2.9.2006 | 16:51
Kjaftavaðallinn
Af hverju viljum við almannatryggingakerfi?
2.9.2006
Hvort sem við kennum okkur við vinstri eða hægri í íslenskum stjórnmálum, held ég að flest okkar myndu segja að við viljum ekki að fólk líði skort. Annað mál er ef til vill hvaða meining er þar á bak við en hér verður engum gert upp annað en að tala af heilindum.
Göngum út frá að við séum sammála um að við eigum að tryggja öllum að minnsta kosti lágmarksframfærslu sem þarf til að lifa af. Þá þurfum við að ákveða: 1. Hvernig viljum við að hún sé tryggð? og 2. Eigum við að gera betur en það? Það eru einkum tvö svör við fyrri spurningunni. Almannatryggingar eða framlög einstaklinga. Hverjir eru kostir og ókostir hvors fyrirkomulags um sig, er spurning sem við þurfum að svara þegar við ákveðum hvort er betra að reiða sig á.
Hér er ekki pláss fyrir djúpan rökstuðning en mitt svar er skilvirkt almannatryggingakerfi. Þar með vil ég þó síst gera lítið úr framlögum einstaklinga eða fyrirtækja, í efnislegu formi eða sjálfboðastarfi. Þau skipta gríðarmiklu máli um að bæta hið opinbera upp og geta gert meira en við getum krafist af ríki eða sveitarfélögum. En við tryggjum grundvöllinn með almannatryggingakerfi.
Helstu kostir þess eru t.d. að það er leið til að tryggja að enginn verði útundan. Og þá meina ég enginn, því við erum öll jafn mikilvæg. Annar kostur er að það er að mínu mati líklegri leið til að fyrirbyggja stéttskiptingu eins og við getum. Við eigum að sýna í verki þá grundvallarafstöðu að öll eigum við rétt á afkomu þegar við af einhverjum ástæðum erum ekki í aðstöðu til að afla hennar sjálf; að við berum skilyrðislausa ábyrgð hvert á öðru og búum okkur þess vegna til þetta sameiginlega kerfi.
Helsti ókostur almannatryggingakerfis er möguleikinn á misnotkun. Ókostur sem við megum ekki horfa framhjá heldur verðum að tækla. Það sýður á mér við tilhugsunina um misnotkun á skattfénu mínu og annarra, rétt eins og það sýður á mér við að hugsa um að fólk geti yppt öxlum yfir annarra neyð. Til að fyrirbyggja misnotkun verðum við að rækta meðvitund um að slíkt stríði gegn almennu siðferði. Við verðum líka að halda úti skilvirku eftirlitskerfi og þurfum skýrar reglur um fé sem er útdeilt, alveg eins og heilbrigt atvinnulíf þarf öflugt eftirlitskerfi og skýrar leikreglur til að virka sem skyldi. Eftir sem áður er möguleikinn á misnotkun ekki ástæða til að halda ekki uppi almannatryggingakerfi.
Eins og áður segir, þurfum við að ákveða hversu langt við viljum að ábyrgð okkar á öðrum nái. Mitt svar við því er að við berum ábyrgð á að tryggja hverju öðru að geta lifað með reisn. Fullkomlega jöfn skipting auðsins er ekki æskileg og heldur ekki markmið í sjálfu sér. Mér finnst miklu minna máli skipta hvort einhverjir eru með ofurlaun heldur en að allir hafi mannsæmandi laun. Í mannsæmandi launum felst ekki bara að eiga fyrir grunnþörfum eins og húsaskjóli og fæði, heldur líka að fátækt setji félagslegri þátttöku eða möguleikanum á að bæta líf sitt, ekki algjörar skorður.
Í dag hafa ekki allir á Íslandi mannsæmandi laun.
Grein eftir mig á Múrnum í dag.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.