7.3.2007 | 18:19
Auðlindaákvæðið: Tímafrek og tilgangslaus yfirbreiðsla
Afsakið hlé. Nú vil ég ekki gefa mig út fyrir að kokgleypa endilega allt sem kennt er við lagadeild Íslands. En ég semsagt vil lýsa yfir samstöðu minni með þeim háu herrum lagadeildar sem nú reyna að koma landanum í skilning um að fyrirhugað fiskveiðiauðlindaákvæði í stjórnarskrá sé popúlismi af verstu gerð.
Þetta ákvæði hefði enga þýðingu. Það yrði aldrei hægt að beita því.
Þetta vita lögfræðingar sem hugsanlega er ástæðan fyrir að ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn stjórnmálamann sem líka er lögfræðingur, tjá sig um málið. Nema Sigga Kára sem leyfir sér að vera með efasemdir.
En efasemdaraddirnar fá að drukkna í innblásnum orðaflaumi allra þeirra sem ætla að láta kjósa sig í vor. Það gildir ekki síður um stjórnarandstöðuna en Framsókn sem ætlar að fleyta sér áfram á þessu og Sjálfstæðisflokk sem þorir ekki að vera vondi kallinn. Geir tekur samt fram að þetta hafi ekki áhrif á kvótakerfið. Ég held að stjórnarflokkarnir ættu að hugsa sinn gang og hætta þessum tilraunum til að breiða yfir að þeim hafi tekist illa upp við að innleiða kvótakerfi. Nær væri að beina kröftunum að því að skoða hvað má laga þar ef fólk hefur á annað borð áhuga á málinu.
Fyrir þá sem vilja kynna sér af hverju þetta ákvæði væri einskis vert, bendi ég á pistil Skúla Magnússonar í Fréttablaðinu í dag. Ég er ekki endilega sammála því alla leið sem hann segir um að "skreyta stjórnarskrár með ýmsum lagalega merkingarlausum stefnuyfirlýsingum." Hins vegar hittir hann naglann á höfuðið hér: "Það keyrir um þverbak þegar setja á í stjórnarskrá ákvæði sem enginn veit hvað þýðir!"
--
Stjórnmálamönnum bendi ég svo á að ýmis mál bíða afgreiðslu og þurfa athygli. Má nefna frumvarp til breytinga á kynferðisbrotakafla hegningarlaganna og nýja jafnréttismálafrumvarpið. Ef færi gefst á væri jafnvel hægt að ræða kjör aldraðra. Nei ég segi nú bara svona.
Eyjamenn lýsa efasemdum um auðlindaákvæði í stjórnarskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvað er óskiljanlegt við, að fiskveiðiauðlindin eigi að vera sameign landsmanna? Eða ertu hlynnt því að fiskurinn í sjónum verði lögvernduð eign fáeinna útgerðarmanna? Ég held að það sé nokkuð ljóst, að það sé nauðsynlegt öryggisatrið, að auðlidir hafsins séu stjórnarskrárvarin eign þjóðarinnar, fólksins í landinu.
Jóhannes Ragnarsson, 7.3.2007 kl. 18:57
Ég er alfarið á móti því að fáeinir útgerðarmenn njóti einir góðs af fisknum í sjónum. En að hann verði lögvernduð eign þeirra er eitthvað sem gengur ekki upp. Það getur enginn átt fiskinn sem syndir þar sem honum sýnist, ekki frekar en norðurljósin.
Fiskveiðiauðlindin er sameign landsmanna nú þegar og það er kjarninn í þessu máli öllu.
Þeir sem setja lög í landinu og fara með framkvæmdavald, sjá um að ráðstafa auðlindinni eins og öðru sem er á forræði hins fullvalda íslenska ríkis. Það er svo annað mál hvernig hefur tekist upp við þá ráðstöfun.
Anna Pála Sverrisdóttir, 7.3.2007 kl. 19:49
Fólki er augljóslega heitt í hamsi og ég skil það vel. Reiði yfir kvótakerfinu er vel skiljanleg. Ég held bara að þetta sé ekki leiðin til að bæta fyrir það.
Auðlindaákvæði skilar okkur engu ef allir, s.s. forsætisráðherra eru sammála um að það þýði ekkert í raun og megi þess vegna detta þarna inn.
Anna Pála Sverrisdóttir, 7.3.2007 kl. 19:54
Ég er alls ekki að segjast vera hlynnt kvótakerfinu. Bara benda á að mér finnst ódýrt sloppið hjá stjórnmálamönnum að reyna að friða óánægjuraddir með marklausu stjórnarskrárákvæði.
Það sem ég var að segja þarna seinast er að það er ennþá napurlegra að ákvæðið fari inn, bara af því forsætisráðherra telur að það breyti engu og skipti þess vegna ekki máli hvort það fer inn. Allir er kannski sterkt orðað hjá mér, en hefur einhver sagt það beinlínis að þetta ákvæði muni hafa þýðingu í reynd?
Anna Pála Sverrisdóttir, 7.3.2007 kl. 20:08
Já, tek undir með Hönnu Birnu, þetta er enn eitt lögfræðibullið - þið lögfræðingarnir ættuð að halda ykkur fjarri deilumálum um stjórnarskrána!
Gunni Palli (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 21:10
Og svona fyrst ég er að þessu þá sé ég svona tuttugu tilvísanir í klámmenninguna í þessari færslu, "kokgleypa"-"háu herrum"-"beita því"-"drukkna"-"flaumi"-"breiða yfir" (tilvísun í þekkt stef í barnaklámi) o.s.frv.
....svona er það með ykkur flokksbundnu sjálfstæðismennina, þið verjið kvótakerfið með kjafti og klóm og reynið svo að verja klám þess á milli
Gunni Palli (IP-tala skráð) 7.3.2007 kl. 21:18
Kvótinn er þegar veðsettur fyrir yfir 300 miljarða svo það er engin furða þó smá titringur sé innan raða íhaldsmanna.Hvort þetta auðlindaákvæði breiti einhverju í raun er erfitt að meta. Kanski má hugsa sér sem svo að þetta geti í framtíðinni gert útgerðarmönnum erfiðrara að selja kvótann til erlendra aðila(ef það verður einhverntíman leift)Persónulega er ég ekki í nokrum vafa um það að menn munu finna ráð til að fara í kringum þetta.
Georg Eiður Arnarson, 7.3.2007 kl. 21:33
"Ég held að stjórnarflokkarnir ættu að hugsa sinn gang og hætta þessum tilraunum til að breiða yfir að þeim hafi tekist illa upp við að innleiða kvótakerfi." Ekki hefurðu staðreyndirnar
á hreinu. Kvóta kerfið er mikið eldra en svo að þrjá eða fjórar síðustu stjórnir hafi
mikið haft að segja um útfærsluna. En þetta er alveg dæmigert fyrir vinstri hugsun að
setja svona fram.
Leifur Þorsteinsson, 8.3.2007 kl. 09:28
Þetta er góð ábending Leifur. Takk fyrir það. Kvótakerfið var auðvitað ekki fyrst innleitt í tíð núverandi ríkisstjórnar sem hefur stjórnað í tólf ár. Meira að segja var vinstristjórn einhvern tímann um það leyti þegar kvótakerfið var í undirbúningi. Verð að játa að ég þekki ekki hennar þátt nógu vel.
Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar valið að standa og falla með þessu kerfi. Og var ekki Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra þegar það varð til?
Anna Pála Sverrisdóttir, 8.3.2007 kl. 18:22
Gæti nú ekki verið meira sammála upprunalegum pistli. Ætla að segja minnst um umræðuna sem fór fram eftir það, en pistillinn er góður.
Jón Trausti Sigurðarson, 12.3.2007 kl. 17:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.