5.5.2006 | 06:55
Neikvæður áróður
Hahaha. Hverju er Svandís nú að hóta? Bíð spennt eftir hvað gerist þegar hún byrjar að tosa. Ég veit a.m.k. að hún vill síður fá ríkisstjórnina inn í ráðhúsið.
Neikvæður áróður er auðvitað áhættusamur. En það er ágætis þumalputtaregla að hann getur virkað svo lengi sem áheyrandinn fær ekki samúð með þeim sem áróðurinn beinist gegn. Ég held það þurfi talsvert til að vekja verndartilfinningar með fólki þegar bent er á vinnu Sjálfstæðisflokksins í öldrunarmálum í ríkisstjórn og í leikskólamálum á undan R-listanum, svo eitthvað sé nefnt.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nógu sterka stöðu í landsmálunum til að hægt sé að pota í hann. Hins vegar má ekki missa sig eins og þegar Dagur spurði í Kastljósinu hvort við ættum ekki bara að senda konurnar heim aftur. Það er svona pirringskomment frá manni í sófa til sjónvarps, en á síður heima í útsendingunni.
Ég skildi samt meininguna vel. "Árangur í leikskólamálum náðist þrátt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, ekki vegna hans," segir ISG. En Reykjavíkurlistaflokkarnir eru svo uppteknir við að skapa sér sérstöðu að enginn vill hirða um arfleifðina. Á meðan siglir Vilhjálmur sléttan sjó með alþýðlega pulsu í hendinni sem spunalæknar Sjallanna plöntuðu þar. Snjall kall og viðkunnanlegur.
Auðvitað hlýtur samt árangursríkasta kosningabaráttan alltaf að felast í að sýna fram á hvað maður sjálfur hefur fram að færa. Í þessu tilfelli að gæran tollir á árið um kring, svo ég fari lengra með líkinguna hennar Svandísar. En hitt getur virkað meðfram. Þess þá heldur í sveitarstjórnarkosningum þar sem er erfiðara að marka sér sérstöðu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:27 | Facebook
Athugasemdir
Stjórnmál eru bara eitt ógeðslegt drullusvað, og mikið andskoti fékk maður mikið kúkabragð í munninn við að fylgjast með aðförinni að Þórólfi, þar var góður maður á ferð.
Steinn E. Sigurðarson, 5.5.2006 kl. 10:22
Já, ég kunni nú vel við Þórólf. Menn hafa setið sem fastast í embættum þrátt fyrir meiri sakir en á hann voru bornar. Án þess að ég sé endilega að réttlæta hans þátt í olíusvindlinu -bara ekki réttur haus sem fékk að fjúka.
Anna Pála Sverrisdóttir, 6.5.2006 kl. 03:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.