29.2.2008 | 01:17
Ástin sigrar allt og Ég er jafnaðarmaður á laugardaginn
Ég ætti að vera löngu farin að sofa. Langir dagar framundan á morgun og hinn. Annað kvöld er sérstakt tilhlökkunarefni að enda á að fara í bíó með Fimmtudagsklúbbnum (sem raunar er farinn að hittast á þriðjudögum en heldur nafni sínu hvað mig varðar). Við ætlum á Into the Wild hans Sean Penn. Nokkrar væntingar í gangi af því ég hreifst svo af the Pledge sem hann gerði líka og ég datt á af rælni í Austurbæjarbíói með Hákoni vini fyrir einhverjum árum. Sandra Ósk, einn klúbbmeðlima, verður fjarri góðu gamni því hún ætlar raunverulega Into the Wild á Fimmvörðuhálsi yfir helgina. Það þýðir að hún fer í gegnum æskuslóðirnar mínar - einar þeirra - í Skógum. Sniff.
Allavega. Þessi færsla átti að vera um söknuð minn og fleiri eftir þýddum titlum á kvikmyndum. Þetta atriði þarf ekki að útskýra nánar. En ég ætla að gera tilraun til að birta hér nokkrar þýðingar á þessum titli, Into the Wild. Minn eini metnaður er að þær séu slæmar:
1. Á vit hinna óblíðu afla
2. Inní villimennskuna
3. Náttúran kallar
4. Villta tryllta náttúran
5. Ástin sigrar allt
Fleiri uppástungur velkomnar.
---
Annars er allt í fullum gangi við undirbúning fyrir stóra málefnaþingið okkar í UJ á Grand Hótel á laugardaginn. Þema þingsins er einfaldlega Ég er jafnaðarmaður en við eyðum líka góðu púðri í að ræða tvö samtímamálefni í ljósi jafnaðarstefnunnar: Málefni innflytjenda og Evrópumál. Sjá nánar hérna.
Síðan fréttin birtist hefur skráningum haldið áfram að rigna inn svo maður fer bara að hafa áhyggjur af plássinu. En það er gott mál. Og ég veit að það mun fara vel um okkur á Grand Hótel. Ég hlakka mjög til á laugardaginn.
---
Annars áttu alþjóðalög hug minn allan, a.m.k. á tímabili í síðustu viku þegar við vorum að æfa fyrir undankeppni í Jessup málflutningskeppninni hérna innanlands. Kepptum við lið lagadeilda HR og HA síðasta laugardag. Og viti menn, unnum. Ég er því á leið til Washington ásamt fimm karlmönnum í rúma viku í apríl til að taka þátt í aðalkeppninni. Málið fjallar m.a. um hryðjuverk, pyntingar, óréttlátan herdómstól, fullveldi ríkja, friðhelgi þjóðhöfðingja fyrir saksókn og fleira spennandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:30 | Facebook
Athugasemdir
Into the Wild er klárlega besta mynd síðasta árs.... hún er þó ekki allra, svo þú ættir að stilla væntingarnar í hóf!
Agnar Freyr Helgason, 29.2.2008 kl. 11:45
Villta tryllta náttúran en klárlega langbesta þýðingin!! Haha, villta tryllta náttúruan blívar!
Evil monkey, 29.2.2008 kl. 13:39
Hey jeij, færsla!
Inní hið villta er ein tillaga en er samt sammála um að villta tryllta náttúran sé nokkuð gott.
Enníveis, góða helgi!
tótalí (IP-tala skráð) 29.2.2008 kl. 15:32
Til lukku með keppnina, var ráðstefnan núna eða á næsta laugardag?
Sindri Viðarsson (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 14:32
ah - ráðstefnan var síðasta laugardag, Sindri. Gott ef ég var ekki að reyna að fræða þig eitthvað um hana á föstudagskvöldið. Kíkir á okkur næst.
Anna Pála Sverrisdóttir, 3.3.2008 kl. 21:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.