Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Öll í bleiku í dag - "Atkvæði eigum við í hrönnum"

Í dag er 19. júní og við minnumst þess þegar konur fengu kosningarétt. Í tilefni dagsins ætlum við að sýna að við styðjum jafnrétti í verki og öll klæðast bleiku, bera eitthvað bleikt eða gera eitthvað bleikt. Hlakka mjög til að sjá hvaða útfærslu Moggafólk hefur kosið, eftir áminningu í tíma frá sjálfri mér á föstudaginn sem innihélt m.a. að þeir sem ekki tækju þátt væru fasistar og feðraveldi (og að þessi brandari væri í boði Baugs). 

Einhverjir hafa nefnt að notkun bleika litarins sé arfavitlaus og eingöngu til þess að negla niður staðalímyndir. Réttmæt athugasemd en að mínu viti er ástæðan á þessa leið: Femínismi snýst um frelsi kvenna, ekki bara réttinn til að verða nákvæmlega eins og karlar. Leiðin í átt til virðingar fyrir því sem kvenlegt er felst í að við berum jafnmikla virðingu fyrir því og karlamenningu. Þess vegna upphefjum við bleika litinn. 

Ég kann ekki að fagna deginum á þessu bloggi betur en með eftirfarandi, sem raunar var samið fyrir annan góðan dag. Það er rosalega gaman að kunna þennan texta við góð tækifæri. Sem minnir mig á að í nótt "kom á daginn" að Steindór kann textann við "Girls just wanna have fun" betur en ég.

ÁFRAM STELPUR!!!

Í augnsýn er nú frelsi,
þó fyrr það mætti vera
nú fylkja konur liði
og frelsismerki bera
stundin er runnin upp
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það

En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.

Seinna börnin segja
sko mömmu hún hreinsaði til
og seinna börnin segja
þetta er einmitt sú veröld sem ég vil
En þori ég, vil ég, get ég?
já ég þori, get og vil!
en þori ég, vil ég get ég?
já ég þori, get og vil!

Áfram stelpur standa á fætur
slítum allar gamlar rætur
þúsund ára kvennakúgunar.
Ef einstaklingurinn er virkur
verður fjöldinn okkar styrkur
og við gerum breytingar.
Atkvæði eigum við í hrönnum
komum pólitíkinni í lag
sköpum jafnrétti og bræðralag.

Áfram stelpur, hér er höndin
hnýtum saman vinaböndin
verum ekki deigar dansinn í.
Byggjum nýjan heim með höndum
hraustra kvenna í öllum löndum
látum enga linku vera í því.
Börnin eignast alla okkar reynslu,
sýnum með eigin einingu,
aflið í fjöldasamstöðu.

Stelpur horfið ögn til baka
á allt sem hefur konur þjakað
stelpur horfið bálreiðar um öxl.
Ef baráttu að baki áttu
berðu höfuð hátt og láttu
efann hverfa 'unnist hefur margt.
Þó er mörgu ekki svarað enn:
því ekki er jafnréttið mikið í raun,
hvenær verða allir menn taldir menn
með sömu störf og líka sömu laun?

Í augsýn er nú frelsi,
og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liði
og frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.

En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.


Einstök ályktunarhæfni og ekkert vesen

Þarf bara að láta vita að neðangreind ágiskun var rétt hjá mér. Enda urðu allir skipuleggjendur eins og kúkar þegar ég auglýsti þessa hugmynd yfir ritstjórnina. Björn Ingi var látinn bíða á Stjörnutorgi meðan fólk kom sér yfir á Kringlukrá og svo klæddur í búrkuna að viðstöddum gestum og gangandi. 

Spurning dagsins: Hvernig dettur manni í hug að vera fimm klukkutíma á Kringlukránni?  

Seinna um nóttina var nauðsynlegt að klæðast skóm drekans, A.K.A. búrkunni til að geta tekið rúnt á Ölstofunni, klipið karlmenn í rassinn og tekið skot undir blæjunni. Setningu næturinnar átti líklega Árni. "Hún talar ekki íslensku." Góð redding úr viðreynslu hjá einhverjum sem greinilega fílar að láta koma sér á óvart. 

Skemmtiatriði dagsins átti sér stað í portinu hjá Sirkus. Fólk í jakkafötum og drögtum með frosin bros, undir manni með gjallarhorn sem endurtók aftur og aftur og aftur og aftur: "Hjá okkur er allt í lagi. Ekkert vesen. Þannig viljum við hafa það. Allt í lagi. Ekkert vesen..." Eins og pabbi benti á í miðjum einhverjum orðaflaumi sjálfrar mín um Orkuveituauglýsinguna: "Þetta er ekki auglýsing, þetta er áróður."

Sýning dagsins er svo tvímælalaust kökusýningin hjá Ingunni og vinkonu sem buðu í tertur í gallerí Gyllinhæð á Laugaveginum. Farin að horfa á leikinn í félagsskap Górillufélags. Takk og góða nótt. Gleðilega þjóðhátíð.


Björn Ingi Hrafnsson í búrku

Þjóðarhreyfingin með bjór ætlar að funda á Kringlukránni um það bil núna. Svo ég má ekki vera að þessu. Í hreyfingunni eru blaðamenn Morgunblaðsins. Sérstakur leynigestur mun stíga á stokk mjög fljótlega. Hann verður klæddur í búrku til að þekkjast ekki.

Ég segi að þetta verði Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs og fyrrum íþrótta- og þingfréttaritari Morgunblaðsins. Þetta er skrifað svo ég geti sagt "Ég sagði það."


Sætasta stelpan

Ég er ekki frá því að Siggi Pálmi hafi bjargað deginum í gær með því að spyrja Geir á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu, hvort Valgerður væri sætasta stelpan.

Þetta gerðist eftir að Geir hafði farið fram á að kyssa Valgerði í staðinn fyrir að taka í spaðann. Hann lét ekki annað í ljós en að hafa húmor fyrir þessu kommenti kallinn. Þess má geta að Geir er vel giftur. Get staðfest það eftir tveggja ára samstarf í Háskólaráði.


SKANDALL (langþráð úrslit í málsháttakeppninni)

Ef ég væri stjórnmálaflokkur væri mér á engan hátt treystandi fyrir völdum. Ég myndi svíkja öll kosningaloforð. Hér má skjóta inn að ég var einmitt í gærkvöldi að ræða um að stofna einhvern tímann sérframboðið "Sameinaðir vinstrimenn."

En allavega. Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir er löngu komið að skuldadögum: Ég lofaði að birta úrslit í málshátta-slagorðakeppninni fyrir meira en viku síðan. Hér birtast úrslitin. Fyrst verðlaun í aukaflokkum, sbr. 4.gr. keppnisreglna. Vinningstillögur eru merktar með rauðum lit en læt aðra góða fylgja með í flestum flokkum.

 

Bitri gaurinn:

-Betra er vín en ástaratlot þín (Henrý Þór)

 

Úr umsögn dómefndar: "... Ber vott um vott af sjálfseyðingarhvöt...  En hver hefur svosem ekki verið fullur, bitur og melankólískur." 

 

 

Stúdentalífið:

-Betra er að fara í leiðinlegt hóf en leiðinlegt próf (Dagga)

-Betra er grænt eyra á kodda en prófatíð í Odda (Eva Bjarna)

-Betri er brestur í skógi en athyglisbrestur (Fannita Dorada)

Úr umsögn dómnefndar: "... Sérstök, ungæðisleg og kaldhæðin sýn á próftíð sem felur í sér jákvæð skilaboð ef vel er að gáð... Höfðar til breiðs hóps notenda íslenska tungumálsins sem flestir hafa tekið próf á ævinni. "

 

Lögfræði:

-Betra er að jafna lög en lögjafna (Valdi)

-Betri er firring en fyrning (Laufey)

Úr umsögn dómefndar: "... Fer beint að kjarna þess sem lögfræði skyldi snúast um og löggjafinn ávallt hafa í huga... Hugsar í lausnum, ekki vandamálum..."

 

Bjarnaflokkur

-Betra er jó en skó (?) (Bjarni Már)

Úr umsögn dómefndar: "."

 

Kynlíf:

-Skárri er lús í höfði en í klofi (Eyrún)

-Hlustaðu ef Nei segir mey (Rabbarinn)


Úr umsögn dómnefndar: "Ljóðræn og hreinskilnisleg nálgun á eitthvað sem við öll glímum við í hversdagsleikanum." 

 

Sérstök aukaverðlaun dómnefndar: Egóbústið

-Góð er Anna Pála er kemur til háttarmála. (Villi Ásgeirsson)

Úr umsögn dómefndar: "... Því má komast að þeirri niðurstöðu að Villi sé vissulega allt sem þarf." 

 

Og hér höfum við annan aðalflokkinn í keppninni:

Kosningaslagorð:

-Þekking er blekking - álver allstaðar (Jóhann Friðriksson)

-Sjaldan verður maður staur-blindur nema fullur sé  (X-D Árborg) (Sigurður Gröndal)

-Betri eru ellismellir en Skerjavellir. –XF (Stígur) (Einnig: Aukaverðlaun í flokki kosningamálshátta)

-Þjóðarsátt um lækningu við fötlun! (Henrý Þór)

-Við vinstra brjóst fjallkonunnar, slær hjartað! (Arnór Snæbjörnsson)

 

Úr umsögn dómnefndar: "... #%$!"

Og hér fer að koma að því. Hinn aðalflokkurinn var einfaldlega málshættir.

Klassíkerar framtíðarinnar:

-Hóf er best í hófi (Villi Reyr)

-Betri er koss að morgni en ást úti á horni (Villi Ásgeirsson)

-Betri er Skafís á diski, en hafís á veðurkorti. (Grétar –Einnig viðurkenning í aukaflokknum “Sértækasti málshátturinn”)

-Betri er kúkur í klósti, en í pósti (Sindri)

-Sjaldan er ein bólan stök (Vigga)

-Betra er að vera fullur af kampavíni en fullur af einhverju öðru (Ást og hamingja)

-Æ sér þjór til þynnku (Hrund) (Aukaverðlaun í flokknum)

-Betri er góður blundur en leiðinlegur fundur (Eiður Ragnarsson)

Úr umsögn dómnefndar: "Brillíant útúrsnúningur á einhverju sem við heyrum alltof oft... Heimspekilegt sjónarhorn á boð og bönn sem við setjum okkur... Býður upp á skemmtilega túlkunarmöguleika vegna mismunandi merkingar orðsins hóf... Uppreisn gegn höftum ofsiðaðs samfélags... Vinnur á í einfaldleika sínum... Bravó."

 

SIGURVEGARI KEPPNINNAR: 

Vilhjálmur Reyr Þórhallsson, fyrir málsháttinn

Hóf er best í hófi.

Dómnefndin hafði raunar nokkrar áhyggjur af því að hann væri ekki frumsaminn en hann finnst hins vegar ekki við gúglun eins og margar aðrar góðar tilraunir í keppninni. Til hamingju með þetta! Megum við tileinka okkur þennan málshátt og lifa eftir honum. Eins og heitið var, verður titli bloggsins breytt a.m.k. næstu vikuna og hugsanlega lengur vegna óhóflegs dráttar í störfum dómnefndar.


Takið þátt í keppninni, skækjur! - "Sjaldan er ein bólan stök" - "Þekking er blekking - álver alls staðar"

Nú þegar má telja innlegg í málshátta- og slagorðakeppnina miklu, í hundruðum og keppendur í tugum. 

Ritstjórnin hefur nokkrar áhyggjur af hlut kvenna í keppninni en hyggst þó ekki setja kynjakvóta á þátttöku, heldur treystir því að kvenkynið sé enn að hugsa málið og komi með ódauðlegar tillögur áður en skilafrestur rennur út, kl átjánhundruð annað kvöld.

Dómnefnd keppninnar hefur svo af því nokkrar áhyggjur að vegna bágborins andlegs og líkamlegs ástands / anna við að fagna próflokum á morgun, geti það tafist eitthvað að tilkynna úrslitin og gerir hér um það fyrirvara. Enda mikið verk fyrir höndum.

Annars hafa fæstir keppendanna nýtt sér færi á að endurtitla þetta blogg, sbr. 6.gr. keppnisreglna, vek athygli á henni.

Tillögur skilast eftir sem áður í kommentakerfið við síðustu færslu og er stefnan sett á metfjölda kommenta á þessum bloggvef. Lifið heil


Málshátta- og slagorðakeppnin mikla! - "Betri er kúkur í klósti, en í pósti" - "Öldruðum og aumingjum allt, nema peninga"

Lestu þetta og taktu svo þátt! Í ljósi efnilegrar útkomu síðustu færslu hefur ritstjórnin ákveðið að standa hér fyrir málshátta- og kosningaslagorðakeppni. Hún er bæði ætluð sýruhausum og öðrum, s.s. öllum opin. Ég bíð spennt eftir að sjá bæði klassískan húmor og vísun í samtímann.

Reglurnar eru svona:

1. Keppt er í tveimur flokkum, málshættir og kosningaslagorð. 

2. Málshátturinn/Slagorðið skal vera frumsamið og ekki hafa heyrst áður.

3. Að öðru leyti hafa þátttakendur listrænt frelsi.

4. Hugsanlega verða aukaviðurkenningar veittar í einhverjum flokkum.

5. Tillögum skal skilað í kommentakerfið og er skilafrestur til kl. 18:00 þann 15. maí, en hálftíma síðar verða úrslitin gerð kunn.

6. Sá aðili, sem bestu tillöguna á, og eru þá báðir flokkar undir, fær að velja nýjan titil á þetta blogg í heila viku. Kemur í stað "Önnupálublogg."  Vinsamlega tilgreinið hver titillinn á að vera um leið og tillögum er skilað, nema þið viljið að málshátturinn/slagorðið sjálft verði notað. Dæmi: "Femínistar sökka." "Ég er með hár á tánum." "Ég er trukkalessa." "Ég hef gubbað niður af svölunum á Hverfisbarnum." "Lifi Thatcherisminn!"

7. Þeir sem kommentuðu í færslunni á undan þessari eru sjálfkrafa með í keppninni.

Þar að auki fær Nói-Síríus hugsanlega póst uppá næsta páskaeggjaár. Hver myndi ekki vilja fá kúkamálshátt í sínu eggi.


Neikvæður áróður

Hahaha. Hverju er Svandís nú að hóta? Bíð spennt eftir hvað gerist þegar hún byrjar að tosa. Ég veit a.m.k. að hún vill síður fá ríkisstjórnina inn í ráðhúsið. 

Neikvæður áróður er auðvitað áhættusamur. En það er ágætis þumalputtaregla að hann getur virkað svo lengi sem áheyrandinn fær ekki samúð með þeim sem áróðurinn beinist gegn. Ég held það þurfi talsvert til að vekja verndartilfinningar með fólki þegar bent er á vinnu Sjálfstæðisflokksins í öldrunarmálum í ríkisstjórn og í leikskólamálum á undan R-listanum, svo eitthvað sé nefnt.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur nógu sterka stöðu í landsmálunum til að hægt sé að pota í hann. Hins vegar má ekki missa sig eins og þegar Dagur spurði í Kastljósinu hvort við ættum ekki bara að senda konurnar heim aftur. Það er svona pirringskomment frá manni í sófa til sjónvarps, en á síður heima í útsendingunni.

Ég skildi samt meininguna vel. "Árangur í leikskólamálum náðist þrátt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ekki vegna hans," segir ISG. En Reykjavíkurlistaflokkarnir eru svo uppteknir við að skapa sér sérstöðu að enginn vill hirða um arfleifðina. Á meðan siglir Vilhjálmur sléttan sjó með alþýðlega pulsu í hendinni sem spunalæknar Sjallanna plöntuðu þar. Snjall kall og viðkunnanlegur.

Auðvitað hlýtur samt árangursríkasta kosningabaráttan alltaf að felast í að sýna fram á hvað maður sjálfur hefur fram að færa. Í þessu tilfelli að gæran tollir á árið um kring, svo ég fari lengra með líkinguna hennar Svandísar. En hitt getur virkað meðfram. Þess þá heldur í sveitarstjórnarkosningum þar sem er erfiðara að marka sér sérstöðu.


Og erum við Borgar ekki bara sammála

f_my_pictures_borgar_kjutipae.jpg

Aldrei fór svo að við Borgar Þór Einarsson gætum ekki verið sammála um eitthvað. Leyfi mér að birta eftirfarandi tilvitnun úr greininni hans sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn. 

"Til eru þeir sem halda því fram að erlent vinnuafl taki atvinnu sem ella hefði komið í hlut Íslendinga. Því miður á slíkur málflutningur oftar en ekki rætur sínar að rekja til óæðri hvata en að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Þar að auki lýsa slík sjónarmið algjörri vanþekkingu á eðli atvinnulífsins. Gengið er út frá því að atvinna sé föst stærð og að framlag hvers og eins á vinnumarkaði hafi enga þýðingu fyrir verðmætasköpun.

Ekki einungis er slíkur málflutningur rangur heldur beinlínis niðrandi fyrir launþega almennt. Það er því skömm að því þegar meintir talsmenn launþega leyfa sér slíkan málflutning. Goðsögnin um að erlent vinnuafl taki atvinnu af Íslendingum er álíka gáfuleg og að aukin þátttaka kvenna á vinnumarkaði hafi valdið hér stórkostlegu atvinnuleysi."

Ég klappaði að vísu ekki fyrir öllu í greininni og þ.á.m. ekki byrjuninni. Auðvitað má verkalýðsforystan hafa pólitísk áhrif, en ekki hvað. Hún stendur fyrir stóran hóp í samfélaginu og pólítik er jú bara það hvernig samfélag við viljum byggja, við þurfum ekki endilega að gera það eingöngu gegnum stjórnmálaflokka. Svo er ég ekki alveg klár í hvað hann er að vísa með "meintir talsmenn launþega." Nenni þó ekki að eyða meiri tíma í hverju ég er ósammála.

En semsagt glæsilegt framlag í umræðuna, takk Borgar, yfir og út.


Rokkað til vinstri á fimmtudagskvöldið

Var beðin að koma eftirfarandi á framfæri og hvet alla til að gera hið sama! Ókeypis stuð í Iðnó á fimmtudaginn. Ekki verra fyrir UVG að eiga svona vel plöggaðan formann í bransanum. 

Ung vinstri græn bjóða þér á tónleika í Iðnó fimmtudaginn 4. maí klukkan 20. Tónlistarfólkið Benny Crespo's Gang, Rósa Guðmundsdóttir, Helgi Valur, Byssupiss, Mammút, Múgsefjun, Jan Mayen, Hraun og Norton bjóða upp í dans. Kynnir verður Andrea Jónsdóttir. Allir velkomnir og ókeypis inn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband