Færsluflokkur: Fjölmiðlar
17.7.2006 | 15:20
Hahaha
Mögnuð auglýsing fyrir snyrtivöruframleiðandann Biotherm í sunnudagsblaði Moggans. Guðni Einarsson, sem augljóslega fylgist vel með því nýjasta í snyrtivörum, var að benda mér á þetta. Um er að ræða heilsíðuauglýsingu undir fyrirsögninni SÝNDU MAGANN - ÞAÐ ER FRÁBÆRT.
"Prófaðu CELLULI-CHOC fyrir aðra hluta líkamans, en gelið vinnur gegn appelsínuhúð. Það gerir átakið að hreinni ánægju sem þú nýtur á hverjum morgni, fullkomlega árangurslaust. Sérlega ferskt, silkikennt gel með sítruskeimi: Það er hreinlega girnilegt að grenna sig!"
11.7.2006 | 01:49
Halló
Ég vil koma einu á framfæri sem mér finnst alveg afspyrnu hallærislegt. Var að vesenast inni á vísi.is um daginn og datt niður á að lesa grein eftir Völu Bjarna sem oft er með mjög góða punkta. Allavega. Vinstra megin á síðunni sést yfirlit yfir alla fasta penna Fréttablaðsins. Af þeim eru listaðir 25 karlar og 6 konur. Konur semsagt 19.4% fastra penna. Ég veit að margir þessara penna skrifa ekki fyrir blaðið lengur. En í "uppsöfnuðum skrifum," eins og uppsöfnuðu áhorfi speglast samt raunveruleiki. Veit einhver hver þessi hlutföll eru núna?
Nú veit ég mjög vel að fjölmiðlar landsins eru allir frekar hallærislegir í jafnréttismálum og minn er þar síst undanskilinn, hvað varðar t.d. kynjahlutföll á ritstjórn og í ekki síst í stjórnunarstöðum. Hef þó tröllatrú á að það lagist á næstu árum skv. nýlegri stefnubreytingu. Styrmi virðist full alvara með þetta, sbr: "Við eigum að hætta að leita að útskýringum og afsökunum og einfaldlega gera eitthvað í þessum málum." Ég er mjög ánægð með þessa afstöðu og bíð spennt.
Fréttablaðið virðist að mörgu leyti vera að koma til og í fljótu bragði myndi ég segja að þar standi jafnréttismálin best af fjölmiðlum landsins. Tvær konur af þremur fréttastjórum til dæmis. Spennandi að sjá hver verður látin/n fylla skarð Sigurjóns, er ekki Arndís Þorgeirsdóttir vel að því komin?
Að sjálfsögðu er svo ekki hægt að ráða konu sem aðalritstjóra á neinu þessara blaða.
27.6.2006 | 13:28
Flutningar og söknuður
Hér í Hvíta húsinu standa flutningar fyrir dyrum og sumir eru fluttir nú þegar. Stefnan er tekin út í móa -Hádegismóa. Austursalurinn svokallaði þar sem menningin, innblaðið, sunnudagsblaðið o.fl. er staðsett, er orðinn að eyðimörk þar sem bara viðskiptin eru eftir. Bílfarmar af skrifborðum að hverfa og kassar úti um allt. Á föstudaginn flyt ég og mæti til vinnu í móanum á mánudag.
Ég ætla að reyna að vera ekki of neikvæð þrátt fyrir að fjarlægðir aukist til muna hjá mér og þá staðreynd að engin Kringla (ergo ekkert Hagkaup, Kaffitár, önnur kaffihús, Stjörnutorg þegar mötuneytið heillar ekki) er nálægt. Nýja húsnæðið mun vera mjög skemmtilegt og miklu opnara en núverandi aðstaða. Kringluleysið getur hugsanlega leitt til að við verðum duglegri að borða saman.
Söknuðurinn sem nú ríkir í mínum heimi er ekki vegna flutninga, heldur einhvers sem skiptir margfalt meira máli. Í gær dó hann Þórir afi minn. Hann var orðinn veikur og þreyttur en það er jafn sárt og erfitt að kveðja hann fyrir það. Þar að auki eru pabbi, mamma og örverpið Sunna Mjöll á Krít þar til á mánudaginn og mörg fleiri börn og barnabörn afa eru erlendis. Við sem erum heima hittumst öll í gær og kvöddum afa. Ég velti því upp hvað afi væri að gera á himnum ef hann fengi að ráða og við vorum sammála um að hann væri trúlega að veiða, hnýta flugur eða tefla. Með allt heimsins neftóbak til umráða. Og glottir út í annað yfir umstanginu í kringum sig.
26.6.2006 | 11:08
Fyrir áhugafólk um háskólamál / framtíð Íslands
Ég vil vekja athygli á eftirfarandi. Viðtalið birtist á miðopnu Morgunblaðsins í dag. Hér erum við að tala um fólk sem hafnaði prófessorstöðum við Stanford. Miklar og góðar pælingar hjá þessu eldhressa pari.
Vísindamenn flýja hnignandi bandarískt rannsóknasamfélag
"Ættuð að horfa til Singapúr og byggja á hugvitinu"
Hjónin Nancy Jenkins og Neil Copeland eru meðal færustu vísindamanna heims á sviði lífvísinda. Þau hafa nú ákveðið að flytjast búferlum til Singapúr þar sem þau telja rannsóknum sínum betri framtíð búna en í Bandaríkjunum. Anna Pála Sverrisdóttir spurði af hverju.
16.6.2006 | 17:31
Björn Ingi Hrafnsson í búrku
Þjóðarhreyfingin með bjór ætlar að funda á Kringlukránni um það bil núna. Svo ég má ekki vera að þessu. Í hreyfingunni eru blaðamenn Morgunblaðsins. Sérstakur leynigestur mun stíga á stokk mjög fljótlega. Hann verður klæddur í búrku til að þekkjast ekki.
Ég segi að þetta verði Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs og fyrrum íþrótta- og þingfréttaritari Morgunblaðsins. Þetta er skrifað svo ég geti sagt "Ég sagði það."
16.6.2006 | 10:12
Sætasta stelpan
Ég er ekki frá því að Siggi Pálmi hafi bjargað deginum í gær með því að spyrja Geir á blaðamannafundi í utanríkisráðuneytinu, hvort Valgerður væri sætasta stelpan.
Þetta gerðist eftir að Geir hafði farið fram á að kyssa Valgerði í staðinn fyrir að taka í spaðann. Hann lét ekki annað í ljós en að hafa húmor fyrir þessu kommenti kallinn. Þess má geta að Geir er vel giftur. Get staðfest það eftir tveggja ára samstarf í Háskólaráði.
24.4.2006 | 16:13
Ljósvaki Mbl í dag: Tímasóun fyrir byrjendur
Það er hins vegar allt hægt með tölvum nú til dags. Tölvan er að sjálfsögðu nauðsynlegt atvinnutæki fyrir að ég held meirihluta fólks á vinnumarkaði og fjöldi stúdenta notast við fartölvu við námið.
Fyrsta skref. Maður kveikir á tölvunni og opnar það sem maður á að vera að fást við, svo sem glósur og greinar sem tengjast náminu. Annað skref. Opna msn spjallforritið, ef það gerist ekki sjálfkrafa. Muna að bæta inn öllum sem maður þekkir og mörgum í útlöndum til að geta spjallað allan sólarhringinn. Þriðja skref. Opna tölvupóstinn sinn, lesa alla brandara vel og eyða miklu púðri í að svara pósti sem þarf ekki að svara. Taka til í pósthólfinu í neyð ef ekkert annað er að gera. Eiga kannski tvö pósthólf.
Fjórða skref. Skoða vefsíður allra fjölmiðla á tíu mínútna fresti og lesa ómerkilegar fréttir vel. Fimmta skref. Lesa öll pólitísk vefrit og pistla Egils Helgasonar vel. Sjötta skref. Taka bloggrúntinn og skoða blogg allra vina og vandamanna tvisvar á dag. Skoða líka bloggsíður fólks sem maður þekkir ekki. Blogga sjálfur um allt og ekkert. Sjöunda skref. Fá sér iPod ef maður á ekki svoleiðis. Eyða löngum stundum í að hlaða niður lögum og skipuleggja prógrammið. Mjög mikilvægt að hafa rétta tónlist við höndina, annars getur maður alls ekki lært. Áttunda skref. Hlaða niður asnalegum bröndurum og kvikmyndabrotum, jafnvel heilu sjónvarpsþáttunum til að létta sér stífan lestur. Níunda skref. Missa sig í að plana eitthvað sem má vel gerast seinna, en verður allt í einu mjög mikilvægt að skipuleggja. Tíunda skref. Kíkja á glósurnar?
Svo getur verið gott að leggjast upp í sófa eftir erfiðan vinnudag og horfa á eins og eina eða tvær endursýningar af Sex and the City eða Boston Legal.
Anna Pála Sverrisdóttir
19.4.2006 | 16:54
Eigendur fjölmiðla þurfa stundum að grípa í taumana?
Rakst á netkönnun inni á talnakonnun.is í gær. Spurt er: "Mega eigendur skipta sér af fjölmiðlum?" Ég: "Bjánaspurning." Merki við "Nei slíkt væri ritskoðun" og hlæ að möguleikanum "Já, þeir verða að grípa í taumana ef þörf krefur."
Niðurstöður könnunarinnar: Nei=62,2% og J=37,8 eftir að ég hafði kosið. (Veit ekki hvað hún hefur verið í gangi lengi eða hvað margir kosið.)
Er ég forhertur fjölmiðlamaður sem skilur ekki annað en að sjálfstæði ritstjórna hljóti að verða að vera algert? Ég mundi til dæmis eftir þegar ritstjórum DV var skipt út skv ákvörðun stjórnar. Finnst fólki kannski að það flokkist undir að "grípa í taumana ef þörf krefur?"
Þetta kann að hvarfla að manni þegar spurningunni er svarað. En ef velja þarf á milli þessara tveggja möguleika bliknar þetta atriði einhvern veginn. Og samt kjósa hátt í fjörutíu prósent þann möguleika sem inniheldur ekki nei við ritskoðun. Hvernig ætli þeir kjósendur skilgreini "ef þörf krefur?"
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)