Færsluflokkur: Bloggar
24.4.2006 | 16:13
Ljósvaki Mbl í dag: Tímasóun fyrir byrjendur
Það er hins vegar allt hægt með tölvum nú til dags. Tölvan er að sjálfsögðu nauðsynlegt atvinnutæki fyrir að ég held meirihluta fólks á vinnumarkaði og fjöldi stúdenta notast við fartölvu við námið.
Fyrsta skref. Maður kveikir á tölvunni og opnar það sem maður á að vera að fást við, svo sem glósur og greinar sem tengjast náminu. Annað skref. Opna msn spjallforritið, ef það gerist ekki sjálfkrafa. Muna að bæta inn öllum sem maður þekkir og mörgum í útlöndum til að geta spjallað allan sólarhringinn. Þriðja skref. Opna tölvupóstinn sinn, lesa alla brandara vel og eyða miklu púðri í að svara pósti sem þarf ekki að svara. Taka til í pósthólfinu í neyð ef ekkert annað er að gera. Eiga kannski tvö pósthólf.
Fjórða skref. Skoða vefsíður allra fjölmiðla á tíu mínútna fresti og lesa ómerkilegar fréttir vel. Fimmta skref. Lesa öll pólitísk vefrit og pistla Egils Helgasonar vel. Sjötta skref. Taka bloggrúntinn og skoða blogg allra vina og vandamanna tvisvar á dag. Skoða líka bloggsíður fólks sem maður þekkir ekki. Blogga sjálfur um allt og ekkert. Sjöunda skref. Fá sér iPod ef maður á ekki svoleiðis. Eyða löngum stundum í að hlaða niður lögum og skipuleggja prógrammið. Mjög mikilvægt að hafa rétta tónlist við höndina, annars getur maður alls ekki lært. Áttunda skref. Hlaða niður asnalegum bröndurum og kvikmyndabrotum, jafnvel heilu sjónvarpsþáttunum til að létta sér stífan lestur. Níunda skref. Missa sig í að plana eitthvað sem má vel gerast seinna, en verður allt í einu mjög mikilvægt að skipuleggja. Tíunda skref. Kíkja á glósurnar?
Svo getur verið gott að leggjast upp í sófa eftir erfiðan vinnudag og horfa á eins og eina eða tvær endursýningar af Sex and the City eða Boston Legal.
Anna Pála Sverrisdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.4.2006 | 03:33
Oft má lyf af eitri brugga
Ég fékk páskaegg nr SJÖ. Manni verður bara hugsað til svöngu barnanna í útlöndum. Með sammara. Orðið sammari í mínum orðaforða er stytting á tvennu: Sammari=samviskubit. Sammari=samfylkingarmaður. Ræðst af samhengi hvort er átt við hverju sinni, sbr "Ég er með sammara."
En um páskaeggið. Ég skelli skuldinni á hnattvæðinguna. Við hjónaleysin brugðum okkur í Krónuna laugardag fyrir páska, með páskaegg og fleira á innkaupalistanum. Einu Nóa-eggin sem til voru í bú ..ðinni voru númer sjö. Við nenntum ekki að labba í Bónhaus eða gera óhagkvæm kaup í Nóatúni svo við hreinlega NEYDDUMST til að fjárfesta í skrímslinu sem var bara til í fantasíum þegar ég var lítil. Ég ætlaði að segja frá þessum undrum og stórmerkjum yfir páskalambinu fyrr í kvöld en í ljós kom að litla skrímslið systir mín fékk LÍKA páskaegg nr. sjö. Svei. Ég hélt ég ætti skynsama foreldra.
Málshátturinn minn í ár var fínn, sbr fyrirsögn þessa gagnslausa pistils. Hef fengið hann áður. Ber eftirsóknarverðu hugarfari vitni.
E.s. Að gefnu tilefni vill Bjarnið koma því á framfæri að hann ljúgi almennt ekki að mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.4.2006 | 20:13
Hryðjuverkamaður, já það er ég
Ég var í klippingu hjá Grjóna hressa á Rauðhettu. Hann er á leiðinni til New York bráðum, í frí með kærustunni. Grjóni hlakkar reyndar ekki sérstaklega til og skilur ekki hvað er heillandi við "þetta pleis." En kærastan vill sigla og Grjóni veitir meðbyr. Ég hef nú trú á að hann muni skemmta sér vel, betra að leggja í hann með minni væntingar. Hefði líka dregið hann með.
Við vorum að velta fyrir okkur stressinu í kringum komu til landsins helga. Grjóni rifjaði upp sögu af vini sínum sem við komuna við NY fyrir tveimur árum var dregin til hliðar í þriðju gráðu upp úr þurru. En hann var náttúrulega í slitnum gallabuxum og leðurjakka. Gusgus ætluðu að halda tónleika í sömu borg en voru að sögn send öfug til baka, allt krúið. "Þú veist, Maggi legó með bleikt yfirvara og svona." Hættulegt.
Ég flaug inn í Boston vandræðalaust 2003, en það var líka af því ég stóðst naumlega freistinguna að glensa aðeins með eyðublöðin þar sem ég dundaði mér við að skrifa inn ævisöguna CIA til gagns og gamans. "Já, ég eða einhver tengdur mér er hryðjuverkamaður."
Af því ég mun að öllum líkindum fljúga vestur um haf í haust er ég að pæla í hvort ég fjárfesti ekki í arabaslæðu áður. Langar í þannig hvort sem er. En Grjóni ætlar hins vegar að vera öruggur, og að minnsta kosti ekki fara í gegnum tollinn "í svona bol með myndum af dýrum í kynlífsstellingum eða neitt þannig," sbr. hollninguna í dag.
Félagi Gunnar Birgisson kallaði mig talíbana um daginn. Spurning hvort það telur hjá CIA?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2006 | 21:56
Fyrsta Önnupálublogg
Sérlega góða kvöldið.
Þetta er í fyrsta skipti sem ég blogga, þrátt fyrir fjölda áskorana frá stuðningsmönnum mínum í gegnum árin.
Þótt ég eigi þennan fjölda vina og vandamanna sem nota eða hafa notað þetta tjáningarform hef ég ekki fundið þörfina. Trúlega er ég ekki sami extróvertinn og þið haldið, eða kannski er ég haldin of mikilli fullkomnunarþörf til að geta hent inn vanhugsuðum færslum. Ef það reynist rétt verður þetta að aumingjabloggi. Allavega.
Við helgaralkarnir sem sitjum á Lesstofu Lögbergs á þessum tíma sólarhrings erum farin að hugsa okkur til hreyfings. Einbeitingin ekki orðin upp á sitt besta og tímanum þá betur varið í góðra vina hópi, raunar sérlega góðra vina að þessu sinni. Til að hlífa þessum elskum við ágangi fjölmiðlanna gef ég ekki upp nöfnin að svo stöddu. Farin á Ölstofuna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)