7.4.2006 | 00:31
Bjarts heilkennið
"Eruð þið að gera grín í okkur," datt mér fyrst í hug þegar ég heyrði um hina rausnarlegu bókagjöf Vinarins í vestri. Og mér finnst það ennþá. Lesið lengra, það er tvist í frásögninni. Óháð vorum persónulegu skoðunum á sambandi okkar við Bandaríkjamenn, sem -já ég viðurkenni það- geta hugsanlega litað þessa færslu veit ég hvað ég hefði gert. Ég hefði sagt "Lesiði bara sjálf ykkar bækur, við erum fullfær um að kaupa okkar eigin. Þurfti 26 manna sendinefnd til að ákveða þetta?" Og afþakkað þessa lítilsvirðingu pent. Þó er ég sammála Baldri Þórhallssyni um að bækurnar eru tvímælalaust betri en þotur í Keflavík og mikill fengur að þeim.
Þetta hefði Bjartur í Sumarhúsum ekki látið viðgangast, en við hann er þessi færsla kennd. Bjartur er uppáhalds sögupersónan mín og Sjálfstætt fólk líklega í næstmestu uppáhaldi af bókmenntum þótt erfitt sé að gera upp á milli hennar og Heimsljóss. Og fjölmargra annarra en það er lengri saga. Sjálf hef ég notað attitjúd Bjarts við mikilvæg tækifæri, sbr. "Nei takk ég get borgað minn bjór sjálf." Þetta á að sjálfsögðu bara við um ókunnuga viðreynslumenn. Vinir og vandamenn mega dæla í mig bjór að lyst.
Nú. Hér kemur hins vegar að tvisti sem hvorki ég vissi um né þeir sem ég hef spjallað við að undanförnu. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum frá Bjarninu sem ég bý með, hefur þessi gjöf staðið til hjá sendiráði BNA frá því í haust. Bjarnið er Sjálfstæðisfólk í þeirri merkingu sem ég er ekki en ég kýs samt að trúa honum í þetta skiptið. Eftir stendur þó spurningin um hvort sendiráð Bandaríkjanna þurfi að ráða nýjan almannatengslafulltrúa.
Guðdómlega slæm tímasetning. Íslenska þjóðin stendur á öndinni yfir hvað komi næst frá Bandaríkjamönnum (á mismunandi forsendum auðvitað) og sendiherrann dregur ekki kanínu upp úr hattinum, heldur bréfaklemmu. Hvaða heilkenni er það?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:54 | Facebook
Athugasemdir
og eru þetta ekki bara bækur skrifaðar frá sjónarhorni BNA? Maður spyr sig...
Laufey (IP-tala skráð) 7.4.2006 kl. 14:18
Já þú meinar svona Christian Fundamentalism for Dummies ? Athyglisverð pæling. Samt spurning að vera ekki of augljós. En já það væri fróðlegt að sjá fræðilega úttekt á því hvernig safnið er samansett.
Anna Pála (IP-tala skráð) 10.4.2006 kl. 01:48
Hressandi lesning eins og þín var von og vísa. Skelli á þig tengli svo ég muni að kíkja á þig öðru hvoru;)
Hrund
Hrund (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 21:05
Fræðimenn við Háskóla Íslands velja bækurnar til að þær nýtist sem best við kennslu og rannsóknir við háskólann.
Bjarni (IP-tala skráð) 11.4.2006 kl. 22:38
Það segir líka ýmislegt að þegar að sendiráðið setti sig í samband við Háskólann þá áttu fræðimennirnir í fyrstu nokkuð erfitt með að fylla upp í kvótann. Það lá við að hér væri ekki nægileg þekking til að velja bækurnar. GP
Gunni Palli (IP-tala skráð) 14.4.2006 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.