Færsluflokkur: Spil og leikir

Jæja

Mmmmmh

Einhver gæti haldið því fram þetta blogg sé búið að breytast í aumingjablogg vegna fátíðindanna sl. hálfan mánuð. Svo er ekki.

Dómnefndin þurfti einfaldlega að taka sér mjög góðan tíma til að íhuga það vandasama úrlausnarefni sem upp kom varðandi úrslit málsháttaslagorðakeppninnar.

Niðurstaðan er þessi: Þetta land fer til andskotans ef úrslitin standa. A.m.k aðeins nær. Því hefur verið útnefndur nýr sigurvegari í keppninni.  

Til hamingju Hrund með sigur í keppninni fyrir tillöguna

Æ sér þjór til þynnku.

Jafnframt verður þetta titill bloggsins næstu a.m.k. næstu vikuna samkvæmt reglum keppninnar. Tek fram að sú staðreynd að dagurinn sem leið var þynnkudagur, hefur ekki áhrif þar sem að á sínum tíma var þetta helsti keppinautur þess sem hefur borið titilinn að undanförnu (en var sviptur honum vegna dópneyslu.) 

Úr umsögn dómnefndar: "... Eitthvað sem við öll vitum en mörg okkar horfast sjaldan í augu við... Góð áminning um að stundargaman er kannski innistæðulítið þegar það eyðileggur jafnmikið og það gefur okkur... Þó mætti líta á þetta sem æðrulausa nálgun á það sem einfaldlega tilheyrir því að vera ungur í hjarta, vitlaus og lifa lífinu."

Skál fyrir Hrund. 

 

P.s. Bjarnið biður mig um að koma á framfæri við lesendur að kallinn minn sé bestur.


SKANDALL (langþráð úrslit í málsháttakeppninni)

Ef ég væri stjórnmálaflokkur væri mér á engan hátt treystandi fyrir völdum. Ég myndi svíkja öll kosningaloforð. Hér má skjóta inn að ég var einmitt í gærkvöldi að ræða um að stofna einhvern tímann sérframboðið "Sameinaðir vinstrimenn."

En allavega. Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir er löngu komið að skuldadögum: Ég lofaði að birta úrslit í málshátta-slagorðakeppninni fyrir meira en viku síðan. Hér birtast úrslitin. Fyrst verðlaun í aukaflokkum, sbr. 4.gr. keppnisreglna. Vinningstillögur eru merktar með rauðum lit en læt aðra góða fylgja með í flestum flokkum.

 

Bitri gaurinn:

-Betra er vín en ástaratlot þín (Henrý Þór)

 

Úr umsögn dómefndar: "... Ber vott um vott af sjálfseyðingarhvöt...  En hver hefur svosem ekki verið fullur, bitur og melankólískur." 

 

 

Stúdentalífið:

-Betra er að fara í leiðinlegt hóf en leiðinlegt próf (Dagga)

-Betra er grænt eyra á kodda en prófatíð í Odda (Eva Bjarna)

-Betri er brestur í skógi en athyglisbrestur (Fannita Dorada)

Úr umsögn dómnefndar: "... Sérstök, ungæðisleg og kaldhæðin sýn á próftíð sem felur í sér jákvæð skilaboð ef vel er að gáð... Höfðar til breiðs hóps notenda íslenska tungumálsins sem flestir hafa tekið próf á ævinni. "

 

Lögfræði:

-Betra er að jafna lög en lögjafna (Valdi)

-Betri er firring en fyrning (Laufey)

Úr umsögn dómefndar: "... Fer beint að kjarna þess sem lögfræði skyldi snúast um og löggjafinn ávallt hafa í huga... Hugsar í lausnum, ekki vandamálum..."

 

Bjarnaflokkur

-Betra er jó en skó (?) (Bjarni Már)

Úr umsögn dómefndar: "."

 

Kynlíf:

-Skárri er lús í höfði en í klofi (Eyrún)

-Hlustaðu ef Nei segir mey (Rabbarinn)


Úr umsögn dómnefndar: "Ljóðræn og hreinskilnisleg nálgun á eitthvað sem við öll glímum við í hversdagsleikanum." 

 

Sérstök aukaverðlaun dómnefndar: Egóbústið

-Góð er Anna Pála er kemur til háttarmála. (Villi Ásgeirsson)

Úr umsögn dómefndar: "... Því má komast að þeirri niðurstöðu að Villi sé vissulega allt sem þarf." 

 

Og hér höfum við annan aðalflokkinn í keppninni:

Kosningaslagorð:

-Þekking er blekking - álver allstaðar (Jóhann Friðriksson)

-Sjaldan verður maður staur-blindur nema fullur sé  (X-D Árborg) (Sigurður Gröndal)

-Betri eru ellismellir en Skerjavellir. –XF (Stígur) (Einnig: Aukaverðlaun í flokki kosningamálshátta)

-Þjóðarsátt um lækningu við fötlun! (Henrý Þór)

-Við vinstra brjóst fjallkonunnar, slær hjartað! (Arnór Snæbjörnsson)

 

Úr umsögn dómnefndar: "... #%$!"

Og hér fer að koma að því. Hinn aðalflokkurinn var einfaldlega málshættir.

Klassíkerar framtíðarinnar:

-Hóf er best í hófi (Villi Reyr)

-Betri er koss að morgni en ást úti á horni (Villi Ásgeirsson)

-Betri er Skafís á diski, en hafís á veðurkorti. (Grétar –Einnig viðurkenning í aukaflokknum “Sértækasti málshátturinn”)

-Betri er kúkur í klósti, en í pósti (Sindri)

-Sjaldan er ein bólan stök (Vigga)

-Betra er að vera fullur af kampavíni en fullur af einhverju öðru (Ást og hamingja)

-Æ sér þjór til þynnku (Hrund) (Aukaverðlaun í flokknum)

-Betri er góður blundur en leiðinlegur fundur (Eiður Ragnarsson)

Úr umsögn dómnefndar: "Brillíant útúrsnúningur á einhverju sem við heyrum alltof oft... Heimspekilegt sjónarhorn á boð og bönn sem við setjum okkur... Býður upp á skemmtilega túlkunarmöguleika vegna mismunandi merkingar orðsins hóf... Uppreisn gegn höftum ofsiðaðs samfélags... Vinnur á í einfaldleika sínum... Bravó."

 

SIGURVEGARI KEPPNINNAR: 

Vilhjálmur Reyr Þórhallsson, fyrir málsháttinn

Hóf er best í hófi.

Dómnefndin hafði raunar nokkrar áhyggjur af því að hann væri ekki frumsaminn en hann finnst hins vegar ekki við gúglun eins og margar aðrar góðar tilraunir í keppninni. Til hamingju með þetta! Megum við tileinka okkur þennan málshátt og lifa eftir honum. Eins og heitið var, verður titli bloggsins breytt a.m.k. næstu vikuna og hugsanlega lengur vegna óhóflegs dráttar í störfum dómnefndar.


Takið þátt í keppninni, skækjur! - "Sjaldan er ein bólan stök" - "Þekking er blekking - álver alls staðar"

Nú þegar má telja innlegg í málshátta- og slagorðakeppnina miklu, í hundruðum og keppendur í tugum. 

Ritstjórnin hefur nokkrar áhyggjur af hlut kvenna í keppninni en hyggst þó ekki setja kynjakvóta á þátttöku, heldur treystir því að kvenkynið sé enn að hugsa málið og komi með ódauðlegar tillögur áður en skilafrestur rennur út, kl átjánhundruð annað kvöld.

Dómnefnd keppninnar hefur svo af því nokkrar áhyggjur að vegna bágborins andlegs og líkamlegs ástands / anna við að fagna próflokum á morgun, geti það tafist eitthvað að tilkynna úrslitin og gerir hér um það fyrirvara. Enda mikið verk fyrir höndum.

Annars hafa fæstir keppendanna nýtt sér færi á að endurtitla þetta blogg, sbr. 6.gr. keppnisreglna, vek athygli á henni.

Tillögur skilast eftir sem áður í kommentakerfið við síðustu færslu og er stefnan sett á metfjölda kommenta á þessum bloggvef. Lifið heil


Málshátta- og slagorðakeppnin mikla! - "Betri er kúkur í klósti, en í pósti" - "Öldruðum og aumingjum allt, nema peninga"

Lestu þetta og taktu svo þátt! Í ljósi efnilegrar útkomu síðustu færslu hefur ritstjórnin ákveðið að standa hér fyrir málshátta- og kosningaslagorðakeppni. Hún er bæði ætluð sýruhausum og öðrum, s.s. öllum opin. Ég bíð spennt eftir að sjá bæði klassískan húmor og vísun í samtímann.

Reglurnar eru svona:

1. Keppt er í tveimur flokkum, málshættir og kosningaslagorð. 

2. Málshátturinn/Slagorðið skal vera frumsamið og ekki hafa heyrst áður.

3. Að öðru leyti hafa þátttakendur listrænt frelsi.

4. Hugsanlega verða aukaviðurkenningar veittar í einhverjum flokkum.

5. Tillögum skal skilað í kommentakerfið og er skilafrestur til kl. 18:00 þann 15. maí, en hálftíma síðar verða úrslitin gerð kunn.

6. Sá aðili, sem bestu tillöguna á, og eru þá báðir flokkar undir, fær að velja nýjan titil á þetta blogg í heila viku. Kemur í stað "Önnupálublogg."  Vinsamlega tilgreinið hver titillinn á að vera um leið og tillögum er skilað, nema þið viljið að málshátturinn/slagorðið sjálft verði notað. Dæmi: "Femínistar sökka." "Ég er með hár á tánum." "Ég er trukkalessa." "Ég hef gubbað niður af svölunum á Hverfisbarnum." "Lifi Thatcherisminn!"

7. Þeir sem kommentuðu í færslunni á undan þessari eru sjálfkrafa með í keppninni.

Þar að auki fær Nói-Síríus hugsanlega póst uppá næsta páskaeggjaár. Hver myndi ekki vilja fá kúkamálshátt í sínu eggi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband