Lífið í bakpokanum

Batteríin komin í hleðslu á Balí. Vodafone býður mann velkominn til Indónesíu, en það er í fullri hreinskilni sagt verið að haga sér eins og sólartúristi. Á eyjunni sem varð fyrr þekkt fyrir forvitnilega menningu en fagrar strendur.

Eftir að hafa tekið endalaust við og orðið fyrir áhrifum er þetta fullkomna tilgangsleysi bara fínt. Svolítið erfitt samt. Í rauninni enn ein áskorunin að vera svona mikið að gera ekkert. En þetta eru bara fimm dagar. Ferðafélagið ákvað að splæsa í mun betri gistingu en venjulega en eyða í ekkert annað (og herja út afslátt af herbergisverðinu). Því er borðað meira en þýsku túristarnir í rosalega morgunmatnum.

Og maður situr og reynir að melta Kína og aðra áfangastaði. Gaman að bera saman þessi nágrannalönd sem við höfum verið að flakka um. Eftir Kínadvölina trúir maður sögunum um stórveldi tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Allt komið mun lengra en í Indlandi, a.m.k. svona almennt séð þótt enn sé langt í Japan. Þenslan gríðarleg í borgunum en hún er líka augljós í mörgum fleiri borgum Asíu, þ.á.m. í Indlandi. Að sitja á 54. hæð í fjórða hæsta turni heims í Sjanghæ, var eins og að spila Sim City tölvuleikinn. Maður bókstaflega horfði á nýja byggð spretta upp. Unnið allan sólarhringinn að virtist.

Mikill lúxus að þurfa ekki að pakka farangrinum í nokkra daga. Kínatúrinn til Xi´an og  Sjanghæ var unaður að því leyti að snillingarnir okkar í Peking geymdu bakpokana á meðan svo byrðarnar voru minni. Hildur og Fanney eiga miklar þakkir skildar fyrir að skapa heimili að heiman í nokkra daga svona inni í miðri ferð. Takk fyrir alla hlýjuna stelpur -og skemmtunina!

Annars ber maður heimili sitt á herðunum þessa mánuðina ( og eitthvað örlítið þar að auki, hmm). Heimilið tekur í og það er leiðinlegt að pakka því saman. Það veitir ferðamannahrægömmum hvatningu til að hjóla í mann með dollaramerki í augum. AB lögmenn láta samt ekki rugla í sér. Takk og bless vinur.

En það er svo gaman að flytja heimilið á næsta stað. Svo mikið frelsi. Ekkert á dagskrá nema vera, sjá, hlusta, skynja. Tala ef maður er heppinn. Reyna að komast nálægt því að lifa lífinu eins og fólkið sjálft á staðnum og skilja hvernig það hugsar. Þegar allt kemur til alls mun meira virði en öll rosalegu hofin og aðrir minnisvarðar. Þess vegna saknaði maður þess í Kína að ná aldrei að spjalla almennilega við lókalinn. Erfitt að nálgast fólk í fjöldanum og enskukunnáttan er ekki upp á marga fiska.

Það er hins vegar misskilningur að það sé alveg ómögulegt að ferðast um Kína eða önnur fjarlæg lönd af því enginn tali þar ensku eða allt sé svo framandi að einhverju öðru leyti. Framandi, jú, en það kemur ekki í veg fyrir upplifun. Þetta er bara land eins og hvert annað og það er bara þjóð sem býr þar eins og hver önnur. Hún er lengra í burtu en Evrópumenn og Kanar en það er gaman að kynnast henni. Stundum þarf að hugsa svolítið til að bjarga sér eða gera sig skiljanlegan en það er bara hluti af gríninu. Hvenær annars fær maður færi á að leika vekjaraklukku í búðinni? Þetta bjargast alltaf.

Í huganum hefur heimurinn minnkað og stækkað. Stækkað, af því möguleikarnir eru óendanlegir og hvert land er ólíkt því við hliðina þótt maður hafi átt til að samsama fjarlæg nágrannalönd hverju öðru. Minnkað, af því það er ekki svona langt að fara hinu megin á hnöttinn. Bara aðeins lengra flug, en skiptir litlu ef maður er kominn í vélina á annað borð. Og vitiði bara hvað, það býr venjulegt fólk þar. "Og hjörtum mannanna svipar saman/ í Súdan og Grímsnesinu."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku vinkona,

stefnir allt í að ég verði á landinu til 13. janúar! :) þá heimta ég síðbúinn afmælishitting, kaffihúsaferðir, heimsóknir og fleira trevligt!

 hlakka svoooo til... já og hafðu það gott áfram og góða skemmtun!

kram Sandra 

Sandra Ósk (IP-tala skráð) 17.11.2006 kl. 18:25

2 identicon

Balí Balí fallegasi staður í heimi.  Nú öfunda ég ykkur. Að leiga bungalo á ströndinni með stráþaki og hjóla út í sveit er það sem ég mæli með að þið Prófið. Þegar rigninginn kemur á nóttinni þá dempa stráinn hljóðin. 

Bestu kveðju Matthildur og René, fólkið sem þið hittuð í Bombay. 

Matthildur Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 21.11.2006 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband