Mér þykir alveg ofboðslega vænt um Morgunblaðið. Ástæðan er að ég vann þar meðfram skóla í fimm ár, allt þar til fyrir tæpu ári að ég fór að vinna á Persónuvernd. Síðan þá hef ég hitt gömlu félagana í nokkrum starfsmannapartýum og reynt að halda við tengslunum af því á Mogganum vann ég með svo mikið af frábæru fólki.
Ég var til dæmis sjanghæjuð á árshátíð Moggans í ár í bókstaflegri merkingu (með hálftíma fyrirvara til að fylla sæti sem losnaði óvænt - þau hringdu úr fyrirpartýinu) og skemmti mér konunglega. Var boðin hjartanlega velkomin í vinnu á fréttadeildinni í sumar ef ég vildi. En varð að hafna þessu kostaboði, ég verð áfram á Persónuvernd.
Líklega hugsa ég allt öðruvísi um Moggann en mörg flokkssystkini mín í Samfylkingunni. Þau lesa leiðaraskrifin og sjá rautt, eða öllu heldur blátt. Ég les blaðið sem allir blaðamennirnir skrifa og kíki svo á þennan plásslitla blaðhluta sem leiðaraskrifin eru, líka. Iðulega er ég eins og snúið roð í hundi við þann lestur. En það eru nú ekki nýjar fréttir að Anna Pála sé að spýta út úr sér morgunkaffinu um leið og hún les Staksteina. Það gerðist alveg jafn oft þegar ég vann á Mogganum.
Ég skrifaði fréttir og umgekkst hina blaðamennina, ljósmyndara og uppsetjara og svo fréttastjórana eða aðstoðarritstjórana við störfin. Styrmir var huggulegur kall úti í horni sem ég hafði minnst af að segja dagsdaglega og Agnesi mátti fíflast í í kaffistofunni þá sjaldan hún stóð kyrr í tvær sekúndur. Mér fannst vinnan mín frábærlega skemmtileg og leið vel.
Kaffið mitt á seinni árum fékk líklega oftast að frussast þegar Staksteinar voru að drulla yfir (nei, ekki gagnrýna) Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu. Reyndar hefur stundum verið mikið sport að taka Dag Bé fyrir á sama hátt. Solla fær hins vegar að heyra það sirka þriðja hvern dag, beint eða óbeint. Ég hef oftast bara klárið kaffið mitt og ekki spáð frekar í það. Þetta er nefnilega svo augljós staðfesting á því að Ingibjörg Sólrún sé helsti ógnvaldurinn við það sem leiðarahöfundar Moggans standa fyrir.
Sjálf var ég sérstakur vinur Staksteina um daginn og fékk mjög skemmtilegan dálk um mig; Rauða hanzkann. Allra bezta mál og ég var mjög ánægð. En ég er heldur ekki mikil ógn ennþá.
Og í dag er ég ofboðslega reið út í Staksteinahöfund. Núna misnotar hann það sem ég sjálf var að gera, til að klekkja á Ingibjörgu Sólrúnu eina ferðina enn. Þetta var nú óþarfi! Staksteinar dagsins fjalla um Jóhönnu sem fékk Félagshyggjuverðlaun UJ fyrir þrjátíu ára þingmannsferil þar sem hún hefur aldrei gefið eftir í jafnaðarhugsjóninni. Staksteinahöfundur reynir síðan að taka Jóhönnu út fyrir ríkisstjórnina sem hún starfar í til að gera Sollu ótrúverðuga.
En eins og Jóhanna benti sjálf á við afhendinguna: Hún getur lyft grettistaki í félagsmálaráðuneytinu af því hún starfar í flokki sem leggur áherslu á jöfnuð og velferð og beitir sér þannig í ríkisstjórn. Af því flokksformaðurinn, þingflokkurinn og meðráðherrarnir standa þétt á bak við hana. Af því hún var valin til að sitja í fjárreiðuhópi ríkisstjórnarinnar ásamt Sollu, Geir og Árna Matt. Af því að í þetta skiptið er henni treyst til að framkvæma þann galdur sem hún er fær um.
Solla hefur verið mér mikil fyrirmynd frá því ég var krakki, ásamt öðrum sterkum konum á borð við Jóhönnu. Þetta átti jafnmikið við þegar ég var yngri og vann með VG um tíma og þegar ég vann á Mogganum. Það er eitur í mínum beinum þegar fólk reynir að draga hana í svaðið. Þess vegna dagaði mig uppi í áramótapartýi forðum daga: Félagarnir gáfust upp á mér og fóru. Ég var að verja ákvörðunina hennar að fara í þingframboð þótt ég sjálf væri í VG þá. Ég er ekki endilega sammála henni um nálgun í hverju einasta máli (skárra væri það nú) en ég treysti hennar pólitík og miða það við arfleifðina þegar hún hefur fengið tækifæri til áhrifa, frekar en út frá því hvað hún segir eða ekki. Af því það er auðvelt að tala, annað að framkvæma og hún hefur sýnt að hún kann bæði.
Ég hafna því alfarið að vera dregin inn í ófrægingarherferð Staksteina gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er gott og gaman að það séu góð partý á Mogganum og kannski miður að Styrmir hafi ekki getað mætt.
Mér er spurn hvað breyttist með því að Samfylkingin leysti Framsókn af hólmi - Samfylkingin með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í broddi fylkingar virðist vera staðráðin í að halda áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum þrátt fyrir álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.
Sigurjón Þórðarson, 4.5.2008 kl. 00:27
Mogginn er vinstri blað. Allavega hefur hann ekki verið blað sjálfstæðisflokksins eða þeirra stefnu lengi.
Þegar könnun var gerð meðal blaðamanna þá kom í ljós að nær allir blaðamenn morgunblaðsins flokkast undir vinstrimenn.
Fannar frá Rifi, 4.5.2008 kl. 11:51
Ég mundi segja að blaðamenn Morgunblaðsins væru skynsamir!
Þeir gleypa ekki við öllu því sem veltur út úr Davíð Oddsyni og Hannesi Hólmsteini, vinum ritstjórans, og bera það á borð landsmanna án allrar gagnrýni.
Ásgeir (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 13:44
Kíktu til mín, Anna Pála... kannski viltu leggja málefninu lið með því að skrifa um það, linka á mig, senda slóðina á póstlistann... Athugaðu málið...
Lára Hanna Einarsdóttir, 4.5.2008 kl. 14:04
Hún Ingibjörg hefur nú sjálf verið duglegust við að draga sjálfa sig í svaðið. Má ekki gagnrýna hana?
Manneskja sem skrifaði miklar ræður gegn virkjunum áður en hún komst til valda, en skrifaði svo upp á lán Landsvirkjunar fyrir Kárahnjúka án þess að hika, sem borgarstjóri var hún ein í oddastöðu til að koma því máli í uppnám. En hún fékk jú Skoda að "láni" frá Heklu sem seldi túrbínurnar í virkjunina svo þetta er allt í lagi...
Talandi um lán, gerir þú þér grein fyrir því hversu miklir peningar voru teknir að láni hjá R-listanum sáluga undir stjórn ISG? 40 miljarðar voru "faldir" með því að yfirfæra þá á orkuveituna, en auk þess er opinbera talan að mér minni um 90 miljarðar! 90 + 40 gera 130 miljarðar! Í hvað fóru allir miljarðarnir? Skuldir borgarinnar námu einum milljarði áður en hún tók við.
Gamli herstöðvarandstæðingurinn Ingibjörg, hvað er hún að gera í dag? ÞAð er alveg merkilegt hvað NATO og stríðsrekstur er orðinn mikilvægur hjá henni(eftir að hún komst til valda), er það ekki??
Nú í dag þegar Íslendingar(ný kynslóð) eru að fatta hvaða áhrif gengislækkun hefur vegna mikilla lána þá er við hæfi að minna á loforðaferil ISG. Hún lofaði m.a. að tvöfalda framlög til heilbrigðismála ef hún fengi að verða forsætisráðherra, en það er næstum helmingur allra útgjalda ríkisins. Gerir þú þér grein fyrir hversu mikið fífl viðkomandi þarf að vera til þess að láta út úr trantinum svoleiðis vitleysu?? Bara það eitt loforð var uppá tæpa 150 miljarða (miðað við rúmlega 300 miljarða veltu ríkisins á ári)á ári á sinum tíma, sem hefði þurft að taka í erlendum lánum..... Hvernig væri staða efnahagsins í dag ef það hefði verið reynt?
Fagra Ísland......
Hvernig var þetta með ræðurnar hennar um Bláu Höndina og VALDAGRÆÐGI?
Opnið augun!
Símon (IP-tala skráð) 4.5.2008 kl. 15:11
Heyr, heyr ...
Flottur pistill Anna Pála.
Gísli Hjálmar , 5.5.2008 kl. 11:31
1. Símon er flottur gaur með staðreyndirnar á hreinu.
2. Þú hefur nú eitthvað mikið breytt lifnaðarháttum þínum ef þú hefur tíma til að fá þér morgunkaffi og glugga í moggann. Ég myndi frekar giska á að þú hefðir aldrei á ævinni lesið moggann fyrir hádegi.
Sindri (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 18:10
Vá Anna Pála, ég veit ekki hvað ég á að halda um þetta lið sem heldur að það sé gjöf þeirra til heimsins að eipshitta út um kommentakerfi sem víðast á Moggablogginu, þar með talið þínu!
Gangi þér annars vel í prófunum (ég klára í dag). Í sumar verður þú svo dregin með í fjallgöngur með mér og Söndru, gegn vilja þínum ef það kemur til þess.
Hákon Skjenstad (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 16:05
Hákon fær að eiga síðasta orðið hér og ég hlakka óendanlega til að vera dregin í fjallgöngur í sumar!
Anna Pála Sverrisdóttir, 8.5.2008 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.