Öll í bleiku í dag - "Atkvæði eigum við í hrönnum"

Í dag er 19. júní og við minnumst þess þegar konur fengu kosningarétt. Í tilefni dagsins ætlum við að sýna að við styðjum jafnrétti í verki og öll klæðast bleiku, bera eitthvað bleikt eða gera eitthvað bleikt. Hlakka mjög til að sjá hvaða útfærslu Moggafólk hefur kosið, eftir áminningu í tíma frá sjálfri mér á föstudaginn sem innihélt m.a. að þeir sem ekki tækju þátt væru fasistar og feðraveldi (og að þessi brandari væri í boði Baugs). 

Einhverjir hafa nefnt að notkun bleika litarins sé arfavitlaus og eingöngu til þess að negla niður staðalímyndir. Réttmæt athugasemd en að mínu viti er ástæðan á þessa leið: Femínismi snýst um frelsi kvenna, ekki bara réttinn til að verða nákvæmlega eins og karlar. Leiðin í átt til virðingar fyrir því sem kvenlegt er felst í að við berum jafnmikla virðingu fyrir því og karlamenningu. Þess vegna upphefjum við bleika litinn. 

Ég kann ekki að fagna deginum á þessu bloggi betur en með eftirfarandi, sem raunar var samið fyrir annan góðan dag. Það er rosalega gaman að kunna þennan texta við góð tækifæri. Sem minnir mig á að í nótt "kom á daginn" að Steindór kann textann við "Girls just wanna have fun" betur en ég.

ÁFRAM STELPUR!!!

Í augnsýn er nú frelsi,
þó fyrr það mætti vera
nú fylkja konur liði
og frelsismerki bera
stundin er runnin upp
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það

En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.

Seinna börnin segja
sko mömmu hún hreinsaði til
og seinna börnin segja
þetta er einmitt sú veröld sem ég vil
En þori ég, vil ég, get ég?
já ég þori, get og vil!
en þori ég, vil ég get ég?
já ég þori, get og vil!

Áfram stelpur standa á fætur
slítum allar gamlar rætur
þúsund ára kvennakúgunar.
Ef einstaklingurinn er virkur
verður fjöldinn okkar styrkur
og við gerum breytingar.
Atkvæði eigum við í hrönnum
komum pólitíkinni í lag
sköpum jafnrétti og bræðralag.

Áfram stelpur, hér er höndin
hnýtum saman vinaböndin
verum ekki deigar dansinn í.
Byggjum nýjan heim með höndum
hraustra kvenna í öllum löndum
látum enga linku vera í því.
Börnin eignast alla okkar reynslu,
sýnum með eigin einingu,
aflið í fjöldasamstöðu.

Stelpur horfið ögn til baka
á allt sem hefur konur þjakað
stelpur horfið bálreiðar um öxl.
Ef baráttu að baki áttu
berðu höfuð hátt og láttu
efann hverfa 'unnist hefur margt.
Þó er mörgu ekki svarað enn:
því ekki er jafnréttið mikið í raun,
hvenær verða allir menn taldir menn
með sömu störf og líka sömu laun?

Í augsýn er nú frelsi,
og fyrr það mátti vera,
ný fylkja konur liði
og frelsismerki bera.
Stundin er runnin upp.
Tökumst allar hönd í hönd
og höldum fast á málum
þó ýmsir vilji aftur á bak
en aðrir standa í stað,
tökum við aldrei undir það.

En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori, get og vil.
En þori ég vil ég get ég?
Já ég þori get og vil.


Einstök ályktunarhæfni og ekkert vesen

Þarf bara að láta vita að neðangreind ágiskun var rétt hjá mér. Enda urðu allir skipuleggjendur eins og kúkar þegar ég auglýsti þessa hugmynd yfir ritstjórnina. Björn Ingi var látinn bíða á Stjörnutorgi meðan fólk kom sér yfir á Kringlukrá og svo klæddur í búrkuna að viðstöddum gestum og gangandi. 

Spurning dagsins: Hvernig dettur manni í hug að vera fimm klukkutíma á Kringlukránni?  

Seinna um nóttina var nauðsynlegt að klæðast skóm drekans, A.K.A. búrkunni til að geta tekið rúnt á Ölstofunni, klipið karlmenn í rassinn og tekið skot undir blæjunni. Setningu næturinnar átti líklega Árni. "Hún talar ekki íslensku." Góð redding úr viðreynslu hjá einhverjum sem greinilega fílar að láta koma sér á óvart. 

Skemmtiatriði dagsins átti sér stað í portinu hjá Sirkus. Fólk í jakkafötum og drögtum með frosin bros, undir manni með gjallarhorn sem endurtók aftur og aftur og aftur og aftur: "Hjá okkur er allt í lagi. Ekkert vesen. Þannig viljum við hafa það. Allt í lagi. Ekkert vesen..." Eins og pabbi benti á í miðjum einhverjum orðaflaumi sjálfrar mín um Orkuveituauglýsinguna: "Þetta er ekki auglýsing, þetta er áróður."

Sýning dagsins er svo tvímælalaust kökusýningin hjá Ingunni og vinkonu sem buðu í tertur í gallerí Gyllinhæð á Laugaveginum. Farin að horfa á leikinn í félagsskap Górillufélags. Takk og góða nótt. Gleðilega þjóðhátíð.


Bloggfærslur 19. júní 2006

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband