27.11.2006 | 12:01
Ástarkveðjur frá Ástralíu
Hvenær leigir kona sér húsbíl á Nýja-Sjálandi og hvenær ekki? Hvenær fer kona til Fiji og hvenær hættir kona við Fiji? Hvenær fer hún í vínsmökkun í Ástralíu eða í klifur upp á hafnarbrúna í Sydney og borgar fyrir það aur og annan? Og hvenær ekki? Ferðafélagið fundar auðvitað mjög reglulega um dagskrána og þessa dagana er margt um að hugsa. Á meðan eigum við þó ljúfa og afslappaða daga í Sydney.
Það er skrýtið að koma hingað "niður" og vera bara komin til þess sem við köllum Vesturlönd. Margt sem minnir á England. En hver staður hefur auðvitað sinn sérstaka sjarma. Ég gæti sagt að Sydney sé Sjarma. Tröll.
Sydney er þannig borg að það er svo gott að slappa af hérna og njóta mannlífsins. Stundum þarf maður líka bara að sofa. Mikið. Þegar svoleiðis stendur á er gott að búa á góðu hosteli. Aftur með fjórum karlmönnum í herbergi. En þeir eru ljúfir sem lömb, nóg pláss og gluggar í herberginu og hreinlæti og öryggismál til fyrirmyndar. Semsagt eins og best verður á kosið þótt við herbergisfélagarnir eigum til að trufla hvert annað þegar við komum heim á mismunandi tímum nætur. Huhumm. Við B erum klárlega ekki verstar í því þrátt fyrir að hafa kíkt aðeins á djammið með fabulous fólkinu við sjávarsíðuna.
Mannlífsflóran er fjölbreytt og eiginlega er það mannlíf, mannlíf, mannlíf út um allt hérna. Sérstaklega gaman að rölta um borgina þessa liðnu helgi. Mismunandi mannlíf eins og stórborg sæmir. Frábær hverfi eru Paddington og Newtown, með afslöppuðu bóhem-ívafi. Þið vitið, flottar öðruvísi fatabúðir og second hand bókabúðir, endalaust af kaffihúsum og veitingastöðum með mat alls staðar frá. Enginn McDonalds sjáanlegur. Sem er fínt.
En nú ætla ég að koma þeim á óvart sem þekkja mig. Hefði líklega ekki látið sjá mig þar inni nema öskrandi og sparkandi hér áður. En í ferðinni hefur alveg komið fyrir að við höfum borðað á Makkanum. Það er nebbla svo ódýrt. En ekki á Íslandi og missir þar með marks. Og ég get upplýst að það var hreinlega gaman að borða á McDonalds í Indlandi. Úrvalið var mjög skemmtilegt því auðvitað var ekkert nautakjöt. Allskonar grænmetis- kartöflu og ostamöguleikar í staðinn.
Og talandi um Indland. Ferðafélagið hefur komist að niðurstöðu: Indverskur matur. Líklega besti matur í heimi. Eða svona, þið vitið. Auðvitað er fjölbreytnin best og við fengum líka magnaðan japanskan og indverskan mat til dæmis. En indverski maturinn er alveg magnaður. Hvernig er hægt að elda kartöflur og baunir þannig að maður geti borðað endalaust? Ég sakna asíska matarins alveg ferlega þótt úrvalið af honum sé reyndar gott hér í Sidney. Bara aðeins dýrara en 35 krónur hjá götusala í Taílandi.
---
Bíddu. Það var víst verið að ræða Sydney. Svo nokkur atriði séu hér afgreidd:
-Óperuhúsið er líka rosalega flott að innan. -Höfnin er jafn flott og í bíómyndunum. Væri ekki slæmt að eiga hús með útsýni yfir höfnina eins og Nicole Kidman og fleiri. Þyrfti samt ekkert að vera við hliðina á Óperunni.
VIÐ ÆTLUM Á BRIMBRETTI Á MORGUN!
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Matur og drykkur, Menning og listir, Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2006 kl. 13:33 | Facebook
Athugasemdir
passið ykkur á þeim hvíta hann elskar brimbrettalið nammi nammm
Ólafur fannberg, 27.11.2006 kl. 13:26
Bara svo þú vitir það að þá er eitt af því fáa sem ég hef ákveðið að gera áður en ég dey að fara á brimbretti í Ástralíu. Gaman að þessu.
Sindri (IP-tala skráð) 27.11.2006 kl. 16:21
Já ég get sagt þér hvaða strætó þú tekur á ströndina! Mæli með þessu.
Anna Pála Sverrisdóttir, 28.11.2006 kl. 08:14
Bíddu nú hæg, ekki ertu enn á brimbrettinu ? Verð frekar ánægð þegar ég heyri frá þér þín mamma.
mamma (IP-tala skráð) 28.11.2006 kl. 20:56
Æ litla mamma. Ég reyni að hringja í kvöld að áströlskum tíma. Eftir að við sjáum dansverk í Óperuhúsinu :)
Anna Pála Sverrisdóttir, 29.11.2006 kl. 06:38
Hlýjar jólahjólakveðjur frá Sjöppenhávn! Jólaljósin eru komin upp og Tívolíið skartar sínu fegursta í öruggleg hlýjasta nóvembermánuði Köbenhafnar frá upphafi. Njótið sólarinnar og hlýjunnar mínar kæru. Koss og knús.
Eva (IP-tala skráð) 30.11.2006 kl. 20:07
Ég er Dagný og ég hef skilaboð til þín Anna Pála. Farðu á Newtown, surry hills og darlinghurst. Brendan, vinur okkar Evu, og annars Röskvuliðs, er að segja okkur þetta. E-mailið hans er: brendan.hough@gmail.com. Hann er svo töff! Hann er frá Ástralíu og er mjög töff.
Dagný (IP-tala skráð) 1.12.2006 kl. 03:28
Ástralía og Eþíópía "það rímar" segja Margrét Helga og Jóel og biðja fyrir kveðju sem og stóri bróðir og allt hans hús.
Kristján Þór Sverrisson, 1.12.2006 kl. 16:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.