Ævintýri Kökuskrímslisins

Norðureyja Nýja-Sjálands er svo iðagræn að ef Framsóknarflokkurinn flytti sig hingað hlyti fylgið að fara a.m.k. frá pilsnermörkum í bjór. Sérstök kveðja til mjög góðra vina og kunningja í Framsókn, frá Ferðafélaginu og ófáum rollum sem á vegi okkar hafa orðið! Er ekki eilíflega í tísku að gera grín að X-B? Ég myndi raunar ekki vita ef það hefur breyst eitthvað.

Það er skrýtið að vita meira um hvað er að gerast í pólitíkinni á Fiji en Íslandi. Það á þó eftir að breytast ískyggilega fljótt því sjötti janúar nálgast óðfluga. Dagurinn sem manni fannst að kæmi einhvern veginn aldrei. Tíminn líður eins og hendi sé veifað, en samt finnst manni mörg ár síðan við vorum í Suður-Afríku. 

Síðustu dagar hafa verið ólíkir öðrum á þessu ferðalagi. Það er keyrt eins og herforingjar á vinstri kantinum, svo til. Enda er Nýja-Sjáland sniðið til ferðalaga á eigin farartæki. Og bíllinn Cookie Monster hefur staðið sig með prýði þrátt fyrir að erfiða stundum aðeins upp brekkurnar. Það er vissulega frelsi að hafa yfir bíl að ráða og ákveða næturstaðinn sama kvöld. 

Frá Auckland var keyrt niður með Kyrrahafsströndinni gegnum staði sem heita nöfnum eins og Rotorua og Gnægtaflói, eða Bay of Plenty. Fáfarnar slóðir meðfram ströndinni á Austurhöfða, East Cape, voru margfalt þess virði að þræða. Strendur með stórbrotinn og einmanalegan sjarma. Svolítið Ísland ef ekki væri fyrir að landið er skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Á þessum helstu heimaslóðum maóranna er ekki mikið um túrhesta og gististaði fyrir þá. Og hvað getur maður gert annað en leggja bara aftur sætið og sofa í bílnum til að vera fyrstur á landinu að sjá sólaruppkomuna, sérstaklega ef næsti náttstaður er dýr eða langt í burtu? Þarna nálægt sáum við einmitt "austasta bíó heims." Staðsett á tjaldstæði og stærðarhlutföll í samræmi við það. Gaman að þessu. 

Eftir áfangastaði á borð við art deco bæinn Napier, var komið til höfuðborgarinnar Wellington sem er syðst á norðureyjunni. Hið meinta, magnaða næturlíf þar fékk mann til að skilja af hverju það reykvíska er heimsfrægt. En það er góð borg samt og státar af flottasta og skemmtilegasta safni sem skoðað hefur verið í ferðinni. Te Papa, þjóðarstolt Nýsjálendinga geymir hafsjó upplýsinga og hluta eins og mörg önnur söfn. En það hafði svo mikinn húmor fyrir sjálfu sér sem gerði upplifunina frábæra.

Þannig eru Nýsjálendingarnir líka. Afslappaðir og kumpánlegir. Ekki hitt eina dónalega sálu hér, eða ef út í það er farið einhvern sem ekki kemur fram við mann eins og gamlan vin. Það vill svo til að Cookie Monster ræður ekki yfir geislaspilara og útvarp næst ekki alls staðar. "Hvað segirðu, ertu að leita að spólum? Með bara einhvern veginn tónlist?" spyr maórastelpa með glaðlegt frekjuskarð þegar maður kemur út af enn einni bensínstöðinni sem hætti að selja kasettur fyrir a.m.k. fimm árum. Labbar með manni í bílinn sinn og leggur til tvær kasettur í ferðalagið. Nýsjálenskt gospel og Jesúsarrapp verður undirleikur við aksturinn í þó nokkurn tíma. 

Og landslagið siglir framhjá Kökuskrímslinu sem leggur leið sína frá Wellington, meðfram Tasmanhafi til Hobbiton. Framhjá virkum eldfjöllum, endalausum skógum og stöðuvatni sem fær axlirnar á manni til að síga við að líta það augum. 

Að lokum er það aftur Auckland. Og ný ævintýri bíða á Fiji og öðrum spennandi viðkomustöðum. Augnablikið skal tekið alla leið, nú sem áður. Og veriði alveg róleg. Það verður farið varlega á Fiji.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtið ykkur nú vel á eyjahoppinu þarna fyrir vestan, en ekki klikka á því að skipuleggja bátsferðir vel svo þið missið ekki af fluginu ...

Kær kveðja frá suðausturhorninu .

Helga Bára (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 07:40

2 Smámynd: Ólafur fannberg

kvittkvitt

Ólafur fannberg, 11.12.2006 kl. 08:04

3 Smámynd: Vigdís Sigurðardóttir

Úff já ég vona sko að þið farið varlega þarna á Fiji!  En ykkur er nú svosem ekki fisjað saman svo maður ætti kannski að hvíla áhyggjurnar.  Og einbeita sér að skaðabótaréttinum í staðinn, en ég er einmitt búin að komast því að hann er stórskemmtilegur!  

Jóla- og prófaknús af klakanum :) 

Vigdís Sigurðardóttir, 11.12.2006 kl. 11:04

4 identicon

Takk fyrir kveðjuna frá Ástralíu elsku Anna Pála,- nokkuð snöggt upp heiminn finnst mér.  Auðvitað ferðu varlega,- ert ekki neinn gönuhlaupari ;)  Geri ráð fyrir að Akureyri fari í heimsferðaplanið eftir áramótin,- kannski skemmtilegra næturlíf en á N.Sj.  þangað hefur mig reyndar alltaf langað að koma og búa um tíma ;)

Þórh.Helga (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 16:37

5 Smámynd: Helga Tryggvadóttir

Farin að hlakka mikið til að sjá þig í janúar :) góða skemmtun og farið varlega á Fiji ...

Helga Tryggvadóttir, 11.12.2006 kl. 20:21

6 identicon

Anna Pála, Steingrimur J. var þarna í æsku ( eða þannig) og þá flúðu allir Framsóknarmennirnir frá Nýja-Sjálandi, eru nú í Kolbeinsey. Frábært flandur á ykkur. Kveðja  af Reynimelnum. hann fer aldrei neitt.

Kristján Jónsson (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 21:03

7 identicon

Nú er sko mamma farin að telja niður dagana hér heima á Íslandi. Hætti að vísu að anda í smá tíma þegar Fiji var næsti áfangastaður en veit að allar góðar vættir gæta ykkar þar. Nú halda margir að ég sé komin í nám til Svíþjóðar.......Sandra þó ! En útþráin gerði vart við sig..ummmm skólastelpa aftur

mamma (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 22:56

8 identicon

Hahha, fyrirgefðu Helena!  Annars er margt verra en nám í Svíþjóð get ég sagt þér...

 Elsku ferðalanga kona, takk fyrir prófakveðjurnar hérna um daginn, þær komu sem fyrr að góðum notum.  Njóttu síðustu daganna í ævintýrinu þínu í botn, ekki það að ég efast ekki um að handan við hornið bíða þín enn fleiri ævintýri! (er að vonast til að eitthvert þeirra innihaldi lottóvinning og síðan flug til Gauta! :-)

Sjáumst rétt bráðum... Kossar, hin móðir þín, þessi sem er (ennþá!) 22ja og í alvöru í námi í  Svíþjóð - og biður kærlega að heilsa alvöru mömmunni heima á Íslandi :-)

Sandra Ósk (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 23:34

9 identicon

Þakka hlý orð í garð okkar framsóknarmanna mín kæra! ;)
Ég segi eins og Helga hlakka til að sjá þig í janúar!
Njóttu þess svo að vera ekki í svita og stressi að læra undir próf hér á klakanum... úff...
Látið þið fara vel um ykkur á Fiji og guð passi ykkur.

Kveðja,
Inga

Inga (IP-tala skráð) 11.12.2006 kl. 23:52

10 identicon

Hæ hæ Anna Pála mín og takk fyrir kortið.  Dauðöfunda þig af Nýja Sjálandi,- þangað hefur mig alltaf langað til að fara og búa í smátíma reyndar.  Geri það kannski seinna.  En ég geri ráð fyrir að heimsreisa þín endi á Akureyri í jan...

ÞHelga (IP-tala skráð) 13.12.2006 kl. 14:23

11 identicon

Ég er nánast, næstum því, við það að ákveða að vera lengur á Íslandinu góða í janúar. Skítt með peninga - þeir eru svo leiðinlegir hvort eð er!

Svo vonandi, kannski, jafnvel hittumst við þá!

Julehyggekram frá DK  - E

Eva (IP-tala skráð) 15.12.2006 kl. 21:25

12 identicon

Hæ Anna Pála.    Kíkji nú stundum á þig til að sjá hvað er verið að bralla.  Var að kíkja á myndir og fannst einmitt merkilegir þessir gæjar í öllum hermannsklæðum í körfubolta :o) Þetta vakti einmitt líka athygli okkar þegar við kíktum þarna í gegn :o)  Haðið það nú gott í framahldinu og við hér óskum þér gleðilegra jóla.

Sigrún, Ágúst og Margrét Lin.

Sigrún Hreiðarsdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2006 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband