Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Hryðjuverk í kaffinu mínu

Bjarnið er kúkur dagsins á þessu bloggi. Ég hellti upp á kaffi áðan en
hann sá um að mala baunirnar. Svo kom á daginn að ég er að drekka piss
og er VERULEGA frústreruð. Bjarnið semsagt sá sér leik á borði og 
malaði helmingi minna af baunum en ég hefði gert.  Nú er hann
broskall og ég er skeifukall. Bjarninu finnst gott að drekka piss.
Viltu gjöra svo vel að hella upp á alvöru kaffi, núna.

Á leið í heimsreisu

hnottur.gif

Þá er það opinbert. Fyrir svona hálftíma síðan, finnst mér a.m.k., ákvað hún Barbara snillíngur að bjóða mér í heimsreisu. Kortéri seinna var ég búin að segja já, en ekki hvað. Síðan þá hef ég gengið um í Teletubbies stemmningu og hlakka alveg ofsalega til. Löngu kominn tími á mig. Ég klára svo skólann á vorönn. Sé þann möguleika í stöðunni að geta þá jafnvel setið á rassinum í meira en fimm mínútur í einu og einbeitt mér að námi. Það væri tilbreyting. 

Ferðaplanið er á teikniborðinu núna, eins og Ísland. Sem stendur er líklegast að við byrjum í Suður-Afríku eða jafnvel Bombay. Og þaðan út um allt. Fyrst verður flogið til London og þaðan eigum við fimmtán flugferðir sem nú er verið að púsla saman. Hún Anna nafna mín á Ferðaskrifstofu Íslands situr sveitt við að uppfylla óskir okkar, almættið veri með henni.

Einhvern tímann var Barbara maður dagsins á þessu bloggi. Ætli hún verði ekki gerð að heiðursmanni næstu mánaða núna. Ég efast ekki um að við verðum magnaðir ferðafélagar og munum rata í endalaus ævintýri. Sem er gott. Mjög gott. Það er ekki öllum gefið að vera traustsins verðir og um leið ávísun á endalaust stuð, en Barbara stendur undir þessu og gott betur. 

Þess má geta að af einhverjum ástæðum get ég ekki linkað á hana, en bloggið hennar Barböru ásamt sérlega fallegri lýsingu á mér (varð bara hlýtt í hjartanu) er að finna hér: www.barbara.blog.is  


Móður- og föðurleysinginn

Þakka öllum sem tóku þátt í gær og þið hin munið að þið eruð fasistar og feðraveldi. 

Annars er hún Helena móðir mín, ásamt Sverri föður mínum og örverpinu Sunnu Mjöll komin til Krítar í dag, með um þriggja daga fyrirvara. Ég er ekki viss um hvenær þau koma aftur. Kvöldið fyrir brottför uppgötvaði mamma annars vegar að passinn hennar gilti til 21. júlí 2005. Því mátti redda, tjáði mjög rólegur maður henni í símann, augljóslega vanur í áfallahjálpinni. 

Það sem verra er að í fyrrakvöld uppgötvaðist einnig að þau áttu bókað hótel í tvær vikur en flug til baka eftir viku. Sverrir sagði að hann kæmi sko ekki til baka eftir viku. Laxfoss kæmi þarna við í nóvember.

Spurning að við Bjarnið göngum Herkúlesi í foreldrastað þegar HM fóstran segir upp. 


Knnnnús

Mér líður eins og síma í hleðslu þegar ég er knúsuð.

Það er svo gott. Ég vildi að við værum duglegri við það hér á klakanum. Sjálf kenni ég uppeldinu um áhuga minn á knúsi. Heima hjá mér þykir mjög náttúrulegt að knúsast. En ég hef fengið misjöfn viðbrögð þegar ég reyni óforsvarendis að knúsa fólk og þá sérstaklega ef ég hef ekki þekkt viðkomandi lengi eða náið. Hafið bara í huga að hér er ekki um óeðli að ræða eða kynferðislegan áhuga.

Endilega knúsið mig sem oftast, þá líður mér betur. Þegar ég var ung og í framboði fyrir Röskvu í fyrsta sinn minnist ég þess að hafa planað stofnun Snertiþarfarfélagsins ásamt félögum mínum Grétari og Hrafni. Þar var ekki um óeðli að ræða. Ekki vitlaus hugmynd, maður hefur nú verið í ýmsum vafasömum félögum í gegnum tíðina. En það er efni í aðra færslu.


Takk fyrir allt, Amma Snillíngur

Þá erum við búin að leggja Ömmu Snillíng til hinstu hvílu. Ég var kistuberi með eldrauðan varalit ömmu til heiðurs. Flugum til Akureyrar í morgun og aftur heim í kvöld fyrir sama verð og Kaupmannahöfn. Nú er amma í Svarfaðardalnum sínum með afa. Allan tímann meðan jarðarförin var sá ég ekki annað fyrir en mér en ömmu að blikka mig með Eyjafjörðinn í baksýn, á leiðinni út í dal.

Ég skrifaði þessa minningargrein í miklum svefndrunga og var fljótari en ég er venjulega með skrif. Hún gæti líklega verið mun betur stíluð, en er nákvæmlega það sem ég hugsaði til ömmu og langaði að segja. Ég lærði svo margt af henni Önnu Jóns. 

------------------------ 

Elsku amma, aldrei datt mér í hug að ég myndi upplifa svona mikla gleði eftir að þú ert farin frá okkur. Andláti svo náins ástvinar á að fylgja sorg og söknuður, og gerir það vissulega. Það var svo sárt að heyra fréttirnar í svefnrofunum að nóttu til. En síðan þessa erfiðu nótt hefur sólin líka verið hátt í lofti í hjartanu yfir að hafa fengið að kynnast þér og elska.

Af því þú varst fallegasta sálin af öllum sem ég hef þekkt. Svo stór manneskja. Um leið og þú varst ekkert annað en mannleg varstu komin lengst allra á þroskabrautinni. Fullkomlega fordómalaus í annarra garð enda voru allir jafnir fyrir þér og hver og einn jafn mikilvægur. Þú áttir eitthvað að gefa hverjum sem þú hittir og uppskarst hlýju og gleði í kringum þig hvar sem þú varst. Það verður leiðarljósið mitt, alltaf.

"Sjá, það er amma, sólin sjálf," datt mér oft í hug við komuna í Sóltún á seinni árum. Amma kom til móts við mig með gamla sólskinsbrosið á vör. Svo setti hún kannski á sig eldrauðan varalit og við fengum okkur kaffi saman og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Hún kvaddi jafn ljúflega með því að fylgja mér alveg að útidyrunum, knúsaði mig og sleppti ekki.

En þú varst ekki bara falleg kona og falleg sál, amma. Þú varst miklu meira en það. Þú varst töffari. Það var alltaf stuð hjá þér. Á yngri árum þegar ég var oft hjá þér eftir kóræfingar, stilltirðu græjurnar í botn og söngst með. Frægt var hvernig þú klæddir þig að eigin lyst, í Levi's gallabuxur og leðurvesti en ekki hefðbundin gömlukonuföt og litaðir hárið eldrautt eða fjólublátt. Í mínum vinahópi gekkstu undir nafninu Amma Snillingur. Það gælunafn tók ég upp því það áttirðu innilega skilið. Fyndnu sögurnar eru endalausar. "Svo leikur hann þetta svo vel," er ódauðleg setning og notuð jafnt um leikara í Óskarsverðlaunamyndum og Bold and the Beautiful. Líklega tókstu viljann fyrir verkið þar eins og alltaf.

Amma, mig langar að segja þér svo margt um hvað þú varst mögnuð kona. Það er gott að þú gast sofnað í friði en erfitt að geta ekki kvatt. Eitt vil ég segja við þig að lokum: Þú varst snillingur og ég elskaði þig af öllu hjarta.

Anna Pála Sverrisdóttir 

-------------------------------------

E.s. Ég fæ ekki orða bundist. Það var strikamerki á kistunni þegar hún kom í kirkjuna í morgun og við vorum að æfa. Skil markmiðið en ekki leiðina. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband