Merkasti fornleifafundur tuttugustu aldarinnar

Alþjóðavæðingin á sér mörg andlit.  Eitt þeirra getur verið tvær íslenskar stelpur að dansa við Neun und Neunzig Luftballoon á mexíkönskum klúbbi í Shanghai.  Uppi á barborðinu.

Brátt kemur að leiðarlokum í Kína.  Skrýtið til þess að hugsa sem og þess að í gær höfðum við verið á ferðalagi í tvo heila mánuði.  Líklega má segja að fyrirhuguð fimm daga hvíld á Bali komi sterk inn.  Áður en það verður þarf að fljúga í gegnum singapore og alls verða flugin orðin átján talsins þegar lagst verður niður á Bali.  Held að við séum búnar að ganga okkur til húðar í bili.

Segja má að íslenskt uppáhaldsskáld hafi átt orðið hér í Kína.  "Undan ferðamannsins fæti valt steinn úr stað," orti hann.  "-Og steinninn hélt áfram að velta, veistu það... Og sjö þúsund árum síðar komst þú, komst þú."  Það er afskaplega sérstakt að skoða áþreifanlega hluti sem í alvörunni eru um fimm þúsund ára gamlir.

En það er ekki allt gamalt hér í Kína.  Síður en svo.  Landið er ennþá þróaðra og miklu dýrara en ég hafði átt von á.  Fimm þúsund ára hlutirnir voru á Shanghai safninu.  Mitt á milli skýjakljúfanna og art deco bygginganna sem gætu næstum verið hvar sem er í heiminum.  Shanghai er skemmtileg.  Og allt, allt öðruvísi en Peking.  Eins og einhver benti á; þetta eru Washington og New York.

Hin gamla höfuðborg Kína, Xi'an, er líka á hraðri leið til framtíðar en ennþá mátti sjá aðeins inn í fortíðina þar.  Starbucks var ekki lengra komið en vera að byggja á aðaltorginu.  Miðborgin ennþá múruð inn.  Og utan við borgina "merkasti fornleifafundur tuttugustu aldarinnar," terracotta hermennirnir.  Hverjir vita hvað það er?  Held að Íslendingar þekki ekki vel til þessara nýju stórvina okkar Barböru.  En þeir eru flottir.

Eins og Kínamúrinn.  Sumar túristagildrur eru bara þess virði.  Fórum á Kínamúrinn um leið og leiðtogar flestra Afríkuríkja sem mættu hingað á Beijing Summit og fengu lánsloforð hjá Kínverjunum og svona.  Sniðugu Kínverjar.  Við skildum samt ekki alveg af hverju allt í einu var orðið bráðnauðsynlegt að senda okkur niður af Múrnum í rennibraut.  Svo kom það í ljós -HITT merkilega fólkið hafði mætt á meðan við vorum að dóla okkur aftur niðureftir.  Reyndar búnar að hita vel upp í brattanum, því jú, Kínamúrinn er þó nokkuð torfær!

Aðalsportið á Múrnum þennan dag var að taka mynd með okkur kríthvítu Vesturlandabúunum.  Fyrirsætur í auglýsingum hérn a eru oftast eins og þær séu yfirlýstar á myndum, svo hvítar eru þær og þykja flottar.  Á meðan nota Íslendingar brúnkukrem.  Gaman að þessu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Ertu ekki að tala um þessar hermannastyttur sem fundust? Gott að sjá að þú hefur komist í íslenskt lyklaborð. Kveðjur Jórunn

Jórunn Sigurbergsdóttir , 12.11.2006 kl. 12:43

2 identicon

Já Anna Pála mín, svart og hvítt er ekki það sama og hvítt og svart ! Ekki veit ég hvernig hún tifar tímaklukkan í ykkur Barböru eftir þessa tvo mánuði. Það er eins og að þið séuð orðnar "overdose" af menningu. Það er gott að Balí er framundan. Ekki svo að skilja að þar sé engin menning  Það var gaman að lesa kveðjuna frá gamla nemandanum mínum, henni Hugrúnu Sif, í gestabókinni. Njóttu vel elsku stelpan mín, farðu varlega. Kveðja, þín mamma. 

mamma (IP-tala skráð) 12.11.2006 kl. 15:25

3 identicon

Sæl elsku frænka!
Það er ekki laust við að maður öfundi ykkur stöllurnar af öllum þessum upplifunum. Þið verðið nú samt að passa ykkur á þessum barborðum. Það er oft býsna hátt fall ef eitthvað kemur upp á...
Bestu kveðjur, Jón Hrói 

Jón Hrói (IP-tala skráð) 12.11.2006 kl. 22:31

4 Smámynd: Inga Rós Antoníusdóttir

Fór til Xi´an fyrir tæpum 10 árum síðan og þá sáust varla nein merki alþjóðavæðingarinnar. En rétt er það að Terracotta hermennirnir eru magnaðir og sagan um þá ekki síður. Það koma mér á óvart hve merkilegir mér fannst þeir í raun, var svona pínu "gæsahúðar móment", he he.

Inga Rós Antoníusdóttir, 12.11.2006 kl. 22:32

5 identicon

Jeminn...ég fæ gæsahúð og stórmennskudrauma um heimsreisur í hvert skipti sem ég les færslurnar þínar. Bíð spennt eftir hverri og einni.  Hafið það áfram gott og njótið í botn:)

 Hrund

Hrund (IP-tala skráð) 13.11.2006 kl. 21:12

6 identicon

Ótrúlega gaman að fylgjast með ferðalaginu ykkar. Er sjálf svotil nýkomin úr 7 mánaða heimsreisu... fór einmitt til Balí og varð fyrir rosalegum vonbrigðum vægast sagt. Mæli með pínu lítilli eyju þarna rétt hjá, Gili Trawangan, sem er smá bátsferð frá Lombok, sem er við hliðina á Balí. Eyddi síðustu tveimur vikunum mínum þar í algjörri afslöppun

Góða ferð og skemmtun

Hera Brá

Hera Brá Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2006 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband