Bakpokablús. Praktísk atriði.

Ég lofaði að spjalla aðeins um hversdagslífið á ferðinni. Maður kemst víst aldrei hjá því að hugsa um sjálfan sig, þótt maður skilji kannski mesta skyldugrámann eftir heima. 

Þrátt fyrir bóhemblæinn á lífinu má segja að ferðalögin séu full vinna útaf fyrir sig. Sérstaklega þegar maður fer jafn hratt yfir og við gerðum. Fórum íslensku leiðina. Sem hefur kosti og galla. Alltaf eitthvað nýtt sem bar fyrir augu, svo margt ofsalega ólíkt sem var skemmtilegt að bera saman. Draumaferð og góð byrjun á að skoða heiminn betur. En maður nær auðvitað minni afslöppun og tilfinningu fyrir að búa á staðnum, þótt ekki sé nema í styttri tíma. Kannski verð ég lengur á stöðunum næst. Hver veit.

Hvað um það. Hvað var í bakpokanum mínum sem ég tek með mér næst? Ég held að ég verði að byrja á að tala um:

1. Ecco sandalana. Þeir voru á fótunum næstum alla ferðina. Í hvaða veðri og aðstæðum sem var og stóðu sig alltaf jafn hetjulega. Held ég fari í næstu jólainnkaup á þeim. Aldrei þreytt í fótunum sama hvað var labbað. 2. "Lænerinn." Liner upp á ensku. N.k. svefnpoki úr þunnu silki sem maður getur skriðið ofaní ef maður treystir ekki rúminu eða rúmfötunum. 3. Ferðahandklæðið. Fljótþornandi og sjálfsótthreinsandi, tekur vel við bleytu. Getur líka notast sem teppi og tekur nær ekkert pláss. 4. Keðja, ca. 1 metri og litlir hengilásar úr Brynju (aðeins stærri en þessi sem maður læsti dagbókinni með einu sinni). Fyrir farangurinn ef maður treystir ekki örygginu á gististað eða deilir herbergi með ókunnugum eða fær skáp sem þarf að læsa sjálfur. 5. ja. Góða skapið.. Þolinmæði öðlast allavega nýja merkingu. 6. Smávegis lyfjaskápur. Í mínu tilfelli m.a. sýklalyf, ofnæmislyf og stopptöflur. Ég þurfti einu sinni að nota stopptöflurnar, eftir fimm tíma seinkun á indversku lestinni og sjáandi fram á sjö tíma lestarferð. Maginn frekar slappur. Þær virkuðu. Ég gat ekki kúkað í þrjá daga á eftir. Já, stelpur kúka líka.  7.  Hlutir sem var alveg fínt að hafa, en ég notaði samt aldrei voru rigningarhlíf á bakpokann og moskítónet. Var bitin sundur og saman en oftast ekki á nóttunni. Sé til með þetta tvennt. Svo tók ég nokkra loftbólusopa úr Gammel Dansk pelanum til að lækna magakveisu en hann nýttist einnig til að losa eina klósettstíflu í Taílandi. 8. Flugsokkar. Ekki bara fyrir ellismelli. Fyrirbyggja bólgu í fótum eftir löng flug. En átökin að komast í þá eins og kraftakona að klæða sig í stálbuxurnar. 9. Góð ferðahandbók er gulli betri. Bara ekki fara alltaf eftir henni. Farðu líka út í óvissuna. Lonely Planet voru yfirleitt góðar en ekkert allar. Kínabókin til dæmis ekki spes. Rough Guide nokkuð þéttar líka, ítarlegri og að sumu leyti betri en tóku lengri tíma að komast inn í en LP. 

Af fatnaði komu vindhelda flíspeysan og skítaveðursjakkinn (rigningar- og rokheldur ) frá 66 gráðum sér mjög vel. Einnig einfaldur, renndur jakki úr þunnu bómullarefni sem virkaði vel í hita jafnt og kulda. Bómullarpasmínusjalið frá Nepal var um hálsinn á mér mestallan tímann frá því þar. Svona stórt sjal sem nýtist við kulda eða á kvöldin á heitum stöðum, sem gardína í koju, tímabundið skjól fyrir nekt og ýmislegt fleira. Á köldum nóttum voru norsku síðu ullarnærfötin frekar fín. Nokkur eftirsjá að hafa sent þau heim frá Taílandi. Ekki gleyma bikiníinu. Stutt pils eða stuttbuxur auðvitað. En niður fyrir hné í Indlandi og Nepal a.m.k.

Muna svo að fara tímanlega í sprautur því með sumt þarf maður að koma oftar en einu sinni og bíða í einhverjar vikur á milli og svona. Líka vegabréfsáritanir. Fyrir Indland þarf maður a.m.k. ennþá að senda passann sinn til Noregs.

Ég er eitthvað þurrausin núna og að deyja úr nostalgíu. Í góðri kaldhæðni mætti kannski bæta við listann þunglyndistöflum eftir að maður kemur heim. Án gríns reynast umskiptin á lífsstíl a.m.k. mér nokkuð erfið. Það hlýtur að koma með tímanum.

Engu að síður er það ekki alveg rétt sem ég skrifaði í síðustu færslu um að fá ekki lengur innblástur upp í hendurnar. Hann er hérna alls staðar. Bara ég sem var ekki jafn opin. Það verður gengið í það mál. 

Times Square, JóliAð síðustu í þessum ferðalagapistlum. Ég hefði ekki farið nema fyrir elsku Barböru mína. En tölum við ennþá saman eftir fjögurra mánaða samvistir? Af hverju spyrja allir að þessu? Svarið er ójá. Við erum afskaplega ólíkar og ég veit að henni er líklega ekki vel við að ég að skrifa um svona persónulega hluti á Internetinu þegar ég gæti sagt henni þá sjálf. En ég er óþekk að vanda og segi: Lovjú. Fyrir fólk sem hugsar um að ferðast saman þarf ekki bara að pæla í skapgerð og hvernig hún passar saman, heldur er líklega mjög mikilvægt að passa saman í áhuga. Hafiði áhuga á að sjá og ræða svipaða hluti? Viljiði sulla mikið í áfengi eða síður? Borða og gista í hvaða verðflokkum? Við B vorum svo heppnar að þessi atriði fóru yfirleitt mjög vel saman hjá okkur. Svo bættum við hvor aðra upp í karakter. Muna bara að það verða allir einhvern tímann þreyttir og pirraðir og það er bara þannig. 

Nú er ég þreytt. Takk fyrir mig.

Leyfum bernskuhetjunni að eiga síðasta orðið. "Who´s got their ass on Santa´s hand?!" (ísl. Hver er með rassinn á höndinni á Jóla). Hann náði þó að hegða sér fyrir þessa stemmningsmynd. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur fannberg

Ólafur fannberg, 18.1.2007 kl. 02:30

2 Smámynd: Reisubok Barboru Ingu

Lovjú

Reisubok Barboru Ingu, 18.1.2007 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband