Takk fyrir allt, Amma Snillíngur

Þá erum við búin að leggja Ömmu Snillíng til hinstu hvílu. Ég var kistuberi með eldrauðan varalit ömmu til heiðurs. Flugum til Akureyrar í morgun og aftur heim í kvöld fyrir sama verð og Kaupmannahöfn. Nú er amma í Svarfaðardalnum sínum með afa. Allan tímann meðan jarðarförin var sá ég ekki annað fyrir en mér en ömmu að blikka mig með Eyjafjörðinn í baksýn, á leiðinni út í dal.

Ég skrifaði þessa minningargrein í miklum svefndrunga og var fljótari en ég er venjulega með skrif. Hún gæti líklega verið mun betur stíluð, en er nákvæmlega það sem ég hugsaði til ömmu og langaði að segja. Ég lærði svo margt af henni Önnu Jóns. 

------------------------ 

Elsku amma, aldrei datt mér í hug að ég myndi upplifa svona mikla gleði eftir að þú ert farin frá okkur. Andláti svo náins ástvinar á að fylgja sorg og söknuður, og gerir það vissulega. Það var svo sárt að heyra fréttirnar í svefnrofunum að nóttu til. En síðan þessa erfiðu nótt hefur sólin líka verið hátt í lofti í hjartanu yfir að hafa fengið að kynnast þér og elska.

Af því þú varst fallegasta sálin af öllum sem ég hef þekkt. Svo stór manneskja. Um leið og þú varst ekkert annað en mannleg varstu komin lengst allra á þroskabrautinni. Fullkomlega fordómalaus í annarra garð enda voru allir jafnir fyrir þér og hver og einn jafn mikilvægur. Þú áttir eitthvað að gefa hverjum sem þú hittir og uppskarst hlýju og gleði í kringum þig hvar sem þú varst. Það verður leiðarljósið mitt, alltaf.

"Sjá, það er amma, sólin sjálf," datt mér oft í hug við komuna í Sóltún á seinni árum. Amma kom til móts við mig með gamla sólskinsbrosið á vör. Svo setti hún kannski á sig eldrauðan varalit og við fengum okkur kaffi saman og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Hún kvaddi jafn ljúflega með því að fylgja mér alveg að útidyrunum, knúsaði mig og sleppti ekki.

En þú varst ekki bara falleg kona og falleg sál, amma. Þú varst miklu meira en það. Þú varst töffari. Það var alltaf stuð hjá þér. Á yngri árum þegar ég var oft hjá þér eftir kóræfingar, stilltirðu græjurnar í botn og söngst með. Frægt var hvernig þú klæddir þig að eigin lyst, í Levi's gallabuxur og leðurvesti en ekki hefðbundin gömlukonuföt og litaðir hárið eldrautt eða fjólublátt. Í mínum vinahópi gekkstu undir nafninu Amma Snillingur. Það gælunafn tók ég upp því það áttirðu innilega skilið. Fyndnu sögurnar eru endalausar. "Svo leikur hann þetta svo vel," er ódauðleg setning og notuð jafnt um leikara í Óskarsverðlaunamyndum og Bold and the Beautiful. Líklega tókstu viljann fyrir verkið þar eins og alltaf.

Amma, mig langar að segja þér svo margt um hvað þú varst mögnuð kona. Það er gott að þú gast sofnað í friði en erfitt að geta ekki kvatt. Eitt vil ég segja við þig að lokum: Þú varst snillingur og ég elskaði þig af öllu hjarta.

Anna Pála Sverrisdóttir 

-------------------------------------

E.s. Ég fæ ekki orða bundist. Það var strikamerki á kistunni þegar hún kom í kirkjuna í morgun og við vorum að æfa. Skil markmiðið en ekki leiðina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snökt! Svo fallegt!

Sóley Tómasdóttir (IP-tala skráð) 18.4.2006 kl. 23:50

2 identicon

Sæl Anna Pála! Gaman að rekast á bloggið þitt - fá að fylgjast með broti af lífi þínu úr fjarlægð.

Ég samhryggist innilega. Skil mjög vel hvernig þér líður en ég missti íslensku ömmu mína fyrir 6 vikum síðan. Vona að þér batni í hjartanu sem fyrst, þótt söknuðurinn hverfi náttúrulega aldrei.

Þín Jana
http://ilyinskaya.blogspot.com

Jana (IP-tala skráð) 19.4.2006 kl. 16:43

3 Smámynd: Anna Pála Sverrisdóttir

Takk elskurnar. Minningin lifir. Og Jana, en óvænt ánægja :) Var búin að gleyma blogginu þínu. Hafðu það gott og hagaðu þér vel að vanda, en ekki of vel!

Anna Pála Sverrisdóttir, 19.4.2006 kl. 17:54

4 identicon

Æ! en fallegt. Ég sé hana ljóslifandi fyrir mér.

Eva (IP-tala skráð) 19.4.2006 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband