Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
12.9.2006 | 17:38
Eftir sólarhringsferðalag: Höfðaborg
Og þá situr maður við aðalgötuna í Cape Town. Hér ægir öllu saman í byggingarlist, hollensk og indversk áhrif, einstaka New York style stórhýsi en fyrst og fremst ríkir fjölbreytni. Manni dettur bara í hug þetta með að varðveita götumynd Laugavegarins við að labba hér nidur Long Street. Þessi gata hefur eigin stil. Og þegar maður lítur aftur sest Bordfjallid, Table Mountain, í allri sinni dýrð ásamt Djöflatindi og Ljónshausnum svokallaða sem er eins og ljón liggi fram á lappirnar yfir borginni. Hér er ekki langt milli fjalls og fjöru.
Það hljómar klisjulega en það er magnað hvað er mikið af fallegu og glöðu fólki hér. Þar að auki er snyrtimennskan í svo ríflegu fyrirrúmi að það lá við að klósettin á flugvöllunum væru þrifin strax og maður hafði notað þau. Við sáum hins vegar svokölluð Townships, mikið af þeim og þar er ekki snyrtimennskan efst á blaði heldur einföld lifsbaratta. Þar er hverju sem er tjaldað til við að búa sér húsaskjól og þarna bjuggu svartir meðan aðskilnaðurinn rikti - og búa enn, því samfélagið er enn stéttskipt og þannig verda til landamæri milli samfélaga innan þessa fjölmenningarsamfélags. Regnbogaþjóðin, sem svo er kölluð, er enn að glíma við sjálfsmyndina.
Hafið þið einhvern tímann staðið við nammirekkann út í búð og fengið valkvíða? Af því þá vitið þið hvernig okkur Barböru líður núna, í þriðja veldi. Sudur-Afríka hefur upp á svo ótrulega margt að bjóða að tólf dagar eru ekki neitt. Við erum a.m.k. komin til Höfdaborgar núna strax, komnar inn á þetta fína hostel þar sem herbergið okkar er kennt við ljón. Amman sem sótti okkur á flugvöllinn var algjör gullmoli. Nú veit ég hvað flöskubotnagleraugu þýða. Þar sem hún sveigdi frjálslega en örugglega milli bila og akreina, þar sem samkomulag virtist um örlitid meira kaos en heima, hafði hún margt til málanna að leggja varðandi öryggismalin hja okkur. Fara varlega eftir myrkur. Ekki fara lengra en að Mama Africa barnum eftir að dimmir. Ekki koma seinna heim en halftíu-tíu.
Því auðvitað er Suður-Afríka þekkt fyrir háa glæpatíðni. Það þýðir þó ekkert að láta svoleiðis flækjast fyrir sér, heldur fara varlega án þess að fá þráhyggju. Höfdaborg er líka miklu öruggari en Jóhannesarborg til dæmis. Það verður allt í lagi með mig, mamma litla. Auk þess á ég mömmu í hverri höfn, í óeiginlegum skilningi (Þessi færsla er því tileinkuð Ragnheiði sem nú er í Kobenhavn).
Annars er ég bara full tilhlökkunar með framhaldið. Dásamlegt ferðaplan og dásamlegur ferðafélagi. Okkur Streisand á sko ekki eftir að leiðast. Sem minnir mig á: Barbara Streisand hefur heyrst óþægilega oft úr hátölurum af almannafæri hérna. Og í flugvél South African Airways frá London var jólalagið Let It Snow í gangi þegar við gengum um borð. Undarlegt.
E.s. Reyni svo auðvitað að setja inn myndir fljótlega ef það gengur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.9.2006 kl. 10:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.9.2006 | 11:33
Seðlabankastjóri
6.9.2006 | 02:14
Dreymdi í nótt að ég væri í Taílandi
Miðvikudagur, fimmtudagur, föstudagur. Svo er ég lögð af stað í leiðangur. Hvern hefði grunað í upphafi sumars. Frumburðurinn er dæmdur til að heita Barbara, ÞÓTT það verði strákur. "Má bjóða þér í heimsreisu eftir þrjá mánuði?" hlýtur að vera, tja, besta spurning sem lögð hefur verið fyrir mig og hef ég þó heyrt þær nokkrar.
Það telst ekki með þegar Bjarnið vildi fá mig með sér út í fyrsta skipti. Það fannst mér þá arfaslök hugmynd. Ég vildi meina að drengurinn væri fáviti. Maður getur ekki alltaf haft rétt fyrir sér.
Til marks um hvað ég á fínan kæró: a) Hann varð brjálaður þegar ég velti upp hvort ég myndi fá matareitranir á flakkinu og horast. Rassinn á mér má nefnilega ALLS ekki minnka. Grey ég þarf að muna að borða osta og súkkulaði og drekka bjór. b) Bjarnið æpir upp yfir sig af gleði í hvert sinn sem ég stytti hárið á mér og afsannar þar með að strákar vilji bara krúttstelpur með sítt hár. (Að vísu ekki búinn að sjá mig eftir síðustu klippingu...)
Annars er þetta allt að smella: Passinn kominn úr kínverska sendiráðinu, með vegabréfsáritun án athugasemda vegna stuðnings míns við vissan leikfimihóp; komin með félagsskírteini í samtökum farfugla; farangur í alvarlegu skoðunarferli og peningamál a.m.k. þannig að ég þarf ekki að selja mömmu. Enda er hún vænsta skinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.9.2006 | 17:52
Val á hæstaréttardómurum
"... Fyrir lægju frumdrög að breytingum á dómstólakaflanum með mismunandi útfærslumöguleikum varðandi val á hæstaréttardómurum sem ET hefði tekið saman að beiðni vinnuhópsins..." (Úr fundargerð 16. fundar stjórnarskrárnefndar)
Haha. Ekki yrði ég hissa þótt vinur minn Eiríkur Tómasson hafi glott út í annað þegar honum var falið þetta verkefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2006 | 16:51
Kjaftavaðallinn
Af hverju viljum við almannatryggingakerfi?
2.9.2006
Hvort sem við kennum okkur við vinstri eða hægri í íslenskum stjórnmálum, held ég að flest okkar myndu segja að við viljum ekki að fólk líði skort. Annað mál er ef til vill hvaða meining er þar á bak við en hér verður engum gert upp annað en að tala af heilindum.
Göngum út frá að við séum sammála um að við eigum að tryggja öllum að minnsta kosti lágmarksframfærslu sem þarf til að lifa af. Þá þurfum við að ákveða: 1. Hvernig viljum við að hún sé tryggð? og 2. Eigum við að gera betur en það? Það eru einkum tvö svör við fyrri spurningunni. Almannatryggingar eða framlög einstaklinga. Hverjir eru kostir og ókostir hvors fyrirkomulags um sig, er spurning sem við þurfum að svara þegar við ákveðum hvort er betra að reiða sig á.
Hér er ekki pláss fyrir djúpan rökstuðning en mitt svar er skilvirkt almannatryggingakerfi. Þar með vil ég þó síst gera lítið úr framlögum einstaklinga eða fyrirtækja, í efnislegu formi eða sjálfboðastarfi. Þau skipta gríðarmiklu máli um að bæta hið opinbera upp og geta gert meira en við getum krafist af ríki eða sveitarfélögum. En við tryggjum grundvöllinn með almannatryggingakerfi.
Helstu kostir þess eru t.d. að það er leið til að tryggja að enginn verði útundan. Og þá meina ég enginn, því við erum öll jafn mikilvæg. Annar kostur er að það er að mínu mati líklegri leið til að fyrirbyggja stéttskiptingu eins og við getum. Við eigum að sýna í verki þá grundvallarafstöðu að öll eigum við rétt á afkomu þegar við af einhverjum ástæðum erum ekki í aðstöðu til að afla hennar sjálf; að við berum skilyrðislausa ábyrgð hvert á öðru og búum okkur þess vegna til þetta sameiginlega kerfi.
Helsti ókostur almannatryggingakerfis er möguleikinn á misnotkun. Ókostur sem við megum ekki horfa framhjá heldur verðum að tækla. Það sýður á mér við tilhugsunina um misnotkun á skattfénu mínu og annarra, rétt eins og það sýður á mér við að hugsa um að fólk geti yppt öxlum yfir annarra neyð. Til að fyrirbyggja misnotkun verðum við að rækta meðvitund um að slíkt stríði gegn almennu siðferði. Við verðum líka að halda úti skilvirku eftirlitskerfi og þurfum skýrar reglur um fé sem er útdeilt, alveg eins og heilbrigt atvinnulíf þarf öflugt eftirlitskerfi og skýrar leikreglur til að virka sem skyldi. Eftir sem áður er möguleikinn á misnotkun ekki ástæða til að halda ekki uppi almannatryggingakerfi.
Eins og áður segir, þurfum við að ákveða hversu langt við viljum að ábyrgð okkar á öðrum nái. Mitt svar við því er að við berum ábyrgð á að tryggja hverju öðru að geta lifað með reisn. Fullkomlega jöfn skipting auðsins er ekki æskileg og heldur ekki markmið í sjálfu sér. Mér finnst miklu minna máli skipta hvort einhverjir eru með ofurlaun heldur en að allir hafi mannsæmandi laun. Í mannsæmandi launum felst ekki bara að eiga fyrir grunnþörfum eins og húsaskjóli og fæði, heldur líka að fátækt setji félagslegri þátttöku eða möguleikanum á að bæta líf sitt, ekki algjörar skorður.
Í dag hafa ekki allir á Íslandi mannsæmandi laun.
Grein eftir mig á Múrnum í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.8.2006 | 21:23
Fjölmiðlagleðikonur og annað gott fólk
Er ekki málið að ná sér í köfunarréttindi í t.d. Taílandi? Ég hef alltaf verið mjög spennt fyrir sportköfun.
Og talandi um. Hús Sportkafarafélagsins var vettvangur magnaðrar gleði á föstudagskvöldið. Að vísu ekki eitt sér, því þegar skráningar á Útihátíð fjölmiðlakvenna voru komnar fram úr öllum væntingum var húsið löngu sprungið utan af okkur. Því var brugðið á það ráð í panikkinu á föstudaginn að leigja tjald frá Seglagerðinni Ægi. Þegar tjaldinu hafði verið komið upp (með mínum berum höndum og einstakri verkkunnáttu) var þetta frábær partýaðstaða og mjög gott flæði milli tjalds, verandar og húss. Fullt af útikertum og útsýnið yfir Nauthólsvíkina settu punktinn yfir i-ið.
Rúmlega hundrað fjölmiðlakonur skemmtu sér konunglega og voru hver annarri skemmtilegri að tala við. Þið eruð magnaðar. Þar á ég ekki síst við skemmtinefndina en í henni voru Áslaug Skúla, nýskipaður vaktstjóri á fréttastofu RÚV, Lillý Valgerður trúnaðarmaður á NFS og Arna Schram þingfréttaritari Moggans og formaður Blaðamannafélagsins. Þær eru sérlega magnaðar og má þá sérstaklega nefna hér hvað Arna er mögnuð í bólinu.* And then me, óbreyttur veikgeðja hlutastarfsblaðamaður á fréttadeild Moggans! Ég er strax byrjuð að hlakka til á næsta ári.
Fréttir af fólki:
Magnús Már Guðmundsson félagi minn býður sig fram til embættis formanns UJ (á heimasíðu Samfó stendur reyndar að hann bjóði sig fram í fyrsta sæti -efast ekki um að Solla sé orðin hrædd). Kvennaskólapían Maggi Már var einu sinni gaurinn í næsta húsi. Nú er hann bara öðlingur. Hann á allan minn stuðning í því sem hann tekur sér fyrir hendur og þ.m.t. þessu.
Vigga vinkona kom heim frá París, sá og sigraði og rústaði prófi í stjórnskipunarrétti með glæsilegri einkunn. Til hamingju elskan, ég er eins og stolt mamma.
Sandra farin "heim" til Svíþjóðar ásamt Alexander Kóríander og farin að nema jarðfræði meðfram djass-sellóleiknum. Þeirra er auðvitað strax saknað.
*Hluti þessarar færslu er byggður á munnlegum heimildum, ekki reynslu höfundar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2006 | 18:41
Hefurðu pælt í af hverju við bönnum áfengisauglýsingar?
Ef einhver getur sagt mér eitthvað fræðilegt um áfengisauglýsingabann það er felst í 20.gr. áfengislaganna, þá má hinn sami endilega hafa samband. Stelpan er nefnilega að setjast niður í ritgerðaskrif.
Einnig ef einhver er með tips um eitthvað sniðugt til að gera í S-Afríku eftir þrjár vikur.
Þinn, Skrámur.
13.8.2006 | 00:17
Þau hafa mánuð til að hætta þessu rugli
Ég var svo ánægð með hvað Bretar tóku hryðjuverkum síðasta árs af stóískri ró. Það var aðdáunarvert. Í staðinn fyrir að komast í það panikkástand sem hryðjuverkamenn vilja, var einfaldlega tekist á við erfitt ástand. Og það án þess að læsa fólk inni hjá sér og kenna því að teipa fyrir gluggana hjá sér.
Það sem við bara megum ekki gleyma, er að í hvert skipti sem við leggum lykkju á leið okkar vegna ótta, erum við að bregðast við nákvæmlega eins og hryðjuverkamenn vilja. Þetta íslenska orð yfir "terrorism," túlkar ekki alveg það sem ég vil segja. Enska orðið má hins vegar útleggja þannig: "The purpose of terrorism is to provoke terror." Þess vegna er mikilvægt að við látum ekki undan og skerðum borgaraleg réttindi - frelsið sem þeir sem stjórna "Stríðinu gegn hryðjuverkum" halda svo hátt á lofti.
Við Barbro leggjum af stað í heimsreisuna 11. september frá Heathrow. Flugið til S-Afríku er ellefu klukkutímar og ég reikna með að geta þá tekið með mér bók, linsuvökva, rakakrem og aðrar nauðsynjar.
Annars fannst mér athyglisverð sagan sem Stefán Pálsson sagði í Fréttum vikunnar á NFS í dag: 13. sept 2001 flaug hann Edinborg-London-Keflavík. Frá Edinborg mátti hann alls ekki hafa fartölvu í handfarangri, hún þurfti að fara í farangursrýminu af öryggisástæðum. Frá London hins vegar mátti hann alls ekki hafa fartölvu í farangursrýminu, hún þurfti að fara í handfarangri af öryggisástæðum.
Ófremdarástand sagt ríkja á Heathrow | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.8.2006 kl. 02:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.8.2006 | 02:07
Þeir sem hjálpa sér sjálfir
Okkar ástkæra, hægrisinnaða Morgunblað lætur ekki að sér hæða. Meira að segja stjörnuspáin í dag er í stíl, þannig að Staksteinar beinlínis blikna:
Þeir sem áður hugsuðu um leiðir til þess að sigra heiminn einbeita sér nú í meira mæli að því hvernig hægt er að bjarga honum. Ekki er víst að augljósustu leiðina til þess beri á góma, svo kannski er best að minnast aðeins á hana, bjargaðu sjálfum þér. Ef hver og einn gerir það, verðum við öll hólpin.
Ekki að ég hafi eitthvað verið að kíkja á stjörnuspána mína.
21.7.2006 | 17:56
Er allt að fara til andskotans í þessu landi?
Mér reiknast svo til að Þorgerður Katrín sé fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands. Þótt aðeins sé um tvær vikur að ræða að þessu sinni, er þetta samt merkilegur áfangi. Ég segi bara til hamingju Þorgerður og til hamingju við öll. Meira svona! Við öfgafemínistar fögnum gríðarlega.
Annars er ég að fara norður skv. skyndiákvörðun fyrir hálftíma síðan. Magnað. Hefði auðvitað dregið Bjarnið austur, en sá vægir sem vitið hefur meira eða þannig. Svo á maðurinn lítið eftir að hitta foreldra sína næsta árið. Biðja ekki allir að heilsa Brynjuísnum?
Þorgerður Katrín gegnir störfum forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |