Færsluflokkur: Kvikmyndir

"I will sell this house today, I will sell this house today."

Man einhver eftir þessari línu? Það fær samt enginn prik fyrir það eitt að kunna að gúgla. Prik fást fyrir að hafa séð myndina og muna eftir þessu af því maður tók eftir því. Frekar en þessari ágætu sturtuathugasemd sem heimurinn trylltist yfir. 

Ég rifja þetta að minnsta kosti upp í hvert skipti sem ég er að stappa stálinu í sjálfa mig og hef óljóst á tilfinningunni að það eigi ekki eftir að skila sér. Þá þarf maður að muna að á hverjum degi eru seld hús.


"Gerist þetta á klukkutíma fresti hérna?" & Heat vs. Lakers -Minnisstæð jól í Ameríku

Sameinuðu þjóðirnar

Bandaríkin eru aðeins of skuggalega nálægt raunveruleikanum. Eða hversdagsleikanum öllu heldur. Ég veit ekki alveg með raunveruleikann hérna, þetta er allt svo súrt.*

Að vera í BNA er eins og að vera heima hjá sér að mörgu leyti, svo marineraður er maður af sjónvarpsefni og bíómyndum. Samt hef ég bara einu sinni verið hérna áður og þá í Boston. Líklega er ég núna að tala eins og Bandaríkjamenn sem tala um Evrópu í einu orði. San Fransisco, New York og Miami/Flórída eru ólíkir fulltrúar eins ríkis. Og þetta er allt áhugavert og skemmtilegt. En það er ekkert menningarsjokk, engin tilfinning fyrir einhverju sem er samtímis óþolandi erfitt og óendanlega heillandi (fatabúðirnar etv?). 

New York og San Fransisco eiga sameiginlegt að vera skemmtilegar heimsborgir með sál. Ég á erfitt með að ákveða hvor komst nær manni. NY fær reyndar lengri séns vegna annarrar viðkomu þar eftir áramótin. Sem "gamall hippi," þ.e. MH-ingur alltaf, átti "San Fran" greiða leið að hjartanu. Þessi endalausu hverfi sem eru fullkomin til að bara horfa á fólkið. Castro er gay hverfið og þar var sérlega skemmtilegt að horfa inn um gluggana á troðnu kaffihúsi/bar þar sem allir kúnnarnir voru karlmenn á besta aldri. Gat ekki varist því að hugsa um af hverju ég veit um svona ofsalega fáa eldri homma á Íslandi. Ástæðan? En já, enn skemmtilegra hefði þó verið að komast í bíóið sem sýndi annars vegar Grease og hins vegar Sound of Music seinna um kvöldið. Ekki merkilegt nema sýningarnar voru SING-A-LONG! Ég sé bara fyrir mér fullan sal af hommum að syngja með lögunum úr Söngvaseið. Brilljant. 

New York er hrárri og já, bara öðruvísi. Þið hafið örugglega öll séð það í bíómyndunum. Appelsína og epli. NY er að sumu leyti einhvern veginn engin látalæti. Inn á milli eru þó hlutir sem fara með þá lýsingu í hálfhring. Trump Tower.

Og talandi um bíómyndir. Aðal jólastemmningin í Stóra eplinu rétt fyrir jól, var Þorláksmessukvöld við skautasvellið hjá Rockefeller Center. Í eins og hálfs tíma biðröðinni hlustaði maður á jólalög og horfði á mannmergðina og skemmti sér hið besta. Ekki síst yfir bónorðunum tveimur sem áttu sér stað á ísnum með tilheyrandi fagnaðarlátum áhorfenda. Eins og kona í áhorfendahópnum orðaði það: "Does this happen every hour ´round here?"   

Meðal annars var svo farið í heimsókn á Ground Zero, þar sem unnið er í rústum Tvíburaturnanna, að því að byggja glæstan turn og minnismerki um ódrepandi anda Bandaríkjamanna. Sem er skiljanlegt. Fólk vill sýna að það geti risið eins og Fönix úr öskunni án þess að á sjái. Að stoltið sé ennþá til staðar og að ekki verði látið bugast. Maður stendur þarna og skoðar myndir af lögreglufólki sem fórnaði lífinu fyrir aðra við björgunarstörfin, og hugleiðir þá staðreynd að næstum þrjú þúsund manns dóu þennan dag í árás á byggingu fulla af saklausum borgurum. Líklega kom það svolítið nær mér að standa þarna og hugsa um afleiðingar 9/11 fyrir Bandaríkjamenn. Um leið er jafn sorglegt að hugsa um hvaða dómínó fór af stað þarna og hversu margir hafa dáið í eftirleiknum. Eins og Schwarzenegger persónan í World Trade Center Olivers Stone sagði: "Someone must avenge for this," eða eitthvað á þá leið og fór svo tvo túra til Íraks. Og á hverjum bitnar hefndin?

---

Annars er Flórída-ríki nokkuð óvenjulegt umhverfi fyrir jólahald. Ekki laust við að maður hafi saknað  þorláksmessu með stelpunum, aðfangadags með familíunni og jóladags í allsherjarheilsdagsjólaboðinu hjá Guggu frænku. Þessarar venjulegu stemmningar. Í staðinn fengust jól sem munu alltaf verða minnisstæð Ferðafélaginu Sápunni. Sem nú nýtur sérlega upplífgandi félagsskapar Bjarna Más.

Það er ekkert sérstaklega slæm leið til að eyða jóladegi (fyrir utan Gugguboð já), að fara á Miami Heat - Los Angeles Lakers, á heimavelli Heat. Sem unnu þar að auki þrátt fyrir verri stöðu þessara núverandi NBA meistara. Kobe Bryant hefur líklega verið þunnur og átti arfaslakan leik. -"Let´s Go Heat! Let´s Go Heat!" "Goood Mourniiiing!"-

Svo þarf maður bara að passa sig á krókódílunum. Góðar stundir og gleðilega rest.

Versla í jólamatinn

*Súrt í merkingunni: Grillað, öðruvísi, flippað. Mögulega með snert af hallærisleika eða "Hvað í djöflinum er verið að pæla?" Að einhver sé súr þýðir s.s. ekki að hann sé í fýlu eða niðurdrepandi eins og sumir nota þetta orð. Meira svona tengt því að hann sé á sýru. Ef Mörður Árnason er að lesa, hefur ekki verið legið yfir þessari orðskýringu.

 


Ævintýri Kökuskrímslisins

Norðureyja Nýja-Sjálands er svo iðagræn að ef Framsóknarflokkurinn flytti sig hingað hlyti fylgið að fara a.m.k. frá pilsnermörkum í bjór. Sérstök kveðja til mjög góðra vina og kunningja í Framsókn, frá Ferðafélaginu og ófáum rollum sem á vegi okkar hafa orðið! Er ekki eilíflega í tísku að gera grín að X-B? Ég myndi raunar ekki vita ef það hefur breyst eitthvað.

Það er skrýtið að vita meira um hvað er að gerast í pólitíkinni á Fiji en Íslandi. Það á þó eftir að breytast ískyggilega fljótt því sjötti janúar nálgast óðfluga. Dagurinn sem manni fannst að kæmi einhvern veginn aldrei. Tíminn líður eins og hendi sé veifað, en samt finnst manni mörg ár síðan við vorum í Suður-Afríku. 

Síðustu dagar hafa verið ólíkir öðrum á þessu ferðalagi. Það er keyrt eins og herforingjar á vinstri kantinum, svo til. Enda er Nýja-Sjáland sniðið til ferðalaga á eigin farartæki. Og bíllinn Cookie Monster hefur staðið sig með prýði þrátt fyrir að erfiða stundum aðeins upp brekkurnar. Það er vissulega frelsi að hafa yfir bíl að ráða og ákveða næturstaðinn sama kvöld. 

Frá Auckland var keyrt niður með Kyrrahafsströndinni gegnum staði sem heita nöfnum eins og Rotorua og Gnægtaflói, eða Bay of Plenty. Fáfarnar slóðir meðfram ströndinni á Austurhöfða, East Cape, voru margfalt þess virði að þræða. Strendur með stórbrotinn og einmanalegan sjarma. Svolítið Ísland ef ekki væri fyrir að landið er skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Á þessum helstu heimaslóðum maóranna er ekki mikið um túrhesta og gististaði fyrir þá. Og hvað getur maður gert annað en leggja bara aftur sætið og sofa í bílnum til að vera fyrstur á landinu að sjá sólaruppkomuna, sérstaklega ef næsti náttstaður er dýr eða langt í burtu? Þarna nálægt sáum við einmitt "austasta bíó heims." Staðsett á tjaldstæði og stærðarhlutföll í samræmi við það. Gaman að þessu. 

Eftir áfangastaði á borð við art deco bæinn Napier, var komið til höfuðborgarinnar Wellington sem er syðst á norðureyjunni. Hið meinta, magnaða næturlíf þar fékk mann til að skilja af hverju það reykvíska er heimsfrægt. En það er góð borg samt og státar af flottasta og skemmtilegasta safni sem skoðað hefur verið í ferðinni. Te Papa, þjóðarstolt Nýsjálendinga geymir hafsjó upplýsinga og hluta eins og mörg önnur söfn. En það hafði svo mikinn húmor fyrir sjálfu sér sem gerði upplifunina frábæra.

Þannig eru Nýsjálendingarnir líka. Afslappaðir og kumpánlegir. Ekki hitt eina dónalega sálu hér, eða ef út í það er farið einhvern sem ekki kemur fram við mann eins og gamlan vin. Það vill svo til að Cookie Monster ræður ekki yfir geislaspilara og útvarp næst ekki alls staðar. "Hvað segirðu, ertu að leita að spólum? Með bara einhvern veginn tónlist?" spyr maórastelpa með glaðlegt frekjuskarð þegar maður kemur út af enn einni bensínstöðinni sem hætti að selja kasettur fyrir a.m.k. fimm árum. Labbar með manni í bílinn sinn og leggur til tvær kasettur í ferðalagið. Nýsjálenskt gospel og Jesúsarrapp verður undirleikur við aksturinn í þó nokkurn tíma. 

Og landslagið siglir framhjá Kökuskrímslinu sem leggur leið sína frá Wellington, meðfram Tasmanhafi til Hobbiton. Framhjá virkum eldfjöllum, endalausum skógum og stöðuvatni sem fær axlirnar á manni til að síga við að líta það augum. 

Að lokum er það aftur Auckland. Og ný ævintýri bíða á Fiji og öðrum spennandi viðkomustöðum. Augnablikið skal tekið alla leið, nú sem áður. Og veriði alveg róleg. Það verður farið varlega á Fiji.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband