Ekki fleiri álver

Frábær helgi. Takk fyrir mig. Brjáluð stemmning á þinginu í gær. Heitt stöff frá helginni er að finna hér og hér og hér. Andstaðan við fleiri álver að vekja athygli víða, auk annarra góðra mála.

Ég er sátt kona í dag. Sem þarf reyndar að sýna stífan aga í lestri í alþjóðalögum fram til kl 08.15 á föstudaginn. Þá er fyrsta munnlega lokaprófið mitt í lagadeild.

Myndir frá helginni eru hér fyrir neðan. Látum liggja milli hluta hvað var að gerast á þeirri efri. Fyrir neðan er svo systkinamynd. Elsk´ykkur. 

IMG_1138
IMG_1252

 

 

 

Hér kemur síðan ályktunin um umhverfismál, sem ég hélt kannski að væri full hörð og yrði milduð í meðförum umhverfis- og auðlindahóps. En hún varð bara miklu harðari þar.

2.1 Ungir jafnaðarmenn hafna frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi
Ungir jafnaðarmenn vilja að Íslendingar geri sér grein fyrir hvaða verðmætum þeir sitja á í íslenskri náttúru og hagi sér samkvæmt því. Öll skynsemisrök hníga að því að segja nú þegar, og til framtíðar, stopp við áframhaldandi uppbyggingu mengandi stóriðju. Ungir jafnaðarmenn hafna því frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Landsmenn ættu að auka fjölbreytni atvinnulífsins fremur en að setja öll sín egg í hina yfirfullu álkörfu.

Til lengri tíma telja Ungir jafnaðarmenn að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið með því að þróa atvinnulíf í betri sátt við umhverfið. Í því samhengi eru fulltrúar Samfylkingarinnar á Alþingi og í sveitarstjórnum hvattir til að fylgja staðfastlega eftir stefnu flokksins þar sem lögð er áhersla á að örva nýsköpun og bæta aðstæður fyrir hátækniiðnað og sprotafyrirtæki. Minnt er á að verndun lands er nýting og að óspillt náttúra er auðlind í sjálfri sér.

Íslendingar eiga ótæmandi möguleika á nýtingu þeirra miklu auðlinda sem felast jafnt í sérstæðri náttúru og endurnýjanlegum orkugjöfum. Sýna þarf ábyrgð í öllu ákvarðanatökuferli og gefa sér tíma í rannsóknarvinnu. Minnt er á að með fljótfærnislegri útgáfu rannsóknarleyfa korteri fyrir síðustu kosningar voru hendur núverandi ríkisstjórnar fyrirfram bundnar.

 

Í orku- og iðnaðarmálum fór ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks offari í afdrifaríkum ákvörðunum sem teknar voru á skjön við góða stjórnarhætti. Ungir jafnaðarmenn hvetja til þess að allar fyrirhugaðar álversframkvæmdir verði stöðvaðar. Þar sem undirbúningur er á einhvern veg kominn, og þá ekki síst fyrir tilstilli fyrri ríkisstjórnar, er vakin athygli á að enn er hægt að koma í veg fyrir slík mistök á sveitarstjórnarstiginu. Er þar sérstaklega átt við álver í Helguvík og á Bakka.

 

Þá ítreka ungir jafnaðarmenn að ofurvarlega þarf að fara þegar teknar eru ákvarðanir um virkjun jarðhitasvæða, ekki síður en vatnsafls. Mörg jarðhitasvæði eru jafnframt einstakar náttúruperlur sem ekki má spilla. Á komandi árum er líklegt að tækni við nýtingu jarðhita fleygi fram. Ef ekki er hægt að nýta jarðhitann undir verðmætum náttúrusvæðum, án þess að spilla þeim, er virkjun þeirra einfaldlega ekki tímabær. Ungir jafnaðarmenn fara því fram á það við stjórnvöld að þau feli næstu kynslóð þetta úrlausnarefni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Djöfull er þetta flott ályktun. Til hamingju!

Gunnar Örn (IP-tala skráð) 8.10.2007 kl. 22:15

2 Smámynd: Eva Kamilla Einarsdóttir

Svipurinn á Helgu er svo ógeðslega fyndin að ég hlæ alltaf þegar ég sé þessa mynd. En gangi þér vel með próflesturinn!

Eva Kamilla Einarsdóttir, 9.10.2007 kl. 11:41

3 identicon

Flott ályktun, það hefur vantað þessa skýru rödd Samfylkingarinnar í þessum málaflokki.  Til hamingju með formannstitilinn og gangi þér vel í prófinu

Sigrún (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 13:59

4 identicon

Amen! Til hamingju, og gangi þér vel í þessu nýja hlutverki.

Kristján Þór Sverrisson (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 16:25

5 Smámynd: Helga Tryggvadóttir

hahaha, ég er ekki enn að ná hvað fór í gegnum hausinn á mér á þessari stundu! en vá hvað ég er líka búin að hlæja að þessari mynd ....

Takk fyrir snilldarhelgi!!!

Helga Tryggvadóttir, 9.10.2007 kl. 18:10

6 identicon

Álver eru fyrir kellingar. Stálver eru málið.

Ömmi (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 22:28

7 identicon

Til hamingju Anna Pála með formannsembættið.  Flott ályktun með álverin. Við erum yfir það hafin hér á skerinu að láta segja okkur til verka í nafni þess að við höfum það ekki svo gott og þurfum þess vegna að virkja út í hið óendanlega. Til hvers? Erum við á barmi sults og gjaldþrots? Notum hugvitið og áttum okkur á því að við höfum það bara svo asskoti gott; velflest okkar alla vega. (Ó)jöfnuður hér á landi er svo efni í aðra lengri umræðu.  Þið eruð allar fyndnar á þessari mynd

Svavar Sigurður Guðfinnsson (IP-tala skráð) 11.10.2007 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband