21.6.2006 | 22:33
Á leið í heimsreisu
Þá er það opinbert. Fyrir svona hálftíma síðan, finnst mér a.m.k., ákvað hún Barbara snillíngur að bjóða mér í heimsreisu. Kortéri seinna var ég búin að segja já, en ekki hvað. Síðan þá hef ég gengið um í Teletubbies stemmningu og hlakka alveg ofsalega til. Löngu kominn tími á mig. Ég klára svo skólann á vorönn. Sé þann möguleika í stöðunni að geta þá jafnvel setið á rassinum í meira en fimm mínútur í einu og einbeitt mér að námi. Það væri tilbreyting.
Ferðaplanið er á teikniborðinu núna, eins og Ísland. Sem stendur er líklegast að við byrjum í Suður-Afríku eða jafnvel Bombay. Og þaðan út um allt. Fyrst verður flogið til London og þaðan eigum við fimmtán flugferðir sem nú er verið að púsla saman. Hún Anna nafna mín á Ferðaskrifstofu Íslands situr sveitt við að uppfylla óskir okkar, almættið veri með henni.
Einhvern tímann var Barbara maður dagsins á þessu bloggi. Ætli hún verði ekki gerð að heiðursmanni næstu mánaða núna. Ég efast ekki um að við verðum magnaðir ferðafélagar og munum rata í endalaus ævintýri. Sem er gott. Mjög gott. Það er ekki öllum gefið að vera traustsins verðir og um leið ávísun á endalaust stuð, en Barbara stendur undir þessu og gott betur.
Þess má geta að af einhverjum ástæðum get ég ekki linkað á hana, en bloggið hennar Barböru ásamt sérlega fallegri lýsingu á mér (varð bara hlýtt í hjartanu) er að finna hér: www.barbara.blog.is
Meginflokkur: Ferðalög | Aukaflokkar: Bloggar, Stjórnmál og samfélag, Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Mikið á þú gott að vera að fara í þessa ferð.Ég vona að þið bloggið úr ferðinni og að það verði mjög gaman.
Bestu kveðjur Jórunn
Jórunn Sigurbergsdóttir , 21.6.2006 kl. 23:43
Strax farin að hlakka mikið til að lesa ferðasöguna. Geri ekki ráð fyrir að sú saga verði mjög leiðinleg, af ferðafélögunum að dæma. Til haaaamingju!
Arndís (IP-tala skráð) 22.6.2006 kl. 09:54
Þú er hér með öfunduð.
Innheimtukveðjur :)
Þórir Hrafn Gunnarsson, 22.6.2006 kl. 13:20
ég hef aldrei verið heiðursmaður - ég get svo sem alveg fórnað mér í það...;)
KNÚS
Reisubok Barboru Ingu, 22.6.2006 kl. 15:17
Alveg eins og ég fórna mér sem ferðafélagi Barbara!
En takk fyrir allar hamingjuóskir. Og jú, það stendur til að láta vita eitthvað af ferðum okkar þegar færi gefst á :-)
Anna Pála Sverrisdóttir, 22.6.2006 kl. 19:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.