Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
1.5.2006 | 20:32
Land hinna frjálsu (og Anna Pála þarf hjálp)
Þegar ég var í Boston 2003 get ég svo svarið að ég var aldrei afgreidd eða af þjónustuð af einhverjum sem var ekki innflytjandi. Það gilti alveg jafnt um háklassahótelið okkar þar sem ég keypti dýrustu viskíflösku sem ég hef drukkið (undir aldri og afgreidd undir borðið sjáiði), limmuna sem við fengum að sitja í fyrir gæsku bílstjórans og Donkin Donuts þar sem ég fékk versta kaffi í heimi.
Flott baráttuaðferð hjá þeim í Landi hinna frjálsu í dag. Sem minnir mig á flottustu setninguna úr stórvirkinu Karate Kid. "Land of Free, Home of Brave." En ég vona að þetta skili árangri hjá þeim.
Þessi setning "... þeir fá einungis að vera í landinu í sex ár ef sannað þykir að enginn Bandaríkjamaður fáist í störf sem þeir vinna," endurspeglar viðhorfið til innflytjenda á dapurlegan hátt. Af hverju mega innflytjendur ekki vera forstjórar ef þeir hafa hæfileika til? Enn verra er að líklega hafa margir þeirra hæfileika, en ekki tækifæri. Þeir geta átt drauma, en enga von.
"Við báðum um vinnuafl, en fengum fólk," sagði einhver hetja sem ég man ekki hver er. Það er sárt til þess að hugsa að við ætlum að búa til lágstétt innflytjenda hér á landi. Ef við viljum snúa þeirri þróun við hlýtur að vera grundvallaratriði að efla menntakerfið þar sem það snýr að innflytjendum.
Annars: Mig vantar glósur úr Heimspekilegum forspjallsvísindum fyrir lagadeild!!! Þetta er í u.þ.b. fimmta skiptið sem ég er skráð í þennan stórskemmtilega áfanga sem þarf alltaf að sitja á hakanum. Á laugardag er próf í honum og á mánudag fer ég í kröfurétt sem vinnugleðin þarf að beinast að. Plís.
Fjölmenn mótmæli gegn breytingum á bandarískri innflytjendalöggjöf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.5.2006 | 03:16
Handtekin fyrir að segja fuck
Var að komast að því að pönkari femínismans með meiru, Germaine Greer er á leið til landsins í júní. Þetta er svona háklassa intellektúal sem er samt alræmd fyrir að segja nákvæmlega það sem henni dettur í hug, þegar henni dettur það í hug og finnst kjarnafjölskyldan hallærisleg. Var handtekin á Nýja-Sjálandi 1972 fyrir að segja "fuck" og "bullshit" í ræðu. Djöfull væri ég til í að heyra hana tala. Vona að hún valdi sem allra mestu fjaðrafoki.
Annars er ég frekar ánægð með hana doktor Herdísi Þorgeirsdóttur að skipuleggja þessar kvennanetsráðstefnur. Way to go. Hörkukvendi og fræðimaður með doktorspróf í lögum frá Háskólanum í Lundi. Rannsóknarstaða við Raoul Wallenberg stofnunina þar í bæ er líka með flottari störfum. Fyrir utan að maður hatar nú ekki að vera í Lundi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.6.2006 kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2006 | 13:07
Félagshyggjan
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.4.2006 | 18:12
Þetta er allt að koma
Jæja. Kirkjan er að taka vel við sér samkvæmt þessari frétt. Sem er reyndar sú lengsta sem ég hef lesið á mbl.is að ég held. Í lokin eru drög að ályktun kirkjunnar um ekki-hjónabönd samkynhneigðra, sem er þó nokkuð í rétta átt. En af hverju þarf hjónaband að vera "sáttmáli karls og konu?"
Ritstjórn annapala.blog.is fagnar þó þessari löngu tímabæru viðurkenningu þjóðkirkjunnar:
3. Þjóðkirkjan viðurkennir að kynhneigð fólks sé mismunandi og ítrekar að samkynhneigðir eru hluti af kirkju Krists og lifa undir fagnaðarerindi hans.
4. Þjóðkirkjan vill styðja allt kristið fólk í viðleitni þess til að temja sér ábyrgan lífstíl og hvetur alla, jafnt samkynhneigða sem gagnkynhneigða, til að hlýða köllun Krists til náungakærleika og ábyrgðar í kynlífi, sambúð og fjölskyldulífi.
5. Þjóðkirkjan álítur enga eina skipan fjölskyldunnar réttari en aðra. Kristur ávarpar alla jafnt án tillits til fjölskyldustöðu.
6. Þjóðkirkjan styður hjónabandið sem sáttmála karls og konu á forsendum hins kristna kærleika. Þjóðkirkjan styður ennfremur önnur sambúðarform á sömu forsendum.
7. Þjóðkirkjan styður þá einstaklinga af sama kyni sem vilja búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína og skuldbindingar og heimilar prestum sínum að blessa sambúð þeirra samkvæmt þar til ætluðu formi, að því er segir í tilkynningu.
Drög að ályktun um staðfesta samvist lögð fram til umræðu á prestastefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.4.2006 | 00:44
Annars flokks ást
Sms samskipti. Ég: "Ertu búnad borda kvöldmat?" Ragnheiður: "Nei, er sko ad leika í fyrstu samkynhneigdu hryllingsmyndinni. Hvarta spá?" Ég: "Hahaha. Var svöng, er búin ad borda. En viltu fara á örstutt kaffihús um ellefuleytid?" Ég hef ekki heyrt í Ragnheiði síðan, og þetta var í fyrrakvöld. Spurning að athuga hvort einhver hafi dáið nýlega við tökur á blóðugu atriði í kvikmynd.
Er það annars öfga pólitísk ranghugsun að hlæja að tilhugsuninni um samkynhneigða hryllingsmynd? Eða bara eðlilegt að finnast fyndið að detta þetta í hug. Og skemmtilegt. Ég pant sjá myndina.
Ég datt inn á vef Alþingis í gær í þeim spennandi erindagjörðum að skoða nýju tollalögin og sjá hvernig refsiábyrgð er ákvörðuð í þeim. Gömlu lögin voru nefnilega vafasöm. Fór í staðinn að skoða nýleg þingskjöl og var forvitinn um hvar frumvarpið um réttarstöðu samkynhneigðra stæði. Á eftir að ræða það tvisvar og spurning hvort næst að klára það fyrir þinglok. Vonandi, af því virkileg framför felst í þessu frumvarpi að mjög mörgu leyti, t.d. hvað varðar skráningu sambúðar í þjóðskrá, ættleiðingar samkynhneigðra para og tæknifrjóvganir fyrir lesbíur.
En í nefndaráliti Allsherjarnefndar kemur fram að enn þora menn ekki að ganga alla leið í því að hjónaband er staðfesting á samlífi tveggja einstaklinga sem elska hvorn annan. Ekki endilega karls og konu. Um þetta atriði segir orðrétt: "Í frumvarpinu er ekki lagt til að lögum um staðfesta samvist verði breytt á þann veg að trúfélögum verði heimilað að staðfesta samvist. Engu að síður ræddi nefndin á fundum sínum um þann rétt þar sem í umsögnum og á fundum kom fram að einstök trúfélög hafa lýst yfir vilja til að fá heimild til þess."
Af hverju má ekki veita þessa heimild? Við erum að tala um heimild, ekki skyldu. Auðvitað er svo útskýrt, en ekki mjög skiljanlega finnst mér, af hverju þetta atriði fékk ekki náð fyrir augum nefndarmanna, nema Guðrúnar Ögmundsdóttur og Sigurðar Kára Kristjánssonar sem samþykktu með fyrirvara. Forvitin að vita hvaða fyrirvari það var. Til að réttlæta þessa höfnun, kemur svo fram í álitinu að lagaleg réttarstaða samkynhneigðra sé nú sambærileg við gagnkynhneigða. Sem er mjög gott. Mér finnst bara að félagsleg staða skipti jafn miklu máli. Að samkynhneigðir geti ekki gengið í heilagt hjónaband jafngildir því að segja að þeirra ást sé annars flokks.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.4.2006 | 18:28
Tvær hetjur og bágstaddir
Muniði hverjir það voru sem greiddu atkvæði á móti Kárahnjúkavirkjun á Alþingi vorið 2003? Það tóku bara fimmtíu þingmenn þátt í atkvæðagreiðslu. Níu voru á móti. Allir þingmenn VG, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir. Samfylkingin olli vonbrigðum með hversu margir greiddu atkvæði með.
Hetja þessarar færslu er þó tvímælalaust Katrín Fjeldsted, læknir og þáverandi þingkona Sjallanna. Hún var eini stjórnarþingmaðurinn sem greiddi atkvæði á móti. Alvöru frjálshyggjuafstaða að gúddera ekki stærstu ríkisframkvæmd Íslandssögunnar. Enda er hún ekki á þingi lengur.
Hetjan í mínu lífi núna er hins vegar Barbara, fyrir að senda mér stöff úr réttarfari. Megi aðrir taka hana sér til fyrirmyndar. Allt efni úr Refsirétti II, Réttarfari II, Kröfurétti II og Fílunni er vel þegið. Hjálpið bágstöddum í neyð. Netfangið er aps@hi.is og msn annapala83@hotmail.com.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.4.2006 | 18:56
Glötum ekki þjóðararfleiðinni
"Bonjour, madame!" Ég vil ekki hafa að það sé talað við mig á útlensku í mínu eigin landi. Það er algjört lágmark að fólk sem ætlar að búa hérna geti talað íslensku. Íslendingar mega ekki hætta á að glata þjóðararfleifð sinni. Með þessu er ég ekki að segja að ég hafi eitthvað á móti útlendingum, við bara verðum að gæta okkar að þeir verði ekki of margir í þessu landi. Við erum of fá til að hætta á það. Grín.
Ljúft að fá fallega kveðju á frönsku á rölti um Hjarðarhagann. Gat meira að segja svarað til baka, hafandi farið í einn frönskutíma á ævinni og lært þar þessa kveðju og að segja nafnið mitt. Svo skipti ég yfir í spænsku. Spænskukennslan í MH var í háum gæðaflokki og allt gott um það mál að segja. Gat hringt til Spánar og rætt við hótelfólk eftir tvo áfanga, orðin almennt viðræðuhæf eftir sex og gat lesið alvöru bókmenntir með orðabók á kantinum. Eins og einhvers staðar hefur komið fram áður, munaði ekki miklu að ég færi bara í bókmenntafræði og síðan til Suður-Ameríku á slóðir Neruda, García-Marqués, Allende og fleiri. Ef ég verð í höfuðborg Latínóanna, Miami, næsta vetur er aldrei að vita nema maður fái færi á að babbla á spænsku.
En nú langar mig líka að læra frönsku.
Annars: Áfram útlendingar á Íslandi! Kennið okkur að bræða klakann. Bætið þjóðarhaginn með því að stækka þetta mini hagkerfi okkar. Og saa videre.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.4.2006 | 16:54
Eigendur fjölmiðla þurfa stundum að grípa í taumana?
Rakst á netkönnun inni á talnakonnun.is í gær. Spurt er: "Mega eigendur skipta sér af fjölmiðlum?" Ég: "Bjánaspurning." Merki við "Nei slíkt væri ritskoðun" og hlæ að möguleikanum "Já, þeir verða að grípa í taumana ef þörf krefur."
Niðurstöður könnunarinnar: Nei=62,2% og J=37,8 eftir að ég hafði kosið. (Veit ekki hvað hún hefur verið í gangi lengi eða hvað margir kosið.)
Er ég forhertur fjölmiðlamaður sem skilur ekki annað en að sjálfstæði ritstjórna hljóti að verða að vera algert? Ég mundi til dæmis eftir þegar ritstjórum DV var skipt út skv ákvörðun stjórnar. Finnst fólki kannski að það flokkist undir að "grípa í taumana ef þörf krefur?"
Þetta kann að hvarfla að manni þegar spurningunni er svarað. En ef velja þarf á milli þessara tveggja möguleika bliknar þetta atriði einhvern veginn. Og samt kjósa hátt í fjörutíu prósent þann möguleika sem inniheldur ekki nei við ritskoðun. Hvernig ætli þeir kjósendur skilgreini "ef þörf krefur?"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.4.2006 | 19:44
Kosningaloforðin
Var stödd niðri í félagsherbergi Lögbergsins helga og sá frétt af þinginu, þar sem Jóhanna Sigurðardóttir snilli var að drulla yfir Framsókn fyrir að fylgja ekki eftir kosningaloforðum varðandi stöðu barna og ungmenna.
Það er mjög fyndið í ljósi þess að um tveimur tímum áður vorum við niðri í félagsherbergi (alltaf þar?) að velta fyrir okkur hvað hefði eiginlega orðið um "Ísland án fíkniefna árið 2000." Getur einhver sagt mér það?
14.4.2006 | 21:03
Nöttararnir á Filippseyjum
"Anna Pála, þú ert búin að sofa í fimmtán og hálfan tíma." Ég fór á fætur um klukkutíma seinna, klukkan eitt í dag. Veit ekki alveg hvað er að gerast en ég hef ítrekað sofið svona rosalega að undanförnu. Tengist kannski því að hafa minna að gera núna en undanfarin þrjú ár eða svo. Og ef svefninn getur losað mig við þetta ógeðs kvef úr lungunum og hor úr nefinu verð ég sátt. Svo dreymir mig gott rugl og tala reglulega og mikið upp úr svefni. Bjarnið segist þó ekki greina orðaskil nema einstaka upphrópanir á borð við JÁ! sem er eins gott. Hugmynd að hafa diktafóninn í gangi eina nótt og rannsaka málið sjálf, kannski kemst ég að einhverju nýju.
Annars var ég að horfa á fréttir og að sjálfsögðu, eins og ég bjóst við, eru nöttararnir á Filippseyjum jafn hressir og ávallt á föstudaginn langa. Fréttastofurnar sýndu blæðandi bök og öskrandi fólk sem var sjálfviljugt neglt á krossa. Athyglisvert að NFS varaði við myndunum en RÚV ekki við þeim sömu. Allavega, ég ætla að vera fordómafull og segja að ég skil ekki alveg tilganginn með þessum þjáningum. Tilgangurinn er að mér skilst að sýna fram á samlíðan með þjáningum Krists á krossinum og minnast fórnar hans. Sem er gott og gilt markmið. Það sem skilur að er Filippseyingarnir þjást en hverju breytir þeirra fórn? Til að komast nálægt áhrifum aðal píslarvottarins á heiminn, held ég að þeir ættu að finna upp á einhverju nýju. Píslarvætti er ekki raunverulegt nema þú færir raunverulega fórn. Og það er af nógu að taka í heiminum sem mætti fórna sér fyrir, rétt eins og fyrir tvö þúsund árum. En kannski er þetta þeirra leið til að komast nær Guði, hvað veit ég.
Talandi um nöttara. Til hamingju Ítalía, með að skipta um stjórn! Það hefði líka verið óhuggulegt til þess að hugsa að hægt sé að kaupa sér kosningu eins og Berlusconi reyndi leynt og ljóst að gera. Ástandið á Ítalíu sýnir okkur að vissulega er viturlegt að setja sér lög um eignarhald á fjölmiðlum, jafnvel þótt þau hafi verið illa fram sett á sínum tíma og hugsanlega ekki á réttum forsendum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)