á eftir að stjórna Stúdentaráði frábærlega. Bendi á þessa grein hans Kára, sem er í fyrsta sæti í ár, á Vefritinu.

2. Á laugardeginum Önnukvöld til minningar um ömmu sem dó í fyrravor. Haldið á ofurstemmningarstaðnum Sægreifanum að frumkvæði n.k. fóstursonar hennar, Svenna Sveins, sem er snillingur eins og amma var. Humarsúpa. Söngur. Í bæinn með mömmu og pabba og vinum þeirra á eftir. Gaman. Hluti úr Gróskumálþingi var líka gaman. Oddný Sturlu fór á kostum með erindi um femínisma og jafnaðarstefnuna. 

3. Á sunnudeginum vinnan. Þið eruð alveg ágæt.


Ég styð Höllu í formann KSÍ

Halla Gunnarsdóttir býr yfir u.þ.b. öllum þeim kostum sem mér getur dottið í hug að formaður KSÍ þurfi að hafa. Fyrir nú utan hvað hún er sæt og sexý stelpa.

Áfram Halla.  

beib


mbl.is Halla gefur kost á sér í formannskjöri KSÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komin heim

Mætt á klakann. Allt við sama heygarðshornið. Ég líka. Klukkan tólf á mánudag á harðahlaupum um Vesturbæinn að reyna að ná í tíma í Lögbergi. Það eina sem hefur breyst í þessu öllu að virðist, er að ég er massaðri á bakinu og með smávegis ör á kjálkanum sem mamma taldi að væri varalitur.

Ég hélt að fjórir mánuðir yrðu svo langur tími. Og jú, það virðist langt síðan ég var í Suður-Afríku að taka máltækið "fall er fararheil" einum of bókstaflega. Samt er eins og ég hafi farið í gær.

Vil þakka öllum sem komu að því verkefni að halda fyrir mig jól, áramót og þrettánda á einu kvöldi nánast um leið og við vorum komnar út úr flugvélinni á laugardaginn. Pakkar og skaup á einu kvöldi. Hver getur beðið um meira. Hafði mikinn húmor fyrir skaupinu svo það komi fram.

Bandaríkin voru hress. Í Miami keyrðum við m.a. í gegnum Litlu-Havana en þar búa að sögn Bjarna Más, Kúbverjar sem hata Castro. Þeir eru augljóslega jafn kaþólskir og páfinn því ekkert var að gerast á nýársdag. Hverfið virkaði samt skemmtilegt. Örugglega áhugavert að spjalla við liðið um stjórnmál. Eða bara heyra góða músík, drekka mojito, borða svört hrísgrjón og anda að sér vindlalykt.

Annað áhugavert svæði var sjálfstjórnarsvæði indjána sem alríkisstjórn BNA var svo ljúf og góð að láta þeim í té. Á miðju fúlu fenjasvæði reyndar og fjarri heimahögum þeirra. En það er víst aukaatriði. Á bensínstöðinni var ítrekað að menn skyldu klæðast skyrtum og skóm inni í búðinni. Á þessu svæði er líka eina spilavítið á Flórída, því ríkið Flórída bannar spilavíti. Svo indjánarnir mokgræða og samkvæmt sósíalísku kerfi er myndarlegum ágóðanum dreift á milli þeirra allra. 

Svo mæli ég með Harlem. Stórskemmtilegt. Verst ef túristar á borð við sjálfa mig fara að taka yfir mannlífið á staðnum. Næst þegar ég fer til New York verður garanterað farið í gospelmessu á sunnudegi eða hiphopmessu á fimmtudagskvöldi. Fyrir þá sem finnst dýrt að borða á Manhattan, er athugandi að fá sér einn sveittan inní Harlem. 

Nú. Ég persónulega þekki þrjá aðila sem búsettir eru í átján milljón manna borginni New York. Varði vinur og snillingur opnaði heimili sitt þar sem við sváfum í rúminu hans og borðuðum mömmukökurnar hans. Áttum góðan tíma með Uglu, sem kom með í Harlem. Seinasta kvöldið rakst ég síðan fyrir eintóma tilviljun á hana Birnu Önnu samstarfskonu af Mogganum og félaga í Gjellufélaginu. Þetta er ekki svo stór heimur. Þess má geta að okkur Birnu hefur ruglað saman og við verið taldar líkar. Skil ekki alveg af hverju. En það var óvænt ánægja að hitta hana. 

Ég verð síðan að játa að í bland við alla spennuna að koma heim og hitta fólkið mitt, var bara talsvert stress. Koma heim og detta inn í rútínuna (sem mér finnst almennt leiðinlegt fyrirbæri og gengur illa að halda mig við). Standa mig í skólanum. Spara. Vakna í myrkrinu. Fá ekki innblástur  í lífinu upp í hendurnar daglega heldur þurfa að finna hann sjálf.

Annars almenn niðurstaða eftir ferðalagið er að ég lifi afskaplega góðu lífi á Íslandi. Líka þótt heimurinn minn hérna sé frekar lítill.

Er annars að spá í að birta eina stutta færslu í viðbót, með vangaveltum um einhver praktísk atriði á ferðalögum. Þótt ég sé ekki útlærð í faginu gætu einhverjir punktar kannski nýst þeim sem láta verða af að leggja í hann. 

Eftir það verður þetta blogg aftur hefðbundinn hluti af síbyljunni.


"Gerist þetta á klukkutíma fresti hérna?" & Heat vs. Lakers -Minnisstæð jól í Ameríku

Sameinuðu þjóðirnar

Bandaríkin eru aðeins of skuggalega nálægt raunveruleikanum. Eða hversdagsleikanum öllu heldur. Ég veit ekki alveg með raunveruleikann hérna, þetta er allt svo súrt.*

Að vera í BNA er eins og að vera heima hjá sér að mörgu leyti, svo marineraður er maður af sjónvarpsefni og bíómyndum. Samt hef ég bara einu sinni verið hérna áður og þá í Boston. Líklega er ég núna að tala eins og Bandaríkjamenn sem tala um Evrópu í einu orði. San Fransisco, New York og Miami/Flórída eru ólíkir fulltrúar eins ríkis. Og þetta er allt áhugavert og skemmtilegt. En það er ekkert menningarsjokk, engin tilfinning fyrir einhverju sem er samtímis óþolandi erfitt og óendanlega heillandi (fatabúðirnar etv?). 

New York og San Fransisco eiga sameiginlegt að vera skemmtilegar heimsborgir með sál. Ég á erfitt með að ákveða hvor komst nær manni. NY fær reyndar lengri séns vegna annarrar viðkomu þar eftir áramótin. Sem "gamall hippi," þ.e. MH-ingur alltaf, átti "San Fran" greiða leið að hjartanu. Þessi endalausu hverfi sem eru fullkomin til að bara horfa á fólkið. Castro er gay hverfið og þar var sérlega skemmtilegt að horfa inn um gluggana á troðnu kaffihúsi/bar þar sem allir kúnnarnir voru karlmenn á besta aldri. Gat ekki varist því að hugsa um af hverju ég veit um svona ofsalega fáa eldri homma á Íslandi. Ástæðan? En já, enn skemmtilegra hefði þó verið að komast í bíóið sem sýndi annars vegar Grease og hins vegar Sound of Music seinna um kvöldið. Ekki merkilegt nema sýningarnar voru SING-A-LONG! Ég sé bara fyrir mér fullan sal af hommum að syngja með lögunum úr Söngvaseið. Brilljant. 

New York er hrárri og já, bara öðruvísi. Þið hafið örugglega öll séð það í bíómyndunum. Appelsína og epli. NY er að sumu leyti einhvern veginn engin látalæti. Inn á milli eru þó hlutir sem fara með þá lýsingu í hálfhring. Trump Tower.

Og talandi um bíómyndir. Aðal jólastemmningin í Stóra eplinu rétt fyrir jól, var Þorláksmessukvöld við skautasvellið hjá Rockefeller Center. Í eins og hálfs tíma biðröðinni hlustaði maður á jólalög og horfði á mannmergðina og skemmti sér hið besta. Ekki síst yfir bónorðunum tveimur sem áttu sér stað á ísnum með tilheyrandi fagnaðarlátum áhorfenda. Eins og kona í áhorfendahópnum orðaði það: "Does this happen every hour ´round here?"   

Meðal annars var svo farið í heimsókn á Ground Zero, þar sem unnið er í rústum Tvíburaturnanna, að því að byggja glæstan turn og minnismerki um ódrepandi anda Bandaríkjamanna. Sem er skiljanlegt. Fólk vill sýna að það geti risið eins og Fönix úr öskunni án þess að á sjái. Að stoltið sé ennþá til staðar og að ekki verði látið bugast. Maður stendur þarna og skoðar myndir af lögreglufólki sem fórnaði lífinu fyrir aðra við björgunarstörfin, og hugleiðir þá staðreynd að næstum þrjú þúsund manns dóu þennan dag í árás á byggingu fulla af saklausum borgurum. Líklega kom það svolítið nær mér að standa þarna og hugsa um afleiðingar 9/11 fyrir Bandaríkjamenn. Um leið er jafn sorglegt að hugsa um hvaða dómínó fór af stað þarna og hversu margir hafa dáið í eftirleiknum. Eins og Schwarzenegger persónan í World Trade Center Olivers Stone sagði: "Someone must avenge for this," eða eitthvað á þá leið og fór svo tvo túra til Íraks. Og á hverjum bitnar hefndin?

---

Annars er Flórída-ríki nokkuð óvenjulegt umhverfi fyrir jólahald. Ekki laust við að maður hafi saknað  þorláksmessu með stelpunum, aðfangadags með familíunni og jóladags í allsherjarheilsdagsjólaboðinu hjá Guggu frænku. Þessarar venjulegu stemmningar. Í staðinn fengust jól sem munu alltaf verða minnisstæð Ferðafélaginu Sápunni. Sem nú nýtur sérlega upplífgandi félagsskapar Bjarna Más.

Það er ekkert sérstaklega slæm leið til að eyða jóladegi (fyrir utan Gugguboð já), að fara á Miami Heat - Los Angeles Lakers, á heimavelli Heat. Sem unnu þar að auki þrátt fyrir verri stöðu þessara núverandi NBA meistara. Kobe Bryant hefur líklega verið þunnur og átti arfaslakan leik. -"Let´s Go Heat! Let´s Go Heat!" "Goood Mourniiiing!"-

Svo þarf maður bara að passa sig á krókódílunum. Góðar stundir og gleðilega rest.

Versla í jólamatinn

*Súrt í merkingunni: Grillað, öðruvísi, flippað. Mögulega með snert af hallærisleika eða "Hvað í djöflinum er verið að pæla?" Að einhver sé súr þýðir s.s. ekki að hann sé í fýlu eða niðurdrepandi eins og sumir nota þetta orð. Meira svona tengt því að hann sé á sýru. Ef Mörður Árnason er að lesa, hefur ekki verið legið yfir þessari orðskýringu.

 


Ævintýri Kökuskrímslisins

Norðureyja Nýja-Sjálands er svo iðagræn að ef Framsóknarflokkurinn flytti sig hingað hlyti fylgið að fara a.m.k. frá pilsnermörkum í bjór. Sérstök kveðja til mjög góðra vina og kunningja í Framsókn, frá Ferðafélaginu og ófáum rollum sem á vegi okkar hafa orðið! Er ekki eilíflega í tísku að gera grín að X-B? Ég myndi raunar ekki vita ef það hefur breyst eitthvað.

Það er skrýtið að vita meira um hvað er að gerast í pólitíkinni á Fiji en Íslandi. Það á þó eftir að breytast ískyggilega fljótt því sjötti janúar nálgast óðfluga. Dagurinn sem manni fannst að kæmi einhvern veginn aldrei. Tíminn líður eins og hendi sé veifað, en samt finnst manni mörg ár síðan við vorum í Suður-Afríku. 

Síðustu dagar hafa verið ólíkir öðrum á þessu ferðalagi. Það er keyrt eins og herforingjar á vinstri kantinum, svo til. Enda er Nýja-Sjáland sniðið til ferðalaga á eigin farartæki. Og bíllinn Cookie Monster hefur staðið sig með prýði þrátt fyrir að erfiða stundum aðeins upp brekkurnar. Það er vissulega frelsi að hafa yfir bíl að ráða og ákveða næturstaðinn sama kvöld. 

Frá Auckland var keyrt niður með Kyrrahafsströndinni gegnum staði sem heita nöfnum eins og Rotorua og Gnægtaflói, eða Bay of Plenty. Fáfarnar slóðir meðfram ströndinni á Austurhöfða, East Cape, voru margfalt þess virði að þræða. Strendur með stórbrotinn og einmanalegan sjarma. Svolítið Ísland ef ekki væri fyrir að landið er skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Á þessum helstu heimaslóðum maóranna er ekki mikið um túrhesta og gististaði fyrir þá. Og hvað getur maður gert annað en leggja bara aftur sætið og sofa í bílnum til að vera fyrstur á landinu að sjá sólaruppkomuna, sérstaklega ef næsti náttstaður er dýr eða langt í burtu? Þarna nálægt sáum við einmitt "austasta bíó heims." Staðsett á tjaldstæði og stærðarhlutföll í samræmi við það. Gaman að þessu. 

Eftir áfangastaði á borð við art deco bæinn Napier, var komið til höfuðborgarinnar Wellington sem er syðst á norðureyjunni. Hið meinta, magnaða næturlíf þar fékk mann til að skilja af hverju það reykvíska er heimsfrægt. En það er góð borg samt og státar af flottasta og skemmtilegasta safni sem skoðað hefur verið í ferðinni. Te Papa, þjóðarstolt Nýsjálendinga geymir hafsjó upplýsinga og hluta eins og mörg önnur söfn. En það hafði svo mikinn húmor fyrir sjálfu sér sem gerði upplifunina frábæra.

Þannig eru Nýsjálendingarnir líka. Afslappaðir og kumpánlegir. Ekki hitt eina dónalega sálu hér, eða ef út í það er farið einhvern sem ekki kemur fram við mann eins og gamlan vin. Það vill svo til að Cookie Monster ræður ekki yfir geislaspilara og útvarp næst ekki alls staðar. "Hvað segirðu, ertu að leita að spólum? Með bara einhvern veginn tónlist?" spyr maórastelpa með glaðlegt frekjuskarð þegar maður kemur út af enn einni bensínstöðinni sem hætti að selja kasettur fyrir a.m.k. fimm árum. Labbar með manni í bílinn sinn og leggur til tvær kasettur í ferðalagið. Nýsjálenskt gospel og Jesúsarrapp verður undirleikur við aksturinn í þó nokkurn tíma. 

Og landslagið siglir framhjá Kökuskrímslinu sem leggur leið sína frá Wellington, meðfram Tasmanhafi til Hobbiton. Framhjá virkum eldfjöllum, endalausum skógum og stöðuvatni sem fær axlirnar á manni til að síga við að líta það augum. 

Að lokum er það aftur Auckland. Og ný ævintýri bíða á Fiji og öðrum spennandi viðkomustöðum. Augnablikið skal tekið alla leið, nú sem áður. Og veriði alveg róleg. Það verður farið varlega á Fiji.


Lífið í bakpokanum

Batteríin komin í hleðslu á Balí. Vodafone býður mann velkominn til Indónesíu, en það er í fullri hreinskilni sagt verið að haga sér eins og sólartúristi. Á eyjunni sem varð fyrr þekkt fyrir forvitnilega menningu en fagrar strendur.

Eftir að hafa tekið endalaust við og orðið fyrir áhrifum er þetta fullkomna tilgangsleysi bara fínt. Svolítið erfitt samt. Í rauninni enn ein áskorunin að vera svona mikið að gera ekkert. En þetta eru bara fimm dagar. Ferðafélagið ákvað að splæsa í mun betri gistingu en venjulega en eyða í ekkert annað (og herja út afslátt af herbergisverðinu). Því er borðað meira en þýsku túristarnir í rosalega morgunmatnum.

Og maður situr og reynir að melta Kína og aðra áfangastaði. Gaman að bera saman þessi nágrannalönd sem við höfum verið að flakka um. Eftir Kínadvölina trúir maður sögunum um stórveldi tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Allt komið mun lengra en í Indlandi, a.m.k. svona almennt séð þótt enn sé langt í Japan. Þenslan gríðarleg í borgunum en hún er líka augljós í mörgum fleiri borgum Asíu, þ.á.m. í Indlandi. Að sitja á 54. hæð í fjórða hæsta turni heims í Sjanghæ, var eins og að spila Sim City tölvuleikinn. Maður bókstaflega horfði á nýja byggð spretta upp. Unnið allan sólarhringinn að virtist.

Mikill lúxus að þurfa ekki að pakka farangrinum í nokkra daga. Kínatúrinn til Xi´an og  Sjanghæ var unaður að því leyti að snillingarnir okkar í Peking geymdu bakpokana á meðan svo byrðarnar voru minni. Hildur og Fanney eiga miklar þakkir skildar fyrir að skapa heimili að heiman í nokkra daga svona inni í miðri ferð. Takk fyrir alla hlýjuna stelpur -og skemmtunina!

Annars ber maður heimili sitt á herðunum þessa mánuðina ( og eitthvað örlítið þar að auki, hmm). Heimilið tekur í og það er leiðinlegt að pakka því saman. Það veitir ferðamannahrægömmum hvatningu til að hjóla í mann með dollaramerki í augum. AB lögmenn láta samt ekki rugla í sér. Takk og bless vinur.

En það er svo gaman að flytja heimilið á næsta stað. Svo mikið frelsi. Ekkert á dagskrá nema vera, sjá, hlusta, skynja. Tala ef maður er heppinn. Reyna að komast nálægt því að lifa lífinu eins og fólkið sjálft á staðnum og skilja hvernig það hugsar. Þegar allt kemur til alls mun meira virði en öll rosalegu hofin og aðrir minnisvarðar. Þess vegna saknaði maður þess í Kína að ná aldrei að spjalla almennilega við lókalinn. Erfitt að nálgast fólk í fjöldanum og enskukunnáttan er ekki upp á marga fiska.

Það er hins vegar misskilningur að það sé alveg ómögulegt að ferðast um Kína eða önnur fjarlæg lönd af því enginn tali þar ensku eða allt sé svo framandi að einhverju öðru leyti. Framandi, jú, en það kemur ekki í veg fyrir upplifun. Þetta er bara land eins og hvert annað og það er bara þjóð sem býr þar eins og hver önnur. Hún er lengra í burtu en Evrópumenn og Kanar en það er gaman að kynnast henni. Stundum þarf að hugsa svolítið til að bjarga sér eða gera sig skiljanlegan en það er bara hluti af gríninu. Hvenær annars fær maður færi á að leika vekjaraklukku í búðinni? Þetta bjargast alltaf.

Í huganum hefur heimurinn minnkað og stækkað. Stækkað, af því möguleikarnir eru óendanlegir og hvert land er ólíkt því við hliðina þótt maður hafi átt til að samsama fjarlæg nágrannalönd hverju öðru. Minnkað, af því það er ekki svona langt að fara hinu megin á hnöttinn. Bara aðeins lengra flug, en skiptir litlu ef maður er kominn í vélina á annað borð. Og vitiði bara hvað, það býr venjulegt fólk þar. "Og hjörtum mannanna svipar saman/ í Súdan og Grímsnesinu."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband